Iðnaðarráðuneyti

514/2003

Reglugerð um Orkusjóð. - Brottfallin

Felld brott með:

I. KAFLI
1. gr.
Stjórnskipan.

Orkusjóður er eign ríkisins og ber það ábyrgð á skuldbindingum hans. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum iðnaðarráðherra. Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkusjóðs. Hjá Orkustofnun starfar orkuráð, sbr. 6. gr. laga um Orkustofnun, sem gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði.


2. gr.
Hlutverk Orkusjóðs.

Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta skal gert með því:

1. að veita lán til að leita að jarðvarma þar sem hagkvæmt þykir til að draga úr kostnaði þjóðfélagsins við upphitun húsnæðis,
2. að veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda,
3. að veita styrki til sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi,
4. að veita styrki til verkefna sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni.

Orkusjóði er ekki heimilt að veita Orkustofnun styrki eða lán af fé sjóðsins.


3. gr.
Hlutverk orkuráðs.

Orkuráð skal gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði í samræmi við fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.

Orkuráð skal setja sér verklagsreglur er kveða á um hvernig hagað skuli meðferð láns- og styrkumsókna úr Orkusjóði. Í reglum þessum skal m.a. koma fram hvaða almennu viðmið orkuráð hefur þegar tekin er ákvörðun um tillögugerð að styrk- eða lánveitingum úr Orkusjóði. Að auki skulu tilgreind önnur skilyrði er orkuráð telur þörf á. Verklagsreglur orkuráðs vegna greiðslna úr Orkusjóði skulu staðfestar af ráðherra og birtar opinberlega.

Áður en tillaga er gerð um styrki eða lánveitingu úr Orkusjóði skal orkuráð leita umsagnar Orkustofnunar. Þegar um er að ræða umsögn um lánveitingar til leitar að jarðvarma skal koma fram mat á jarðfræðilegum og vinnslutæknilegum líkum á árangri og um fjárhagslegan ávinning af öflun jarðvarma.


4. gr.
Tekjur og gjöld.

Tekjur Orkusjóðs eru:

1. vextir af fé sjóðsins,
2. fé það sem veitt er í fjárlögum hverju sinni.

Orkustofnun er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að semja við aðila, sem hafa leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um umsjón og trygga vörslu fjár sjóðsins.
Allur kostnaður við rekstur Orkusjóðs greiðist af tekjum sjóðsins.


5. gr.
Gerð fjárhagsáætlana og ársreikninga.

Orkuráð skal á ári hverju semja tekju- og greiðsluáætlun fyrir Orkusjóð. Skal áætlun þessi send ráðherra í tæka tíð fyrir gerð fjárlagafrumvarps.

Orkustofnun skal gera eða láta útbúa ársreikning fyrir Orkusjóð eigi síðar en 1. mars ár hvert fyrir næst liðið ár og leggja hann fyrir orkuráð til umsagnar áður en reikningurinn er staðfestur.


6. gr.
Lánakjör Orkusjóðs.

Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum orkuráðs, vexti og önnur útlánakjör Orkusjóðs. Lán sem veitt eru skv. 1. tölul. 2. gr. skulu verðtryggð og til hæfilega langs tíma. Lánstími skal þó ekki vera lengri en tíu ár.


7. gr.
Heimild til niðurfellingar endurgreiðsluskyldu lána.

Ef tiltekin borun, sem lánað hefur verið til skv. 1. tölul. 2. gr., reynist árangurslaus eða árangur til muna lakari en gert var ráð fyrir þegar lánið var veitt eða kostnaður óeðlilega hár og ávinningur af notkun borholunnar til vinnslu jarðvarma því minni en upphaflega var gert ráð fyrir og fjárhagslegri afkomu lántaka stefnt í hættu af þessum sökum er ráðherra heimilt, að fenginni tillögu orkuráðs, að fella niður að hluta eða öllu leyti endurgreiðsluskyldu lántaka, skv. 1. tölul. 2. gr. Áður en orkuráð leggur mat á það hvort ofangreindar forsendur séu fyrir hendi skal leita álits Orkustofnunar.


8. gr.
Eftirlit.

Orkustofnun hefur eftirlit með þeim framkvæmdum sem Orkusjóður veitir fé til. Skylt er að láta fyrir fram í té fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugað verk og gefa Orkustofnun kost á að fylgjast í hvívetna með framkvæmd þess. Orkustofnun getur sett þau skilyrði um framkvæmd verksins sem það telur þörf á til að stuðla að sem bestum árangri. Orkustofnun skal tilkynna ráðherra ef skilyrðum sem hún setur er ekki fylgt. Ráðherra getur stöðvað greiðslur úr Orkusjóði til verksins ef út af er brugðið.


9. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 8. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun, tekur þegar gildi.


Iðnaðarráðuneytinu, 2. júlí 2003.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kristín Haraldsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica