Heilbrigðisráðuneyti

563/2009

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 314/2008 um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í bæklunarlækningum. - Brottfallin

1. gr.

3. gr. reglugerðarinnar breytist þannig að eftirfarandi málsgrein bætist við og verður 2. mgr. 3. gr.:

Skilyrði fyrir endurgreiðslu kostnaðar vegna aðgerðar bæklunarlæknis, sem krefst svæfingar eða annarrar aðkomu svæfingalæknis, er að Tryggingastofnun ríkisins, nú Sjúkratryggingar Íslands, hafi fyrirfram samþykkt aðgerðina og gengið úr skugga um að hún sé ekki í boði innan ásættanlegs tíma hjá heilbrigðisstofnun, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, eða aðila sem gert hefur samning um þjónustuna samkvæmt IV. kafla laga um sjúkratryggingar. Beiðni hins sjúkratryggða um endurgreiðslu kostnaðar vegna bæklunaraðgerðar sem krefst aðkomu svæfingalæknis skal fylgja nákvæm sjúkdómsgreining, aðgerðaráætlun og lýsing bæklunarlæknis á þeim árangri sem að er stefnt. Í aðgerðaráætlun skal tilgreina einstök læknisverk, sbr. gjaldskrá sem fylgir reglugerð þessari, svo og fjölda þeirra. Áætlunin skal þannig gefa kost á heildstæðu kostnaðarmati. Beiðnin skal vera á því formi sem Tryggingastofnun ríkisins, nú Sjúkratryggingar Íslands, ákveða og skal stofnunin hafa tekið afstöðu til hennar innan tveggja vikna frá því að hún ásamt umbeðnum gögnum frá bæklunarlækni er móttekin. Stofnuninni er óheimilt að samþykkja eftir á endurgreiðslu kostnaðar vegna bæklunaraðgerðar sem fellur undir þessa málsgrein.

2. gr.

7. gr. reglugerðarinnar breytist þannig:

a. Í stað orðanna "30. júní 2009" kemur: 30. september 2009.
b. Eftirfarandi málsliður bætist við greinina:

Ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglugerðar þessarar tekur þó einungis til þjónustu sem veitt er á tímabilinu 1. ágúst 2009 til og með 30. september 2009.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 38. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, öðlast gildi 30. júní 2009.

Heilbrigðisráðuneytinu, 25. júní 2009.

Ögmundur Jónasson.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica