Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

442/2011

Reglugerð um uppruna og ræktun íslenska hestsins.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til uppruna og ræktunar íslenska hestsins. Reglugerðinni er ætlað að tryggja viðurkenningu á Íslandi sem upprunalandi íslenska hestsins, tryggja áframhaldandi hreinræktun hans með notkun á viðurkenndum ættbókum í samræmi við opinberan ræktunarstaðal, sbr. viðauka með reglugerð þessari og að tryggja áreiðanleika þeirra upplýsinga sem skráðar eru í upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFeng.

Reglugerðinni er einnig ætlað að styðja alþjóðlegt samstarf um ræktun íslenska hestsins.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Ættbók, er skrá sem inniheldur upplýsingar um gripi í búfjárstofni.
  2. Upprunaættbók, er ættbók sem inniheldur upplýsingar um þá gripi í búfjárstofni sem rekja má allan stofninn til.
  3. Hreinræktuð íslensk hross, eru eingöngu þau hross sem fædd eru á Íslandi eða hægt er að rekja ætterni þeirra að öllu leyti til hrossa í upprunaættbók íslenska hestsins.
  4. WorldFengur, er upprunaættbók íslenska hestsins sem inniheldur upplýsingar og skrá um hreinræktuð íslensk hross.
  5. FEIF, eru Alþjóðasamtök Íslandshestafélaga. Samtökin eru m.a. samstarfsvettvangur alþjóðasamfélagsins um hreinræktun íslenska hestakynsins.
  6. Fæðingarnúmer, er einkvæmt númer sem hverju hrossi sem skráð er í WorldFeng er gefið. Númerið fylgir hrossinu alla tíð þó svo að það sé selt eða flutt á milli landa.
  7. Fagráð í hrossarækt, er nefnd sem skipuð er og starfar samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998. Fagráð mótar stefnu í kynbótum og þróunarstarfi hrossaræktarinnar, skilgreinir ræktunarmarkmið og setur reglur um framkvæmd meginþátta ræktunarstarfsins. Enn fremur mótar það tillögur um stefnu í fræðslumálum og rannsóknum búgreinarinnar og fjallar um önnur mál sem vísað er þangað til umsagnar og afgreiðslu.

3. gr.

Upprunalandið.

Ísland er upprunaland íslenska hestsins.

4. gr.

Ættbók.

Bændasamtök Íslands halda upprunaættbók íslenska hestsins (WorldFeng) og bera ábyrgð á að færa í hana upplýsingar um hreinræktuð íslensk hross sem uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar. Bændasamtök Íslands bera ábyrgð á útgáfu hestavegabréfa þar sem fram kemur að hross uppfylli skilyrði þess að geta talist hreinræktað íslenskt hross, þau gefa einnig út vottorð fyrir sæði, egg og fósturvísa hrossa.

Ættir allra hrossa sem skrá á í WorldFeng verður að vera hægt að rekja til hreinræktaðra íslenskra hrossa. Bændasamtök Íslands skulu setja nánari reglur um framkvæmd skráningar í WorldFeng, þar sem m.a. skal kveðið á um hverjum skuli veittur skráningaraðgangur að WorldFeng og hvaða skilyrði skráningaraðili þarf að uppfylla.

Bændasamtök Íslands skulu standa fyrir náinni samvinnu við félög eða samtök sem færa ættbók íslenskra hrossa með það að markmiði að miðla upplýsingum og stuðla að lausn ágreinings sem upp kann að koma.

Við sölu á skráðum kynbótahrossum milli landa skulu upplýsingar um þau færð inn í ættbók viðtökulands undir sama heiti og fæðingarnúmeri og þau voru skráð í sölulandi, ásamt öðrum upplýsingum sem krafist er samkvæmt þessari reglugerð. Heimilt er að gefa hrossum annað nafn í nýjum heimkynnum að því tilskildu að upprunalegt nafn sé skráð innan sviga í ættbók nýja landsins á meðan hrossið lifir. Sömu reglur skulu gilda um skráningu við sölu annarra hrossa.

5. gr.

Skilyrði skráningar.

Eingöngu er heimilt að skrá í WorldFeng hross sem uppfylla skilyrði 3. og 4. gr. reglugerðar þessarar.

Folald má færa í viðurkennda ættbók viðkomandi hrossaræktarfélags eða í WorldFeng að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. Þegar bæði faðir og móðir eru skráð í viðurkennda ættbók eða WorldFeng.
  2. Fyljunarvottorð hafi verið sent til Bændasamtaka Íslands, FEIF eða aðildarfélags FEIF, eftir því sem við á, fyrir 31. desember árið sem hryssan festi fang.
  3. Fang- og folaldaskýrsla hafi borist Bændasamtökum Íslands, FEIF eða aðildarfélagi FEIF, eftir því sem við á fyrir 31. desember viðkomandi ár.
  4. Vottorð um einstaklingsmerkingu hafi borist Bændasamtökum Íslands, FEIF eða aðildarfélagi í FEIF fyrir 1. mars árið eftir að folaldið fæðist. Öll hross sem skrá skal í ættbók eða WorldFeng skulu einstaklingsmerkt með örmerki.

Heimilt er að skrá öll önnur hross í viðurkennda ættbók eða WorldFeng, með fullgildum hætti, að undangenginni ætternisgreiningu með blóðflokkun eða DNA-greiningu.

6. gr.

Kynbótamarkmið, kynbótadómar og sýningar.

Varðandi kynbótamarkmið, -dóma og -mat, sýningahald og skipun dómnefnda skal farið eftir reglum sem birtar eru í viðauka þessarar reglugerðar.

Tímabundnar undanþágur frá reglum í viðaukanum má gefa ef í gangi eru tilraunir eða rannsóknir sem miða að frekari þróun dómkerfisins. Áður en til slíkra tilrauna eða rannsókna er stofnað skal liggja fyrir samþykki fagráðs í hrossarækt. Einnig skulu fyrirhugaðar tilraunir og rannsóknir kynntar ítarlega og ræddar á sameiginlegum fundi ræktunarleiðtoga FEIF þjóðanna.

Að loknum fyrirfram ákveðnum tilraunatíma skulu viðkomandi breytingar metnar m.t.t. heildaráhrifa og teknar inn í viðauka reglugerðarinnar, hljóti þær samþykki fagráðs í hrossarækt og þar til bærra aðila innan FEIF.

7. gr.

Ráðgjafanefnd.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna nefnd til að vera ráðgefandi við mótun, framkvæmd og breytingar á þeim reglum sem getið er í viðauka reglugerðarinnar. Nefndin hafi það að leiðarljósi að tryggja fagleg vinnubrögð og alþjóðlega sátt um reglurnar. Nefndin er samráðsvettvangur íslenskra stjórnvalda, Bændasamtaka Íslands og alþjóðasamfélagsins um ræktun íslenska hestsins. Nefndin er einnig til ráðgjafar um önnur atriði sem tengjast reglugerð þessari. Í nefndinni eiga sæti; landsráðunautur í hrossarækt, ræktunarfulltrúi FEIF auk formanns sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar án tilnefningar.

8. gr.

Upprunavottorð/hestavegabréf.

Hrossum sem flutt eru frá Íslandi skal fylgja hestavegabréf, frá Bændasamtökum Íslands, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr 27/2011, um útflutning hrossa en í hestavegabréfinu skulu meðal annars koma fram upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur þær sem innflutningslönd gera hverju sinni.

9. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðarinnar varða sektum. Með mál út af brotum á reglugerðinni skal farið að hætti laga um meðferð sakamála.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 19. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og með vísan til III. kafla sömu laga og öðlast þegar gildi. Reglugerðin er sett með hliðsjón af tilskipun ráðsins 90/427/EBE og ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar nr. 92/353/EBE, 92/354/EBE, 96/78/EB og 96/79/EB og öðlast þegar gildi.

Reglugerðinni fylgir viðauki sem skoðast sem fullgildur hluti reglugerðarinnar.

Samhliða gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 948/2002, með breytingum samkvæmt reglugerðum nr. 465/2004 og 810/2005.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 28. apríl 2011.

F. h. r.

Kristinn Hugason.

Sigríður Norðmann.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica