Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

516/1993

Reglugerð um innflutning á reykskynjurum er innihalda geislavirk efni - Brottfallin

1. gr.

Innflutningur á reykskynjurum er innihalda geislavirk efni er háður leyfi Geislavarna ríkisins, skv. nánari reglum er stofnunin setur, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari. Innflytjendur skulu senda umsóknir til Geislavarna ríkisins á eyðublöðum, sem stofn­unin lætur gera.

Geislavarnir ríkisins geta krafist frekari upplýsinga telji þær þörf á slíku.

 

2. gr.

Leyfi skulu gefin út fyrir hverja tegund reykskynjara að undangenginni skoðun Geisla­varna ríkisins og er leyfisveiting háð því skilyrði að reglur stofnunarinnar séu uppfylltar. Gildir leyfi fyrir innflutning á ótilteknum fjölda tækja. Skila skal árlega skýrslum til Geislavarna ríkisins varðandi innflutninginn.

Skoðunargjald að upphæð kr. 10.000 skal fylgja hverri umsókn.

Geislavarnir ríkisins geta fellt niður leyfi eða endurskoðað standi leyfishafar ekki skil á innflutningsskýrslum eða sé skilyrðum fyrir leyfisveitingu ekki fylgt.

 

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 9. gr. laga nr. 117/1985 um geislavarnir öðlast gildi 1. janúar 1994.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 17. desember 1993.

 

Guðmundur Árni Stefánsson.

Páll Sigurðsson.

 

Fylgiskjal.

 

Reglur Geislavarna ríkisins

um innflutning, geymslu og viðhald reykskynjara

sem innihalda geislavirk efni.

 

Þessar reglur gildi um reykskynjara sem innihalda geislavirk efni og taka eingöngu til þeirra þátta sem snerta geislavirkni og geislavarnir. Um reykskynjara gildi einnig reglur sem Brunamálastofnun ríkisins hefur sett. Reykskynjurum er í þessum reglum skipt í neðangreinda tvo flokka:

 

A: Einfaldir reykskynjarar til heimilisnota

B: Reykskynjarar sem eru hluti brunaviðvörunarkerfis

 

1 Almennt um leyfisveitingu samkvæmt þessum reglum

 

1.1 Sækja þarf um leyfi Geislavarna ríkisins til eftirfarandi starfsemi óháð því hvers konar reykskynjari á í hlut:

( 1 ) Innflutnings og framleiðslu reykskynjara

(2)Geymslu reykskynjara ef samanlögð virkni í skynjurunum er meiri en 40 MBq (1,1 mCi) af 241Am. Sé um aðra samsætu að ræða, þá setja Geislavarnir ríkisins hámarksgildi fyrir viðkomandi samsætu.

(3) Hreinsunar og þess viðhalds á reykskynjurum, sem kann að fela í sér beina snertingu við geislagjafa reykskynjarans.

 

1.2 Að auki eru eftirtaldar þættir leyfisskyldir ef um er að ræða reykskynjara í flokki B sem innihalda meira en 40 kBq (1,1 μCi) 241Am hver.

(4)Geymslu reykskynjara óháð því hversu mikið magn er um að ræða.

(5)Endursölu til annarra.

 

1.3 Leyfi til innflutnings og viðhalds á reykskynjurum eru einungis gefin fyrir tegundir reykskynjara sem samþykktir hafa verið af Geislavörnum ríkisins.

 

1.4 Leyfi gildir til 5 ára í senn. Geislavarnir ríkisins geti fellt það úr gildi telji stofnunin að skilyrðum fyrir leyfisveitingu hafi ekki verið fylgt, til dæmis ef merkingar og leiðbeiningar eru ekki fullnægjandi.

 

1.5 Umsókn um leyfi til innflutnings, framleiðslu eða viðhalds á reykskynjurum skal senda til Geislavarna ríkisins. Sá sem verða mun ábyrgur fyrir starfseminni skal undirrita umsóknina og í henni skal koma fram:

(1) Upplýsingar um ábyrgðarmann og stöðu hans.

(2) Upplýsingar um það hvers konar leyfi óskað er eftir. Tilgreina þarf um hvaða teg­undir reykskynjara sé að ræða.

(3) Upplýsingar um aðstæður á vinnustað, þar á meðal lýsing á aðstæðum til geymslu og hreinsunar.

 

1.6 Notkun reykskynjara er ekki leyfisskyld, enda hafi reykskynjari hlotið viðurkenningu Geislavarna ríkisins og hann hafi verið fluttur inn af innflytjanda, sem hafi leyfi stofnunarinnar til slíks innflutnings.

 

2.Tegundarviðurkenning Geislavarna ríkisins á reykskynjurum

 

2.1 Senda þarf reykskynjara til Geislavarna ríkisins til tegundarprófunar áður en leyfi til innflutnings eða framleiðslu er veitt. Tegundarprófunin felur í sér könnun af hálfu Geislavarna á uppbyggingu reykskynjarans og merkingum, ásamt þeim notkunarleið­beiningum, á íslensku, sem honum eiga að fylgja.

 

2.2 Eftirfarandi þarf að fylgja með umsókn um tegundarviðurkenningu Geislavarna rík­isins á reykskynjara:

(1 ) Reykskynjari af viðkomandi tegund, einnig er æskilegt að teikningar fylgi.

(2) Upplýsingar um framleiðanda sjálfs geislagjafans og afrit af lýsingu framleiðanda á honum ("radioactive source certificate", "kildecertifikat").

(3) Upplýsingar um framleiðanda reykskynjarans og gögn um fyrri prófanir. (4) Tillaga um merkingu á reykskynjurum og/eða umbúðum þeirra.

(5) Tillaga um leiðbeiningar sem fylgja eiga hverjum reykskynjara við sölu.

 

2.3 Tegundarviðurkenning Geislavarna ríkisins hefur ákveðinn gildistíma, sem fram kemur í viðurkenningarskjali.

 

2.4 Verði breyting á uppbyggingu reykskynjara, þannig að forsendur viðurkenningarinnar standist ekki lengur, þá ber að sækja að nýju um tegundarviðurkenningu á reykskynjaranum.

 

2.5 Geislavarnir ríkisins geta afturkallað tegundarviðurkenningu ef sérstök þörf krefur að mati stofnunarinnar.

 

3 Kröfur varðandi gerð reykskynjara

 

3.1 Almennar kröfur um gerð reykskynjara

 

3.1.1 Þannig skal vera gengið frá geislagjafa í reykskynjara, að ekki sé hætta á að hann losni við venjulega notkun reykskynjarans eða bruna.

 

3.1.2 Geislagjafi skal vera lokaður og frágangur hans skal vera í samræmi við alþjóðastaðal ISO 1677 og uppfylla flokkunarskilyrði fyrir lokaða geislagjafa samkvæmt alþjóðastaðli ISO 2919.

 

3.1.3 Styrkur geislunar í 10 sm fjarlægð frá yfirborði reykskynjara skal ekki vera meiri en svarar til 1 ųSv/klst.

 

3.1.4 Leiðbeiningar, viðurkenndar af Geislavörnum ríkisins, skulu fylgja hverjum reyk­skynjara. Í þessum leiðbeiningum skulu meðal annars koma fram þær upplýsingar sem getið er í viðauka 1.

 

3.1.5 Merkingar á reykskynjara og/eða umbúðum sem fylgja honum til notanda:

( 1 ) Á reykskynjarann skulu vera letraðar upplýsingar um hvaða samsætu sé að ræða og hver styrkur hennar sé. Styrkinn skal gefa í kBq, MBq eða ųCi. Ef tákn jónandi geislunar er á skynjaranum, þá skal það vera í samræmi við alþjóðastaðal ISO 361 (sjá viðauka 2).

(2) Tegundarheiti og heiti framleiðanda skal vera letrað utan á reykskynjara.

(3) Heiti og heimilisfang innflytjanda skal vera letrað utan á reykskynjara eða umbúðir hans.

(4) Eftirfarandi texti skal vera ritaður utan á reykskynjarann eða umbúðir hans:

 

"Þessi reykskynjari inniheldur geislavirkt efni og er viðurkenndur af Geislavörnum ríkisins."

Þau atriði sem hér hafa verið talin í liðum (1)-(4) skulu einnig koma fram í leið­beiningum sem fylgja reykskynjaranum til notanda.

 

3.1.6 Auk þeirra ákvæða sem hér eru talin um merkingar, þá er það á ábyrgð innflytjanda að reykskynjarinn uppfylli einnig reglur Brunamálastofnunar ríkisins þar að lútandi.

 

3.2 Sérkröfur varðandi "einfalda reykskynjara til heimilisnota" (flokk A)

 

3.2.1 Styrkur geislagjafans má mest vera 40 kBq (1,1 ųCi) 241Am.

 

3.2.2 Geislagjafinn verður að vera í lokuðu hólfi, þannig að ekki sé mögulegt að komast að honum án þess að eyðileggja reykskynjarann.

 

3.2.3 Eftirfarandi texti má vera á reykskynjara eða í leiðbeiningum með honum:

 

"Notkun þessa reykskynjara fylgir hverfandi lítil áhætta að mati Geislavarna ríkisins, sé hann notaður eins og meðfylgjandi leiðbeiningar segja til um og sé kann ekki rif inn í sundur."

 

3.3 Sérkröfur til "reykskynjara sem eru hluti brunaviðvörunarkerfis" (flokks B)

 

3.3.1 Eftirfarandi texti skal standa með greinilegum og varanlegum hætti á hverjum reykskynjara og/eða vera skráður í þjónustuhandbók hvers brunaviðvörunarkerfis: "Óheimilt er að taka þennan reykskynjara í sundur og/eða hreinsa hann að innan, nema viðkomandi haf til þess sérstakt leyfi Geislavarna ríkisins."

 

4 Hreinsun reykskynjara

 

4.1 Hreinsa skal ytra byrði reykskynjara með þeim hætti sem notkunarleiðbeiningar þeirra segja til um.

 

4.2 Feli hreinsunin í sér hreinsun á geislagjafa reykskynjara eða einhverja snertingu efna eða áhalda við hann, þá skal vinna við hreinsunina fara fram á sérstöku afmörkuðu vinnusvæði. Frágang á slíku vinnusvæði skal bera undir Geislavarnir ríkisins og hljóta samþykki stofnunarinnar. Hreinsun skal ætíð fara fram samkvæmt skriflegum leiðbeiningum, sem samþykktar hafa verið af Geislavörnum ríkisins. Á vinnusvæðinu skal vera geislamælir, sem er nægilega næmur til að nema hugsanlega dreifingu geisla­virks efnis frá geislagjöfunum.

 

5 Innflutningur reykskynjara

 

5.1 Einungis þeir mega flytji inn reykskynjara, sem hafa hlotið sérstakt leyfi Geislavarna ríkisins til þess. Leyfishafi skal í upphafi hvers árs senda Geislavörnum yfirlit yfir innflutning fyrra árs, þar sem fram kemur sundurliðað hversu margir reykskynjarar voru fluttir inn og seldir af hverri tegund.

 

5.2 Þegar um er að ræða brunaviðvörunarkerfi með reykskynjurum (af flokki B), sem innihalda meira en 40 kBq (1,1 ųCi) af 241Am eða aðrar samsætur, þá skal að auki geti hvers kerfið var selt.

 

6 Geymsla reykskynjara

 

6.1 Eftirfarandi ákvæði gildi um geymslu reykskynjara ef einhverjir þeirra innihalda meira en 40 kBq (1,1 ųCi) 241Am eða ef heildarmagn geislavirks efnis í þeim öllum samtals er meira en 10 MBq (270 ųCi) 241Am (þetta svarar til 250 reykskynjara af flokki A, ef hámarksmagn geislavirks efnis er í hverjum):

 

(1)Reykskynjara sem innihalda geislavirk efni skal geyma á læstum stað, sem talinn er tryggur gagnvart bruna, þjófnaði og vatnsskaða.

 

(2)Aðvörunarskilti, með tákni jónandi geislunar samkvæmt staðli ISO 361, skal vera á hurð skáps eða geymsluherbergis. Gerð aðvörunarskilta er lýst í viðauka 2.

 

(3)Heildarstyrkur geislunar frá öllum reykskynjurum sem eru í geymslu samtímis skal ekki geti farið yfir 2,5 ųSv/klst á vinnusvæðum utan geymslu (eða skáps).

 

7 Förgun reykskynjara

 

7.1 Seljandi skal taka við reykskynjara sem hinn hefur áður selt, óski kaupandi þess. Förgun innflytjanda á reykskynjurum skal aaíð vera í samráði við Geislavarnir ríkisins.

 

7.2 Eigandi notaðs reykskynjara í flokki A er heimilt að farga honum með almennu sorpi.

 

7.3 Í þjónustuhandbók brunaviðvörunarkerfis skal koma fram að reykskynjurum skuli skilað til seljanda eða þjónustuaðila.

 

8 Eftirlit

 

8.1 Geislavarnir ríkisins hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem er leyfisskyld samkvæmt þessum reglum. Leiði eftirlit Geislavarna eitthvað athugavert í ljós, að mati stofnunarinnar, þá skal gera þær úrbætur sem stofnunin krefst innan tilskilins tíma, ella kann leyfi til starfseminnar að vera fellt úr gildi. Sé um alvarlegt ástand að ræða að mati Geislavarna ríkisins, þá getur stofnunin krafist þess að starfsemin sé stöðvuð þegar í stað.

 

9 Skyldur ábyrgðarmanns vegna leyfisskyldrar starfsemi

 

9.1 Fyrirtæki með starfsemi, sem telst leyfisskyld samkvæmt þessum reglum, skal tilnefna sérstakan ábyrgðarmann. Hann skal hafa umsjón með að starfsemin sé ætíð í samræmi við það sem tiltekið er í þessum reglum.

 

9.2 Ábyrgðarmaður skal vera fastur starfsmaður fyrirtækisins og hafa nægilega þekkingu á grundvallaratriðum geislavarna. Hversu mikil þekking telst nægileg fer eftir starf­seminni og umfangi hennar.

 

9.3 Láti ábyrgðarmaður af störfum skal leyfishafi tafarlaust tilnefna nýjan ábyrgðarmann og tilkynna það Geislavörnum ríkisins.

 

9.4 Ábyrgðarmaður skal sjá um að:

 

(1) Hver sá sem vinni við reykskynjara hafi nægilega þekkingu á geislavörnum og öryggisráðstöfunum vegna vinnunnar eins og starf hans heimtir.

 

(2) Allir reykskynjarar sem starfsemin snertir séu í samræmi við þá reykskynjara sem leyfið er bundið við og að viðurkenndar leiðbeiningar fylgi þeim reykskynjurum sem seldir eru.

 

(3) Yfirlit yfir innflutning reykskynjara sé sent árlega til Geislavarna ríkisins.

 

(4) Sé hreinsun reykskynjara hluti starfseminnar, þá skal útbúa skriflegar leiðbeiningar varðandi hreinsunina. Þessar leiðbeiningar skulu vera samþykktar af Geislavörn­um ríkisins. Ennfremur skal ábyrgðarmaður hafa umsjón með að geislamælir vinni rétt og að hann sé notaður reglulega við eftirlit með vinnu við hreinsunina.

 

(5) Ef óhapp, t.d. eldsvoði, hendir á leyfisskyldum stað og það gæti leitt til þess að reykskynjarar sködduðust og að geislavirk efni dreifðust frá þeim, þá sé það til­kynnt án tafar til Geislavarna ríkisins (eða einhvers starfsmanns stofnunarinnar).

 

10 Annað

 

10.1 Reglur þessar taka gildi 1. janúar 1994.

 

10.2 Aðilar sem eru leyfisskyldir við gildistöku reglnanna skulu senda Geislavörnum ríkisins umsókn um leyfi fyrir 1. mars 1994.

 

10.3 Reglur þessar eru settar með stoð í lögum nr. 117/1985 um geislavarnir og reglugerð um innflutning á reykskynjurum sem innihalda geislavirk efni nr. 516/1993.

 

Geislavarnir ríkisins.

 

Viðauki 1

 

Um notkunarleiðbeiningar.

Viðurkenning Geislavarna ríkisins á reykskynjurum er ekki einungis bundin við tæknilegar kröfur til viðkomandi reykskynjara, heldur eru einnig gerðar ákveðnar kröfur til merkinga og þeirra notkunarleiðbeininga sem eiga að fylgja hverjum skynjara eða brunaviðvörunarkerfi.

 

Í notkunarleiðbeiningum með "einföldum reykskynjurum til heimilisnota" (flokki A) þurfa eftirtalin atriði að koma fram á íslensku:

 

(1) Að reykskynjarinn sé viðurkenndur af Geislavörnum ríkisins.

 

(2) Tegund og magn geislavirkrar samsætu. Taka má fram að "Notkun þessa reyk­skynjara fylgir hverfandi lítil áhætta að mati Geislavarna ríkisins, sé hann notaður eins og notkunarleiðbeiningar segja til um og sé hann ekki rifinn í sundur".

 

(3) Upplýsingar um uppsetningu og viðhald reykskynjarans.

 

(4) Upplýsingar um hvernig farga megi reykskynjaranum.

 

Í notkunarleiðbeiningum með "reykskynjurum, sem eru hluti brunaviðvörunarkerfis" (flokki B) þurfa eftirtalin atriði að koma fram á íslensku:

 

(1) Að reykskynjarinn sé viðurkenndur af Geislavörnum ríkisins.

 

(2) Tegund og magn geislavirkrar samsætu. Taka má fram að "Notkun þessa reykskynjara fylgir hverfandi lítil áhætta að mati Geislavarna ríkisins, sé hann notaður eins og notkunarleiðbeiningar segja til um og sé kann ekki rifinn í sundur".

 

(3) Upplýsingar um gildandi reglur um þessa reykskynjara, einkum er varðar endursölu, uppsetningu, viðhald og förgun.

 

Viðauki 2

 

Um aðvörunarmerkingar og aðvörunarskilti

 

Í litprentuðum aðvörunarmerkingum skal tákn jónandi geislunar vera svart á gulum grunni. Á aðvörunarskiltum skal guli grunnur táknsins mynda jafnhliða þríhyrning með odd upp og þríhyrningurinn skal vera afmarkaður af svartri rönd. Neðan þríhyrningsins skal rita aðvörunartexta með svörtu letri á gulum grunni. Þegar tákn jónandi geislunar er notað með rituðu máli, þar sem litprentun er ekki beitt, þá er leyfilegt að hafa táknið svart á hvítum grunni. Þetta getur til dæmis átt við notkunarleiðbeiningar með reykskynjara og leiðbeiningar sem letraðar eru á hann. Nánari upplýsingar um gerð aðvörunarmerkinga og skipa má fá hjá Geislavörnum ríkisins.

 

Viðauki 3

 

Dæmi um merkingu á reykskynjara og/eða umbúðum hans

(Hér komi heiti og styrkur samsætu, dæmi: 35 kBq Am-241 og einnig getur komið hér tákn jónandi geislunar samkvæmt alþjóðastaðli ISO 361, sbr. viðauka 2).

 

Tegund: xxxxxxxx Innflytjandi: xxx(heiti)xxx xxx(heimilisfang)xxx

 

Þessi reykskynjari inniheldur geislavirkt efni og er viðurkenndur af Geislavörnum ríkisins og Brunamálastofnun ríkisins, með viðurkenningarnúmer: xxxx.xx

 

Notkun þessa reykskynjara fylgir hverfandi lítil áhætta að mati Geislavarna ríkisins, sé hann notaður eins og meðfylgjandi leiðbeiningar segja til um og sé hinn ekki rifinn í sundur.

 

Framleiðsludagur xxx.xx

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica