Heilbrigðisráðuneyti

314/2008

Reglugerð um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í bæklunarlækningum. - Brottfallin

1. gr.

Í reglugerð þessari er kveðið á um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í bæklunarlækningum sem eru án samninga við heilbrigðisráðherra.

Með sjúkratryggðum einstaklingi er átt við einstakling sem er sjúkratryggður skv. 3. gr. reglugerðar nr. 1265/2007 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðis­þjónustu.

2. gr.

Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir sjúkratryggðum fyrir þjónustu bæklunarlæknis mismun á heildargreiðslu skv. gjaldskrá sem fylgir reglugerð þessari og hluta sjúkra­tryggðs skv. 4. og 5. gr.

3. gr.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á reikningi (kvittun) sem sjúkra­tryggður einstaklingur framvísar hjá stofnuninni vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sér­fræð­ings í bæklunarlækningum sem er án samnings við heilbrigðisráðherra er að reikn­ingurinn (kvittunin) sé á stöðluðu formi, fyrirfram tölusettur og á honum komi fram nafn og kennitala læknis, sérgrein læknis og læknanúmer. Jafnframt skal koma fram hvar þjónustan var veitt, nafn og kennitala sjúklings, hvaða dag læknisverk fór fram, hvaða læknisverk var unnið, gjaldskrárliður og einingafjöldi samkvæmt gjaldskrá sem fylgir reglugerð þessari og fjárhæð reiknings. Læknirinn og sjúklingur skulu staðfesta reikn­ing með undirskrift sinni.

Sá kostnaðarhluti sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir skv. 4. gr. veitir rétt til afsláttar­skírteinis Tryggingastofnunar ríkisins. Ef sjúkratryggður einstaklingur hefur þegar fengið afsláttarskírteini endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins mismuninn á heildar­greiðslu skv. gjaldskrá sem fylgir reglugerð þessari og hluta sjúklings skv. 5. gr.

4. gr.

Endurgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins til sjúkratryggðs reiknast þannig að frá heildar­greiðslu samkvæmt gjaldskrá sem fylgir reglugerð þessari fyrir þjónustu bæklunar­læknis sem er án samnings við heilbrigðisráðherra, dregst hluti sjúkratryggðs sem hér segir:

  1. Sjúkratryggðir almennt, fyrstu kr. 3.100 og til viðbótar 40% af heildarverði við komuna sem umfram er (skv. meðfylgjandi gjaldskrá), þó að hámarki kr. 21.000.
  2. Ellilífeyrisþegar 70 ára og eldri, örorkulífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar 67-70 ára sem nutu örorkulífeyris fram til 67 ára aldurs og ellilífeyrisþegar 60-70 ára sem njóta óskerts ellilífeyris, kr. 1.100 og til viðbótar 1/3 af 40% af heildarverði við komuna sem umfram er (skv. meðfylgjandi gjaldskrá), þó að hámarki kr. 21.000.
  3. Börn yngri en 18 ára, 1/9 af gjaldi samkvæmt 1. tölul. l. mgr., þó að lágmarki kr. 550 og að hámarki kr. 21.000, sbr. þó meðfylgjandi gjaldskrá
  4. Börn með umönnunarkort samkvæmt reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, enginn frádráttur, sbr. þó meðfylgjandi gjaldskrá.

Sömu reglur gilda um endurgreiðslu vegna þjónustu svæfingalæknis þegar hann svæfir við aðgerð bæklunarlæknis, sbr. athugasemdir nr. 3 og 4 í fylgiskjali I. Hámarksgreiðsla sjúkratryggðs er þó samanlagt kr. 21.000 fyrir þjónustu beggja í sömu komu, sbr. þó meðfylgjandi gjaldskrá.

5. gr.

Endurgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins til sjúkratryggðra sem eru með afsláttar­skírteini reiknast þannig að frá heildargreiðslu samkvæmt gjaldskrá sem fylgir reglu­gerð þessari fyrir þjónustu bæklunarlæknis sem er án samnings við heilbrigðis­ráðherra, dregst hluti sjúkratryggðra sem hér segir:

  1. Sjúkratryggðir, kr. 1.100 og til viðbótar 1/3 af 40% af heildarverði við komuna sem umfram er (skv. meðfylgjandi gjaldskrá), þó að hámarki kr. 21.000.
  2. Ellilífeyrisþegar 70 ára og eldri, örorkulífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar 67-70 ára sem nutu örorkulífeyris fram til 67 ára aldurs og ellilífeyrisþegar 60-70 ára sem njóta óskerts ellilífeyris, 1/9 af gjaldi samkvæmt 1. tölul. 2. gr., þó að lágmarki kr. 550 og að hámarki kr. 21.000, sbr. þó meðfylgjandi gjaldskrá.
  3. Börn yngri en 18 ára, 1/9 af gjaldi samkvæmt 1. tölul. 2. gr., þó að lágmarki kr. 450 og að hámarki kr. 21.000, sbr. þó meðfylgjandi gjaldskrá.

Sömu reglur gilda um endurgreiðslu vegna þjónustu svæfingalæknis þegar hann svæfir við aðgerð bæklunarlæknis, sbr. athugasemdir nr. 3 og 4 í fylgiskjali I. Hámarksgreiðsla sjúkratryggðs er þó samanlagt kr. 21.000 fyrir þjónustu beggja í sömu komu, sbr. þó með­fylgjandi gjaldskrá.

6. gr.

Sérfræðingur í bæklunarlækningum skal senda heimilislækni sjúklings upplýsingar um sjúkdómsgreiningu og veitta meðferð.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 41. gr. laga nr. 100/2007 um almanna­tryggingar, með síðari breytingum, gildir frá 1. apríl 2008 og tekur til þjónustu sem veitt er á tímabilinu 1. apríl 2008 til og með 31. maí 2008.

Heilbrigðisráðuneytinu, 1. apríl 2008.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Vilborg Þ. Hauksdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica