Iðnaðarráðuneyti

146/1994

Reglugerð um rafsegulssviðssamhæfi - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

1.1 Reglugerð þessi á við rafföng sem valdið geta rafsegultruflunum eða skil þeirra orðið fyrir áhrifum af slíkum truflunum. Í henni eru skilgreindar varnarkröfur og eftirlitsaðferðir sem tengjast þeim.

1.2 Ef varnarkröfur, tilgreindar í þessari reglugerð, eru samhæfðar með sérstökum reglugerðum hvað snertir ákveðin rafföng gildir hún ekki eða hættir að gilda varðandi þessi rafföng þegar hinar sérstöku reglugerðir taka gildi.

1.3 Þráðlaus fjarskiptatæki notuð, af áhugamönnum um þráðlaus fjarskipti (radíóamatörum) í skilningi 1. gr. skilgreiningar 53 í fjarskiptareglugerð sáttmála Alþjóðafjarskiptasambandsins, skulu ekki heyra undir þessa reglugerð nema tækin séu fáanleg á almennum markaði.

2.gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:

Ábyrgðaraðili: Sá aðili sem ber ábyrgð á markaðssetningu raffangs hér á landi. Ábyrgðaraðili getur verið framleiðandi eða innflytjandi. Á ábyrgðaraðila hvíla ákveðnar skyldur umfram aðra seljendur.

Gerðarprófunarvottorð: Skjal þar sem tilnefndur aðili, sem getið er um í 8. gr., vottar að sú gerð tækis sem athuguð hefur verið, sé í samræmi við þau ákvæði þessarar reglugerðar sem hana varða.

Ónæmi: Hæfni búnaðar, tækiseiningar eða kerfis til að starfa með óskertum gæðum þrátt fyrir rafsegultruflun.

Raffang: Öll rafmagns- og rafeindatæki ásamt búnaði og lögnum sem innihalda rafmagns og/eða rafeindaíhluti.

Rafsegulsviðssamhæfi: Hæfni búnaðar, tækiseiningar eða kerfis til að starfa með fullnægjandi hætti í rafsegulumhverfi sínu án þess að valda rafsegultruflunum til baga fyrir annað í því umhverfi.

Rafsegultruflun: Hvert það rafsegulfyrirbæri sem skert getur skil búnaðar, tækiseiningar eða kerfis. Rafsegultruflun getur verið rafsegulsuð, óæskilegt merki eða breyting í sjálfu útbreiðsluumhverfinu.

Samhæfðir staðlar: Staðlar sem samdir hafa verið með hliðsjón af grunnkröfum og samþykktir eru af Staðlasamtökum Evrópu (CEN) eða Rafstaðlasamtökum Evrópu (CENELEC), í umboði EB og EFTA.

Tilnefndur aðili: Prófunar-, vottunar- eða eftirlitsaðili sem er óháður aðilum að því er varðar viðkomandi viðfangsefni og stjórnvöld hafa tilnefnt til að annast samræmismat.

3. gr.

Markaðssetning.

3.1 Aðeins er heimilt að markaðssetja og taka í notkun rafföng, eins og þau eru skilgreind í reglugerð þessari, að þau samræmist kröfum reglugerðarinnar, séu rétt sett upp og við haldið og notuð í tilætluðum tilgangi.

3.2 Ekki má hindra, vegna ástæðna sem tengjast rafsegulsviðssamhæfi, að rafföng, sem falla undir þessa reglugerð og fullnægja kröfum hennar, séu sett á markað og tekin í notkun.

3.3 Stjórnvöld annast opinbera markaðsgæslu með þeim rafföngum sem undir reglugerð þessa falla. Ábyrgðaraðila er skylt að halda skrá yfir allar vörur, sem hann hefur á boðstólum, og hafa tiltæk afrit af vottorðum eða yfirlýsingum um samræmi eða varnarkröfur, sbr. 6. gr.

3.4 Hafi verið gengið úr skugga um að raffang, sem eitt af þeim staðfestingarskjölum sem kveðið er á um í 6. gr. fylgir, samræmist ekki varnarkröfunum sem um getur í 4. gr., skal gera allar viðeigandi ráðstafanir til að taka það af markaði, banna að það sé sett á markað eða takmarka frjálsan flutning þess. Komi til slíkra ráðstafana skal útgefanda viðkomandi staðfestingarskjals tilkynnt um það og öðrum viðeigandi ráðstöfunum fylgt.

Stjórnvöld skulu þegar í stað upplýsa eftirlitsstofnun EFTA um allar slíkar ráðstafanir, ásamt rökstuðningi og útskýringum.

4. gr.

Varnarkröfur.

4.1 Rafföngin skulu þannig byggð að:

1 ) þær rafsegultruflanir, sem þau valda, séu ekki meiri en svo að útvarps- og fjarskiptatæki og önnur tæki geti starfað eins, og til er ætlast, og

2) raffangið hafi nægilegt sjálftryggt ónæmi fyrir rafsegultruflunum til að það geti starfað eins og til er ætlast.

Helstu varnarkröfurnar eru tilgreindar í viðauka III.

4.2 Ákvæði 1. mgr. 4. gr. teljast uppfyllt þegar um er að ræða rafföng sem eru í samræmi við:

1 ) viðeigandi staðla sem yfirfærðir hafa verið frá samhæfðum stöðlum, eða

2) viðeigandi landsstaðla séu engir samhæfðir staðlar til fyrir þau svæði þar sem þessir staðlar gilda.

4.3 Hafi framleiðandi ekki beitt eða aðeins beitt að hluta, þeim stöðlum, sem vísað er til í 2. mgr. 4. gr., eða séu engir slíkir staðlar til skal litið svo á að raffang uppfylli varnarkröfur hafi það verið staðfest á þann hátt sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr.

4.4 Leiki vafi á, að þeir staðlar sem vísað er til í 2. mgr. 4. gr. uppfylli að öllu leyti þær kröfur sem um getur í 1. mgr. 4. gr. skal leggja málið fyrir fastanefnd á vegum EB til úrskurðar.

5. gr.

Sérstakar ráðstafanir.

5.1 Kröfur þessarar reglugerðar skulu ekki hindra að beitt sé eftirfarandi sérstökum ráðstöfunum:

1) ráðstöfunum, gerðum fyrir tiltekinn stað til að taka í þjónustu og notkun rafföng til að leysa vanda á sviði rafsegulsviðssamhæfi, sem fyrir hendi er eða búist er við, eða

2) ráðstöfunum til að setja upp rafföng sem fengin eru til að verja almenna fjarskiptakerfið eða sendi- eða viðtökustöðvar, notaðar í öryggisskyni.

5.2 Stjórnvöld skulu upplýsa eftirlitsstofnun EFTA og hin aðildarríki hins Evrópska efnahagssvæðis um þær sérstöku ráðstafanir sem gerðar hafa verið samkvæmt 1. mgr. 5. gr.

5.3 Sérstakar ráðstafanir sem hafa verið viðurkenndar sem réttmætar skulu auglýstar í EES-deild Stjórnartíðinda EB.

6. gr.

Samræmisvottorð.

6.1 Þegar um er að ræða raffang þar sem framleiðandinn hefur beitt stöðlunum sem um getur í 2. mgr. 4. gr. skal samræmi raffangsins vottað með samræmisvottorði sem ábyrgðarmaður með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu gefur út. Yfirlýsingin skal vera tiltæk fyrir bær yfirvöld í tíu ár frá því að raffangið er sett á markað.

Ábyrgðaraðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu skal einnig setja CE-merkið á raffangið eða á umbúðir, notkunarreglur eða ábyrgðarskírteini.

Ákvæði um CE-samræmisvottorðið og CE-merkið eru í viðauka I.

6.2 Þegar um er að ræða raffang þar sem framleiðandinn hefur ekki beitt eða aðeins beitt að hluta stöðlunum sem um getur í 2. mgr. 4. gr. eða ef slíkir staðlar eru ekki til skal ábyrgðaraðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu hafa skrá tæknilegra upplýsinga um uppbyggingu raffangsins tiltæka fyrir bær yfirvöld um leið og það er sett á markað. Í þessari skrá skal raffanginu lýst, tilteknar þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að tryggja að það samræmist þeim varnarkröfum sem getið er í 1. mgr. 4. gr. og í henni skal vera tæknileg skýrsla eða vottorð, annað tveggja fengið frá bærum aðila.

Skráin skal geymd tiltæk fyrir bær yfirvöld í tíu ár eftir að raffangið er sett á markað.

Samræmi raffangsins við það sem lýst er í tæknilegu skránni, sem getið er að framan, skal staðfest samkvæmt þeirri málsmeðferð sem lýst er í 1. mgr. 6. gr., enda uppfylli rafföngin varnarkröfur sem getið er í 4. gr.

7. gr.

Tæki fyrir þráðlaus fjarskipti.

Samræmi tækis, sem ætlað er til sendingar fyrir þráðlaus fjarskipti eins og þau eru skilgreind í sáttmála Alþjóðafjarskiptasambandsins, við ákvæði þessarar reglugerðar skal vottað samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 6. gr. þegar ábyrgðaraðili hefur fengið CE-gerðarprófunarvottorð fyrir umrætt tæki gefið út af samþykktri prófunarstofu eða tilnefndum aðila, sbr. 8. gr.

Þetta ákvæði gildir ekki um áðurgreind tæki þegar þau eru hönnuð og ætluð eingöngu fyrir áhugamenn um þráðlaus fjarskipti í skilningi 3. mgr. 1. gr.

8. gr.

Tilnefndir aðilar.

Iðnaðarráðuneytið tilnefnir aðila til að annast samræmisyfirlýsingu hér á landi, skv. reglugerð þessari og tilkynnir þá eftirlitsstofnun EFTA og hinum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Mat á tilnefndum aðila skal fara fram í samræmi við ákvæði 11. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu og skal Löggildingarstofan tilkynna ráðuneytinu niðurstöður þess mats. Tilnefndir aðilar skulu uppfylla ákvæði viðauka II eins og ráðuneytið kveður nánar á um. Uppfylli aðilar þau matsviðmið faggildingar sem sett eru í viðeigandi samhæfðum stöðlum (IST EN 45000) skal litið svo á að þeir uppfylli einnig kröfur sem gerðar eru til tilnefnds aðila.

Ef tilnefndur aðili uppfyllir ekki lengur tilskilin viðmið verður heimild hans dregin til baka. Það verður þegar í stað tilkynnt eftirlitsstofnun EFTA og hinum aðildarríkjunum Evrópska efnahagssvæðisins.

9. gr.

CE - merkið.

9.1 Einungis er heimilt að markaðssetja eða taka í notkun rafföng sem falla undir reglugerð þessa beri þau CE-merkið. CE-merkið er staðfesting á að raffangið sé í samræmi við kröfur reglugerðarinnar.

9.2 Ekki er heimilt að festa á rafföng, umbúðir þeirra, leiðbeiningar um notkun eða ábyrgðarskírteini merki sem líklegt er að villi um fyrir þriðja aðila hvað, varðar þýðingu og form CE-merkisins, eða hindri að það sjáist vel eða sé vel læsilegt.

9.3 Ef rafföng lúta ákvæðum annarra reglugerða um aðra þætti þar sem einnig er kveðið á um CE-samræmismerki skal þar tilgreina að raffangið samræmist reglugerð þessari.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins nr. 60/1979 og með hliðsjón af ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í X. kafla II. viðauka, tilskipun ráðsins 89/336/EBE frá 3. maí 1989 um samræmingu laga aðildarríkja EES um rafsegulsviðssamhæfi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

12. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Á tímabilinu fram til 31. desember 1995 er heimilt að sett séu á markað eða tekin í notkun rafföng sem getið er um í reglugerð þessari séu þau í samræmi við reglugerðir sem voru í gildi hér á landi hinn 30. júní 1992.

Iðnaðarráðuneytið, 28. febrúar 1994.

F. h. r.

Þorkell Helgason.

Sveinn Þorgrímsson.

VIÐAUKI I.

1. CE-SAMRÆMISVOTTORÐ.

CE-samræmisvottorðið verður að innihalda eftirfarandi:

- lýsingu á tækinu sem hún á við,

- tilvísanir til tækniforskrifta sem lýst er yfir samræmi við og, ef við á, þeirra ráðstafana sem gerðar eru í einstökum löndum til að tryggja samræmi tækjanna við ákvæði tilskipunar nr. 89/336/EBE, sem gildir á Evrópsku efnahagssvæði,

- deili á þeim sem undirritar og hefur umboð til að skuldbinda framleiðandann eða umboðsmann hans,

- ef við á, tilvísun til CE-gerðarprófunarvottorðsins sem gefið er út af tilkynntum aðila.

2. CE-MERKI.

- CE-merkið skal gert úr bókstöfunum CE eins og sýnt er hér að neðan og ártalinu þegar það er sett á.

- Þessu merki skulu, eftir því sem við á, fylgja þeir einkennisstafir sem notaðir eru af tilkynnta aðilanum sem gefur út CE-gerðarprófunarvottorðið.

- Þegar tækin falla undir aðrar reglugerðir sem kveða á um CE- merki skal áfest merkið einnig gefa til kynna samræmi við tilheyrandi kröfur þeirra reglugerða.

VIÐAUKI II.

VIÐMIÐ FYRIR MAT Á TILNEFNDUM AÐILUM.

Aðilar þeir sem tilnefndir eru til að annast samræmismat verða að uppfylla eftirfarandi lágmarksskilyrði:

1. þeir verða að hafa starfsfólk, fjármuni og búnað eins og þörf krefur;

2. starfsfólkið verður að hafa nauðsynlega tækniþekkingu og sýna fullkominn heiðarleika í fagi sínu;

3. Stjórnendur og tæknimenn, sem sjá um prófanir, skýrslur, útgáfu vottorða og eftirlitsaðgerðir sem gert er ráð fyrir í reglugerð þessari, verða að vera óháðir öllum hagsmunahópum, flokkum eða persónum sem beint eða óbeint eiga hagsmuna að gæta á því vörusviði sem um er að ræða;

4. starfsfólkið er bundið þagnarskyldu;

5. Undirrita verður samning um ábyrgðartryggingu nema ríkið sé skaðabótaskylt samkvæmt landslögum.

Bær yfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu hafa reglubundið eftirlit með því að skilyrðum, tilgreindum í 1. og 2. lið, sé fullnægt.

VIÐAUKI III.

SKÝRINGALISTI YFIR HELSTU VARNARKRÖFUR.

Rafsegultruflanir frá tækjum mega ekki vera svo miklar að þær hamli einkum notkun eftirtalinna tækja:

a) útvarps- og sjónvarpstækja til heimilisnota;

b) tækja til iðnaðarframleiðslu;

c) ferðaútvarpstækja;

d) farstöðva og farsíma;

e) lækninga- og vísindatækja;

f) upplýsingatæknibúnaðar;

g) heimilistækja og rafeindabúnaðar til heimilisnota;

h) loftsiglingatækja og skipatalstöðva;

i) rafeindabúnaðar til kennslu;

j) fjarskiptaneta og tækja;

k) senda fyrir hljóðvarp og sjónvarp;

l) ljósa og flúrlampa.

Tæki, einkum þau sem nefnd eru í liðum a - 1, ber að smíða þannig að þau hafi nægilegt rafsegulónæmi til að samhæfast því rafsegulumhverfi sem þeim er ætlað að vera í svo að þau geti starfað óhindrað við þær truflanir sem skapast af tækjum er samræmast stöðlunum sem tilgreindir eru í 4. gr.

Allar upplýsingar sem þörf er á til að nota tækið eins og til er ætlast, verða að vera í leiðbeiningum sem því fylgja.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica