Innanríkisráðuneyti

964/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 952/2003 um skotelda. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. reglugerðarinnar:

 1. 1. mgr. orðast svo:
  Með skoteldum í reglugerð þessari er átt við hvers konar hluti sem innihalda efni eða efnablöndu sem getur sprungið og ætlað er, með íkveikju eða á annan hátt, að gefa frá sér hita, ljós, hljóð, lofttegund eða reyk með útvermnum, sjálfbærum efnaferlum.
 2. Á eftir orðinu "flugeldar" í 2. mgr. kemur: flugeldavörur fyrir leikhús.
 3. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þá gildir reglugerðin, eftir því sem við á, um flugeldavörur fyrir ökutæki.
 4. Á eftir orðunum "skiptast þannig:" kemur:
  1. flokkur: Skoteldar sem mjög lítil hætta stafar af, hávaðastig er óverulegt og sem eru ætlaðir til notkunar á lokuðum svæðum, þ.m.t. skoteldar sem eru ætlaðir til notkunar inni í íbúðarhúsum.
  2. flokkur: Skoteldar sem lítil hætta stafar af, hávaðastig er lágt og sem ætlaðir eru til notkunar utanhúss á lokuðum svæðum, í húsagörðum eða öðrum minni svæðum.
  3. flokkur: Skoteldar sem miðlungs hætta stafar af, sem eru ætlaðir til notkunar utan­dyra á stórum opnum svæðum og með hávaðastig sem er ekki skaðlegt heilbrigði manna samkvæmt skilgreindum fjarlægðarviðmiðum 8. gr. reglu­gerðarinnar og viðauka I.
  4. flokkur: Skoteldar sem mikil hætta stafar af, sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings og eru aðeins ætlaðir til notkunar af einstak­lingum með sérfræðiþekkingu (almennt þekktir sem skoteldar til faglegra nota) og með hávaðastig sem ekki er skaðlegt heilbrigði manna samkvæmt skilgreindum fjarlægðarviðmiðum 8. gr. reglugerðarinnar og viðauka I.
  Flokkur T1: Skoteldar til notkunar á sviði sem lítil hætta af stafar.
  Flokkur T2: Skoteldar til notkunar á sviði þar sem notendur eru einstaklingar með sérfræðiþekkingu.
  Flokkur P1: Skoteldavörur, aðrar en skoteldar fyrir leikhús, sem lítil hætta stafar af.
  Flokkur P2: Skoteldavörur, aðrar en skoteldar fyrir leikhús, eingöngu til meðhöndlunar eða notkunar hjá einstaklingum með sérfræðiþekkingu.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:

 1. Við 1. mgr. reglugerðarinnar bætast tveir nýir málsliðir: Leiðbeiningarnar mega ekki draga úr sýnileika og læsileika CE-merkisins. Um merkingar vísast til viðauka I.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, sem verður 2. mgr. og orðast svo: Merkingar á skoteldum öðrum en 1.-4. flokki skv. 1. gr., svo sem skoteldum í íhluti bifreiða, skulu sýna nafn framleiðanda eða, ef framleiðandi hefur ekki staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, nafn innflytjanda, nafn og gerð vörunnar og öryggisleiðbeiningar. Ef ekki er nægilegt rými á vörunni til að uppfylla kröfurnar um merkingar sem um getur í 1. málslið skulu upp­lýsingarnar koma fram á umbúðunum.

3. gr.

9. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Nú verður alvarlegt slys af völdum skotelda og skal þá bráðamóttaka sjúkrahúss þegar í stað tilkynna það til lögreglu og Neytendastofu. Skylt er að tilkynna Neytendastofu þegar vart verður gallaðra skotelda í umferð.

4. gr.

Í stað tölunnar "18" í 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar kemur: 20.

5. gr.

Við 19. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, sem verður 4. mgr. svohljóðandi:

Nú er framleiðandi staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins og skal innflytjandi ábyrgjast að skoteldarnir uppfylli öryggiskröfur, m.a. um CE-samræmismerkingu skv. reglugerð þessari.

6. gr.

Í stað 22. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein svohljóðandi:

Óheimilt er að markaðssetja eða hafa undir höndum skotelda sem ekki hafa hlotið gerðar­viðurkenn­ingu og bera CE-samræmismerki samkvæmt 22. gr. a. Viðurkenndir skoteldar skulu standast grunnkröfur þær sem tilgreindar eru í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007.

Gerðarviðurkenning skal fara fram hjá tilkynntum aðila sem hefur rétt til að veita slíka viður­kenningu á grundvelli tilskipana, laga og reglugerðar sem um hana gilda innan Evrópska efna­hags­svæðisins. Við viðurkenningu skal farið eftir þeirri aðferð sem tilgreind er í viðaukum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB.

Skoteldar sem hlotið hafa viðurkenningu í öðru ríki til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu eru sjálfkrafa viðurkenndir til notkunar hér á landi. Skoteldar sem framleiddir eru eftir samræmdum Evrópskum staðli skulu ennfremur hljóta viðurkenningu, enda standist staðallinn grunnkröfur til­skipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB.

Neytendastofa annast eftirlit með að skoteldar standist gæðakröfur og metur hvort merkingar á þeim séu fullnægjandi. Neytendastofa gefur jafnframt út leiðbeiningar um lágmarksmerkingar á skoteldum. Við matið skal Neytendastofa hafa hliðsjón af viðauka I og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB.

Ef um er að ræða nýjar tegundir skotelda sem ekki hafa verið fluttar inn áður skulu þær sérstaklega tilgreindar á innflutningsskjölum.

Óheimilt er að flytja inn eða selja eldri skotelda en tveggja ára.

7. gr.

Á eftir 22. gr. reglugerðarinnar bætist við ný grein, 22. gr. a, svohljóðandi:

CE-samræmismerking.

Viðurkenndir skoteldar skulu bera CE-samræmismerkið, sbr. viðauka IV, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB, sbr. ákvörðun 93/465/EBE. CE-merkingin skal fest á skoteld með sýni­legum, læsilegum og óafmáanlegum hætti. Sé það er ekki hægt skal festa CE-samræmismerkið á auðkenniplötu sem er fest á skoteldinn eða umbúðirnar um hann. Auðkenniplatan verður að vera þannig hönnuð að ekki sé unnt að nota hana aftur.

Óheimilt að festa á skotelda merkingar eða áletranir sem geta villt um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu CE-merkisins á skoteldavörum. Allar aðrar merkingar má festa á skoteldavörur að því tilskildu að þær dragi ekki úr sýnileika og læsileika CE-merkisins.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. reglugerðarinnar:

 1. Á eftir orðunum "Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu" í 1. mgr. reglugerðarinnar kemur: í samráði við Neytendastofu.
 2. Í stað orðsins "Dómsmálaráðuneyti" í 2. mgr. kemur: Innanríkisráðuneyti.

9. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. reglugerðarinnar:

 1. Orðin "vinnueftirlit og slökkviliðsstjórar" í 1. mgr. falla brott.
 2. Á eftir orðunum "hver í sínu umdæmi" í 1. mgr. kemur: og Neytendastofa.
 3. Í stað orðanna "enda geri hann ríkislögreglustjóra tafarlaust viðvart um þá framkvæmd" í 2. mgr. kemur ný setning sem orðast svo: Sama gildir ef vörur eru ekki í samræmi við öryggis­kröfur, m.a. um CE-samræmismerkingu.

10. gr.

Í stað orðanna "fjórum árum" í 36. gr. reglugerðarinnar kemur: sex árum.

 

11. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við reglugerðina:

 1. Skilgreining á hugtakinu skoteldur í kaflanum um almenn ákvæði orðast svo: Búnaður eða tæki sem innihalda efni eða efnablöndu sem getur sprungið og ætlað er, með íkvekju eða á annan hátt, að gefa frá sér hita, ljós, hljóð, lofttegund eða reyk með útvermnum, sjálf­bærum efnaferlum.
 2. Í stað setningarinnar "Skoteldar sem skapa litla hættu og eru án aldurstakmarkana notenda og notaðir eru á afmörkuðum svæðum, þ.m.t. skoteldar sem ætlaðir eru til nota innanhúss og má nota allan ársins hring." í kaflanum um flokkunarkerfi skotelda, skoteldar í flokki 1, kemur: Skoteldar sem mjög lítil hætta stafar af, hafa óverulegt hávaðastig og sem eru ætlaðir til notkunar á lokuðum svæðum, þ.m.t. skoteldar sem eru ætlaðir til notkunar inni í íbúðarhúsum.
 3. Í stað setninganna "Skoteldar sem henta til notkunar utanhúss í húsagörðum eða á minni svæðum. Um er að ræða skotelda sem skapa litla hættu og ætlaðir eru til nota utandyra á afmörkuðum svæðum." í kaflanum um flokkunarkerfi skotelda, skoteldar í flokki 2, kemur: Skoteldar sem lítil hætta stafar af, hafa lágt hávaðastig og sem ætlaðir eru til notkunar utanhúss á lokuðum svæðum, í húsagörðum eða á öðrum minni svæðum.
 4. Í stað setninganna "Skotelda sem henta til notkunar á stórum opnum svæðum. Um er að ræða skotelda sem skapa nokkra hættu og má eingöngu nota utandyra á vel opnum svæðum." í kaflanum um flokkunarkerfi skotelda, skoteldar í flokki 3, kemur: Skoteldar sem miðlungs hætta stafar af, sem eru ætlaðir til notkunar utandyra á stórum opnum svæðum og hafa hávaðastig sem er ekki skaðlegt heilbrigði manna samkvæmt skilgreindum fjarlægðarviðmiðum.
 5. Í stað setninganna "Skoteldar sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings. Um er að ræða skotelda sem geta skapað mikla hættu, eru eingöngu til notkunar á flugeldasýningum og ætlaðir eru til nota í umsjá sérfræðinga á sviði skotelda sem hlotið hafa viðurkenningu sem skotstjórar, eða skoteldar sem henta ekki af öðrum ástæðum til almenningsnota." í kaflanum um flokkunarkerfi skotelda, skoteldar í flokki 4, kemur: Skoteldar sem mikil hætta stafar af, ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings heldur aðeins til notkunar af einstaklingum með sérfræðiþekkingu, skotstjórum (almennt þekktir sem skoteldar til faglegra nota) og hafa hávaðastig sem ekki er skaðlegt heilbrigði manna samkvæmt skilgreindum fjarlægðarviðmiðum. Einnig falla undir þennan flokk skoteldar sem henta af öðrum ástæðum til almenningsnota.

12. gr.

Við reglugerðina bætist nýtt ákvæði, sem verður 37. gr., og breytist greinatala í samræmi við það:

Með reglugerð þessari eru innleiddar og öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir:

 1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7, 2. febrúar 2012, bls. 61.
 2. Framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16, 19. mars 2015, bls. 297.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 39. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 6. gr. d laga nr. 77/2015, öðlast þegar gildi.

14. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Framleiðendur og innflytjendur skulu hafa lagað sig að reglunum eigi síðar en 15. janúar 2017. Ákvæðið gildir ekki um skotelda sem framleiddir eru hér á landi.

Framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB kemur til framkvæmda frá og með 17. október 2016, sbr. 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar.

Innanríkisráðuneytinu, 27 október 2015.

F. h. r.

Þórunn J. Hafstein.

Skúli Þór Gunnsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica