Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

694/2010

Reglugerð um almannaflug flugvéla.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja flugöryggi við starfrækslu flugvéla í almannaflugi.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til alls almannaflugs með íslenskum og erlendum flugvélum sem fljúga um íslenska lofthelgi, þar með talið kennsluflugs. Reglugerðin tekur einnig til almannaflugs íslenskra flugvéla í millilandaflugi nema öðruvísi sé fyrirmælt í lögum, reglugerðum og/eða verklagsreglum þeirra ríkja þar sem starfræksla fer fram.

3. gr.

Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi orð eða orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Aðflug og lending þar sem notaðar eru verklagsreglur um blindaðflug (Approach and landing operations using instrument approach procedures): Blindaðflug og lendingar eru flokkaðar sem hér segir:

Grunnaðflug og lending (Non-precision approach and landing operations): Blindaðflug og lending þar sem notuð er stefnubeinandi leiðsaga en ekki leiðsaga í lóðréttum fleti.

Aðflug og lending með leiðsögu í lóðréttum fleti (Approach and landing operations with vertical guidance): Blindaðflug og lending þar sem notuð er stefnubeinandi leiðsaga og leiðsaga í lóðréttum fleti sem þó uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru til nákvæmnisaðflugs og lendingar.

Nákvæmnisaðflug og lending (Precision approach and landing operations): Blindaðflug og lending þar sem notuð er stefnubeinandi nákvæmnisleiðsaga og nákvæmnisleiðsaga í lóðréttum fleti með lágmörkum sem ákvarðast af flokki starfrækslunnar.

Flokkar nákvæmnisaðflugs og lendingar:

I. flokkur (CAT I). Nákvæmnisblindaðflug og -lending með:
a) ákvörðunarhæð sem er ekki undir 60 m (200 fetum); og
b) annaðhvort með skyggni sem ekki er minna en 800 m eða flugbrautarskyggni sem ekki er minna en 550 m.

II. flokkur (CAT II). Nákvæmnisblindaðflug og -lending með:
a) ákvörðunarhæð, sem er undir 60 m (200 fetum) en ekki undir 30 m (100 fetum); og
b) flugbrautarskyggni sem ekki er minna en 300 m.

III. flokkur A (CAT IIIA). Nákvæmnisblindaðflug og -lending með:
a) ákvörðunarhæð, sem er undir 30 m (100 fetum) eða án ákvörðunarhæðar; og
b) flugbrautarskyggni sem er ekki minna en 200 m.

III. flokkur B (CAT IIIB). Nákvæmnisblindaðflug og -lending með:
a) ákvörðunarhæð, sem er undir 15 m (50 fetum) eða án ákvörðunarhæðar; og
b) flugbrautarskyggni sem er minna en 200 m en ekki minna en 75 m.

Almannaflug (General aviation operation): Flug loftfars, annað en flutningaflug eða verkflug.

Ákvörðunarflughæð eða ákvörðunarhæð (Decision altitude (DA) or decision height (DH)): Ákveðin flughæð/hæð í nákvæmnisaðflugi eða aðflugi með leiðsögu í lóðréttum fleti þar sem ákvörðun er tekin um að hefja fráflug ef lágmarksviðmiðun um nauðsynlega sýn til kennileita, til þess að halda áfram aðflugi, hefur ekki verið náð.

Blindflugsskilyrði (Instrument meteorological conditions (IMC)): Veðurskilyrði neðan við lægstu mörk sjónflugsskilyrða, tilgreind sem skyggni, fjarlægð frá skýjum og skýjaþekjuhæð.

Fartími (Flight time): Allur tíminn frá því að flugvél hreyfist fyrst, þegar fyrirhugað er flugtak, þar til hún stöðvast að afloknu flugi.

Flugáætlun (Flight plan): Tilteknar upplýsingar um fyrirhugað flug eða hluta þess, sem látnar eru flugumferðarþjónustudeild í té.

Flugbrautarskyggni (Runway visual range (RVR)): Sú fjarlægð sem flugmaður loftfars á miðlínu flugbrautar getur séð yfirborðsmerkingar á flugbraut eða ljósin sem afmarka hana eða sýna miðlínu hennar.

Flughandbók (Flight manual): Handbók, sem tengd er lofthæfivottorðinu, þar sem tilgreint er innan hvaða marka loftfarið er talið lofthæft og gefnar eru nauðsynlegar leiðbeiningar og upplýsingar fyrir flugliða um örugga starfrækslu loftfarsins.

Flugliði (Flight crew member): Áhafnarmeðlimur sem er handhafi flugliðaskírteinis og er falið starf sem er nauðsynlegt starfsemi loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugrekandaskírteini (Air operator certificate, AOC): Skírteini sem heimilar rekstraraðila að starfrækja tiltekna tegund atvinnuflugs.

Flugriti (Flight recorder): Hvers konar skráningarbúnaður sem er settur í loftfarið og getur nýst við rannsókn slysa eða óhappa, þar með talið ferðariti (flight data recorder) og hljóðriti (voice recorder).

Flugstjóri (Pilot-in-command): Flugmaður sem tilnefndur er af flugrekanda eða eiganda loftfarsins til að fara með yfirstjórn um borð í loftfarinu og ber ábyrgð á ferðum og öryggi loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugvallarlágmörk (Aerodrome operating minima): Nothæfismörk flugvallar við:

a) flugtak, gefin upp sem flugbrautarskyggni og/eða skyggni og, ef nauðsynlegt er, skýjafar;
b) lendingu, þegar um er að ræða nákvæmnisaðflug og lendingu, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og ákvörðunarflughæð/-hæð (DA/H) eftir því sem við á fyrir starfrækslu samkvæmt viðkomandi flokki;
c) lendingu, þegar um er að ræða aðflug og lendingu með leiðsögu í lóðréttum fleti, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og ákvörðunarflughæð/-hæð (DA/H); og
d) lendingu, þegar um er að ræða grunnaðflug og lendingu, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og lágmarkslækkunarflughæð/-hæð (MDA/H) og, ef nauðsynlegt er, skýjafar.

Flugverji (Crew member): Áhafnarliði sem gegnir starfi um borð í flugvél meðan á fartíma stendur.

Flugvél (Aeroplane): Vélknúið loftfar, þyngra en loft, sem helst á flugi aðallega vegna verkana loftsins á vængfleti sem eru óhreyfanlegir meðan á tilteknum þætti flugsins stendur.

Flugvöllur (Aerodrome): Tiltekið svæði á láði eða legi, að meðtöldum byggingum og búnaði sem að nokkru eða öllu leyti er ætlað til afnota við komu, brottför og hreyfingar loftfara á jörðu niðri.

Flugþjálfi (Synthetic flight trainer): Sameiginlegt heiti yfir tæki á jörðu þar sem líkt er eftir flugaðstæðum. Til þeirra teljast:

Flughermir (Flight simulator) sem gefur svo nákvæma mynd af stjórnrými tiltekinnar tegundar loftfars að stjórn vélrænna kerfa, rafmagns- og rafeindakerfa, svo og annarra kerfa, líkjast í raun því sem er í þessari tegund loftfars. Enn fremur líkjast umhverfi flugliða, getumörk loftfarsins og flugeiginleikar á sama hátt.

Flugaðferðarþjálfi (Flight procedures trainer) sem gefur raunhæfa mynd af stjórnrými þar sem líkja má eftir viðbrögðum mælitækja og stjórn á vélrænum kerfum, rafmagns- og rafeindakerfum, svo og öðrum kerfum, ásamt getumörkum og flugeiginleikum loftfars af tilteknum flokki.

Blindflugsþjálfi (Basic instrument flight trainer) sem búinn er viðeigandi mælitækjum til að líkja eftir aðstæðum í stjórnrými loftfars á flugi í blindflugsskilyrðum.

Flutningaflug (Commercial air transport operation): Starfræksla loftfars sem felur í sér flutninga á farþegum, vörum eða pósti gegn endurgjaldi.

Geðvirk efni (Psychoactive substances): Alkóhól, ópíumefni, kannabisefni, róandi lyf og svefnlyf, kókaín, önnur geðörvandi lyf, ofskynjunarlyf, rokgjörn leysiefni. Undanskilin eru kaffi og tóbak.

Hringaðflug: Aðflug flugvélar sem flýgur síðasta hluta blindaðflugs í sjónflugi til þess að komast á rétta stefnu til lendingar á braut sem liggur ekki vel við beinu aðflugi.

Hættulegur varningur (Dangerous goods): Hlutir eða efni sem geta stofnað heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfinu í hættu og sem er að finna í skránni yfir hættulegan varning í tæknilegu fyrirmælunum eða eru flokkuð í samræmi við þessi fyrirmæli.

Lagarflugvél (Seaplane): Flugvél sem getur athafnað sig á yfirborði vatns eða sjávar, ýmist á flotum (flotflugvél) eða bol vélarinnar (flugbátur).

Landflugvél (Landplane): Flugvél sem hefur sig á loft og lendir einvörðungu á landi.

Lágmarksflughæð yfir hindrun eða lágmarkshæð yfir hindrun (Obstacle clearance altitude (OCA) or Obstacle clearance height (OCH)): Minnsta flughæð eða minnsta hæð fyrir ofan landhæð viðkomandi þröskulds flugbrautar eða landhæð flugvallar eftir því sem við á, sem ákveðin er til að ná tilskildum aðskilnaði frá hindrunum.

Lágmarkslækkunarflughæð eða lágmarkslækkunarhæð (Minimum descent altitude (MDA) or Minimum descent height (MDH)): Tiltekin flughæð/hæð sem ekki má fljúga niður fyrir í hringaðflugi eða grunnaðflugi nema nauðsynleg sýn sé til kennileita.

Leiðarflugsáætlun: Áætlun um öruggan framgang flugs, gerð með hliðsjón af getumörkum loftfars, öðrum starfrækslutakmörkunum og þeim ytri skilyrðum sem skipta máli og búist er við á fyrirhugaðri flugleið og á viðkomandi flugvöllum.

Loftfar (Aircraft): Sérhvert tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.

Lóðrétt heildarskekkja (Total vertical error (TVE)): Lóðréttur rúmfræðilegur munur milli raunverulegrar málþrýstingshæðar, sem loftfar flýgur í, og heimilaðrar málþrýstingshæðar (fluglags).

Markhreyfill (Critical engine): Sá hreyfill sem hefði óhagstæðust áhrif á afkastagetu og stjórn loftfars ef hann yrði óvirkur.

Marköryggisstig (Target level of safety (TLS)): Almennt hugtak sem segir til um áhættustig sem telst viðunandi við tilteknar aðstæður.

Neyðareldsneyti (Final reserve fuel): Hluti af varaeldsneyti þ.e. endanlegt varaeldsneyti. Þegar flogið er í samræmi við blindflugsreglur skal lýsa yfir neyðarástandi ef nothæft eldsneyti um borð verður minna en neyðareldsneytið.

Neyðarsendir (ELT - Emergency locator transmitter): Almennt heiti á búnaði sem sendir greinileg merki á tíðnisviðum 406 MHz og 121,5 MHz og fer í gang sjálfvirkt við árekstur eða er settur handvirkt í gang eftir notkunargildi. Neyðarsendir getur verið af eftirfarandi gerðum:

Sjálfvirkur, fastur neyðarsendir (Automatic Fixed ELT (ELT(AF))): Sjálfvirkur neyðarsendir sem er festur á varanlegan hátt við loftfar.

Sjálfvirkur, beranlegur neyðarsendir (Automatic Portable ELT (ELT(AP))): Sjálfvirkur neyðarsendir sem er tryggilega festur við loftfar en hægt er að losa auðveldlega frá því.

Sjálfvirkur, sjálflosandi neyðarsendir (Automatic Deployable ELT (ELT(AD))): Neyðarsendir sem er tryggilega festur við loftfar en losnar sjálfvirkt frá loftfari og fer í gang við árekstur og í sumum tilvikum við snertingu við vatn. Einnig er hægt að setja hann í gang handvirkt.

Neyðarsendir fyrir þá sem komast af (Survival ELT (ELT(S))): Neyðarsendir sem hægt er að losa úr loftfari og er þannig fyrirkomið að hann er auðveldlega tiltækur í neyð og þeir sem komast lífs af geta notað hann handvirkt.

Nótt (Night): Tíminn á milli loka ljósaskipta að kvöldi og að upphafi ljósaskipta að morgni. Ljósaskipti enda að kvöldi þegar miðpunktur sólar er 6° fyrir neðan sjóndeildarhring og hefjast að morgni þegar miðpunktur sólar er 6° fyrir neðan sjóndeildarhring eða annað slíkt tímabil milli sólseturs og sólarupprásar sem Flugmálastjórn Íslands kann að mæla fyrir um.

RCP-flokkur (RCP type): Flokkun (t.d. RCP-240) sem endurspeglar gildi sem úthlutuð eru breytum vegna getu í fjarskiptum.

RNP-flokkur (RNP type): Afmörkunargildi, gefið upp sem fjarlægð í sjómílum frá áætluðum ferli þar sem loftfarið er innan þeirra marka a.m.k. 95% af heildarflugtímanum. Dæmi: RNP-4 sýnir nákvæmni í leiðsögu sem er plús eða mínus 4 sjómílur (7,4 km) með 95% öryggi.

Rekstraraðili (Operator): Einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem starfrækir eða býðst til að starfrækja loftfar. Í flutningaflugi nefnist rekstraraðili flugrekandi enda byggist heimild hans til rekstursins á flugrekandaskírteini.

Sjónflug (VFR flight): Flug samkvæmt sjónflugsreglum.

Sjónflugsskilyrði (Visual meteorological conditions (VMC)): Veðurskilyrði sem eru tilgreind sem skyggni, fjarlægð frá skýjum og sem skýjaþekjuhæð og eru jafngóð eða betri en tilgreind lágmörk.

Skekkja í hæðarmælingarkerfi (Altimetry system error (ASE)): Munurinn á milli flughæðar sem hæðarmælir sýnir, að því gefnu að loftþrýstingsstillingin á hæðarmælinum sé rétt, og þeirrar málþrýstingshæðar sem svarar til ótruflaðs umhverfisþrýstings.

Skráningarríki (State of registry): Ríkið sem hefur hlutaðeigandi loftfar á loftfaraskrá sinni.

Stýrakerfi: Kerfi með sjálfvirku lendingarkerfi og/eða lendingarkerfi með blandaðri tækni.

Bilunarhlutlaust stýrakerfi: Stýrakerfi telst bilunarhlutlaust verði ekki veruleg breyting á stillingu stýra eða frávik frá flugslóð eða flughorfi ef bilun verður, en lendingu er ekki lokið sjálfvirkt. Ef sjálfstýring er bilunarhlutlaus tekur flugmaður við stjórn flugvélarinnar eftir að bilun verður.

Bilunarstarfhæft stýrakerfi: Stýrakerfi telst bilunarstarfhæft ef unnt er að ljúka aðflugi, sléttingu og lendingu sjálfvirkt ef bilun verður undir viðbúnaðarhæð. Verði bilun starfar sjálflendingarkerfið eins og bilunarhlutlaust kerfi.

Bilunarstarfhæft lendingarkerfi með blandaðri tækni: Kerfi þar sem aðalkerfið er bilunarhlutlaust sjálflendingarkerfi með undirkerfi sem er sjálfstætt leiðsögukerfi og gerir flugmanninum kleift að ljúka lendingu handvirkt ef aðalkerfið bilar.

Tilskilin geta í fjarskiptum (Required communication performance (RCP)): Lýsing á getu í fjarskiptum sem er nauðsynleg til stuðnings sértækum aðgerðum rekstrarstjórnunar flugumferðar (ATM).

Tilskildar kröfur um nákvæmni í leiðsögu (Required navigation performance (RNP) specification): Lýsing á þeirri nákvæmni í leiðsögu sem nauðsynleg er fyrir starfrækslu í skilgreindu loftrými.

Varaflugvöllur (Alternate aerodrome): Flugvöllur sem fljúga má loftfari til þegar ógerlegt eða óráðlegt er að halda áfram til eða lenda á þeim flugvelli þar sem áætlað var að lenda. Til varaflugvalla teljast eftirfarandi:

Varaflugvöllur við flugtak (Take-off alternate): Varaflugvöllur, sem unnt er að lenda á ef nauðsyn krefur skömmu eftir flugtak, ef ekki er gerlegt að nota brottfararflugvöll.

Varaflugvöllur á flugleið (En-route alternate): Varaflugvöllur, sem loftfar gæti lent á ef upp kæmi óvenjulegt ástand eða neyðarástand á flugleið.

Varaflugvöllur ákvörðunarstaðar (Destination alternate): Varaflugvöllur, sem fljúga má til, ef ógerlegt eða óráðlegt reynist að lenda á ákvörðunarflugvelli.

Veðurfræðilegt stjórnvald (Meterological Authority): Í skilningi reglugerðar þessarar er Flugmálastjórn Íslands veðurfræðilegt stjórnvald sem tryggir, fyrir hönd Íslands, að veðurþjónusta sé veitt fyrir flugleiðsögu.

Veðurupplýsingar (Meterological information): Veðurskeyti, veðurgreiningar, veðurspár og hverskonar lýsing um ríkjandi eða væntanleg veðurskilyrði.

Verkflug (Aerial work): Starfræksla loftfars í sérhæfðri starfsemi og þjónustu, svo sem í landbúnaði, byggingavinnu, við ljósmyndun, landmælingar, athuganir og eftirlit úr lofti, leit og björgun, auglýsingaflugi o.s.frv.

Viðgerð (Repair): Lagfæring á framleiðsluvöru til flugs, eftir að hún hefur skemmst eða slitnað, til að koma henni aftur í lofthæft ástand í því skyni að tryggja að loftfarið uppfylli áfram hönnunarþætti viðeigandi lofthæfikrafna sem lagðar voru til grundvallar útgáfu tegundarvottorðs fyrir viðkomandi tegund loftfars.

Viðhald (Maintenance): Framkvæmd verka sem nauðsynleg eru til að tryggja áframhaldandi lofthæfi loftfars, þ.m.t. hvert eftirfarandi atriða eitt sér eða sambland þeirra: grannskoðun, skoðun, endurnýjun, lagfæring galla og framkvæmd á breytingum eða viðgerðum.

Viðhaldsáætlun (Maintenance programme): Skjal þar sem lýst er tiltekinni, reglubundinni viðhaldsvinnu, hversu oft hún er unnin og tengdum verklagsreglum, t.d. áreiðanleikaáætlun, sem þarf fyrir örugga starfrækslu þeirra loftfara sem skjalið gildir um.

Viðhaldsvottorð (Maintenance release): Skjal sem inniheldur vottun sem staðfestir að viðhaldsvinnunni, sem það vísar til, hafi verið lokið á fullnægjandi hátt, annaðhvort í samræmi við samþykkt gögn og verklagsreglur, sem lýst er í handbók um verklagsreglur viðhaldsfyrirtækisins, eða samkvæmt sambærilegu kerfi.

Viðlagaeldsneyti (Contingency fuel): Hluti af varaeldsneyti sem reiknað er með vegna ófyrirsjánlegra atvika.

Öryggistygi (Safety harness): Axla- og sætisólar sem nota má hvorar í sínu lagi, til þess að festa flugáhöfn eða farþega í sæti sínu.

4. gr.

Sérstök starfræksla flugvéla.

Sérstök starfræksla flugvéla, t.d. flug í skertu skyggni (CAT II/III) og flutningur á hættulegum varningi er háð leyfi Flugmálastjórnar Íslands.

5. gr.

Undanþáguheimild.

Flugmálastjórn Íslands getur veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar reglugerðar, enda sé sérstökum ástæðum til að dreifa sem réttlæti slíkt og flugöryggi ekki stefnt í hættu að mati stofnunarinnar.

6. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

7. gr.

Viðaukar.

Viðaukar I og II fylgja reglugerðinni og eru hluti hennar.

8. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi sá hluti viðauka nr. 6 við Chicago-samninginn um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on International Civil Aviation) er snýr að almannaflugi flugvéla.

Viðauki I við reglugerð þessa byggir að miklu leyti á köflum 1 til 7 og 9, í II. hluta viðauka 6 (International General Aviation - Aeroplanes) við Chicago-samninginn en viðauki II við reglugerðina byggir á viðbætum og fylgiskjölum við þann hluta.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 28. gr. e. og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 488/1997 um almannaflug með síðari breytingum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 18. ágúst 2010.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica