Landbúnaðarráðuneyti

525/2003

Reglugerð um dýraheilbrigðiseftirlit með innflutningi eldisdýra. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um dýraheilbrigðiseftirlit við innflutning eldisdýra, þ.m.t. hrogna og svilja innan Evrópska efnahagssvæðisins og við innflutning eldisdýra frá þriðju ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þegar fjallað er um eldisdýr í reglugerð þessari er einnig átt við hrogn og svil nema annað sé tekið fram.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:
Animo-netkerfið: samræmt tölvukerfi til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu. Animo-netkerfið tengir saman dýraheilbrigðisyfirvöld, einkum með það í huga að auðvelda upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda svæða þar sem heilbrigðisvottorð eða skjal sem fylgir dýrum og dýraafurðum hefur verið gefið út og lögbærra yfirvalda viðtökuaðildarríkisins, sbr. 20. gr. tilskipunar 90/425/EBE.1)

Dýraheilbrigðiseftirlit: eftirlit með ástandi og/eða formsatriðum á sviði stjórnsýslu sem tekur til eldisdýra og er ætlað að vernda beint eða óbeint heilbrigði manna og dýra.

Eldisdýr: lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.

Eldisstöð: starfsstöð eða almennt landfræðilega skilgreint mannvirki þar sem eldisdýr eru ræktuð eða alin með markaðssetningu í huga.

Evrópska efnahagssvæðið: samanstendur af aðildarríkjum Evrópusambandsins ásamt Noregi og Íslandi og er nefnt EES í reglugerð þessari.

Heilbrigðiseftirlit: eftirlit með heilbrigðisástandi dýrsins, ef til vill með sýnatöku og prófi á rannsóknastofu.

Innflutningsskilyrði: heilbrigðiskröfur samkvæmt gildandi lögum og reglum sem eldisdýr verða að uppfylla til að þau megi flytja inn á EES.

Innflutningur: sú aðgerð eða sú ætlun að koma eldisdýrum í frjálst flæði á EES.

Innflytjandi: einstaklingur eða lögpersóna sem kemur með eldisdýr til innflutnings til EES.

Landamærastöð: eftirlitsstöð á landamærum Evrópska efnahagssvæðisins tilnefnd og samþykkt til að þar megi fara fram eftirlit með innflutningi eldisdýra frá þriðja ríki.

Lögbært yfirvald: stjórnvald eða aðildarríki sem ber ábyrgð á dýraheilbrigðiseftirliti.

Markaðssetning: geymsla eða sýning eldisdýra í þeim tilgangi að selja þau, bjóða til sölu, afhenda, framselja með einhverjum öðrum hætti eða selja á markað innan EES að smásölu undanskilinni.

Opinber eftirlitsaðili: embætti yfirdýralæknis eða fulltrúi þess hér á landi en erlendis önnur sambærileg stofnun sem tilnefnd er af lögbæru yfirvaldi aðildarríkis innan EES eða lands utan EES (þriðja ríkis) og ber ábyrgð á eftirliti sem kveðið er á um í þessari reglugerð.

Sannprófun skjala: sannprófun dýraheilbrigðisvottorða eða –skjala sem fylgja eldisdýrum.

Sannprófun auðkenna: sannprófun sem fer eingöngu fram með sjónrænni skoðun á því að samræmi sé á milli skjalanna eða vottorðanna og eldisdýranna og að eldisdýrin séu merkt með réttum hætti.

Sending: fjöldi eldisdýra af sömu tegund sem sama dýraheilbrigðisvottorð eða –skjal gildir um sem er flutt með sama flutningstæki og kemur frá sama þriðja landi eða sama hluta þriðja ríkis.

Þriðja ríki: ríki sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins.

1) Stjórnartíðindi EB nr. L 224, 18.8.90 bls. 38.


3. gr.
Yfirstjórn og eftirlit.

Yfirdýralæknir og fulltrúar hans annast eftirlit hér á landi samkvæmt reglugerð þessari og bera ábyrgð á því eftirliti sem þar fer fram.


II. KAFLI
Innflutningur frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
4. gr.
Eftirlit á upprunastað.

Við flutning frá upprunastað skal fylgja eldisdýrum flutningsskýrsla og heilbrigðisvottorð áritað af opinberum eftirlitsaðila sem ber ábyrgð á eftirliti á eldisstöð á upprunastað. Í heilbrigðisvottorði skal staðfest að eldisdýrin séu ekki upprunnin af svæði eða eldisstöð sem sjúkdómahætta fylgir. Ef flytja á eldisdýr til annarra aðildarríkja sem hlotið hafa viðbótarábyrgðir samkvæmt reglum innan EES skal koma fram í heilbrigðisvottorði að uppfyllt séu skilyrði fyrir innflutningi til lands sem hefur slíkar viðbótarábyrgðir. Eldisdýrin skulu auðkennd þannig að unnt sé að rekja uppruna þeirra í samræmi við reglur sem gilda innan EES.

Opinber eftirlitsaðili skal votta að eldisdýrin uppfylli kröfur gildandi laga og stjórnvaldsreglna á upprunastað. Óheimilt er að senda hingað til lands eldisdýr sem eru upprunnin af eldisstöð sem kann að þurfa að slátra dýrum samkvæmt innlendri áætlun um útrýmingu sjúkdóma samkvæmt reglum EES eða eldisdýr sem ekki er unnt að markaðssetja á upprunastað af ástæðum sem tengjast heilbrigði manna og dýra. Skoðun opinbers eftirlitsaðila á dýraheilbrigði eldisdýra á upprunastað skal vera með sama hætti og þau væru ætluð fyrir innlendan markað.

Ef eldisdýr eiga að fara á fleiri en einn viðtökustað skal flokka þau niður í jafnmargar sendingar og viðtökustaðirnir eru. Hverri sendingu skulu fylgja vottorð og skjöl samkvæmt 1. mgr.

Opinber eftirlitsaðili skal ganga úr skugga um að flutningstæki og búnaður þeirra uppfylli kröfur laga og stjórnvaldsreglna og að flutningur fari þannig fram að heilbrigði dýranna sé tryggt.

Áður en opinber eftirlitsaðili gefur út vottorð samkvæmt þessari grein skal hann hafa gengið úr skugga um að öll framangreind skilyrði séu uppfyllt.


5. gr.
Flutningur til þriðja ríkis um yfirráðasvæði
innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ef eldisdýr eru ætluð til útflutnings til þriðja ríkis um yfirráðasvæði annars aðildarríkis verður flutningurinn að vera undir eftirliti tollyfirvalda að þeim stað þar sem tollsvæði EES endar nema í bráðatilvikum sem tilskilin leyfi hafa fengist fyrir hjá lögbæru yfirvaldi til að tryggja velferð dýranna.


6. gr.
Tilkynningaskylda opinbers eftirlitsaðila á upprunastað.

Opinber eftirlitsaðili á upprunastað skal tilkynna lögbæru yfirvaldi í viðtökuríki um flutninginn í gegnum Animo-netkerfið sama dag og vottorð samkvæmt þessum kafla eru gefin út. Heimilt er að senda tilkynningu á tölvutæku formi.

Tilkynningin skal vera skrifleg og í henni skulu koma fram upplýsingar um númer og dagsetningu flutningsskýrslu/heilbrigðisvottorðs, nafn sendanda, nafn viðtakanda, áætlaðan komutíma, innflutningsstað, magn, tegund, lýsingu á vöru og ákvörðunarstað, nafn flutningstækis og eftir því sem við á skipaskrárnúmer eða flugnúmer. Heimilt er að senda tilkynningu á tölvutæku formi.


7. gr.
Rannsókna- og tilkynningaskylda viðtakanda.

Viðtakandi eldisdýra frá ríkjum innan EES skal ganga úr skugga um að samræmi sé á milli þeirra og meðfylgjandi flutningsskýrslu og annarra skjala áður en þau eru flutt á viðtökustað. Komi fram misræmi skal tilkynna það yfirdýralækni án tafar.

Varðveita skal flutningsskýrslur, heilbrigðisvottorð og önnur skjöl þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu yfirdýralæknis.


8. gr.
Dýraheilbrigðiseftirlit á viðtökustað.

Yfirdýralæknir eða fulltrúi hans getur á viðtökustað eldisdýra sem flutt eru inn frá EES kannað með óhlutdrægum skyndikönnunum og sýnatökum til rannsókna hvort kröfur íslenskra laga og reglugerða um dýraheilbrigði séu uppfylltar. Hafi yfirdýralæknir rökstuddan grun um brot getur hann ákveðið að flutningur eldisdýranna skuli fara fram undir eftirliti til viðtökueldisstöðvar.


9. gr.
Sjúkdómatilvik.

Ef yfirdýralæknir kemst að því við eftirlit á viðtökustað eða á meðan á flutningi stendur til viðtökueldisstöðvar að til staðar séu sjúkdómsvaldar eða annað ástand sem stofnað geti dýrum eða mönnum í hættu eða ef í ljós kemur að eldisdýrin koma frá svæði sem smitað er af dýrasjúkdómi skal yfirdýralæknir í samráði við fisksjúkdómanefnd gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru, sem geta falist í m.a. einangrun, slátrun til manneldis eða förgun eldisdýranna.

Ef yfirdýralæknir telur ástæðu til getur hann gengið úr skugga um með sýnatöku og öðrum rannsóknum hvort uppfyllt séu skilyrði fyrir sérstökum viðbótarábyrgðum sem veittar eru einstökum ríkjum vegna sjúkdómastöðu á grundvelli EES-samningsins.

Yfirdýralæknir skal þegar í stað tilkynna skriflega lögbærum yfirvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og Eftirlitsstofnun EFTA um sjúkdóma eða ástand samkvæmt 1. mgr., ákvarðanir sem teknar hafa verið vegna þeirra og rökstuðning fyrir þeim.


10. gr.
Skilyrði íslenskra laga og reglugerða ekki uppfyllt.

Ef yfirdýralæknir kemst að því að eldisdýr sem flutt hafa verið til landsins frá ríkjum innan EES uppfylla ekki skilyrði íslenskra laga og stjórnvaldsreglna sem settar hafa verið samkvæmt þeim getur yfirdýralæknir að því tilskildu að það stangist ekki á við heilbrigðissjónarmið gefið sendanda eða fulltrúa hans kost á að velja milli þess að eldisdýrunum verði haldið undir eftirliti þar til staðfest hefur verið að ákvæðum íslenskra laga og reglugerða sé fylgt eða að eldisdýrunum verði slátrað eða þau send til baka með leyfi lögbærs yfirvalds í sendingarríki.

Reynist heilbrigðisvottorð, flutningsskýrsla eða önnur vottorð sem fylgja eldisdýrunum ekki vera samkvæmt settum reglum skal veita sendanda hæfilegan frest til að koma skjölunum í lag áður en gripið verður til úrræða samkvæmt 1. mgr.

Yfirdýralæknir skal þegar í stað senda lögbærum yfirvöldum þess aðildarríkis sem sending kemur frá tilkynningu um ákvarðanir samkvæmt þessari grein.

Komi ítrekað í ljós að eldisdýr frá sömu eldisstöð fullnægja ekki skilyrðum samkvæmt 1. mgr. skal yfirdýralæknir tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA og viðkomandi yfirvöldum annarra EES-ríkja. Þar til Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnir yfirdýralækni um ráðstafanir gagnvart viðkomandi eldisstöð er yfirdýralækni heimilt að auka tíðni skoðana á eldisdýrum frá henni.


11. gr.
Tilkynningar yfirdýralæknis um ákvarðanir og rökstuðningur.

Yfirdýralæknir skal tilkynna sendanda eða fulltrúa hans skriflega um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt 9. gr. og 10. gr. og rökstuðning fyrir þeim.

Yfirdýralæknir skal að ósk sendanda eða fulltrúa hans veita honum nákvæmar upplýsingar um réttarúrræði sem hann hefur samkvæmt íslenskum lögum, um málsmeðferðarreglur og tímafresti.


12. gr.
Kostnaður.

Allur kostnaður sem leiðir af ráðstöfunum yfirdýrlæknis samkvæmt 9. og 10. gr. m.a. vegna endursendingar, einangrunar eða slátrunar skal greiddur af sendanda.


III. KAFLI
Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
13. gr.
Viðurkennd ríki.

Innflutningur lifandi eldisdýra frá ríkjum utan EES er því aðeins heimill að viðkomandi þriðja ríki sé á skrá Evrópusambandsins yfir viðurkennd ríki.


14. gr.
Tilkynningaskylda.

Innflytjandi lifandi eldisdýra frá þriðja ríki skal tilkynna yfirdýralækni með a.m.k. 24 klst. fyrirvara um komu sendingar til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í tilkynningu skulu koma fram upplýsingar um áætlaðan komutíma, innflutningsstað, magn, tegund, lýsingu á vöru og ákvörðunarstað, nafn flutningstækis og eftir því sem við á, skipaskrárnúmer eða flugnúmer. Einnig er heimilt að senda tilkynningu á tölvutæku formi en slík tilkynning skal innihalda sömu upplýsingar og krafist er samkvæmt 2. málslið.

Tilkynning samkvæmt 1. mgr. skal vera í fjórum eintökum, frumriti og þremur afritum og fá tollyfirvöld eitt afrit en hin þrjú skulu afhent yfirdýralækni eða fulltrúa hans.

Sé áformað að flytja eldisdýr á milli flutningstækja hér á landi á leið til annars ríkis innan EES eða þriðja ríkis utan EES skal það tilkynnt yfirdýralækni með sama hætti.

Öllum eldisdýrum eða sendingum skal fylgja frumrit heilbrigðisvottorðs og annarra skjala sem krafist er svo og upplýsingar um tryggingar sem settar hafa verið fyrir kostnaði sem fallið getur á sendinguna.


15. gr.
Landamærastöð.

Innflutningur lifandi eldisdýra hingað til lands skal fara um landamærastöðina á Keflavíkurflugvelli eða aðrar landmærastöðvar sem hlotið hafa viðurkenningu innan EES.

Landamærastöðvar skulu uppfylla þau skilyrði sem fram koma í viðauka A með reglugerð þessari.


16. gr.
Eftirlit við innflutning.

Lifandi eldisdýr skulu flutt beint á landamærastöðina á Keflavíkurflugvelli við innflutning og skal allt eftirlit samkvæmt reglugerð þessari fara fram í þeirri landamærastöð. Landamærastöðin hefur heimild til að ganga úr skugga um uppruna eldisdýranna, síðari viðtökustað þeirra og að upplýsingar á vottorðum og skjölum veiti þær ábyrgðir sem krafist er hér á landi. Eftirlit yfirdýralæknis skal fara fram þegar við komu eldisdýranna til landsins og ná til eftirfarandi þátta:

1) Sannprófun skjala, en í því felst að sannprófað er að flutningsskýrsla, heilbrigðisvottorð og önnur skjöl fylgi eldisdýrunum.
2) Sannprófun auðkenna, en í því felst sjónræn skoðun á því að samræmi sé á milli eldisdýranna og þeirra skjala er þeim fylgja.
3) Heilbrigðiseftirlit en í því felst eftirlit með eldisdýrunum sjálfum m.a. með sýnatöku og prófunum á rannsóknastofu. Eftirlitið skal einkum felast í:
a) klíniskri rannsókn á eldisdýrunum til að ganga úr skugga um að heilbrigðisástand þeirra samrýmist upplýsingunum sem kveðið er á um í meðfylgjandi heilbrigðisvottorði og að þau séu klíniskt heilbrigð og,
b) rannsóknastofuprófunum sem teljast nauðsynleg,
c) töku opinberra sýna, ef til kemur, sem á að rannsaka með tilliti til efnaleifa og láta efnagreina eins skjótt og auðið er. Ef yfirdýralæknir telur ástæðu til getur hann sannreynt með sýnatöku og öðrum rannsóknum hvort uppfyllt eru skilyrði um sérstakar viðbótarábyrgðir sem veittar eru einstökum ríkjum vegna sjúkdómastöðu á grundvelli EES-samningsins.
d) sannprófun á að farið sé að lágmarkskröfum um verndun dýra í millilandaflutningi, sbr. tilskipun 77/489/EBE frá 18. júlí 1977.2)

2) Stjórnartíðindi EB nr. L 200, 8.8.1977, bls. 10.


17. gr.
Eftirlit fyrir flutning til annars viðtökuríkis.

Ef eldisdýr frá landi utan EES eru flutt tímabundið í landamærastöðina á Keflavíkurflugvelli á leið til annars viðtökuaðildarríkis innan EES getur allt eftirlit samkvæmt 16. gr. farið fram á þeirri landamærastöð, að því tilskildu að viðtökuaðildarríki veiti fyrirfram samþykki sitt. Yfirdýralæknir skal þá senda staðfestingu samkvæmt 16. gr. til opinbers eftirlitsaðila í viðtökuaðildarríki.

Ef samningur hefur verið gerður milli yfirdýralæknis og lögbærra stjórnvalda aðildarríkis og, ef við á, stjórnvalda umflutningsaðildarríkisins eða umflutningsaðildarríkjanna, er heimilt að einungis eftirlit samkvæmt 1.-2. tl. 16. gr. fari fram á landamærastöðinni á Keflavíkurflugvelli. Í því tilviki er þó ekki heimilt að flytja eldisdýrin úr landamærastöðinni á Keflavíkurflugvelli þar sem sannprófun skjala og auðkenna hefur farið fram nema í lokuðum farartækjum. Einnig skal yfirdýralæknir hafa tilgreint á afriti eða, ef sendingu er skipt, á afritum upprunalegu vottorðanna að dýrin hafi farið þar um og eftirlit hafi farið fram og tilkynnt það opinberum eftirlitsaðila á viðtökustað eða eftir atvikum umflutningsaðildarríki eða -ríkjum um Animo-netkerfið.

Reglur þær sem fram koma í 1.-2. mgr. skulu einnig gilda þegar eldisdýr eru flutt á milli flutningstækja og þau á að flytja áfram til þriðja ríkis.

Ef grunur leikur á að eldisdýr sem flytja á til annars viðtökuríkis samkvæmt þessari grein kunni að vera haldin sjúkdómum sem stofnað geti í hættu lífi eða heilsu manna getur yfirdýralæknir þrátt fyrir ákvæði 1.-3. mgr. ákveðið að framkvæma ítarlegri skoðun, þ.m.t. heilbrigðisskoðun í samræmi við 3. tl. 16. gr. Reynist sá grunur á rökum reistur getur yfirdýralæknir gripið til viðeigandi ráðstafana samkvæmt reglugerð þessari.


18. gr.
Flutningur um landamærastöð á
leið til áfangastaðar í þriðja ríki.

Ef lifandi eldisdýr frá þriðja ríki utan EES koma á landamærastöðina á Keflavíkurflugvelli og áfangastaður þeirra er annað þriðja ríki, skal yfirdýralæknir heimila slíkan flutning að því tilskildu að eldisdýrin komi frá þriðja ríki sem er á skrá Evrópusambandsins yfir viðurkennd lönd, sbr. 13. gr. og að með eftirliti samkvæmt 16. gr. sé sannreynt að eldisdýrin standist kröfur þessarar reglugerðar.

Víkja má frá 1. mgr. ef um er að ræða flutning úr einu flutningstæki í annað í þeim tilgangi að senda eldisdýrin áfram án frekari viðkomu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Flutningur eldisdýra samkvæmt 1. mgr. skal hafa verið heimilaður af yfirvöldum þess ríkis sem eldisdýrin komu fyrst inn á á Evrópska efnahagssvæðinu. Eina meðhöndlunin sem leyfð er meðan á umflutningi stendur er sú sem fram fer á komustöðum og brottfararstöðum til að tryggja velferð eldisdýranna.

Yfirdýralæknir skal senda tilkynningu um flutninginn í gegnum Animo-netkerfið. Skal hann auk þess votta á staðfestingarskjal að vörurnar hafi yfirgefið Evrópska efnahagssvæðið og senda afrit af skjalinu með viðeigandi hætti.

Allur kostnaður sem hlýst af beitingu þessarar greinar skal greiddur af sendanda, viðtakanda eða fulltrúa þeirra.


19. gr.
Flutningur á svæði sem sérstakar kröfur gilda um.

Ef eldisdýr eiga að fara til ríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur gilda, sýni hafa verið tekin en niðurstöður liggja ekki fyrir þegar vara fer frá viðkomandi landamærastöð eða innflutningur er leyfður í sérstökum tilgangi, skal yfirdýralæknir senda upplýsingar um það til viðkomandi landamærastöðvar í gegnum Animo-netkerfið.

Þegar um er að ræða eldisdýr sem eiga að fara til ríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur gilda eða innflutningur hefur verið leyfður í sérstökum tilgangi skal gengið úr skugga um hvort eldisdýrin uppfylla þær sérstöku kröfur sem gilda í því ríki eða svæði sem eldisdýrin eiga að fara til. Yfirdýralæknir skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að eldisdýrin komist á áfangastað.


20. gr.
Flutningur eldisfisks með uppruna í aðildarríkjum
EES frá þriðja ríki sem hafnað hefur innflutningi.

Eldisdýr sem upprunnin eru í einhverju af aðildarríkjum EES og hafnað er af þriðja ríki skal vera heimilt að flytja inn til landsins að því tilskildu að þeim fylgi upprunalegt heilbrigðisvottorð eða afrit staðfest af opinberum eftirlitsaðila sem skoðað hefur vottorðið. Þar skal koma fram ástæða höfnunarinnar og að ábyrgst sé að skilyrði við geymslu og flutning hafi verið fullnægjandi og að eldisdýrin hafi ekki verið meðhöndluð.

Yfirdýralæknir getur ekki hafnað flutningi í slíkum tilvikum ef lögbært yfirvald í upprunaríki hefur samþykkt að taka eldisdýrin til baka og að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. Eldisdýrin skulu flutt í vatnsþéttum flutningstækjum auðkenndum af opinberum eftirlitsaðila.


21. gr.
Innflutningsskilyrði ekki uppfyllt.

Leiði eftirlit í ljós að eldisdýr uppfylla ekki innflutningsskilyrði samkvæmt þessari reglugerð er einungis heimilt að flytja þau í sérstaka geymslu sem viðurkennd er af yfirdýralækni og skal flutningurinn eiga sér stað í vatnsþéttu flutningstæki. Óheimilt er að flytja þau úr einu flutningstæki í annað eða úr einni geymslu í aðra. Halda skal skrá um komu og brottför eldisdýranna í og úr geymslunni þar sem fram komi upplýsingar um tegund, magn og nafn og heimilisfang móttakanda. Skráin skal varðveitt í 3 ár hið minnsta.

Yfirdýralæknir skal þá í samráði við innflytjanda eða fulltrúa hans grípa til þeirra ráðstafana sem hann telur nauðsynlegar en þær geta verið eftirfarandi:

a) að fóðra og annast eldisdýrin,
b) setja eldisdýrin í sóttkví eða einangra sendinguna,
c) endursenda eldisdýrin innan þeirra tímamarka sem yfirdýralæknir ákveður að því tilskildu að það samræmist ákvæðum íslenskra laga og reglugerða um heilbrigði dýra og velferð. Í því tilviki skal yfirdýralæknir tilkynna öðrum landamærastöðvum um að sendingunni hafi verið vísað frá, í hverju brotin hafi verið fólgin og hversu oft þau hafa átt sér stað ásamt því að ógilda það dýraheilbrigðisvottorð sem fylgdi sendingunni sem vísað var frá. Ef endursending eldisdýranna er óframkvæmanleg getur yfirdýralæknir að lokinni skoðun meðan eldisdýrin eru enn lifandi heimilað slátrun þeirra til manneldis en að öðrum kosti fyrirskipað að eldisdýrunum verði fargað og tilgreint skilyrði varðandi eftirlit með nýtingu afurða sem verða til með þeim hætti.

Kostnaður sem stofnað er til vegna þeirra ráðstafana sem kveðið er á um í 2. mgr. skal greiddur af innflytjanda eða fulltrúa hans. Afrakstur af sölu afurða sem verða til við förgun dýranna skal renna til eiganda eldisdýranna eða fulltrúa hans að frádregnum áðurnefndum kostnaði.


22. gr.
Sjúkdómahætta.

Leiði eftirlit í ljós að innflutt eldisdýr séu líkleg til að stofna heilbrigði manna eða dýra í hættu skal yfirdýralæknir fyrirskipa förgun og eyðingu þeirra svo fljótt sem kostur er. Yfirdýralæknir skal upplýsa aðrar landamærastöðvar og Eftirlitsstofnun EFTA um slíkar ráðstafanir og uppruna varanna í gegnum Animo-netkerfið.

Ef ákveðið er að farga eldisdýrum skal yfirdýralæknir gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að eldisdýrin og förgun á þeim séu undir stöðugu opinberu eftirliti. Förgun skal fara fram á landamærastöð eða á viðeigandi stað eins nálægt landamærastöð og kostur er.

Yfirdýralæknir skal gera lögbæru yfirvaldi þess ríkis sem vörurnar eiga að fara til viðvart í gegnum Animo-netkerfið.


23. gr.
Staðfesting eftirlitsaðila og leyfi til innflutnings.

Að loknu eftirliti í landamærastöð skal yfirdýralæknir eða fulltrúi hans gefa út sérstakt skjal um heimild til innflutningsins og staðfesta með undirritun sinni á formi sem yfirdýralæknir gefur út. Frumrit skjalsins skal fylgja eldisdýrunum á meðan þau eru undir tolleftirliti eða þar til þau komast til ákvörðunarstaðar. Innflytjanda skal afhent afrit af skjalinu og skal annað afrit varðveitt á landamærastöð í þrjú ár hið minnsta.

Sé sendingu skipt í fleiri hluta skal yfirdýralæknir gefa út staðfestingu samkvæmt 1. mgr. fyrir hverja einstaka hluta sendingarinnar.

Innflutningur skal því aðeins leyfður að fram komi í staðfestingu yfirdýralæknis samkvæmt 1.-2. mgr. að eldisdýrin hafi staðist eftirlit og aðeins í samræmi við þær kröfur sem fram koma í staðfestingu yfirdýralæknis.

Yfirdýralæknir skal afhenda innflytjanda afrit af heilbrigðisvottorði og öðrum skjölum er fylgdu eldisdýrunum en frumritin skulu varðveitt á landamærastöð í þrjú ár hið minnsta.


24. gr.
Flutningur til eldisstöðvar.

Innflutt eldisdýr frá þriðju ríkjum skulu að fenginni staðfestingu yfirdýralæknis samkvæmt 23. gr. flutt beint á viðtökueldisstöð eftir atvikum undir eftirliti yfirdýralæknis eða fulltrúa hans.


IV. KAFLI
Tilkynninga- og leiðbeiningaskylda
opinbers eftirlitsaðila.
25. gr.
Tilkynninga- og leiðbeiningaskylda.

Yfirdýralæknir skal tilkynna hlutaðeigandi aðilum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þessarar reglugerðar og um rökstuðning fyrir þeim.

Óski viðkomandi aðili þess, skulu upplýsingar samkvæmt 1. mgr. afhentar honum skriflega ásamt upplýsingum um þau réttarúrræði sem hann hefur samkvæmt íslenskum lögum, málsmeðferðarreglur og tímafresti.


V. KAFLI
Kostnaður.
26. gr.
Kostnaður.

Allur kostnaður sem leiðir af eftirliti yfirdýralæknis og ráðstöfunum sem nauðsynlegt reynist að grípa til í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar skal greiddur af sendanda. Greiðsla fyrir eftirlitið skal fara fram áður en tollafgreiðsla fer fram og getur yfirdýralæknir þá einnig krafist tryggingar fyrir þeim kostnaði sem kann að falla til við endursendingu, geymslu, förgun o.fl.


VI. KAFLI
Ráðstafanir opinbers eftirlitsaðila
vegna gruns um brot á löggjöf o.fl.
27. gr.
Eftirlit og rannsóknir.

Leiki grunur á að ekki hafi verið farið eftir heilbrigðislöggjöf eða vafi leikur á um auðkenningu eldisdýra, endanlegan ákvörðunarstað þeirra, hvort eldisdýrin uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra í lögum og reglum, eða að þau séu í samræmi við þær heilbrigðiskröfur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu skal yfirdýralæknir eða fulltrúi hans framkvæma það eftirlit sem nauðsynlegt er talið til að staðfesta eða afsanna slíkan grun. Eldisdýrin skulu vera undir eftirliti yfirdýralæknis þar til niðurstöður eftirlits liggja fyrir. Reynist slíkur grunur á rökum reistur skal fara fram aukið eftirlit á eldisdýrum af sama uppruna.


28. gr.
Tilkynningar.

Ef yfirdýralæknir telur á grundvelli eftirlits á eldisdýrum sem markaðssett skulu hér á landi að brotið sé í bága við ákvæði þessarar reglugerðar eða lög og stjórnvaldsreglur í öðru aðildarríki EES skal yfirdýralæknir þegar í stað gera lögbærum yfirvöldum þess ríkis viðvart. Ef yfirdýralæknir telur skýringar eða ráðstafanir ófullnægjandi skal hann ásamt lögbæru yfirvaldi hlutaðeigandi ríkis leita leiða til að bæta ástandið.

Leiði eftirlit sem um getur í 1. mgr. í ljós ítrekað brot á ákvæðum þessarar reglugerðar skal yfirdýralæknir tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA. Þar til tilkynning berst frá Eftirlitsstofnun EFTA um aðgerðir sem grípa á til er yfirdýralækni heimilt að efla eftirlit með eldisdýrum sem koma frá viðkomandi eftirlitsstað.


VII. KAFLI
Öryggisákvæði.
29. gr.
Stöðvun innflutnings.

Í þeim tilvikum sem sjúkdómur eða annað, sem kann að stofna heilbrigði manna og dýra í alvarlega hættu, kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði annars ríkis eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði manna eða dýra réttlætir slíkt getur landbúnaðarráðuneytið án fyrirvara stöðvað innflutning frá viðkomandi ríki eða sett sérstök skilyrði fyrir innflutningi.

Ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. skal tilkynna hinum aðildarríkjum EES-samningsins og Eftirlitsstofnun EFTA.


VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
30. gr.
Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.


31. gr.
Lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim með síðari breytingum, sbr. bráðabirgðalög nr. 103/2003 og með hliðsjón af tilskipun ráðs Evrópubandalaganna nr. 90/425/EBE frá 26. júní 1990 og tilskipun ráðs Evrópubandalaganna nr. 91/496/EBE frá 15. júlí 1991.


32. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast gildi 21. júlí 2003.


Landbúnaðarráðuneytinu, 16. júlí 2003.

F. h. r.
Ólafur Friðriksson.
Sigríður Norðmann.



VIÐAUKI A
Almenn skilyrði fyrir viðurkenningu skoðunarstöðva á landamærum.


Til að hljóta EBE viðurkenningu skulu landamærastöðvar hafa:

1) sérstaka aðrein fyrir flutning lifandi dýra, til að hlífa dýrunum við tilefnislausri bið;
2) aðstöðu (sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa) fyrir fermingu og affermingu ólíkra flutningstækja, skoðun, fóðrun og meðhöndlun dýranna, þar sem rými, lýsing og loftræsting er fullnægjandi með tilliti til þess fjölda dýra sem á að skoða;
3) nógu marga dýralækna og sérþjálfaða aðstoðarmenn til að þeir geti, með tilliti til þess fjölda dýra sem fer um landamærastöð, sannprófað fylgiskjöl og framkvæmt klíniskt eftirlit;
4) nógu rúmgott húsnæði fyrir starfsmennina sem annast dýraheilbrigðiseftirlitið, þar með talið búningsherbergi, sturtur og salerni;
5) húsnæði og aðstöðu sem hentar fyrir sýnatöku og úrvinnslu sýna í tengslum við kerfisbundið eftirlit sem mælt er fyrir um í EES-reglum.
6) aðgang að þjónustu sérhæfðrar rannsóknastofu þar sem unnt er að gera sérstök próf á sýnunum sem eru tekin á stöðinni:
7) aðgang að starfsstöð í næsta nágrenni stöðvarinnar með aðstöðu og búnað til að fóðra, meðhöndla og, ef nauðsyn ber til að slátra dýrunum;
8) hentuga aðstöðu, ef skoðunarstöðvarnar eru áningar- eða umfermingarstaðir við flutning dýra, til að unnt sé að afferma, fóðra og annast dýrin, ef þörf krefur og meðhöndla þau eða, ef nauðsyn ber til, slátra þeim á staðnum á þann hátt að þau þurfi ekki að þjást að óþörfu;
9) viðeigandi búnað fyrir hröð upplýsingaskipti við aðrar landamærastöðvar og lögbær dýraheilbrigðisyfirvöld;
10) búnað og aðstöðu fyrir þrif og sótthreinsun.



VIÐAUKI B
Almenn skilyrði fyrir viðurkenningu sóttvarnarstöðva.

1. Kröfur 2., 4., 5., 7., 9. og 10. liðar viðauka A skulu gilda.
2. Þar að auki skulu sóttvarnarstöðvar:
- vera undir stöðugu eftirliti opinbers dýralæknis og vera á hans ábyrgð,
- vera staðsettar langt frá bújörðum og öðrum stöðum þar sem dýr eru haldin sem líkur eru á að séu með smitandi sjúkdóma,
- hafa gott eftirlitskerfi til að tryggja viðunandi eftirlit með dýrunum.



VIÐAUKI C
Reglur um sannprófun skjala og auðkenna eldisdýra frá ríkjum
utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Skjalaskoðun.

Skoða skal hvert heilbrigðisvottorð og önnur skjöl, sem fylgja sendingu frá þriðja ríki, til þess að ganga úr skugga um eftirfarandi:

1. Að það sé frumrit vottorðs eða skjals.
2. Að það eigi við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða svæði slíks ríkis sem hefur heimild fyrir útflutningi til Evrópska efnahagssvæðisins.
3. Að framsetning og efni sé í samræmi við fyrirmynd vottorðs sem samþykkt hefur verið fyrir viðkomandi eldisdýr og hlutaðeigandi ríki.
4. Að það sé ein pappírsörk.
5. Að það sé fullfrágengið.
6. Að útgáfudagur vottorðs sé sá hinn sami og þegar eldisdýr voru fermd til flutnings til Evrópska efnahagssvæðisins.
7. Að þar komi fram hvar tollafgreiðsla eldisdýranna skuli fara fram og hver sé endanlegur móttakandi þeirra.
8. Að það varði starfsstöð sem hefur heimild til útflutnings til Evrópska efnahagssvæðisins.
9. Að það sé á íslensku eða ensku.
10. Að það sé undirritað af opinberum eftirlitsmanni (lögbæru yfirvaldi) og að nafn hans og staða sé skráð með læsilegum hástöfum og enn fremur að opinber heilbrigðisstimpill viðkomandi ríkis sé í öðrum lit en annar texti vottorðsins.
11. Að upplýsingarnar á vottorðinu séu í samræmi við upplýsingarnar á skjali um staðfestingu samkvæmt 16. gr.

Auðkennaskoðun.

Auðkennaeftirlit með eldisdýrum, skal m.a. fela í sér eftirfarandi:

1. Sannprófun á innsigli flutningstækis í þeim tilvikum sem krafa er gerð um slíkt;
2. Að því er allar tegundir varðar; athugun á því hvort opinber stimpill eða heilbrigðismerkingar sem gefa upprunalandið og upprunastarfsstöðina til kynna séu til staðar og séu í samræmi við vottorðið eða skjalið.


VIÐAUKI D
Vottorð til staðfestingar heilbrigðiseftirliti með eldisdýrum og afurðum
sem flutt eru inn til Evrópska efnahagssvæðisins frá þriðja landi.
Certificate for veterinary checks on aquaculture animals and products introduced
into the EEA from Non-Member Countries.


Allar leiðréttingar eða útstrikanir sem ekki eru staðfestar af réttu lögmætu yfirvaldi gera þetta skjal ógilt.
Any alteration or erasure on this document by an unauthorized person makes it invalid.

1. Upplýsingar um sendingu til skoðunar 1
Details of consignment presented 1 ______________________________
 
Landamærastöð með heilbrigðiseftirlit
Border inspection post carrying
out the veterinary checks ______________________________
 
Upprunaland
Country of Origin _____________________________
 
Útflutningsland
Country where consigned ______________________________
 
Sendandi
Consignor ______________________________
 
Innflytjandi
Importer ______________________________
 
Ákvörðunarland innan EES
Country of destination in the EEA ______________________________
(Land, viðtakandi, heimilisfang)
(Country, establishment, address)


1 Útfyllt af innflytjanda eða umbjóðanda hans.
1 To be completed by the importer or his representative.


Tollmeðferð
Customs destination ______________________________
(Innflutningur, umflutningur, geymsla)
(Import, transit, storage)
 
Flutningsfar
Means of transport
 
Flug Flug nr.
Air Flight No. ______________________________
 
Sjó Nafn skips og gámanúmer
Sea Vessel name and container No. ______________________________
 
Innsigli nr.
Seal No.
Sendingarnúmer
CN code
Innihaldslýsing sendingar
Nature of Goods
Geymsluaðferð
Type of Preservation
Stykkjafjöldi
Number of Packages
Brúttóþyngd
Gross Weight
Nettóþyngd
Net Weight
 
 




                          Alls
                          Total

 

Áætlaður komutími sendingar, dags., klst.

 
Probable date and time of arrival
Heilnæmis- eða heilbrigðisvottorð:
Animal Health and/or Public Health Certificate:

 
Nr.
No. _______________________________
 
Útgáfudagur:
Date of Issue: ________________________
 Lögmætt stjórnvald:
Issuing authority: ______________________
Innflytjandi fullt nafn:
Complete Identification of Declarer:
Dagsetning:
Date:


2. Ákvörðun varðandi sendingu til skoðunar 2
Decision on consignment 1
Tilvísunarnúmer:
Reference number:______________________________________________________________

Leyft til notkunar innan EES:
Release for free use in the EEA:
Innflutningur til EES undir tolleftirliti
Entry into the EEA under Custom Surveillance
?



?










?




?


?

Eldisdýr og afurðir hæfar til neyslu
Aquaculture animals and products fit for Human Consumption



Eldisdýr og afurðir hæfar til dýrafóðurs:
Aquaculture animals and products destined for animal feed to:
____________________________
(land, fyrirtæki) (country, establishment)

Eldisdýr og afurðir til lyfjafræðilegrar notkunar
Aquaculture animals and products destined for pharmaceutical use
____________________________
(land, fyrirtæki) (country, establishment)



Eldisdýr og afurðir óhæfar til neyslu og dýrafóðurs
Aquaculture animals and products unfit for human consumption or animal feed use


Eldisdýr og afurðir til annarrar úrvinnslu (lýsing)
Aquaculture animals and products destined to undergo other technical treatment (indicate)
____________________________

Eldisdýr og afurðir til annarrar notkunar (lýsing)
Aquaculture animals and products for other uses (indicate)


____________________________

?






?







?







?
Eldisdýr og afurðir sendar áfram til annars þriðja ríkis án umhleðslu:
Aquaculture animals and products consigned to another third country without unloading:
(Nafn þriðja ríkis):
(Name of third country): __________



Eldisdýr og afurðir til geymslu á frísvæði eða í frígeymslu:
Aquaculture animals and products for storage in free zone or free warehouse:
(Nafn svæðis eða geymslu)
(Name and Address): _____________

____________________________

____________________________

Eldisdýr og afurðir til geymslu í tollvörugeymslu:
Aquaculture animals and products for storage in Customs Warehouse:
(nafn tollvörugeymslu):
(Name and Address): _____________

____________________________

____________________________

Eldisdýr og afurðir til flutnings áfram til aðildaríkis með sérstakar kröfur:
Aquaculture animals and products consigned to a Member State with specific requirements:
(Nafn lands og fyrirtækis) og samkvæmt ákvörðun nr.:
(Country and establishment) and conforming to Decision No.:

____________________________



2

Útfyllt á ábyrgð lögmæts yfirvalds. Strikað yfir það sem ekki á við og merkt við það sem við á.
1 To be completed by ticking the applicable entry and deleting the others.


Sendingu vísað frá:        Aðgerð ákveðin:
Importation refused:        Action:



Ástæða:
Reason:
Endursendist fyrir:
To be returned before:_________________
Eyðist fyrir:
To be destroyed before:________________
Til vinnslu í samræmi við 4. gr. ákvörðunar nr. 93/13/EEC:
(Nafn vinnslufyrirtækis)
To be processed in conformity with Article 4 of Devision 93/13/EEC:
(Name, address of processing establishment)

_________________________________

Fullt nafn landamærastöðvar og opinber stimpill: 3
Full identification of border inspection post and official seal: 1
Dag-setning: 1
Date: 1
Lögmætt stjórnvald:
Competent Authority:_________________________________
Undirskrift:
Signature:_________________________________
Nafn í stórum prentstöfum:
Name in capital letters:

_________________________________

Athugasemdir:
Remarks:

 
Eftirlit framkvæmt:            Skjalaskoðun:      Sannprófun merkinga:      Vöruskoðun:
Checks carried out:           Documents:       Identity:               Physical:


Framkvæmdar rannsóknir:       Niðurstöður:
Laboratory tests carried out:     Results:
 
 
 
 


3

Útfyllist af lögmætu yfirvaldi á landamærastöð.
1 To be completed by the competent authority responsible for the border inspection post.


VIÐAUKI E
Rannsóknastofuprófanir.


Yfirdýralæknir skal útbúa eftirlitsáætlun vegna prófana á viðurkenndri rannsóknastofu til að sannprófa að farið sé að heilbrigðisreglum. Í áætluninni skal koma fram hvernig staðið skuli að sýnatöku, meðferð og geymslu sýna og tilkynningum til annarra eftirlitsaðila og Eftirlitsstofnunar EFTA. Tillit skal tekið til þess hvers eðlis eldisdýrin eru og þeirrar hættu er kann að stafa af þeim.

Opinber eftirlitsmaður á þeirri landamærastöð, þar sem prófanir eru gerðar samkvæmt eftirlitsáætlun yfirdýralæknis, skal senda upplýsingar til lögbærs yfirvalds á viðtökustað í gegnum viðeigandi tölvukerfi samkvæmt kröfum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og tilgreina prófin í skjali sem gefið er út til staðfestingar á því eftirliti sem farið hefur fram. Varði prófin efni eða smitvalda sem dýrum eða mönnum getur stafað hætta af getur opinberi eftirlitsmaðurinn á þeirri landamærastöð sem prófin gerði frestað afhendingu sendingar þar til niðurstöður úr rannsóknastofuprófi liggja fyrir.

Ákveði yfirdýralæknir, einkum að lokinni rannsókn á vörusendingu eða á grundvelli upplýsinga frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Eftirlitsstofnun EFTA, eða á grundvelli óhagstæðra niðurstaðna úr rannsókn á fyrri vörusendingu, að láta fara fram rannsóknastofupróf er einungis heimilt að senda vöruna á viðtökustað með því skilyrði að niðurstöður úr rannsóknaprófinu séu fullnægjandi. Fram að þeim tíma er vörusendingin undir eftirliti opinbers eftirlitsmanns á viðkomandi landamærastöð þar sem eftirlit fór fram.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica