Iðnaðarráðuneyti

41/2000

Reglugerð um áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.

Valdsvið.

1. gr.

Til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar má áfrýja ákvörðunum Einkaleyfastofunnar samkvæmt eftirtöldum lögum eins og þeim hefur verið breytt:

1. lögum nr. 17/1991 um einkaleyfi;

2. lögum nr. 45/1997 um vörumerki;

3. lögum nr. 48/1993 um hönnunarvernd og

4. öðrum lögum um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar sé heimild til slíks að finna í þeim lögum.

Skipun.

2. gr.

Iðnaðarráðherra skipar þrjá menn í áfrýjunarnefnd. Skipar ráðherra formann nefndarinnar til þriggja ára í senn og skal hann vera lögfræðingur með sérþekkingu á hugverkarétti. Ráðherra getur skipað varaformann. Aðra nefndarmenn skipar ráðherra til að úrskurða í einstökum ágreiningsmálum. Formaður stýrir starfi nefndarinnar.

Málsmeðferð.

3. gr.

Áfrýjun skal leggja fram skriflega í iðnaðarráðuneytinu innan lögboðins frests. Skal hún vera í fjórriti og undirrituð af áfrýjanda eða umboðsmanni hans. Með áfrýjun skal fylgja tiltekið áfrýjunargjald sem ákveðið er í gjaldskrá. Iðnaðarráðuneytið framsendir formanni áfrýjunarnefndar áfrýjunina og telst nefndin hafa tekið til starfa við móttöku áfrýjunarinnar. Ráðuneytið og nefndin geta krafist sönnunar á umboði.

4. gr.

Í áfrýjun skal tilgreina:

1. ákvörðun þá sem áfrýjað er;

2. kröfur áfrýjanda;

3. helstu málsástæður.

5. gr.

Formaður áfrýjunarnefndar skal gera tillögu til iðnaðarráðuneytis um skipun annarra nefndarmanna til að úrskurða í einstökum ágreiningsmálum.

Áfrýjunarnefnd skal taka afstöðu til atriða er varða form málsins, m.a. hæfis nefndarmanna með tilliti til ákvæða stjórnsýslulaga og frávísunar. Hafi áfrýjun eða greiðsla áfrýjunargjalds ekki borist innan lögboðins áfrýjunarfrests eða áfrýjandi hefur ekki áfrýjunarheimild skal áfrýjun vísað frá.

Áfrýjunarnefnd skal gefa aðilum kost á að tjá sig um formsatriði áður en hún tekur afstöðu til þeirra nema slíkt sé talið augljóslega óþarft.

6. gr.

Áfrýjunarnefnd skal tilkynna gagnaðilum, m.a. Einkaleyfastofunni, um framkomna áfrýjun sem tekin er til efnismeðferðar.

Einkaleyfastofan skal senda áfrýjunarnefnd fyrirliggjandi gögn í málinu í þríriti nema málsaðilar séu fleiri en einn, þá eitt eintak í viðbót fyrir hvern aðila sem umfram einn er.

Áfrýjunarnefnd getur veitt áfrýjanda frest til að gera betur grein fyrir málsaðstæðum sínum í greinargerð og færa fram sönnunargögn.

Áfrýjunarnefnd lætur gagnaðilum áfrýjanda í té áfrýjun og fylgiskjöl og gefur þeim kost á að koma fram með skriflegar athugasemdir um áfrýjunina innan tilskilins frests sem nefndin ákveður.

Áfrýjunarnefnd lætur áfrýjanda í té greinargerð gagnaðila og fylgiskjöl.

7. gr.

Óski aðilar að leggja fram frekari greinargerðir í málinu skulu þeir þegar í stað koma fram með rökstudda beiðni þar að lútandi. Orðið skal við beiðninni nema áfrýjunarnefnd telji slíkt augljóslega óþarft.

Áfrýjunarnefnd skal senda öðrum aðilum málsins afrit greinargerða.

8. gr.

Áfrýjunarnefnd er heimilt að óska eftir áliti eða upplýsingum frá aðilum eða sérfræðingum. Skulu aðilar fá tækifæri til að tjá sig um slík álit eða upplýsingar innan tilskilins frests.

9. gr.

Málflutningur fyrir áfrýjunarnefnd skal vera skriflegur, sbr. 6.-8. gr. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi og áfrýjunarnefnd telur þörf á getur nefndin að beiðni aðila eða að eigin frumkvæði ákveðið að málflutningur skuli vera munnlegur.

10. gr.

Sé málflutningur munnlegur skal boða til fundar með sannanlegum hætti.

11. gr.

Munnlegur málflutningur skal fara fram í heyranda hljóði. Áfrýjunarnefnd getur þó ákveðið að munnlegur málflutningur fari fram fyrir luktum dyrum ef talin er þörf á að koma í veg fyrir að viðskiptaleyndarmál verði gerð opinber eða sérstök sjónarmið mæla ella með því.

12. gr.

Í munnlegum málflutningi getur aðili því aðeins breytt kröfugerð sinni, borið fyrir sig nýjar málsástæður eða lagt fram ný sönnunargögn ef það er afsakanlegt að slíkt hafi ekki verið gert fyrr.

Heimili áfrýjunarnefnd aðila að breyta kröfugerð sinni, bera fyrir sig nýjar málsástæður eða færa fram ný sönnunargögn getur nefndin að eigin frumkvæði eða eftir beiðni frestað málinu.

Ef áfrýjunarnefnd leggur fram gögn í munnlegum málflutningi sem aðilar hafa ekki kynnt sér áður skal fresta málflutningi að beiðni aðila nema frestun sé augljóslega óþörf.

Úrskurður.

13. gr.

Sé málflutningur munnlegur mega aðeins þeir nefndarmenn, sem tekið hafa þátt í allri meðferð málsins, kveða upp úrskurð. Geti þeir ekki allir tekið þátt í uppkvaðningu úrskurðar skal skipa nefndarmann í stað þess sem hefur misst við og endurtaka munnlegan flutning máls.

14. gr.

Nefndarmenn skulu ræða með sér fyrir luktum dyrum röksemdir og niðurstöðu úrskurðar.

15. gr.

Afl atkvæða ræður úrslitum um hvert atriði.

Sé atkvæðagreiðslu þörf um fleiri atriði en eitt er þeim nefndarmönnum, sem eru í minni hluta í einu atriði, skylt að taka afstöðu til annarra atriða.

16. gr.

Úrskurður áfrýjunarnefndar skal vera skriflegur og undirritaður af þeim nefndarmönnum sem að honum stóðu.

Í úrskurðinum skulu koma fram:

1. ákvörðun, staður og dagsetning;

2. nöfn aðila og umboðsmanna þeirra;

3. málavaxtalýsing;

4. kröfur og málsástæður aðila;

5. rökstudd niðurstaða um sönnunaratriði og lagaatriði;

6. úrskurðarorð.

Ef nefndarmenn komast ekki að sömu niðurstöðu skal birta sérákvæði minni hlutans í úrskurðinum.

17. gr.

Úrskurðir áfrýjunarnefndar skulu færðir í gerðabók eða varðveittir með öðrum tryggum hætti.

Áfrýjunarnefnd getur leiðrétt augljósar villur í úrskurði.

18. gr.

Staðfest endurrit úrskurðar skal senda í ábyrgðarbréfi til aðila, m.a. Einkaleyfastofu, eða umboðsmanna þeirra, svo og iðnaðarráðuneytis. Einkaleyfastofan skal gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við úrskurðinn. Úrskurðurinn skal vera aðgengilegur hjá Einkaleyfastofunni, m.a. á heimasíðu stofunnar svo fljótt sem auðið er. Birta skal ágrip af honum í ELS-tíðindum sem stofan gefur út.

Lokaákvæði.

19. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar eiga við um einkaleyfisumsóknir sem hafa ekki verið gerðar öllum aðgengilegar að svo miklu leyti sem það samrýmist ákvæðum um slíkar umsóknir.

20. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 69. gr., sbr. 7., 24., 25., 41. og 67. gr., laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum, 63. gr., sbr. 61. gr., laga nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum, og 30. gr., sbr.13. gr., laga nr. 48/1993, um hönnunarvernd, og öðlast þegar gildi.

Iðnaðarráðuneytinu, 18. janúar 2000.

Valgerður Sverrisdóttir.

Jón Ögmundur Þormóðsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica