Viðskiptaráðuneyti

270/2008

Reglugerð um rafsegulsamhæfi. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um rafsegulsamhæfi tækja og fasts búnaðar og skilgreinir hvaða kröfur skuli gerðar til tækja og fasts búnaðar þannig að þau valdi ekki rafsegultruflunum og sé því heimilt að markaðssetja hér á landi og innan EES-svæðisins. Skilgreindar eru grunnkröfur og reglur um rafsegulsamhæfi er varða framleiðslu og starfrækslu slíks búnaðar og eftirlitsaðferðir sem því tengjast.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

  1. búnað sem fellur undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/5/EB um þráðlausan búnað og endabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra, sem innleidd er í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 90/2007,
  2. flugtæknilegar framleiðsluvörur, íhluti og búnað sem vísað er til í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1592/2002 frá 15. júlí 2002 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, sem innleidd er í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 612/2005 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu,
  3. þráðlausan búnað sem radíóáhugamenn nota og fellur undir alþjóða fjarskipta­reglur samþykktar innan ramma stofnskrár og samnings Alþjóðafjarskipta­sambandsins, nema verslað sé með búnaðinn á frjálsum markaði. Ekki er litið svo á að íhlutasamstæður, sem radíóáhugamenn setja saman, og búnaður sem er verslunarvara en er breytt af radíóáhugamönnum eða fyrir þá, sé búnaður sem verslað er með á frjálsum markaði,
  4. búnað sem hefur þá eðlisfræðilegu eiginleika að hann veldur ekki eða stuðlar að rafsegultruflunum sem fara yfir viðmiðunarmörk, sem kemur í veg fyrir að þráð­laus fjarskiptabúnaður og annar búnaður virki eins og til var ætlast og
  5. búnað sem hefur þá eðlisfræðilegu eiginleika að hann mun virka án óviðunandi skerðingar, þegar rafsegultruflun sem að öllu jöfnu hefur áhrif á fyrirhugaða notkun hans er til staðar.

2. gr.

Sérstakar ráðstafanir.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar er unnt að beita eftirfarandi sérstökum ráð­stöfunum:

  1. ráðstöfunum, gerðum fyrir tiltekinn stað til að taka í þjónustu og notkun búnað til að leysa vanda á sviði rafsegulsamhæfi, sem fyrir hendi er eða búist er við, eða
  2. ráðstöfunum til að setja upp búnað til að verja almenna fjarskiptakerfið eða sendi- eða viðtökustöðvar, sem notaðar eru í öryggisskyni.

Stjórnvöld skulu upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA og önnur EES/EFTA ríki um þær sérstöku ráðstafanir sem gerðar hafa verið. Sérstakar ráðstafanir sem hafa verið viðurkenndar sem réttmætar skulu auglýstar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á beitingu löggjafar sem varðar öryggi búnaðar.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:

a)

Ábyrgðaraðili tækis: Aðili sem ber ábyrgð á því að uppfylltar séu reglur um rafsegul­samhæfi og markaðssetningu í samræmi við ákvæði laga og reglna settra sam­kvæmt þeim, s.s. framleiðandi, innflytjandi eða aðrir fagmenn ef þeir umbreyta tæki eða hafa á annan hátt áhrif á að grunnkröfur séu uppfylltar.

b)

Ábyrgðaraðili fasts búnaðar: Er eigandi hans eða umráðamaður.

c)

Seljandi: Allir aðilar í aðfangakeðju viðkomandi búnaðar, þ.m.t. ábyrgðaraðili.

d)

Búnaður: Tæki eða fastur búnaður.

e)

Tæki: Öll frágengin tæki eða samsetningar þeirra sem fást á almennum markaði sem ein virknieining ætluð fyrir notendur og sem geta valdið rafsegultruflunum eða geta orðið fyrir áhrifum af slíkum truflunum. Í þessari reglugerð skulu "íhlutir" eða "aðskildar tæknieiningar" sem ætlast er til að notandi bæti í tæki og geta valdið rafsegultruflun, eða geta orðið fyrir áhrifum frá slíkum truflunum og "færanlegur búnaður" skilgreindur sem samsetning á tækjum og, eftir atvikum, öðrum búnaði, sem flytja má til og starfrækja á fleiri en einum stað, vera álitin tæki í skilningi reglu­gerðarinnar.

f)

Raffang: Rafmagnstæki og hvers konar hlutur sem að einhverju leyti kemur að gagni við nýtingu raforku, þ.e. til vinnslu, flutnings, dreifingar, geymslu, mælinga, breytinga og notkunar raforku, svo sem spennar, hreyflar, mælitæki, neyslutæki, varnarbúnaður og búnaður til raflagna.

g)

Fastur búnaður: Samsetning á mörgum gerðum tækja og, ef við á, öðrum búnaði sem er settur saman, komið fyrir og ætlaður til varanlegrar notkunar á fyrirfram ákveðnum stað.

h)

Rafsegulsamhæfi: Geta búnaðar til að starfa eðlilega í rafsegulumhverfi sínu að án þess að valda óviðunandi rafsegultruflunum á öðrum búnaði í því umhverfi.

i)

Rafsegultruflun: Öll rafsegulfyrirbæri sem kunna að draga úr nothæfi búnaðar. Rafsegultruflun getur verið rafsegulsuð, óæskilegt merki eða breyting í sjálfu útbreiðslu­umhverfinu.

j)

Ónæmi: Geta búnaðar til að starfa með óskertum gæðum þrátt fyrir rafsegultruflanir í umhverfi sínu.

k)

Samhæfðir staðlar: Tækniforskriftir sem staðfestar hafa verið af viðurkenndum evrópskum staðlasamtökum, í samræmi við reglur sem gilda á hinu Evrópska efna­hagssvæði, með hliðsjón af grunnkröfum og sem staðfestar hafa verið sem lands­staðlar hér á landi.

l)

Tilkynntur aðili: Aðili sem stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að uppfylli viðeigandi kröfur til þess að fást við samræmismat samkvæmt tiltekinni tæknilegri reglugerð.

II. KAFLI

Markaðssetning, grunnkröfur o.fl.

4. gr.

Markaðssetning og notkun búnaðar.

Eingöngu er heimilt að markaðssetja og taka í notkun búnað, eins og hann er skilgreindur í reglugerð þessari, ef hann samræmist kröfum reglugerðarinnar þegar hann er rétt upp settur, við haldið og notaður í tilætluðum tilgangi.

Ekki má hindra, vegna ástæðna sem tengjast rafsegulsamhæfi, að búnaður, sem fellur undir þessa reglugerð og fullnægir kröfum hennar, sé settur á markað eða tekinn í notkun.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er heimilt að hafa til sýnis á kaupstefnum, sýningum, kynningum eða svipuðum viðburðum, búnað sem ekki er í samræmi við þessa reglugerð, að því tilskildu að vel sýnilegt merki gefi greinilega til kynna að slíkan búnað megi ekki setja á markað eða taka í notkun fyrr en hann hefur verið færður til samræmis við þessa reglugerð. Sýning má aðeins fara fram að því tilskildu að fullnægjandi ráðstafanir séu gerðar til að komast hjá rafsegultruflunum.

5. gr.

Grunnkröfur fyrir tæki og fastan búnað.

Búnaður sem vísað er til í 1. gr. skal mæta eftirfarandi grunnkröfum:

1. Verndarkröfur: Búnaður skal vera þannig hannaður og framleiddur, að teknu tilliti til tæknistigs, að tryggt sé að:

  1. rafsegultruflun sem myndast fari ekki yfir mörk sem koma í veg fyrir að þráðlaus búnaður og fjarskiptabúnaður eða annar búnaður virki eins og til var ætlast,
  2. hann hafi ónæmismörk fyrir rafsegultruflunum sem búast má við í fyrirhugaðri notkun hans sem geri honum kleift að starfa án óásættanlegrar skerðingar á fyrir­hugaðri notkun hans.

2. Sértækar kröfur fyrir fastan búnað: Fastan búnað skal setja upp samkvæmt góðum starfsvenjum og virða upplýsingar um fyrirhugaða notkun íhluta hans, með tilliti til þess að mæta verndarkröfum sem um getur í 1. tölul. Þessar góðu starfsvenjur skal skjalfesta og skjölin skal ábyrgðaraðili hafa tiltæk fyrir Neytendastofu í eftirlitsskyni svo lengi sem fasti búnaðurinn er í notkun.

III. KAFLI

Aðferðir við samræmismat tækja, merkingar o.fl.

6. gr.

Samræmi búnaðar við samhæfða staðla.

Búnaður er álitinn uppfylla grunnkröfur, sbr. 5. gr., ef hann uppfyllir íslenska staðla sem taldir eru upp í viðauka VI. við reglugerð þessa sem innleiða samhæfða staðla sem tilvísun hefur verið birt fyrir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Þetta áætlaða samræmi við grunnkröfur takmarkast við gildissvið þeirra samhæfðu staðla sem beitt er og þær grunnkröfur sem slíkir staðlar fjalla um. Ekki er skyldubundið að uppfylla ákvæði samhæfðra staðla.

7. gr.

Aðferðir við samræmismat tækja.

Um aðferðir við samræmismat tækja gildir reglugerð nr. 957/2006, um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmis­merkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu, eftir því sem við getur átt svo og ákvæði reglugerðar þessarar.

Við samræmismat skv. þessari reglugerð skal jafnframt sýnt fram á að tæki uppfylli grunnkröfur sem vísað er til í 5. gr. með aðferðum sem lýst er í viðauka I (innri fram­leiðslu­stýring). Framleiðanda eða fulltrúa hans á Evrópska efnahagssvæðinu er heimilt að velja að fylgja aðferðinni sem lýst er í viðauka II.

8. gr.

CE-merking.

Einungis er heimilt að markaðssetja eða taka í notkun tæki sem falla undir reglugerð þessa beri þau CE-merkingu. CE-merkingin er staðfesting á að tækið sé í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar að undangengnu samræmismati, sbr. 7. gr. Framleiðandi eða fulltrúi hans á Evrópska efnahagssvæðinu ber ábyrgð á áfestingu CE-merkingarinnar og skal það gert eins og kveðið er á um í viðauka IV.

Ekki er heimilt að festa á tæki, umbúðir þeirra eða leiðbeiningar um notkun, merki sem líklegt er að villi um fyrir þriðja aðila hvað varðar þýðingu og form CE-merkingarinnar, eða hindri að hún sjáist vel eða sé vel læsileg.

Hafi Neytendastofa gripið til stjórnvaldsúrræða, sbr. V. kafla þessarar reglugerðar á grundvelli þess að CE-merkið hafi verið ranglega sett á vöru ber framleiðanda eða viður­kenndum fulltrúa hans að koma á samræmi þessara tækja er varða CE-merkið og önnur þau skilyrði sem kveðið er á um í reglugerð þessari.

9. gr.

Aðrar merkingar og upplýsingar.

Hvert tæki skal auðkenna með gerð, framleiðslu- og raðnúmeri eða hvers kyns öðrum upplýsingum sem gera kleift að bera kennsl á tækið.

Hverju tæki skulu fylgja upplýsingar með nafni og heimilisfangi framleiðanda og, ef hann er ekki með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, nafni og heimilisfangi viðurkennds fulltrúa hans eða þess einstaklings á Evrópska efnahagssvæðinu sem markaðssetur tækin á Evrópska efnahagssvæðinu.

Framleiðandinn skal veita upplýsingar um allar sérstakar ráðstafanir sem gera þarf við samsetningu, uppsetningu, viðhald eða notkun tækisins, til að tryggja að það sé í sam­ræmi við verndarkröfurnar sem um getur í 1. mgr. 5. gr., þegar það er tekið í notkun.

Tækjum, hverra samræmi við verndarkröfur er ekki tryggt í íbúðabyggð, skulu fylgja ótvíræðar upplýsingar um þessa takmörkun notkunar, einnig á umbúðunum þegar við á.

Upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja að hægt sé að nota tæki eins og til er ætlast skal vera hluti leiðbeininga sem tækinu fylgja.

10. gr.

Tilkynntir aðilar.

Viðskiptaráðuneytið tilkynnir Eftirlitsstofnun EFTA aðila til að annast hér á landi, þau verkefni sem um getur í viðauka II. Tilkynntir aðilar skulu uppfylla ákvæði viðauka V og skal mat á þeim fara fram í samræmi við ákvæði 13. gr. laga nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. og eins og ráðuneytið kveður nánar á um.

Tilgreina skal hvort aðilarnir séu tilkynntir til að framkvæma þau verkefni, sem um getur í viðauka II, fyrir öll tæki sem falla undir þessa reglugerð, og/eða grunnkröfurnar, sem um getur í 5. gr., eða hvort gildissvið tilkynningarinnar takmarkist við sérstaka tiltekna þætti og/eða flokka tækja.

Aðilar eru álitnir uppfylla ákvæði viðauka V ef þeir uppfylla matsviðmið sem sett eru í viðeigandi samhæfðum stöðlum sem fjalla um slík ákvæði.

Ef tilkynntur aðili uppfyllir ekki lengur tilskilin viðmið eða brýtur af sér skal afturkalla tilkynningu hans, sbr. 1. mgr. Afturköllun skal beint til Eftirlitsstofnunar EFTA, annarra EFTA/EES aðildarríkja og fastanefndar EFTA.

IV. KAFLI

Fastur búnaður.

11. gr.

Fastur búnaður.

Tæki sem hafa verið markaðssett og sem setja má í fastan búnað falla undir öll við­eigandi ákvæði þessarar reglugerðar um tæki. Þó eru undanþegin ákvæðum 5., 7., 8. og 9. gr. tæki sem ætluð eru til að fella inn í ákveðinn, tiltekinn fastan búnað og eru ekki markaðssett með öðrum hætti. Í slíkum tilvikum skulu auðkenni fasta búnaðarins og eigin­leikar rafsegulsamhæfis hans koma fram í fylgiskjölum og þar skal nefna varúðar­ráðstafanir sem gera þarf vegna ísetningar tækisins í hinn fasta búnað til að rýra ekki rafsegulsamhæfi hans við ísetninguna. Þar skulu einnig koma fram þær upplýsingar sem um getur í 1. og 2. mgr. 9. gr.

V. KAFLI

Opinber markaðsgæsla Neytendastofu.

12. gr.

Markaðseftirlit.

Neytendastofa annast markaðseftirlit. Hún fylgist með búnaði á markaði, aflar á skipu­legan hátt upplýsinga um hann og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum.

Neytendastofu er heimilt að skoða búnað hjá seljanda og krefjast upplýsinga um ábyrgðar­aðila. Neytendastofa getur tekið sýnishorn búnaðar til rannsóknar. Seljanda er skylt að halda skrá með upplýsingum um ábyrgðaraðila alls þess búnaðar sem hann hefur á boðstólum.

Ábyrgðaraðila er skylt að halda skrá yfir allan búnað sem hann hefur á boðstólum. Hann skal einnig ávallt hafa tiltæk afrit af EB-samræmisyfirlýsingum fyrir tæki og gögnum sem staðfesta samræmi fasts búnaðar við ákvæði reglugerðar þessarar. Neytendastofa getur einnig krafið ábyrgðaraðila um tæknigögn, fylgiskjöl, leiðbeiningar, tæknilegar upp­lýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um búnað.

Neytendastofa getur falið þar til bærri skoðunarstofu að skoða búnað og viðeigandi gögn, rannsaka þau og meta hvort þau samræmist kröfum reglugerðar þessarar. Prófun skal framkvæmd af prófunarstofu sem tilkynnt hefur verið af aðildarríki hins Evrópska efnahags­svæðis.

Starfsmenn Neytendastofu og skoðunarstofu eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn og varða atvinnuleyndarmál.

13. gr.

Úrræði Neytendastofu vegna tækja.

Ef tæki uppfyllir ekki formleg skilyrði til markaðssetningar skv. 8. og 9. gr. getur Neyt­enda­­stofa bannað sölu þess.

Ef ábyrgðaraðili torveldar skoðun eða rannsókn tækis eða hefur ekki tiltæk gögn skv. 3. mgr. 12. gr. getur Neytendastofa bannað sölu þess.

Ef rökstuddur grunur leikur á að tæki uppfylli ekki grunnkröfur getur Neytendastofa ákveðið tímabundið bann við sölu þess á meðan á rannsókn stendur.

Uppfylli tæki ekki grunnkröfur skal Neytendastofa banna sölu þess og gera allar við­eigandi ráðstafanir til að taka tæki af markaði, banna að það sé sett á markað, tekið í notkun eða takmarka frjálsan flutning á því og upplýsa hlutaðeigandi aðila, sbr. 14. gr.

14. gr.

Úrræði Neytendastofu vegna fasts búnaðar.

Þegar fram koma vísbendingar um að ekki sé farið að ákvæðum um fastan búnað, einkum ef fram koma kvartanir um truflanir frá slíkum búnaði, getur Neytendastofa farið fram á sönnun ábyrgðaraðila fyrir því að fastur búnaður uppfylli kröfur og þar sem það á við, látið fara fram mat á honum. Ef staðfest er að ákvæði eru ekki uppfyllt getur Neytendastofa krafist stöðvunar á notkun hans þar til úr hefur verið bætt. Ábyrgðaraðila skal veittur eðlilegur frestur til úrbóta.

Ef ábyrgðaraðili torveldar skoðun eða rannsókn fasts búnaðar eða hefur ekki tiltæk gögn skv. 3. mgr. 12. gr., eða aðrar upplýsingar og gögn sem áskilin eru skv. reglugerð þessari, getur Neytendastofa krafist stöðvunar á notkun hans þar til úr hefur verið bætt. Ábyrgðaraðila skal veittur eðlilegur frestur til úrbóta.

Neytendastofa skal beina aðgerðum stofnunarinnar að ábyrgðaraðilum fasts búnaðar eða seljendum þegar það á við.

15. gr.

Málsmeðferð og málskot.

Neytendastofa skal, eftir því sem unnt er, hafa samvinnu við ábyrgðaraðila og seljendur um málsmeðferð, s.s. öflun gagna, skoðun, prófanir og aðgerðir, s.s. stöðvun sölu eða notkunar og afturköllun.

Neytendastofu ber að tilkynna aðilum um rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Ákvörðunin skal studd viðeigandi gögnum, sem eftir aðstæðum geta verið skoðunar­skýrslur, prófunarskýrslur eða önnur gögn. Ábyrgðaraðilum skal veittur 10 daga frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þ.m.t. að fara fram á prófun eða endurprófun tækis.

Ákvörðunum Neytendastofu má skjóta til úrskurðar áfrýjunarnefndar neytendamála, sbr. 11. gr. laga nr. 146/1996 og sbr. 19. gr. a. laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opin­bera markaðsgæslu, með áorðnum breytingum. Málskot frestar ekki framkvæmd ákvörð­unar.

Neytendastofu er heimilt að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi.

Ábyrgðaraðili eða seljandi, þegar við á, ber kostnað vegna þeirra sýnishorna tækja sem þeir láta af hendi vegna rannsókna. Að loknum rannsóknum skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti. Hið sama gildir vegna prófunar búnaðar, leiði sú prófun í ljós að hann uppfylli ekki grunnkröfur 5. gr.

Um málsmeðferð og úrræði Neytendastofu fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

16. gr.

Tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Ef Neytendastofa bannar sölu eða hindrar á annan hátt, á grundvelli þessarar reglu­gerðar, markaðssetningu tækis sem ber CE-merkingu, sbr. 8. gr., eða uppfyllir ekki kröfur samkvæmt reglugerð þessari skal hún tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA ákvörðun sína, ásamt rökstuðningi og útskýringum.

Í tilkynningu skv. 1. mgr. skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. að grunnkröfur sem um getur í 5. gr. hafi ekki verið uppfylltar og tæki ekki í sam­ræmi við samhæfða staðla,
  2. að um ranga beitingu samhæfðra staðla sé að ræða, sbr. 6. gr.
  3. að um sé að ræða galla á samhæfðu stöðlunum, sbr. 6. gr.

17. gr.

Innleiðing.

Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 3 frá 27. janúar 2006, um breytingu á X. kafla II. viðauka EES-samningsins og til að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 108 frá 15. des­ember 2004 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi og um niðurfellingu tilskipunar 89/336/EBE.

18. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga nr. 146/1996 og lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðs­gæslu.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og um leið er reglugerð nr. 146/1994 með áorðnum breytingum felld úr gildi, sbr. þó eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði til bráðabirgða.

Til 20. júlí 2009 er heimilt að setja á markað eða taka í notkun búnað sem getið er um í reglugerð þessari í samræmi við reglugerð nr. 146/1994 með áorðnum breytingum.

Viðskiptaráðuneytinu, 12. mars 2008.

Björgvin G. Sigurðsson.

Áslaug Árnadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica