Fjármálaráðuneyti

655/2003

Reglugerð um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum fyrir útboð á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt reglugerð nr. 513/2001 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sbr. lög nr. 94/2001 um opinber innkaup, með síðari breytingum.


2. gr.
Form samninga.

Allir samningar sem kaupandi gerir við bjóðanda um opinber innkaup skulu vera skriflegir.


3. gr.
Rökstuðningur höfnunar tilboðs og annarra ákvarðana.

Þegar veittur er rökstuðningur samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 94/2001 skal greina frá ástæðum þess að tilboði eða umsókn um þátttöku í útboði var hafnað auk þess að gera grein fyrir auðkennum tilboðs, sem ákveðið var að taka, þeim kostum tilboðsins sem réðu vali þess og nafni þess bjóðanda sem lagði það fram.

Kaupandi skal, eins fljótt og kostur er, tilkynna bjóðendum í útboði eða þátttakendum í forvali og samningskaupum um ákvörðun um að taka engu tilboði í útboði eða hefja innkaupaferli upp á nýtt. Ákvörðun skal vera rökstudd og skrifleg, ef þess er óskað. Kaupandi skal einnig tilkynna útgáfustjórn Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins um slíka ákvörðun.


4. gr.
Skýrslur.

Kaupandi skal útbúa skýrslu um hvern gerðan samning. Í skýrslu skulu a.m.k. eftirfarandi upplýsingar koma fram:

a. Nafn og heimilisfang kaupanda auk efnis og fjárhæðar samnings.
b. Nöfn bjóðenda eða þátttakenda sem var heimiluð þátttaka og ástæður fyrir vali þeirra.
c. Nöfn bjóðenda eða þátttakenda sem ekki var heimiluð þátttaka og ástæður fyrir höfnun þeirra.
d. Nafn þess bjóðanda sem var valinn og ástæður þess að hans tilboð var valið, og, eftir atvikum, hvaða hluti samnings fyrirhugað er að fela þriðju aðilum.
e. Ef um samningskaup er að ræða, tilgreining heimildar til samningskaupa samkvæmt 19. eða 20. gr. laga nr. 94/2001.

Skýrslu skal senda til Eftirlitsstofnunar EFTA, ef stofnunin óskar þess. Ef um er að ræða vörukaup og heimild a. liðs 20. gr. laga nr. 94/2001 til samningskaupa er beitt, er kaupanda skylt að senda fjármálaráðuneytinu og Eftirlitsstofnun EFTA skýrsluna að eigin frumkvæði.


5. gr.
Tilhögun hönnunarsamkeppni.

Þegar um er að ræða samkeppni, sem kaupandi heldur í því skyni að fá tillögur eða áætlanir, einkum á sviði skipulags svæða eða byggða, húsagerðarlistar, verkfræði eða upplýsingavinnslu, sem lagðar eru fram og metnar af dómnefnd, hvort sem um er að ræða verðlaun eða ekki, gilda ákvæði þessarar greinar, enda sé hönnunarsamkeppni haldin til kaupa á þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum reglugerðar nr. 513/2001 eða heildarvirði verðlauna og/eða greiðslna til þátttakanda er a.m.k. sú fjárhæð.

Tilkynna skal áhugasömum þátttakendum fyrirfram um tilhögun hönnunarsamkeppni.

Óheimilt er að takmarka aðgang að hönnunarsamkeppni með vísan til þjóðernis, búsetu á ákveðnu svæði eða einskorða aðgang við annað hvort lögaðila eða einstaklinga.

Dómnefnd skal aðeins skipuð einstaklingum sem eru óháðir þátttakendum í samkeppni. Þar sem tiltekinnar menntunar eða starfshæfni er krafist af þátttakendum skal a.m.k. einn þriðji hluti dómnefndarmanna hafa þá menntun eða sambærilega starfshæfni.

Dómnefnd skal vera sjálfstæð í störfum sínum. Tillögur skulu vera með nafnleynd. Ákvarðanir og álit dómnefndar um tillögur skulu grundvallast á viðmiðum sem tilkynnt voru fyrirfram samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.


6. gr.
Tæknilegar útskýringar.

Þegar víkja skal frá áskilnaði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 94/2001 á grundvelli c. liðar 3. mgr. sömu greinar skal það vera þáttur í skýrri og skráðri tímaáætlun sem miðar að notkun evrópskra staðla, evrópsks tæknisamþykkis eða sameiginlegra tækniforskrifta.

Kaupandi sem hyggst víkja frá áskilnaði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 94/2001 á grundvelli 3. mgr. sömu greinar skal tilgreina það í auglýsingu um fyrirhuguð innkaup, sem send er útgáfustjórn Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins, eða í útboðsgögnum. Hann skal ætíð skrá ástæður slíkrar ákvörðunar og láta fjármálaráðuneytinu og Eftirlitsstofnun EFTA þær upplýsingar í té, sé þess óskað.

Með grunnkröfum í 2. gr. laga nr. 94/2001 er átt við kröfur um öryggi, heilsu og önnur atriði sem varða almannahagsmuni sem bygging getur fullnægt.


7. gr.
Sending tilkynninga til auglýsinga.

Í öllum tilkynningum til útgáfustjórnar og gagnabanka Evrópubandalagsins skal tilgreina sendingardag þeirra. Sendandi skal geta fært sönnur á sendingardag tilkynningar.

Þegar um er að ræða aðkallandi samninga samkvæmt 5. mgr. 65. gr. laga nr. 94/2001 skal senda tilkynningu með skímskeyti, símriti eða símbréfi til útgáfustjórnar Evrópubandalagsins til birtingar í Stjórnartíðindum bandalagsins og gagnabönkum.

Í tilkynningu um áætluð heildarinnkaup á vörum samkvæmt 59. gr. laga nr. 94/2001 skal skipta innkaupum niður í samræmi við vöruflokkunarkerfi EB (CPA).

Við gerð tilkynninga skal gæta ákvæða reglugerðar nr. 239/2003 um notkun staðlaðra eyðublaða við birtingu opinberra útboðsauglýsinga samkvæmt lögum um opinber innkaup.


8. gr.
Tilkynningar o.fl. vegna lokaðra útboða og við samningskaup.

Í lokuðum útboðum eða samningskaupum skal kaupandi samtímis tilkynna þeim sem valdir hafa verið til að leggja fram tilboð um þá ákvörðun sína. Með tilkynningu kaupanda skulu fylgja útboðsgögn og önnur stoðgögn. Í tilkynningu skal a.m.k. eftirfarandi koma fram:

a. Upplýsingar um hvar nálgast má útboðsgögn og önnur gögn vegna innkaupa, ef við á, og lokadagur fyrir afhendingu þessara ganga. Einnig upplýsingar um verð og greiðslukjör þessara gagna, ef við á.
b. Tilboðsfrestur, hvar skila á tilboðum og tungumál sem tilboð skal vera á.
c. Tilvísun til tilkynningar um innkaup eða útboðsauglýsingar.
d. Upplýsingar um hvaða gögn leggja á fram til stuðnings fjárhagslegu og tæknilegu hæfi bjóðanda, sbr. 30. og 31. gr. laga nr. 94/2001.
e. Forsendur fyrir vali tilboðs, ef þær hafa ekki þegar komið fram í tilkynningu um innkaup eða útboðsauglýsingu.

Tilboðsfrestur í lokuðum útboðum skal ekki vera skemmri en 40 dagar frá sendingu tilkynningar samkvæmt 1. mgr. Ef aðstæður eru aðkallandi má þó stytta þennan frest niður í 10 daga frá sendingu tilkynningar samkvæmt 1. mgr.

Beiðni um að taka þátt í innkaupum með því að leggja fram tilboð má senda kaupanda með bréfi, símskeyti, símrita, símbréfi eða með talsíma. Ef beiðni berst með öðrum hætti en með bréfi er kaupanda skylt að staðfesta móttöku beiðni skriflega innan 37 daga frá sendingu tilkynningar um innkaup, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 94/2001.


9. gr.
Viðbótarupplýsingar.

Viðbótarupplýsingum við útboðs- og forvalsgögn og gögn vegna lokaðs útboðs og samningskaupa skal komið til bjóðenda eigi síðar en sex dögum áður en frestur til að skila tilboðum rennur út, enda hafi upplýsinganna verið óskað með hæfilegum fyrirvara.


10. gr.
Gerð aðkallandi samninga.

Við gerð aðkallandi samninga er skylt að útvega frekari upplýsingar varðandi útboðsgögn eigi síðar en fjórum dögum áður en frestur til að skila tilboðum rennur út, enda hafi upplýsinganna verið óskað með hæfilegum fyrirvara.

Umsóknir um að gera tilboð og boð um að gera tilboð skulu sendast eins fljótt og unnt er þegar um aðkallandi samninga er að ræða. Þegar umsóknir um að gera tilboð eru sendar með símskeyti, símriti, símbréfi eða símleiðis er skylt að staðfesta þær með bréfi sem sendist áður en frestur sá sem tilgreindur er í 5. mgr. 65. gr. laga nr. 94/2001, er útrunninn.


11. gr.
Form tilboða.

Tilboðum skal skila skriflega, annaðhvort beint eða í pósti. Á grundvelli 2. mgr. 48. gr. laga nr. 94/2001 er heimilt að leggja fram tilboð með öðrum hætti en skriflegum svo framarlega sem tryggt sé að hvert tilboð innihaldi allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat þess, að óviðkomandi verði ekki kunnugt um efni tilboðsins, að slík tilboð séu staðfest skriflega, eða með staðfestu endurriti tilboðs, eins fljótt og unnt er, og að tilboð séu opnuð eftir að afhendingarfrestur er runnin út.


12. gr.
Frávikstilboð.

Ef kaupandi hyggst meta tilboð á grundvelli fjárhagslegrar hagkvæmni er heimilt að gera frávikstilboð, enda fullnægi slíkt boð lágmarkskröfum útboðsgagna til eiginleika þess sem óskað er kaupa á.

Lágmarkskröfur samkvæmt 1. mgr. skulu koma fram í útboðsgögnum. Ef frávikstilboð eru óheimil skal það einnig tekið fram í útboðsgögnum.

Kaupanda er óheimilt að hafna frávikstilboði af þeim ástæðum einum að tilboðið taki mið af tæknilegum kröfum, sem samræmast stöðlum sem samdir hafa verið til þess að innleiða evrópska staðla, evrópskt tæknisamþykki eða sameiginlegar tækniforskriftir. Sama gildir ef um er að ræða innlenda staðla ríkis sem samrýmast reglum Evrópska efnahagssvæðisins um tæknilega samræmingu og innlenda staðla ríkis varðandi hönnun, útreikninga og útfærslu verka og efnisnotkun.


13. gr.
Nánar um gögn um fjárhagslegt og tæknilegt hæfi bjóðanda.

Ef bjóðandi er krafinn um sönnun um þau atriði sem greinir í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/2001 skal viðeigandi opinbert vottorð, þar sem fram kemur að hann uppfylli öll skilyrðin, metið sem fullnægjandi sönnun. Ef heimaríki bjóðanda gefur ekki út opinber vottorð sem þessi skal þess í stað meta fullgildan eið eða drengskaparheit sem bjóðandi hefur unnið um umrædd atriði fyrir dómara eða yfirvaldi, lögbókanda, eða þar til bæru fagfélagi í heimaríki sínu.

Auk þeirra atriða sem greinir í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 94/2001 getur bjóðandi lagt fram verktryggingu eða aðra tryggingu fyrir skaðleysi kaupanda af hugsanlegum vanefndum bjóðanda (professional risk indemnitiy insurance).

Vottorð sem um getur í a. lið 1. mgr. 31. gr. laga nr. 94/2001 skulu gefin út eða staðfest af þeim opinbera aðila sem keypti verk, ef hann hefur verið kaupandi í skilningi laga nr. 94/2001, en af viðeigandi gagnaðila samnings ef samningur hefur verið gerður við einkaaðila. Ef ekki er unnt að afla vottorðs eða staðfestingar einkaaðila getur bjóðandi gefið vottorð út sjálfur.

Þegar um er að ræða vottorð um verk sem unnin hafa verið með fullnægjandi hætti undanfarin fimm ár samkvæmt a. lið 1. mgr. 31. gr. laga nr. 94/2001 skal koma fram í þeim fjárhæð samnings, dagsetning og staðsetning verks, og hvort viðeigandi reglum var fylgt og verk klárað með fullnægjandi hætti. Þar sem við á skal viðeigandi opinber aðili afhenda kaupanda þessi vottorð milliliðalaust.

Upplýsingar um hæfni og menntun yfirmanna samkvæmt c. lið 1. mgr. 31. gr. laga nr. 94/2001 skulu eingöngu taka til undangenginna þriggja ára.

Bjóðandi getur sýnt fram á tæknilegt hæfi sitt með því að vísa til þess að hluti samnings verði falinn undirverktaka eða öðrum þriðja aðila, enda skal þá sá aðili fullnægja kröfum útboðsgagna til tæknilegrar getu, sbr. 31. gr. laga nr. 94/2001. Bjóðandi getur jafnframt sýnt fram á tæknilegt hæfi sitt með yfirlýsingu um meðalfjölda starfsmanna fyrirtækis ár hvert og fjölda yfirmanna á undanförnum þremur árum.


14. gr.
Vottorð um að fullnægt hafi verið gæðakröfum.

Þar sem kaupandi krefst þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að þjónusta standist ákveðnar gæðakröfur, skulu gæðamatskerfi samkvæmt evrópska staðlinum EN 29 000 notuð og vottunaraðili fullnægja evrópska staðlinum EN 45 000. Kaupendur skuli viðurkenna sambærileg vottorð frá aðilum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Þeir skulu einnig taka við vottorðum af sambærilegum gæðum frá bjóðendum sem geta ekki aflað sér vottorða sem þessara eða geta það ekki innan settra tímamarka.


15. gr.
Óeðlilega lág tilboð.

Ef taka á lægsta tilboði samkvæmt útboðsgögnum skal kaupandi tilkynna fjármálaráðuneytinu og Eftirlitsstofnun EFTA um öll tilboð sem hann hefur hafnað með vísan til þess að þau væru óeðlilega lág.


16. gr.
Sérleyfi á sviði þjónustu.

Ef kaupandi veitir aðila, sem ekki er kaupandi í skilningi laga nr. 94/2001, rétt til að starfrækja opinbera þjónustu skal kveða á um það í leyfisbréfi eða tryggja með öðrum sambærilegum hætti að umræddur aðili virði regluna um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis þegar þjónustan er veitt. Þetta gildir án tillits til þess hvert form þjónustuaðilans er að lögum.


17. gr.
Trúnaður við bjóðendur.

Kaupandi skal gæta trúnaðar um upplýsingar sem hann fær frá bjóðendum, eftir því sem efni og eðli upplýsinganna gefur tilefni til.


18. gr.
Sérleyfissamningar um verk.

Kaupandi sem hyggst gera sérleyfissamning um verk yfir viðmiðunarfjárhæð reglugerðar nr. 513/2001 skal tilkynna og auglýsa þá fyrirætlun sína eins og nánar greinir í X. kafla laga nr. 94/2001.

Kaupandi getur krafist þess að umsækjendur um sérleyfi tiltaki að hvaða marki, ef einhverju, þeir hyggist fela framkvæmd samnings þriðju aðilum. Kaupandi getur einnig krafist þess að sérleyfishafi feli þriðju aðilum framkvæmd samnings sem nemur a.m.k. 30% af heildarvirði hans, þó þannig að sérleyfishafa sé heimilt að hafa þennan hluta stærri. Þennan lágmarkshluta skal tiltaka í samningi um sérleyfi.

Ef sérleyfishafi er kaupandi í skilningi laga nr. 94/2001 skal hann fylgja þeim lögum og reglum settum samkvæmt þeim við gerð verksamninga við þriðju aðila. Aðrir sérleyfishafar skulu fylgja reglum um opinber innkaup um tilkynningar og auglýsingar þegar um er að ræða verksamninga yfir viðmiðunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. Þetta á þó ekki við ef skilyrðum til samningskaupa án undanfarandi birtingar auglýsingar er fullnægt, sbr. 20. gr. laga nr. 94/2001.

Ef fleiri aðilar standa sameiginlega að sérleyfissamningi skal ekki litið á samninga þeirra á milli sem samninga sérleyfishafa við þriðju aðila. Sama á við um viðsemjendur sem eru í eignatengslum við sérleyfishafa. Viðsemjandi telst í eignatengslum við sérleyfishafa ef sérleyfishafinn hefur yfirráð yfir honum, beint eða óbeint; viðsemjandinn er í slíkri aðstöðu gagnvart sérleyfishafa eða sérleyfishafinn og viðsemjandinn eru bæði undir yfiráðum sama aðila vegna eignar, fjárhagslegrar þátttöku eða reglna um stjórn þeirra. Gert skal ráð fyrir því að aðili hafi yfirráð yfir öðrum aðila þegar hann á meirihluta hlutafjár, stjórnar meirihluta atkvæða sem tengjast hlutabréfum eða getur tilnefnt meirihluta af stjórn fyrirtækis. Umsækjandi um sérleyfi skal láta fylgja ítarlegan lista yfir fyrirtæki sem hann hefur yfirráð yfir. Breyta skal þessum lista í samræmi við breytingar á tengslum viðkomandi fyrirtækja.

Þegar um er að ræða innkaup sérleyfishafa, sem ekki telst kaupandi í skilningi laga nr. 94/2001, skal frestur til að tilkynna um þátttöku í samningskaupum eða forvali ekki vera skemmri en 37 dagar frá sendingu tilkynningar, en tilboðsfrestur í almennu útboði ekki vera skemmri en 40 dagar frá sendingu tilkynningar.


19. gr.
Samningar um hönnun og byggingu húsnæðis á vegum hins opinbera.

Í auglýsingu um útboð samkvæmt 58. gr. laga nr. 94/2001 skal m.a birta verklýsingu, eins nákvæma og við verður komið, til þess að gera áhugasömum verktökum kleift að gera sér raunhæfa mynd af verkinu. Enn fremur skulu kaupendur greina frá persónulegum, tæknilegum og fjárhagslegum skilyrðum, sem umsækjendur þurfa að uppfylla, í útboðsauglýsingunni í samræmi við ákvæði 28. gr. til 31. gr. laga nr. 94/2001.

Þegar 58. gr. laga nr. 94/2001 er beitt skal að öðru leyti fara að reglum um auglýsingar í lokuðum útboðum og val á bjóðendum í forvali.


20. gr.
Tilkynning um einstök kaup á verkum.

Í tilkynningu um heildarinnkaup á verkum samkvæmt 59. gr. laga nr. 94/2001 skal lýsa aðaleinkennum áætlaðra samninga.


21. gr.
Áætlun fjárhæða fyrir verksamninga.

Þegar verk skiptist í fleiri hluta sem hver um sig er andlag sérstaks samnings, er skylt að taka tillit til allra hluta þegar áætluð fjárhæð samnings er ákveðin með hliðsjón af viðmiðunarfjárhæðum, sbr. reglugerð nr. 513/2001. Verði samanlögð fjárhæð hluta jafnhá eða hærri viðmiðunarfjárhæð gilda reglur X. kafla laga nr. 94/2001 um alla hlutana. Heimilt er að víkja frá þessu ef fjárhæð einstakra hluta er innan við 87.400.000 krónur, án virðisaukaskatts, svo fremi áætluð heildarfjárhæð þeirra hluta, sem undanþegnir eru, fari ekki fram yfir 20% af heildarfjárhæð allra verkhlutanna.


22. gr.
Áætlun fjárhæða vegna þjónustukaupa.

Þegar þjónustu er skipt upp í nokkra hluta er skylt að taka tillit til allra hluta þegar áætluð fjárhæð samnings er ákveðin með hliðsjón af viðmiðunarfjárhæðum, sbr. reglugerð nr. 513/2001. Verði samanlögð fjárhæð hluta jafnhá eða hærri viðmiðunarfjárhæð gilda reglur X. kafla laga nr. 94/2001 um alla hlutana. Heimilt er að víkja frá þessu ef fjárhæð einstakra hluta er innan við 6.992.000 krónur, án virðisaukaskatts, svo fremi áætluð heildarfjárhæð þeirra hluta, sem undanþegnir eru, fari ekki fram yfir 20% af heildarfjárhæð allra verkhlutanna.


23. gr.
Skýrsla um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.

Fjármálaráðuneytið skal útbúa skýrslu, þar sem fram kemur fjöldi og fjárhæð samninga um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES sem einstakir kaupendur gera árlega.

Í skýrslunni skal koma fram fjöldi og fjárhæð samninga sem hver kaupandi eða flokkur kaupenda hefur gert yfir viðmiðunarfjárhæðum, sundurliðað að svo miklu leyti sem unnt er eftir innkaupsaðferð, flokki þjónustu eða þjóðerni þjónustuveitenda og, þegar um samningskaup er að ræða, sundurliðað í samræmi við lagaheimild samningskaupa, þar sem skráður er fjöldi og fjárhæð samninga sem hvert aðildarríki og þriðju lönd hafa fengið í sinn hlut.


24. gr.
Nánar um heimild til samningskaupa.

Heimild d. liðar 20. gr. laga nr. 94/2001 til samningskaupa verður aðeins beitt þegar fyrir hendi er brýn nauðsyn eða mjög krefjandi aðstæður, enda sé öðrum skilyrðum liðsins fullnægt.

Heimild g. liðar 20. gr. laga nr. 94/2001 til samningskaupa verður aðeins beitt vegna nýrrar þjónustu eða verks sem er endurtekning sambærilegra verkefna og áður var samið um af sömu samningsyfirvöldum og ef tekið hefur verið tillit til heildarkostnaðar þjónustu eða verks í því útboði sem lá til grundvallar fyrsta samningi enda sé öðrum skilyrðum liðsins fullnægt.

Heimild f. liðar 20. gr. laga nr. 94/2001 til samningskaupa nær jafnframt til þess þegar um er að ræða viðbótarþjónustu.


25. gr.
Listar yfir viðurkennda veitendur vöru, þjónustu og verka.

Bjóðendur, sem skráðir eru á opinberum listum yfir viðurkennda veitendur vöru, þjónustu eða verka í öðrum ríkjum EES geta fært sönnur á þau atriði sem greinir í 28. gr. til 31. gr. laga nr. 94/2001 með viðeigandi vottorði um þá skráningu. Í vottorði skal vera vísað til þeirra atriða sem heimiluðu skráningu og flokkun í lista.

Óheimilt er að véfengja vitneskju sem skráning samkvæmt vottorði ber með sér. Heimilt er samt sem áður að krefja skráðan þjónustuveitanda aukalega um staðfestingu á greiðslum framlaga til almannatrygginga hvenær sem boðið er til samninga. Þetta á aðeins við ef opinber listi er til í heimalandi bjóðanda.


26. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 12. gr., 56. gr., 63. gr., 67. gr. og 85. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.


Fjármálaráðuneytinu, 25. ágúst 2003.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Þórhallur Arason.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica