Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

185/2016

Reglugerð um Orkusjóð.

1. gr.

Stjórnskipan.

Orkusjóður er eign ríkisins og ber það ábyrgð á skuldbindingum hans. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum ráðherra. Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkusjóðs. Ráðgjafarnefnd Orkusjóðs, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga, nr. 87/2003 um Orkustofnun, gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði.

2. gr.

Hlutverk Orkusjóðs.

Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta skal gert með því:

  a) að veita lán til að leita að jarðvarma þar sem hagkvæmt þykir til að draga úr kostnaði þjóðfélagsins við upphitun húsnæðis,
  b) að veita styrki til sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi,
  c) að veita styrki til verkefna sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni.

Orkusjóði er ekki heimilt að veita Orkustofnun styrki eða lán af fé sjóðsins.

3. gr.

Hlutverk ráðgjafarnefndar.

Ráðgjafarnefnd skal gera tillögur til ráðherra um lánveitingar, styrki og aðrar einstakar greiðslur úr Orkusjóði í samræmi við fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.

Áður en tillaga er gerð um styrki eða lánveitingu úr Orkusjóði, eða niðurfellingu á endur­greiðslu­skyldu lána skv. 15. gr., skal ráðgjafarnefnd leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga eftir því sem við á.

Að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar setur ráðherra reglur um hvernig ráðgjafarnefnd skuli starfa, svo sem varðandi hlutverk og skyldur ráðgjafarnefndar, tíðni funda, fundargerðir o.þ.h. Verklags­reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.

4. gr.

Tekjur og gjöld.

Tekjur Orkusjóðs eru:

 1. Vextir af fé sjóðsins.
 2. Fé það sem veitt er í fjárlögum hverju sinni.

Orkustofnun er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að semja við aðila sem hafa leyfi til fjár­vörslu lögum samkvæmt, um umsjón og trygga vörslu fjár sjóðsins.

Allur kostnaður við rekstur Orkusjóðs greiðist af tekjum sjóðsins.

5. gr.

Gerð fjárhagsáætlana og ársreikninga.

Ráðgjafarnefnd skal á ári hverju semja tekju- og greiðsluáætlun fyrir Orkusjóð. Skal áætlun þessi send ráðherra í tæka tíð fyrir gerð fjárlagafrumvarps. Í fjárhags- og greiðsluáætlun skal ákveðið það fjármagn, sem til ráðstöfunar er til lána og styrkveitinga hverju sinni.

Orkustofnun skal gera eða láta útbúa ársreikning fyrir Orkusjóð eigi síðar en 1. mars ár hvert fyrir næstliðið ár og leggja hann fyrir ráðgjafarnefnd til umsagnar áður en reikningurinn er staðfestur.

6. gr.

Almennir styrkir Orkusjóðs.

Almennir styrkir Orkusjóðs eru veittir til verkefna sem stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins, stuðla að notkun innlendrar orku í stað jarðefnaeldsneytis eða stuðla að orkusparnaði.

Ráðgjafarnefnd Orkusjóðs ákvarðar sérstök áhersluatriði við úthlutun almennra styrkja hverju sinni og skulu þau koma fram í auglýsingu. Í auglýsingu skal jafnframt koma fram umsóknarfrestur og hvenær afgreiðsla umsókna liggur fyrir.

7. gr.

Sérstakir styrkir Orkusjóðs.

Sérstakir styrkir Orkusjóðs eru ætlaðir til skilgreindra og afmarkaðra verkefna á eftirtöldum svið­um:

  a) Styrkir til verkefna sem stuðla að samdrætti í olíunotkun til húshitunar eða rafmagns­framleiðslu utan veitna.
  b) Styrkir til verkefna sem leiði til lægri kostnaðar við óniðurgreidda rafkyndingu húsnæðis eða mannvirkja í eigu sveitarfélaga.
  c) Styrkir til verkefna er leiða til orkusparnaðar. 

8. gr.

Auglýsing styrkja úr Orkusjóði.

Styrkir úr Orkusjóði, sbr. 6. og 7. gr., geta hæst numið 50% af áætluðum kostnaði einstakra verkefna. Jafnframt getur ráðgjafarnefnd ákvarðað hámarksupphæð styrks til einstakra verkefna. Sé það gert þá skal geta um hámarksupphæðina þegar styrkirnir eru auglýstir.

Við úthlutun sérstakra styrkja er lögð áhersla á að þau verkefni sem styrkt eru skili tilætluðum árangri. Í auglýsingu hverju sinni setur ráðgjafarnefnd fram nánari skilgreiningu og tilgreinir áhersluatriði varðandi verkefni. Í auglýsingu skal koma fram umsóknarfrestur og hvenær afgreiðsla umsókna liggur fyrir.

9. gr.

Umfjöllun og afgreiðsla styrkumsókna.

Umsóknum til Orkusjóðs skal skila á rafrænu formi sem er að finna á vef Orkustofnunar. Í umsókn­inni skal m.a. koma fram nákvæm lýsing á eðli og tilgangi verkefnis, kostnaðaráætlun, fjár­mögnun þess og verktími, sem og aðrar þær upplýsingar sem óskað er eftir á umsóknar­eyðublaði.

Að umsóknarfresti liðnum skal ráðgjafarnefnd taka umsóknir til umfjöllunar og leita umsagna Orkustofnunar um þær. Að fengnum umsögnum Orkustofnunar gerir ráðgjafarnefndin tillögur til ráðherra. Ráðgjafarnefnd er ekki bundin af umsögnum Orkustofnunar. Ef ekki reynist unnt að verða við öllum gildum umsóknum, þá velur ráðgjafarnefndin úr þeim og forgangsraðar á grundvelli fyrir­fram skilgreindra atriða, svo sem gæða verkefna og þeirra áhersluatriða sem fram koma í aug­lýs­ingu, sbr. 8. gr.

Afgreiðsla ráðgjafarnefndar er í formi tillögu til ráðherra. Í tillögu til ráðherra skal fylgja rök­stuðn­ingur fyrir tillögu um styrkveitingu sem og listi yfir þær umsóknir sem ekki er lagt til að verði styrktar.

Skrifleg afgreiðsla ráðherra er hin endanlega afgreiðsla umsókna um styrki úr Orkusjóði.

Orkusjóður tilkynnir umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsókna.

10. gr.

Skilyrði fyrir útgreiðslum styrkja úr Orkusjóði.

Svo hægt sé að greiða út styrki til styrkþega að lokinni afgreiðslu skv. 9. gr. þarf eftirfarandi að liggja fyrir:

 1. Ákvörðun ráðherra um styrkveitinguna.
 2. Skriflegur samningur milli Orkusjóðs og styrkþega um verkefnið.
 3. Skrifleg staðfesting á að fjármögnun hafi gengið eftir eins og gert var ráð fyrir í umsókn.
 4. Skrifleg staðfesting um að verk sé hafið.

Styrkir Orkusjóðs greiðast í þrennu lagi, þ.e. í þremur jöfnum greiðslum þegar skrifleg staðfesting um að verk sé hafið liggur fyrir. Fyrsta greiðsla (1/3) styrkupphæðarinnar fer fram við upphaf verks. Önnur greiðsla (1/3) er innt af hendi þegar styrkþegi metur það svo að verk sé hálfnað og sendir greinargerð eða áfangaskýrslu þar um til Orkusjóðs. Lokagreiðsla (1/3) fer fram þegar styrkþegi hefur skilað lokaskýrslu um verkefnið og gögnin hafa hlotið samþykki Orkusjóðs.

Niðurstöður og lokaskýrslur verkefna sem styrkt hafa verið úr Orkusjóði skulu öllum aðgengilegar. Skýrslurnar skulu varðveittar á bókasafni Orkustofnunar og birtar á vef stofnunarinnar.

11. gr.

Jarðhitaleitarlán.

Orkusjóði er heimilt að veita lán til að leita að jarðvarma þar sem hagkvæmt þykir til að draga úr kostnaði þjóðfélagsins við upphitun húsnæðis, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga um Orkustofnun, nr. 87/2003. Um veitingu jarðhitalána gildir eftirfarandi:

 1. Lán úr Orkusjóði eru verðtryggð miðað við neysluverðsvísitölu.
 2. Lán úr Orkusjóði eru veitt gegn veði í öllum eignum fyrirhugaðrar hitaveitu, bújörð og/eða öðrum eignum eða öðrum tryggingum sem ráðgjafarnefnd metur fullnægjandi.
 3. Lánsupphæð getur hæst numið 60% af samþykktum lánshæfum kostnaði.
 4. Lán úr Orkusjóði eru veitt til allt að 10 ára.
 5. Vextir lána skulu taka mið af birtingu Seðlabanka Íslands um almenna vexti verðtryggðra lána, skv. lögum nr. 38/2001, með 1,5% álagi.
 6. Ráðgjafarnefnd leggur mat á áætlaðan lánshæfan kostnað áður en hann er samþykktur, en lánshæfur kostnaður telst vera:
  a) Sannanlegur undirbúningskostnaður vegna forkönnunar svæðis, sem ekki hefur verið styrktur af opinberu fé.
  b) Kostnaður vegna ráðgjafar jarðvísindamanna, sem ekki hefur verið styrktur af opinberu fé.
  c) Áætlaður kostnaður við aðstöðusköpun á borstað.
  d) Áætlaður kostnaður við jarðborunina sjálfa.

12. gr.

Umsóknir um lán.

Umsókn um lán skal berast Orkusjóði áður en verkefni hefst svo umsókn teljist hæf til umfjöllunar og afgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari. Lánsumsóknum skal skila á sérstöku umsóknar­eyðublaði sem finna má á heimasíðu Orkustofnunar.

13. gr.

Verklagsreglur við umfjöllun lánsumsókna.

Áður en ráðgjafarnefnd tekur umsókn um lán til jarðhitaleitar til umfjöllunar þurfa eftirfarandi gögn að liggja fyrir:

 1. Niðurstöður jarðvísindamanna: Við undirbúning jarðhitaleitar og borunar skal umsækjandi leita ráðgjafar jarðvísindamanna og skulu niðurstöður og tillögur þeirra fylgja umsókn. Í tillögunum skal skýrt tekið fram hver sé áætluð afkastageta svæðisins og einstakra borhola eftir því sem við á.
 2. Kostnaðaráætlun: Leggja skal fram kostnaðaráætlun fyrir væntanlega hitaveitu. Í áætluninni skal gerð ítarleg grein fyrir öllum forsendum sem hún byggist á, m.a. fjölda notenda sem henni munu tengjast. Skýrt þarf að koma fram hvaða notendur njóta niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði, sbr. lög nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, og hverjir ekki. Einnig þarf að koma fram hvort ætla megi að einhverjir notendur muni kjósa að standa utan hinnar væntanlegu hitaveitu og af hvaða ástæðum. Í kostnaðaráætlun skal bera saman það verð sem notendur greiða á þeim tíma miðað við áætlað orkuverð frá hinni fyrirhuguðu hitaveitu svo og aðra mögulega orkukosti. Skilyrði fyrir lánveitingu er að áætlað verð hinnar nýju hitaveitu komi jákvætt út úr þeim samanburði.

14. gr.

Afgreiðsla umsókna.

Þegar fyrir liggja öll áskilin gögn frá umsækjanda skal ráðgjafarnefnd leita umsagnar Orkustofnunar um lánsumsóknina og þau gögn og útreikninga er henni fylgja. Í umsögninni skal koma fram mat á jarðfræðilegum og vinnslutæknilegum líkum á árangri og um fjárhagslegan ávinning af öflun jarð­varma.

Að fenginni umsögn gerir ráðgjafarnefnd tillögu til ráðherra um það hvort veita skuli lán eða ekki.

Tillögu til ráðherra varðandi umsóknina skulu fylgja afrit þeirra gagna sem fyrir lágu við umfjöllun ráðgjafarnefndar.

Frágangur lánsskjala, þinglýsing og útgreiðsla lánsupphæðar fer fram þegar staðfesting ráðherra á lánveitingu liggur fyrir. Einnig skulu liggja fyrir afrit af verksamningi lántaka og borverktaka. Þá þarf að liggja fyrir að verkið verði unnið í samræmi við þá ráðgjöf og tillögur jarðvísindamanna og aðrar forsendur sem lánsumsóknin byggði á.

15. gr.

Heimild til niðurfellingar endurgreiðsluskyldu lána.

Ráðherra er heimilt, að fenginni tillögu ráðgjafarnefndar Orkusjóðs, að fella niður að hluta eða öllu leyti endurgreiðsluskyldu lántaka af jarðhitaleitarláni sem veitt hefur verið skv. 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/2003.

Áður en lán er veitt skal lántaka gerð skýr grein fyrir því hver upphæð niðurfellingar á endur­greiðslu­skyldu lánsins geti hæst orðið, komi til hennar sbr. 1. mgr., sem og hver skilyrði niður­fellingar eru. Til grundvallar skal byggja á upplýsingum um fjárhag umsækjanda og skulu þær upp­lýs­ingar fylgja tillögu ráðgjafarnefndar um lánveitingu til ráðherra.

Skilyrði fyrir niðurfellingu endurgreiðsluskyldu láns er að fjárhagslegri afkomu lántaka sé stefnt í hættu af eftirtöldum ástæðum:

  a) tiltekin borun sem lánað var til reynist árangurslaus eða árangur er til muna lakari en gert var ráð fyrir þegar lánið var veitt, eða
  b) kostnaður reynist óeðlilega hár og ávinningur af notkun borholunnar til vinnslu jarðvarma því minni en upphaflega var gert ráð fyrir í áætlunum.

Áður en ráðgjafarnefndin leggur mat á það hvort ofangreindar forsendur niðurfellingar séu fyrir hendi skal leita umsagnar Orkustofnunar.

16. gr.

Eftirlit.

Orkustofnun hefur eftirlit með þeim framkvæmdum sem Orkusjóður veitir fé til, samkvæmt reglu­gerð þessari. Skylt er að láta fyrir fram í té fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugað verk og gefa Orkustofnun kost á að fylgjast í hvívetna með framkvæmd þess. Orkustofnun getur sett þau skil­yrði um framkvæmd verksins sem talin er þörf á til að stuðla að sem bestum árangri. Orku­stofnun skal tilkynna ráðherra ef skilyrðum sem hún setur er ekki fylgt. Heimilt er að stöðva greiðslur úr Orkusjóði til verksins ef út af er brugðið.

17. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 8. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun, með síðari breyt­ingum, tekur þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 514/2003 um Orkusjóð. Um lán sem veitt hafa verið úr Orkusjóði fyrir gildistöku reglugerðar þessarar fer þó samkvæmt reglugerð nr. 514/2003.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. febrúar 2016.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Helga Barðadóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica