Félagsmálaráðuneyti

122/2003

Reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta. - Brottfallin


1. gr.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir framlög til sveitarfélaga vegna greiðslu þeirra á húsaleigubótum samkvæmt lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997, með síðari breytingum, og gildandi reglugerð um húsaleigubætur.


2. gr.

Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta geta numið allt að 11,5% af tekjum sjóðsins skv. a-lið 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, sbr. e-lið 11. gr. sömu laga. Tekjur er berast sjóðnum eftir 1. janúar vegna ársins á undan skulu leggjast við ráðstöfunartekjur þess árs sem hafið er.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gerir tillögu til ráðherra um úthlutun framlaga. Í upphafi hvers fjárhagsárs skal liggja fyrir tillaga ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs til ráðherra um áætlað greiðsluhlutfall sjóðsins til sveitarfélaga.

Við úthlutun framlaga til einstakra sveitarfélaga skal miða við grunnfjárhæðir húsaleigubóta samkvæmt gildandi reglugerð um húsaleigubætur.


3. gr.

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga skulu greidd ársfjórðungslega. Greiðslurnar skulu inntar af hendi eigi síðar en 20 dögum frá lokum ársfjórðungsins, þ.e. 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar, ár hvert enda hafi fullnægjandi umsókn ásamt skilagrein borist sjóðnum a.m.k. 15 dögum fyrir greiðsludag.

Berist fullnægjandi umsókn ásamt skilagrein síðar en tilgreint er í 1. mgr. frestast greiðsla fram á næsta tilgreindan greiðsludag. Framlög falla niður hafi fullnægjandi gögn ekki borist innan 6 mánaða frá greiðsludegi viðkomandi tímabils.

Við hverja ársfjórðungslega greiðslu úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skal sjóðurinn halda eftir 5% af útreiknaðri greiðslu til þess að mæta því ef heildargreiðslur sveitarfélaga fara fram úr áætlunum þeirra, sbr. 2. mgr. 4. gr. eða fjármagn skv. 1. mgr. 2. gr. reynist minna en áætlað var í upphafi árs. Endanlegt uppgjör Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á greiðslum til sveitarfélaga vegna fyrra árs skal fara fram í janúar ár hvert. Áður en að endanlegu uppgjöri kemur skal greiddur kostnaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þessa verkefnis.


4. gr.

Sveitarfélög skulu skila upplýsingum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á þar til gerðum eyðublöðum Jöfnunarsjóðs, ásamt lista þar sem fram kemur nafn, lögheimili, aðsetur og kennitala þeirra sem hafa fengið greiddar húsaleigubætur, ásamt upplýsingum um fjárhæðir bóta.

Sveitarfélög skulu jafnframt skila fyrir 1. desember ár hvert áætlun til Jöfnunarsjóðs á þar til gerðum eyðublöðum, um heildargreiðslu húsaleigubóta næsta árs miðað við grunnfjárhæðir bóta, sbr. 3. mgr. 2. gr.

Sveitarfélög skulu skila fyrir 1. febrúar ár hvert yfirliti yfir greiðslur húsaleigubóta fyrra árs undirrituðu af framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og staðfestu af löggiltum endurskoðanda sveitarfélagsins. Komi fram mismunur á staðfestu yfirliti frá endurskoðanda og innsendum ársfjórðungslegum umsóknum sveitarfélags vegna sama árs skal gerð grein fyrir þeim mismun. Skýringar þessar skulu fylgja staðfestingu endurskoðanda. Jafnframt er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að kalla eftir frekari upplýsingum og gögnum frá viðkomandi sveitarfélagi ef ástæða þykir til.


5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 4. gr. skulu sveitarfélög skila áætlun til Jöfnunarsjóðs um heildargreiðslu húsaleigubóta vegna ársins 2003 fyrir 1. mars 2003.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 4. gr. skulu sveitarfélög skila yfirliti yfir greiðslur húsaleigubóta ársins 2002 undirrituðu af framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og staðfestu af löggiltum endurskoðanda sveitarfélagsins fyrir 1. mars 2003.


Félagsmálaráðuneytinu, 12. febrúar 2003.

Páll Pétursson.
Óskar Páll Óskarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica