Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

1088/2018

Reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitar­félaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.

2. gr.

Yfirstjórn sjóðsins.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal vera í umsjá og vörslu ráðuneytisins sem annast daglegan rekstur og afgreiðslu á hans vegum, úthlutun og greiðslu framlaga og bókhald sjóðsins.

Ráðherra hefur á hendi yfirstjórn Jöfnunarsjóðs og tekur ákvarðanir um úthlutun framlaga úr sjóðnum, annarra en bundinna framlaga skv. 6. gr., að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar skv. 3. gr.

Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

Ársreikningar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í B-deild Stjórnartíðinda.

3. gr.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs.

Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skipar ráðherra sjö manna ráðgjafarnefnd til fjögurra ára. Sex nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga en einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndin skal gera tillögur til ráðherra um framlög úr sjóðnum, önnur en bundin framlög skv. 6. gr.

Kostnaður við störf ráðgjafarnefndar greiðist úr Jöfnunarsjóði.

II. KAFLI

Tekjur Jöfnunarsjóðs.

4. gr.

Tekjur.

Tekjur Jöfnunarsjóðs eru þessar:

 1. Framlag úr ríkissjóði er nemi 2,111% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs og trygg­inga­gjöldum. Þar af skal fjárhæð er nemur 0,235% af innheimtum skatttekjum og trygg­inga­gjöldum renna til málefna fatlaðs fólks.
 2. Árlegt framlag úr ríkissjóði er nemur 0,264% af álagningarstofni útsvars næstliðins tekjuárs.
 3. Hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga af álagningarstofni útsvars ár hvert:
  1. er nemur 0,77% til jöfnunar vegna reksturs grunnskóla,
  2. er nemur 0,99% til jöfnunar vegna málefna fatlaðs fólks.
 4. Vaxtatekjur.

III. KAFLI

Framlög úr Jöfnunarsjóði.

5. gr.

Tegundir framlaga.

Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfn­unar­framlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna þjónustu við fatlað fólk sbr. ákvæði þessa kafla.

6. gr.

Bundin framlög.

Bundnum framlögum skal úthlutað sem hér greinir, í samræmi við greiðsluáætlun sem liggja skal fyrir í byrjun hvers árs:

 1. Til Sambands íslenskra sveitarfélaga, 1,7% af tekjum sjóðsins skv. a-, b- og 1. tölulið c-liðar 4. gr. að frádregnum framlögum skv. d-lið 7. gr. Framlög skulu greidd mánaðarlega.
 2. Til landshlutasamtaka sveitarfélaga, 1,76% af tekjum sjóðsins, skv. a- og b-lið 4. gr. að frádregnum framlögum skv. d-lið 7. gr. og skulu þau framlög skiptast jafnt milli allra landshlutasamtakanna. Framlög skulu greidd mánaðarlega.
 3. Til Innheimtustofnunar sveitarfélaga skv. 4. gr. laga nr. 54/1971, með síðari breytingum. Framlög skulu greidd á tveggja mánaða fresti eftir á.
 4. Til Tryggingastofnunar ríkisins vegna eftirlaunasjóðs aldraðra skv. 22. gr. laga nr. 113/1994 með síðari breytingum. Framlög skulu greidd í desember ár hvert.
 5. Til húsafriðunarsjóðs skv. 43. gr. laga nr. 80/2012. Framlög skulu greidd fyrir 1. maí ár hvert.

Framangreindum aðilum, er njóta framlaga úr Jöfnunarsjóði, sbr. lið a-e, ber að skila endur­skoðuðum ársreikningi ásamt ársskýrslu til sjóðsins.

7. gr.

Sérstök framlög.

Sérstökum framlögum skal úthlutað úr sjóðnum sem hér greinir:

 1. Til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, svo sem með þátttöku í kostnaði við undir­búning og framkvæmd sameiningar, framlögum til að mæta tekjutapi vegna lækkunar á jöfn­unar­framlögum skv. 8. gr. og með framlögum til að stuðla að endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu í kjölfar sameiningar, þ.m.t. framlögum fyrir allt að 50% stofn­kostn­aðar grunnskóla­mannvirkja og leikskóla. Aðstoð má veita í allt að fimm ár frá og með samein­ingar­ári, á grundvelli reglna sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitar­félaga, sbr. 127. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
 2. Til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga með styrk eða láni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 84. gr. sveitarstjórnarlaga, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefnd, eftir atvikum í samræmi við tillögur eftirlitsnefndar með fjármálum sveitar­félaga.
 3. Til greiðslu stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum, sbr. reglugerð nr. 180/2016, allt að 25 m.kr. á ári.
 4. Til jöfnunar á tekjutapi einstakra sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti í kjölfar breytingar á álagningarstofni mannvirkja, allt að 30,1% af tekjum sjóðsins skv. a-lið 4. gr., sbr. reglugerð nr. 80/2001, með síðari breytingum.
 5. Til greiðslu framlaga til sérstakra verkefna sem geta haft mikla þýðingu fyrir sveitarfélög og/eða leiða til hagræðingar í rekstri og þjónustu þeirra, sbr. 12. gr.

8. gr.

Jöfnunarframlög.

Jöfnunarframlög skiptast í tekjujöfnunarframlög og útgjaldajöfnunarframlög:

 1. Tekjujöfnunarframlögum, sbr. nánar 13. gr., skal úthlutað til að jafna tekjur sveitarfélaga. Útreiknuð framlög skulu miðast við sambærileg sveitarfélög og fullnýtingu tekjustofna þeirra, þar á meðal framlög skv. d-lið 7. gr. Framlög skulu greidd sveitarfélögum að ¾ hlutum fyrir 1. nóvember ár hvert en endanlegt uppgjör fer fram fyrir árslok á grundvelli leiðréttrar skrár um álagðar skatttekjur sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 13. gr. Einungis kemur til úthlutunar og greiðslu framlags hafi sveitarfélag fullnýtt heimild sína til álagningar útsvars.
 2. Útgjaldajöfnunarframlögum, sbr. nánar 14. gr., skal varið til að mæta mismunandi útgjalda­þörf sveitarfélaga á grundvelli stærðarhagkvæmni og tekna þeirra, að teknu tilliti til þeirra þátta sem áhrif hafa á útgjaldaþörf, svo sem íbúafjölda, fjarlægða, skólaaksturs úr dreifbýli, akstursþjónustu fyrir fatlað fólk o.fl. Framlög skulu greidd sveitarfélögum mán­aðar­lega. Þó skal heimilt að halda eftir allt að 10% af áætluðum framlögum til að mæta því ef ráðstöf­unar­fé sjóðsins, sbr. 2. mgr., verður minna eða útgjöld meiri en áætlað var. Endanlegt uppgjör skal fara fram eigi síðar en í árslok á grundvelli upplýsinga um íbúafjölda sveitarfélaga 1. janúar á sama ári og leiðréttrar skrár um álagðar skatttekjur sveitarfélaga.

Til jöfnunarframlaga skal verja þeim tekjum Jöfnunarsjóðs skv. a- og b-lið 4. gr. sem eru umfram ráðstöfun skv. 6. og 7. gr.

9. gr.

Jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla.

Tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skv. 1. tölul. c-liðar 4. gr., að frádregnu framlagi til Sambands íslenskra sveitarfélaga skv. a-lið 6. gr. og hlutdeild í kostnaði skv. 3. mgr. 2. gr., skal varið til þess að jafna launakostnað sveitarfélaga af kennslu í grunnskólum og annan kostnað af flutningi grunn­skólans frá ríki til sveitarfélaga, þ.m.t. kostnað vegna sérþarfa fatlaðra nemenda og inn­flytjenda, og til greiðslu kostnaðar vegna þjónustusamninga sem sjóðurinn gerir skv. 2. mgr. 13. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Við úthlutun framlaga skal hafa hliðsjón af auknum útsvars­tekjum einstakra sveitarfélaga af yfirfærslu grunnskólans en um úthlutun framlaga fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 351/2002 með síðari breytingum.

10. gr.

Skerðing framlaga.

Við útreikning jöfnunarframlaga, skv. d-lið 7. gr. og 9. gr. skulu framlög til þeirra sveitarfélaga þar sem heildarskatttekjur eru a.m.k. 50% umfram landsmeðaltal, þ.e. útsvar og fasteignaskattur á hvern íbúa miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna, falla niður.

11. gr.

Jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðs fólks.

Tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, skv. 2. tölul. c-liðar 4. gr. að frádregnum kostnaði tengdum flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga, framlagi í fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hlutdeild í kostnaði, skv. 3. mgr. 2. gr., að viðbættum beinum framlögum á fjárlögum, skal varið til jöfnunar vegna þjónustu við fatlað fólk með greiðslu framlaga til einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða. Við úthlutun framlaga skal hafa hliðsjón af auknum útsvarstekjum einstakra sveitarfélaga vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks. Framlögin skulu reiknuð á grundvelli fjölda einstaklinga og þjónustuþarfa þeirra í hverju sveitarfélagi og á hverju þjónustusvæði en um úthlutun þeirra fer samkvæmt ákvæðum sérstakrar reglugerðar sem ráðherra setur á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga.

IV. KAFLI

Nánar um einstök framlög.

12. gr.

Framlög til sérstakra verkefna.

Heimilt er að greiða framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sérstakra verkefna sem geta haft mikla þýðingu fyrir sveitarfélög og/eða leiða til hagræðingar í rekstri og þjónustu þeirra, sbr. e-lið 7. gr.

Umsóknir um framlög til sérstakra verkefna skal senda Jöfnunarsjóði eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Ráðgjafarnefnd er heimilt að leita álits sérfræðinga á einstökum umsóknum. Við mat á umsóknum skal m.a. tekið tillit til notagildis verkefnanna í almannaþágu.

Þeir sem hljóta framlag samkvæmt þessari grein skulu skila skýrslu um framkvæmd verkefnis til Jöfn­unar­sjóðs sveitarfélaga eigi síðar en einu ári eftir að framlagi var úthlutað. Ef sótt er um áfram­haldandi stuðning við verkefni, sem áður hefur hlotið framlag úr Jöfnunarsjóði, ber umsækjanda að láta fylgja umsókn áfangaskýrslu um stöðu verkefnisins.

Ráðgjafarnefnd getur sett nánari vinnureglur um meðferð umsókna.

13. gr.

Tekjujöfnunarframlög.

Ráðherra gerir árlega í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga skrá um álagðar skatttekjur sveitarfélaga á yfirstandandi reikningsári ásamt skrá um fullnýtingu tekjustofna, þ.e. útsvars, fasteignaskatts og framleiðslugjalds. Með útsvari er átt við álagt útsvar á yfirstandandi ári á tekjur fyrra árs. Við gerð skrár skv. 1. málsl. skal einnig taka tillit til jöfnunarframlaga sem sveitarfélög fá vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti, sbr. reglugerð nr. 80/2001, með síðari breytingum.

Á grundvelli skrár um fullnýtingu tekjustofna sveitarfélaga skal reikna út eftirtalin meðaltöl á hvern íbúa:

 1. í Reykjavíkurborg,
 2. í öllum sveitarfélögum með 12.000 íbúa og fleiri, öðrum en Reykjavíkurborg,
 3. í öllum sveitarfélögum með 300-11.999 íbúa,
 4. í öllum sveitarfélögum með færri en 300 íbúa.

Við útreikning meðaltals skv. b-, c- og d-lið 2. mgr. skal sleppa tekjum sem einstök sveitarfélög hafa af álagningu fasteignaskatts og framleiðslugjaldi af virkjunum og stórfyrirtækjum, enda hafi þær tekjur veruleg áhrif á niðurstöðu innan viðkomandi flokks. Jafnframt skal við útreikning meðal­tals skv. b-, c- og d-lið 2. mgr. sleppa alveg einstaka sveitarfélögum þar sem tekjur eða íbúa­fjöldi hafa veruleg áhrif á niðurstöðu innan viðkomandi flokks.

Ef meðaltal á hvern íbúa í sveitarfélagi miðað við fullnýtingu tekjustofna er lægra en 97% af meðal­tali á hvern íbúa í öllum sveitarfélögum í viðkomandi flokki skv. 2. mgr. skal greiða sveitar­félagi tekjujöfnunarframlag sem nemur allt að mismuninum.

Heimilt er að miða tekjujöfnunarframlög til sveitarfélaga með færri en 300 íbúa við c-lið 2. mgr. enda búi a.m.k. ⅔ hlutar íbúa í þéttbýli.

Heimilt er að skerða tekjujöfnunarframlag til sveitarfélags ef það vanrækir að viðhalda eðlilegu fasteignamati í sveitarfélaginu.

14. gr.

Útgjaldajöfnunarframlög.

Í desember skal liggja fyrir áætlun um úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga á næsta ári eftir skiptingu þeirra í A- og B-hluta. Áætlunin skal byggð á upplýsingum um tekjur sjóðsins á fjárlögum ársins og íbúaskrá sveitarfélaganna í október árið á undan ásamt öðrum þeim gögnum sem byggt er á við útreikning framlaganna.

Útgjaldajöfnunarframlög á grundvelli A- og B-hluta skal skerða hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hlutfallslega háar tekjur á íbúa miðað við önnur sveitarfélög. Skerðingin hefst þegar meðaltekjur á íbúa, miðað við fullnýtingu tekjustofna sveitarfélags, eru 4% yfir meðaltali í hverjum viðmið­unar­flokki skv. 2. mgr. 13. gr. Framlög falla niður þegar meðaltekjur á íbúa eru 23% yfir meðaltali. Skerðing innan þessara marka skal vera hlutfallsleg.

A-hluti.

Hlutfallsleg skipting þess fjár sem er til ráðstöfunar samkvæmt A-hluta þessarar greinar ræðst af eftirfarandi:

 Viðmið: Hlutfall af heild:
 1.   Fjöldi íbúa á aldrinum 0-5 ára 31,1%       
 2.   Fjöldi íbúa á aldrinum 6-15 ára 23,9%       
 3.   Fjöldi íbúa á aldrinum 16-66 ára 7,5%       
 4.   Fjöldi íbúa á aldrinum 67 ára og eldri 9,6%       
 5.   Fjöldi íbúa á aldrinum 81 árs og eldri 6,2%       
 6.   Fjöldi innflytjenda á aldrinum 0-5 ára 2,6%       
  Samtals íbúatengd framlög: 80,9%       
    
 7.   Fjarlægðir innan sveitarfélaga 7,9%       
 8.   Fjöldi þéttbýlisstaða umfram einn 5,5%       
 9.   Fækkun íbúa 1,5%       
 10.   Fjölgun íbúa 1,0%       
 11.   Snjómokstur í þéttbýli 3,2%       
  Alls: 100%       

Skýringar á útreikningi framlaga:

a. Íbúatengd framlög: Við útreikning íbúatengdra framlaga, sbr. 1.-6. tölul., skal byggja á upp­lýsingum frá Hagstofu Íslands um íbúafjölda í sveitarfélagi í viðkomandi aldurshópi. Framlag til hvers sveitarfélags tekur mið af hlutfallslegum íbúafjölda þess af heildaríbúafjölda á landinu öllu innan hvers viðmiðunarflokks. Þegar lokið er útreikningi íbúatengdra framlaga samkvæmt framan­greindu skal umreikna þau með tilliti til stærðar hvers sveitarfélags, á grundvelli eftirfarandi stuðla sem byggjast á íbúafjölda sveitarfélags. Stuðlarnir eru fundnir þannig (sjá fylgiskjal):

Sveitarfélög með færri en 2.900 íbúa fá stuðulinn 1,0.
Sveitarfélög með 2.900-10.000 íbúa fá stuðul hlutfallslega á bilinu 1,0-0,215.
Sveitarfélög með 10.000-16.000 íbúa fá stuðulinn 0,215.
Sveitarfélög með 16.000-22.000 íbúa fá stuðul hlutfallslega á bilinu 0,215-0.
Sveitarfélög með fleiri en 22.000 íbúa fá stuðulinn 0.

b. Fjarlægðir: Við mat á útgjaldaþörf sveitarfélags skal taka tillit til fjarlægða innan sveitarfélags og hlutfalls íbúa í þéttbýli og dreifbýli. Fjarlægðir í sveitarfélögum skulu mældar á eftirfarandi hátt:

 1. Settir skulu punktar á ystu mörk sveitarfélags, þó aldrei lengra en á ystu mörk byggðar, í norðri, austri, suðri og vestri, eða annars staðar eftir landfræðilegum aðstæðum í sveitar­félagi.
 2. Vegalengdir skulu mældar frá þessum punktum miðað við stystu akstursleið að stærsta þétt­býlis­kjarna sveitarfélags eða miðpunkti þess ef enginn þéttbýliskjarni er í sveitar­félag­inu.
 3. Þannig mældar vegalengdir skal síðan margfalda með stuðlum sem eru mismunandi eftir sveitarfélögum og miðast við hlutfall íbúa í þéttbýli og dreifbýli. Heimilt er að líta eingöngu á stærsta þéttbýlisstaðinn eða -staðina sem þéttbýli. Stuðlana skal reikna þannig:
  i) Sveitarfélög með hlutfall þéttbýlis frá 0 til 50 fá stuðul hlutfallslega á bilinu 0,1-1,0.
  ii) Sveitarfélög með hlutfall þéttbýlis frá 50 til 90 fá stuðulinn 1,0.
  iii) Sveitarfélög með hlutfall þéttbýlis frá 90 til 100 fá stuðul hlutfallslega á bilinu 1,0-0,0.

c. Fjöldi þéttbýlisstaða umfram einn: Við útreikning skal taka tillit til sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins. Höfuðborgarsvæðið telst allt vera einn þéttbýlisstaður í þessum skilningi, að undanskildu Kjalarnesi. Útreikningum skal þannig hagað að fjármagn skiptist hlutfallslega á eftirfarandi hátt:

 1. 60% skal skipta á grundvelli íbúafjölda í þéttbýlisstöðum umfram einn.
 2. 40% skal skipta eftir fjölda þéttbýlisstaða umfram einn í hverju sveitarfélagi.

d. Fækkun íbúa: Ef íbúum sveitarfélags hefur á síðustu þremur árum fækkað árlega um meira en 1% að meðaltali skal reikna út framlag vegna fólksfækkunar. Við útreikninga framlagsins er horft til hver sé meðalfækkun sveitarfélagsins í íbúum talið sem er umfram 1%. Sá íbúafjöldi er síðan lagður saman hjá öllum sveitarfélögum og framlag til hvers sveitarfélags er í samræmi við hlutfall þess í heildarfækkun umfram 1%.

e. Fjölgun íbúa: Ef íbúum sveitarfélags hefur á síðustu þremur árum fjölgað árlega um meira en 2,5% að meðaltali skal reikna út framlag vegna fólksfjölgunar. Við útreikninga framlagsins er horft til hver sé meðalfjölgun sveitarfélagsins í íbúum talið sem er umfram 2,5%. Sá íbúafjöldi er síðan lagður saman hjá öllum sveitarfélögum og framlag til hvers sveitarfélags er í samræmi við hlutfall þess í heildarfjölgun umfram 2,5%.

f. Snjómokstur í þéttbýli: Framlögum skal úthlutað til sveitarfélaga á snjóþyngstu svæðum landsins vegna útgjalda af snjómokstri gatna í þéttbýli sveitarfélags á grundvelli vinnureglna sem ráðherra setur skv. tillögum ráðgjafarnefndar og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitar­félaga.

B-hluti.

Fjármagn sem til ráðstöfunar er samkvæmt B-hluta þessarar greinar rennur til framlaga vegna skólaaksturs úr dreifbýli og akstursþjónustu fyrir fatlað fólk:

Skólaakstur úr dreifbýli: Útreikningur framlaga byggist á upplýsingum frá sveitarfélögum um akstursleiðir úr dreifbýli sveitarfélags og fjölda grunnskólabarna á hverri leið sem eiga heimili lengra en 3,0 km frá skóla, miðað við 1. október ár hvert. Framlög taka mið af lengstu aksturs­vega­lengd innan hverrar leiðar frá heimili að skóla, fjölda barna, stærð ökutækis og upp­lýs­ingum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti um fjölda skóladaga á viðkomandi skólaári. Ráðherra setur vinnureglur um úthlutun framlagsins skv. tillögum ráðgjafarnefndar og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk: Útreikningur framlaga byggist á umsóknum frá sveitar­félögum um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk úr dreifbýli. Framlög taka mið af akstursvegalengd og fjölda farþega. Ráðherra setur vinnureglur um úthlutun framlagsins skv. tillögum ráðgjafarnefndar og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

15. gr.

Upplýsingaöflun til útreiknings framlaga.

Samband íslenskra sveitarfélaga, skólaskrifstofur sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga annast upplýsingaöflun og útreikninga sem úthlutun framlaga byggist á, sé eftir því leitað.

Sveitarfélögum, stofnunum þeirra og öðrum opinberum aðilum er skylt að láta Jöfn­unar­sjóði sveitarfélaga í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til ákvörðunar og úthlutunar framlaga úr sjóðnum.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og öðlast gildi 1. janúar 2019. Þá fellur jafnframt úr gildi reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 960/2010, með síðari breytingum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 28. nóvember 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal) 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica