Landbúnaðarráðuneyti

448/2005

Reglugerð um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og afurðum þeirra í viðskiptum innan EES-svæðisins. - Brottfallin

1. gr.

Dýraheilbrigðiseftirlit með ferskvatnseldisdýrum og afurðum þeirra við landamærastöðvar skal fara fram samkvæmt þessari reglugerð. Reglugerðin hefur hvorki áhrif á velferð dýra á meðan á flutningi stendur né eftirlit sem fer fram í tengslum við óhlutdræga skoðun á vegum yfirdýralæknis.


2. gr.

Í reglugerðinni er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

1. "dýraheilbrigðiseftirlit": eftirlit með ástandi og/eða formsatriðum á sviði stjórnsýslu sem tekur til ferskvatnseldisdýra eða afurðanna sem um getur í 1. gr. og er ætlað að vernda, beint eða óbeint, heilbrigði manna eða dýra;
2. "viðskipti": viðskipti milli EES-ríkja með vörur;
3. "eldisstöð": eldisstöð eða athafnasvæði dreifiaðila, eins og skilgreint er samkvæmt gildandi innlendum reglum;
4. "miðstöð eða fyrirtæki": fyrirtæki sem framleiðir, tekur til geymslu eða vinnslu afurðirnar sem um getur í 1. gr.;
5. "lögbært yfirvald": viðeigandi yfirvald á EES-svæðinu, hér á landi yfirdýralæknir;
6. "opinber dýralæknir": dýralæknir sem er tilnefndur af yfirdýralækni;
7. "ferskvatnseldisdýr": sbr. skilgreiningu í reglugerð nr. 446/2005 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu eldisdýra og afurða þeirra.


I. KAFLI
Eftirlit á upprunastað.
3. gr.

1. Tryggja skal að einungis séu höfð viðskipti með ferskvatnseldisdýr og afurðir þeirra sem um getur í 1. gr. og uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a) ferskvatnseldisdýrin og afurðir þeirra sem um getur í viðauka A, verða að fullnægja kröfum sem þar eru taldar upp og dýraheilbrigðiskröfum EES-viðtökuríkisins;
b) þau skulu vera frá eldisstöðvum, miðstöðvum eða fyrirtækjum sem opinbert reglulegt dýraheilbrigðiseftirlit nær til í samræmi við 3. mgr.;
c) þau skulu annars vegar vera auðkennd samkvæmt EES-svæðinu og hins vegar vera skráð þannig að unnt sé að rekja uppruna- eða umflutningseldisstöðina, miðstöðina eða fyrirtækið;
d) við flutning skal þeim fylgja heilbrigðisvottorð og/eða önnur skjöl eins og kveðið er á um í viðauka A þegar um er að ræða önnur dýr og afurðir sem falla undir 1. gr., skal við flutning fylgja settum reglum EES-viðtökuríkisins. Þessi vottorð eða skjöl, gefin út af opinberum dýralækni sem ber ábyrgð á upprunaeldisstöðinni, -miðstöðinni eða -fyrirtækinu skulu fylgja dýrinu, dýrunum og afurðunum á viðtökustað;
e) þegar margir viðtökustaðir koma við sögu í flutningunum verður að flokka eldisdýr og afurðir saman í eins margar vörusendingar og viðtökustaðirnir eru. Hverri sendingu skal fylgja vottorð og/eða skjöl sem um getur í d-lið;
f) þegar dýrin eða afurðirnar sem falla undir viðauka A fullnægja innlendri löggjöf, eru ætluð til útflutnings til þriðja ríkis um yfirráðasvæði annars ríkis á EES-svæðinu skal flutningurinn – nema í bráðatilvikum sem tilskilin leyfi hafa fengist fyrir hjá lögbæru yfirvaldi til að tryggja velferð dýranna – vera undir eftirliti tollayfirvalda að þeim stað þar sem tollsvæði viðkomandi ríkis á EES-svæðinu endar.

2. Óheimilt er:

að flytja út til annars EES-ríkis ferskvatnseldisdýrin og afurðirnar sem um getur í 1. gr., og kynni að þurfa að slátra samkvæmt innlendri áætlun um útrýmingu sjúkdóma.
að flytja til annars EES-ríkis ferskvatnseldisdýrin og afurðirnar sem um getur í viðauka A, til yfirráðasvæðis annars EES-ríkis ef það getur ekki markaðssett þau á eigin yfirráðasvæði af heilbrigðisástæðum.

3. Með fyrirvara um eftirlitsskyldur opinbers dýralæknis samkvæmt innlendum reglum skal yfirdýralæknir hafa eftirlit með eldisstöðvum, viðurkenndum mörkuðum og söfnunarstöðum, miðstöðvum eða fyrirtækjum til að tryggja að eldisdýr og afurðir sem eiga á viðskipti með, fullnægi kröfum EES-svæðisins og uppfylli sérstaklega skilyrðin sem eru sett í c- eða d-lið 1. mgr. vegna auðkenningar. Þegar grunur leikur á að kröfum EES-svæðisins hafi ekki verið fullnægt skal yfirdýralæknir viðhafa nauðsynlegt eftirlit og sé grunurinn staðfestur, grípa til nauðsynlegra ráðstafana sem geta falið í sér einangrun viðkomandi eldisstöðvar, miðstöðvar eða fyrirtækis.


4. gr.

1. Yfirdýralæknir skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:

a) eigendur ferskvatnseldisdýra og afurða þeirra sem um getur í 1. gr., fullnægi innlendum kröfum eða kröfum EES-svæðisins sem fjallað er um í þessari reglugerð og varða dýraheilbrigði og dýrarækt á öllum stigum framleiðslu og markaðssetningar;
b) eldisdýrin og afurðirnar sem um getur í viðauka A, séu skoðuð að minnsta kosti eins nákvæmlega, frá dýraheilbrigðissjónarmiði, og væru þau ætluð fyrir innlendan markað, nema sérstaklega sé kveðið á um annað í innlendum reglum;
c) eldisdýr séu flutt með viðeigandi flutningatækjum sem uppfylla reglur um hreinlæti.

2. Lögbært yfirvald skal við útgáfu vottorða eða skjala sem fylgir eldisdýrunum og afurðunum samdægurs tilkynna lögbærum yfirvöldum í EES-viðtökuríkinu í gegnum viðurkennda upplýsingaskiptakerfið, þær upplýsingar sem ESA ákveður.


II. KAFLI
Eftirlit á viðtökustað.
5. gr.
1. a) Yfirdýralæknir getur, á viðtökustað eldisdýranna og afurðanna, kannað með óhlutdrægum skyndikönnunum á dýraheilbrigði, hvort kröfum 3. gr. hefur verið fullnægt; hann getur einnig tekið sýni í þessu sambandi. Jafnframt getur yfirdýralæknir, hafi hann rökstuddan grun um brot, látið fara fram eftirlit við flutning dýranna og afurðanna;
b) þegar afurðirnar skv. 1. gr. sem eru upprunnar í öðru EES-ríki eru ætlaðar:
i) viðurkenndum markaði eða söfnunarstað eins og skilgreint er, ber rekstraraðilinn ábyrgð á móttöku eldisdýra sem uppfylla ekki kröfur 1. mgr. 3. gr. Yfirdýralæknir skal ganga úr skugga um, með óhlutdrægri skoðun á vottorðum eða skjölum sem fylgja eldisdýrunum, að dýrin uppfylli umræddar kröfur;
ii) sláturhúsi sem er undir eftirliti Fiskistofu í samráði við yfirdýralækni sbr. reglugerð nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar, verður hann að tryggja, einkum á grundvelli vottorðsins eða fylgiskjalsins, að einungis eldisdýrum sem uppfylla kröfur 1. mgr. 3. gr. sé slátrað. Rekstraraðili sláturhússins ber ábyrgð á slátrun dýra sem uppfylla ekki kröfur c- og d-liðar 1. mgr. 3. gr.;
iii) skráðum dreifingaraðila sem skiptir upp sendingum eða starfsstöð sem er ekki undir stöðugu eftirliti, skal yfirdýralæknir líta á slíkan dreifiaðila eða starfsstöð sem viðtakanda dýranna og gilda þá skilyrðin sem eru sett í ii) undirgrein;
iv) eldisstöðvum, miðstöðvum eða fyrirtækjum, einnig í þeim tilvikum þegar sendingin er að hluta afhent meðan á flutningi stendur, skal hverju eldisdýri eða hópi eldisdýra fylgja skv. 3. gr. frumrit af heilbrigðisvottorði eða fylgiskjali þar til það er komið í hendur þess viðtakanda sem þar er tilgreindur.
Viðtakendurnir sem um getur í iii- og iv-lið fyrstu undirgreinar verða, áður en til uppskiptingar eða sölu kemur, að ganga úr skugga um að auðkennin, vottorðin eða skjölin sem um getur í c- og d-lið 1. mgr. 3. gr. séu til staðar og tilkynna yfirdýralækni um sérhverja vanrækslu eða frávik og verði þess vart skal einangra viðkomandi eldisdýr þar til yfirdýralæknir hefur tekið ákvörðun um hvað skuli gera.
Ábyrgðirnar sem viðtakendur sem um getur í iii- og iv-lið verða að gefa skulu tilgreindar í samningi við yfirdýralækni og undirritaðar þegar fyrirframskráningin sem kveðið er á um í 12. gr. fer fram. Yfirdýralæknir skal gera slembiathuganir til að ganga úr skugga um að ábyrgðirnar haldi. Þessi liður gildir að breyttu breytanda um viðtakendur afurðanna sem um getur í 1. gr.

2. Allir viðtakendur sem eru tilgreindir á vottorðinu eða skjalinu sem kveðið er á um í d-lið 1. mgr. 3. gr.:

a) skulu, krefjist yfirdýralæknir þess og að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsins sem um getur í 1. mgr., tilkynna fyrirfram um komu eldisdýra og afurða frá öðru EES-ríki og tilgreina þá sérstaklega um eðli sendingarinnar og áætlaðan komudag. Tilkynningafrestur skal að öðru jöfnu ekki vera lengri en einn dagur; engu að síður geta EES-ríki í undantekningartilvikum krafist tveggja daga tilkynningafrests;
b) skulu geyma í þann tíma sem yfirdýralæknir tilgreinir, í að minnsta kosti sex mánuði, heilbrigðisvottorðin eða skýrslurnar sem um getur í 3. gr. svo að unnt sé að framvísa þeim til yfirdýralæknis fari hann fram á slíkt. Yfirdýralæknir getur krafist þess að gögnin séu geymd lengur.6. gr.

1. Þegar ferskvatnseldisdýr eða afurðir þeirra eiga samkvæmt innlendum ákvæðum að fara í sóttkví skal það að öllu jöfnu vera í viðtökueldisstöðinni.

2. Nota má sóttvarnarstöð ef dýraheilbrigðissjónarmið styðja það. Líta ber á slíka stöð sem viðtökustað sendingarinnar. Tilkynna skal ESA um ástæður slíkrar aðgerðar.


7. gr.

1. Yfirdýralæknir skal sjá til þess við eftirlit sem fer fram á landamærastöðvum þar sem heimilt er að flytja eldisdýr og afurðir, sem um getur í viðauka A, frá þriðju ríkjum inn á yfirráðasvæðin, sem eru skilgreind svo sem höfnum, flugvöllum og landamærastöðvar sem liggja að þriðju ríkjum:

a) að fram fari sannprófun vottorða eða skjala sem fylgja eldisdýrum og afurðum;
b) að eldisdýr og afurðir frá EES-svæðinu heyri undir eftirlitsreglurnar sem mælt er fyrir um í 5. gr.;
c) að afurðir frá þriðju ríkjum heyri undir þessa reglugerð og reglugerð nr. 449/2005 um eftirlit með eldisdýrum og afurðum þeirra sem flutt eru til EES-svæðisins frá þriðju ríkjum;
d) að eldisdýr frá þriðju ríkjum heyri undir reglurnar sem settar eru í reglugerð nr. 449/2005 um eftirlit með eldisdýrum og afurðum þeirra sem flutt eru til EES-svæðisins frá þriðju ríkjum.

2. Þrátt fyrir 1. mgr. skulu þó öll eldisdýr og afurðir, sem eru flutt með flutningatæki sem tengir saman tvo landfræðilega aðgreinda staði innan EES-svæðisins með reglulegum og beinum hætti, heyra undir eftirlitsreglurnar sem mælt er fyrir um í 5. gr.


8. gr.

1. Komist yfirdýralæknir, við eftirlit sem fram fer á viðtökustað sendingar, eða meðan á flutningi stendur, að því:

a) að til staðar séu sjúkdómsvaldar sem orsaka sjúkdóm sem er tilkynningarskyldur, dýrasjúkdómur sem getur einnig lagst á menn eða annar sjúkdómur, eða eitthvert það ástand sem getur stofnað dýrum eða mönnum í hættu, eða afurðirnar komi frá svæði sem er smitað af dýrasjúkdómi, skulu þau gefa fyrirmæli um að dýrunum eða dýrasendingu sé komið í sóttkví á næstu sóttvarnarstöð eða þeim sé slátrað og/eða fargað.
Yfirdýralæknir skal þegar í stað tilkynna lögbærum yfirvöldum hinna EES-ríkjanna og ESA skriflega, með þeim hætti sem á best við, um þær upplýsingar sem liggja fyrir, ákvarðanir sem hafa verið teknar og rökstuðning fyrir þeim.
Beita má verndarráðstöfunum sem kveðið er á um í 9. gr.;
b) að, með fyrirvara um a-lið, eldisdýrin og afurðirnar fullnægi ekki skilyrðunum í innlendum reglum um dýraheilbrigði, geta þau, að því tilskildu að það stangist ekki á við heilbrigðis- eða dýraheilbrigðissjónarmið, leyft sendanda eða fulltrúa hans að velja á milli þess:
þegar efna- eða lyfjaleifar eru til staðar, að eldisdýrunum og afurðunum sé haldið undir eftirliti þar til staðfest hefur verið að reglunum sé fylgt og, ef reglunum er ekki fylgt, að ráðstöfunum sem kveðið er á um í innlendum reglum sé beitt,
að eldisdýrunum sé slátrað eða afurðunum fargað í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar,
að eldisdýrin eða sendingin sé send til baka með leyfi lögbærs yfirvalds EES-sendingarríkisins og tilkynningu fyrirfram frá EES-umflutningsríkinu eða –ríkjunum.
Komi hins vegar í ljós að vottorð eða skýrslur eru ekki samkvæmt settum reglum verður sendandi eða umboðsmaður hans að fá umþóttunartíma til að koma skjölunum í lag áður en gripið er til síðarnefnda úrræðisins.

2. ESA skal taka saman skrá yfir þá sjúkdómsvalda og sjúkdóma sem um getur í 1. mgr.


9. gr.

1. Í því tilviki sem kveðið er á um í 8. gr. skal lögbært yfirvald EES-viðtökuríkisins hafa samband við lögbær yfirvöld EES-sendingarríkisins án tafar. Síðarnefndu yfirvöldin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir og tilkynna lögbæru yfirvaldi fyrstnefnda EES-ríkisins um eðli eftirlitsins sem fram hefur farið, ákvarðanir sem hafa verið teknar og rökstuðning fyrir þeim. Óttist lögbært yfirvald EES-viðtökuríkis að ráðstafanirnar séu ófullnægjandi, skulu lögbær yfirvöld beggja EES-ríkjanna leita sameiginlegra leiða og aðferða til að bæta stöðuna; ef svo ber undir getur það falið í sér skoðun á staðnum. Komi endurtekin vanræksla fram við eftirlit sem kveðið er á um í 8. gr. skal yfirdýralæknir tilkynna það ESA og dýraheilbrigðisyfirvöldum hinna EES-ríkjanna.
ESA getur, að beiðni yfirdýralæknis eða að eigin frumkvæði, og að teknu tilliti til þess hvers eðlis brotið er:

sent skoðunarmenn, í samráði við lögbær innlend yfirvöld, til viðkomandi staðar,
falið opinberum dýralækni, en nafn hans skal vera á skrá sem ESA tekur saman að tillögu EES-ríkjanna og samkomulag er um meðal hlutaðeigandi aðila, að kanna aðstæður á staðnum,
farið fram á það við lögbæra yfirvaldið að það auki eftirlit með umræddri eldisstöð, miðstöð, fyrirtæki, viðurkenndum markaði, söfnunarstað eða upprunasvæði. ESA skal tilkynna EES-ríkjunum um niðurstöður sínar. Uns ESA hefur komist að niðurstöðu verður EES-sendingarríkið, að beiðni EES-viðtökuríkisins, að bæta eftirlit með eldisdýrum og afurðum frá umræddri eldisstöð, miðstöð, fyrirtæki, viðurkenndum markaði, söfnunarstað eða upprunasvæði og fresta útgáfu vottorða eða flutningsskírteina ef til þess liggja alvarlegar ástæður er varða heilbrigði manna eða dýra. EES-viðtökuríkið getur fyrir sitt leyti aukið tíðni eftirlits með eldisdýrum sem koma frá sömu eldisstöð, miðstöð, fyrirtæki, viðurkenndum markaði, söfnunarstað eða svæði.

Að beiðni annars hlutaðeigandi EES-ríkis ber ESA þegar vanræksla hefur verið staðfest með sérfræðingsáliti að gera viðeigandi ráðstafanir sem geta gengið svo langt að heimila EES-ríkjunum að banna um stundarsakir innflutning afurða sem koma frá þeirri starfsstöð, miðstöð, fyrirtæki, viðurkenndum markaði, söfnunarstað eða upprunasvæði á yfirráðasvæði þeirra. Ráðstafanirnar verður að endurskoða eða staðfesta eins skjótt og hægt er.


III. KAFLI
Sameiginleg ákvæði.
10. gr.

1. Yfirdýralæknir skal þegar í stað tilkynna hinum EES-ríkjunum og ESA, komi upp á yfirráðasvæði þess aðrir sjúkdómar en þeir sem eru tilkynningarskyldir, um dýrasjúkdóma sem geta einnig lagst á menn eða aðra sjúkdóma, eða eitthvert það ástand sem getur stofnað heilbrigði dýra eða manna í hættu.
Lögbært yfirvald EES-sendingarríkis skal þegar í stað koma í framkvæmd eftirlits- eða varúðarráðstöfunum sem kveðið er á um í innlendum reglum, einkum að því er tekur til þess að ákvarða sérstök eftirlitssvæði sem kveðið er á um í þessum reglum eða gera einhverja aðra ráðstöfun sem það álítur viðeigandi.
Uppgötvi lögbært yfirvald EES-viðtöku- eða umflutningsríkis, við eftirlitið sem um getur í 5. gr. að einhver sjúkdómanna eða orsakanna sem um getur í fyrstu undirgrein séu til staðar getur það, ef nauðsyn krefur, gert varúðarráðstafanirnar sem kveðið er á um þar með talið að setja eldisdýrin í sóttkví.
Uns ráðstafanir hafa verið gerðar skv. 4. mgr. getur yfirdýralæknir, liggi til þess mikilvægar ástæður er varða heilbrigði manna eða dýra, gripið til tímabundinna verndarráðstafana gagnvart umræddum eldisstöðvum, miðstöðvum eða fyrirtækjum eða, þegar um dýrasjúkdóm er að ræða, komið á verndarsvæði sbr. reglugerð nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum. Tilkynna skal ESA og hinum EES-ríkjunum án tafar um ráðstafanir sem gerðar eru.

2. Einn eða fleiri fulltrúar ESA geta, að beiðni yfirdýralæknis sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr., eða að frumkvæði ESA, farið rakleiðis á umræddan stað til að rannsaka, í samvinnu við yfirdýralækni, hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar og skal leggja fram álit á ráðstöfununum.

3. Hafi ESA ekki verið tilkynnt um ráðstafanirnar, eða telji hún ráðstafanirnar ófullnægjandi, getur hún, í samvinnu við yfirdýralækni, gripið til tímabundinna verndarráðstafana vegna eldisdýra eða afurða sem koma frá svæði sem er sýkt af dýrasjúkdóminum eða frá ákveðinni starfsstöð, framleiðslumiðstöð eða fyrirtæki.


11. gr.

Yfirdýralæknir fer með framkvæmd ákvæða þessarar reglugerðar.


12. gr.

Yfirdýralæknir skal tryggja að allir dreifingaraðilar sem taka þátt í viðskiptum innan EES-svæðisins með eldisdýrin og/eða afurðirnar sem falla undir 1. gr.:

a) hafi tilskilin leyfi;
b) haldi skrá yfir afgreiðslu og vegna viðtakenda sem um getur í iii-lið í b-lið 1. mgr. 5. gr., síðari viðtökustaði eldisdýranna eða afurðanna. Geyma skal skrána í þann tíma sem yfirdýralæknir ákveður svo að unnt sé að framvísa henni óski yfirdýralæknir eftir því.


13. gr.

Yfirdýralæknir skal tryggja að embættismenn og starfsmenn sem starfa á vegum hans, ef svo ber undir í samvinnu við embættismenn og starfsmenn annarra slíkra stofnana, séu einkum færir um að:

skoða eldisstöðvar, mannvirki, flutningatæki og aðferðir við mörkun og auðkenningu dýra,
hafa eftirlit, að því er varðar afurðir sem eru taldar upp í reglugerð nr. 446/2005 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu eldisdýra og afurða þeirra, með því hvort starfslið fullnægi kröfunum sem mælt er fyrir um í viðauka A,
taka sýni úr;
i) eldisdýrum sem á að selja, setja á markað eða flytja;
ii) afurðum sem á að taka til geymslu, selja, setja á markað eða flytja,
rannsaka skýrslu- eða tölvugögn sem varða eftirlit á grundvelli ráðstafananna sem eru gerðar samkvæmt þessari tilskipun.

Forsvarsmenn eldisstöðva, miðstöðva eða fyrirtækja sem eru undir eftirliti skulu sýna nauðsynlegan samstarfsvilja svo að unnt sé að inna af hendi þessi störf.


14. gr.
Kostnaður.

Sendandi eða fulltrúi hans eða sá aðili sem ber ábyrgð á afurðum eða dýrum, skal standa undir kostnaði er hlýst af því að endursenda sendinguna, geyma eða einangra dýrin eða ef við á slátra eða farga þeim svo og þeim ráðstöfunum sem getið er í 1. mgr. 8. gr.


15. gr.
Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.


IV. KAFLI
Loka- og bráðabirgðaákvæði.
16. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra, lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði og til innleiðingar á tilskipunum ráðsins nr. 90/425/EBE, 90/539/EBE, 90/667/EBE, 90/675/EBE, 91/68/EBE, 91/174/EBE, 91/496/EBE, 91/628/EBE, 92/60/EBE, 92/65/EBE, 92/118/EBE og tilskipun þingsins og ráðsins nr. 2002/33/EB. Reglugerðin tekur gildi þegar í stað. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 525/2003 um dýraheilbrigðiseftirlit með innflutningi eldisdýra.


Landbúnaðarráðuneytinu, 28. apríl 2005.

Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.VIÐAUKI A

I. KAFLI
Dýraheilbrigðislöggjöf.

1. hluti
Reglugerð EB nr. 1774/2002 frá Evrópuþinginu og ráðinu frá 3. október sem mælir fyrir um heilbrigðisreglur vegna dýraafurða sem ekki eru ætlaðar til manneldis. (OJ Nr. L 224, 18. 8. 1990, bls. 62).
Tilskipun ráðsins 91/67/EBE frá 28. janúar 1991 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu fiskeldistegunda og -afurða (Stjtíð. EB nr. L 46, 19. 2. 1991, bls. 1).
Tilskipun ráðsins 91/628/EBE frá 19. nóvember 1991 um verndun dýra í flutningi og um breytingu á tilskipunum 90/425/EBE og 91/496/EBE (Stjtíð. EB nr. L 340, 11. 12. 1991, bls. 17).

2. hluti

Tilskipun ráðsins 92/65/EBE frá 13. júlí 1992 um dýraheilbrigðiskröfur sem hafa áhrif á viðskipti innan og innflutning til EES-svæðisins á dýrum, sæði, eggfrumum og fósturvísum sem dýraheilbrigðiskröfur sem mælt er fyrir um í sérreglum EES-svæðisins sem um getur í 1. lið I. hluta viðauka A við tilskipun 90/425/EBE gilda ekki um (Stjtíð. EB nr. L 268, 14. 9. 1992, bls. 54).

Fyrir lifandi smitefni: Tilskipun ráðsins 92/118/EBE varðandi kröfur um heilbrigði dýra og manna sem hafa áhrif á viðskipti innan og innflutning til bandalagsins á vörum sem umræddar kröfur í sérreglum bandalagsins sem um getur í I. hluta viðauka A við tilskipun 89/662/EBE, og í tilskipun 90/425/EBE hvað varðar lifandi smitefni, gilda ekki um.

II. KAFLI
Dýraræktarlöggjöf.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica