Fjármálaráðuneyti

705/2001

Reglugerð um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti. - Brottfallin

I. KAFLI
Orðskýringar og gildissvið.
1. gr.
Orðskýringar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem yfirvöld hafa sérstaklega falið einu eða fleiri fjarskipafyrirtækjum að veita.

Almennt fjarskiptanet: Kerfi fyrir almenn fjarskipti sem gerir kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.

Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að hluta eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um almenna fjarskiptanetið með fjarskiptaaðferðum öðrum en hljóðvarpi eða sjónvarpi.

Fyrirtæki í eignatengslum: Fyrirtæki með ársreikninga sem gerðir hafa verið samstæðir við reikninga kaupanda í samræmi við lög nr. 144/1994 um ársreikninga með síðari breytingum og reglugerð nr. 696/1996 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, sbr. tilskipun 83/349/EBE um samstæðureikninga, eða, ef fyrirtæki heyrir ekki undir þessar reglur, fyrirtæki þar sem kaupandi er í ráðandi aðstöðu beint eða óbeint, sbr. 3. mgr. 2. gr., eða sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart kaupanda eða er, ásamt kaupanda, undir yfirráðum annars fyrirtækis í krafti eignar, fjárfestingar eða reglna um stjórnun þess.

Kaupandi: Ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og samtök, aðrir opinberir aðilar, opinber fyrirtæki samkvæmt 2. gr. auk þeirra einkaaðila sem greinir í 3. gr. sem hafa með höndum þá starfsemi sem greinir í 4. gr.

Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar eru fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.

Tilskipunin: Tilskipun nr. 93/38/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, eins og henni hefur verið breytt með tilskipun nr. 98/4/EB, og hún tekin upp í XVI. viðauka samningsins um Evrópska efnhagssvæðið, sbr. ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/94 og 96/99 sem birtar eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 17/01 28. júní 1994 og 55/172 23. nóvember 2000.

Að öðru leyti hafa orð sömu merkingu og í lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup.


2. gr.
Opinberir aðilar sem reglugerðin tekur til.

Reglugerð þessi tekur til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr., og opinberra fyrirtækja, sbr. 3. mgr., enda hafi þessir aðilar með höndum einhverja þá starfsemi sem greinir í 4. gr. Reglugerðin tekur einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.

Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi, sem jafnað verður til reksturs einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:

a. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila, ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af rekstrarkostnaði. Tekjur aðila á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila teljast ekki opinber fjármögnun.
b. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
c. Hann lýtur sérstakri stjórn, sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meirihluta.

Fyrirtæki telst opinbert þegar opinberir aðilar samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. hafa bein eða óbein yfirráð yfir því í krafti eignarhalds, fjárfestingar eða vegna reglna sem því eru settar. Álitið er að um yfirráð af hálfu opinberra aðila sé að ræða þegar eitthvert eftirfarandi atriða á við:

a. Opinberir aðilar eiga meirihluta skráðs hlutafjár félags;
b. Opinberir aðilar ráða meirihluta atkvæða sem fylgja hlutabréfum sem gefin eru út af félagi;
c. Opinberir aðilar hafa rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða stjórnarstöður á vegum fyrirtækis.


3. gr.
Einkaaðilar sem reglugerðin tekur til.

Reglugerð þessi tekur til einkaaðila sem starfa á grundvelli sérleyfa eða einkaréttar sem þeim er veittur af yfirvöldum, enda hafi þeir með höndum einhverja þá starfsemi sem greinir í 4. gr. Sérleyfi eða einkaréttur merkir réttindi samkvæmt leyfi veittu af yfirvöldum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem felur í sér að einn eða fleiri aðilar hafa einir rétt til einhverrar þeirrar starfsemi sem greinir í 4. gr. Aðili telst meðal annars njóta sérleyfis eða einkaréttar þegar eftirfarandi á við:

a. Við lagningu þeirra kerfa og byggingu þeirra stöðva sem um getur í 4. gr. er aðila heimilt eignarnám eða sambærileg afnot af eignum, eða honum er heimilt að leggja kerfi sín yfir þjóðvegi.
b. Þegar aðili aflar drykkjarvatns, raforku, gass eða hita til veitukerfis samkvæmt 1. mgr. 4. gr., sem er sem slíkt rekið af fyrirtæki sem nýtur sérleyfa eða einkaréttar, sem veitt eru af yfirvöldum.


4. gr.
Starfsemi sem reglugerðin tekur til.

Reglugerð þessi tekur til þeirra aðila sem greinir í 2. gr. og 3. gr. sem hafa með höndum einhverja af eftirfarandi starfsemi:

a. Að leggja til og reka föst veitukerfi sem ætluð eru til að veita almenningi þjónustu í tengslum við öflun, flutning eða dreifingu á:
drykkjarvatni,
raforku, eða,
gasi eða hita, eða að útvega til slíkra kerfa drykkjarvatn, raforku, gas eða hita;
b. Hagnýtingu landsvæðis í þeim tilgangi:
að leita að eða nema olíu, gas, kol eða annað eldsneyti í föstu formi, eða,
að leggja til flugstöðvar, hafnir við sjó eða vötn eða aðra stöðvaaðstöðu fyrir flutningafyrirtæki sem annast flutninga í lofti, á sjó eða skipgengum vatnaleiðum;
c. Rekstur samgöngukerfis til að þjóna almenningi með járnbrautum, sjálfvirkum kerfum, sporvögnum, rafknúnum strætisvögnum, fólksflutningabifreiðum eða togbrautum. Samgöngukerfi skal það teljast þegar þjónusta er veitt samkvæmt skilyrðum um starfrækslu sem sett eru af yfirvöldum svo sem skilyrði um hvaða leiðum eigi að þjóna, um sætaframboð og ferðatíðni;
d. Að leggja til eða reka almennt fjarskiptakerfi eða veita almenna fjarskiptaþjónustu.

Þjónusta fólksflutningabifreiða við almenning telst ekki vera starfsemi sem heyrir undir c. lið 1. mgr. þegar öðrum aðilum er frjálst að veita þessa þjónustu almennt eða á ákveðnu landsvæði með sömu skilyrðum og kaupanda.

Þegar aðili aflar drykkjarvatns, raforku, gass eða hita til veitukerfa sem veita almenningi þjónustu telst það ekki vera starfsemi sem heyrir undir a. lið 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:

a. Þegar um er að ræða drykkjarvatn eða raforku og:
framleiðsla drykkjarvatns eða raforku viðkomandi aðila fer fram vegna þess að notkun þess er nauðsynleg í annarri starfsemi en getið er um í 1. mgr. og
öflun til almenningsveitukerfa kemur aðeins til vegna eigin þarfa aðilans og til þeirra hefur ekki farið meira en 30% af heildarframleiðslu aðilans á drykkjarvatni og raforku miðað við meðaltal undanfarinna þriggja ára að yfirstandandi ári meðtöldu;
b. Þegar um er að ræða gas eða hita og:
gas- eða hitaframleiðsla aðilans er óhjákvæmileg afleiðing starfsemi sem ekki er getið um í 1. mgr. og
öflun til almenningsveitukerfis er aðeins ætlað að nýta slíka framleiðslu í ábataskyni og hún má ekki nema hærri upphæð en 20% af veltu aðilans miðað við meðaltal undanfarinna þriggja ára að yfirstandandi ári meðtöldu.

Íslenskir aðilar sem skráðir eru í I. til X. viðauka tilskipunarinnar teljast uppfylla ofannefnd skilyrði.


5. gr.
Til hvaða samninga reglugerðin tekur.

Reglugerðin tekur til samninga, sem kaupendur gera við bjóðendur um innkaup á vörum, þjónustu og verkum, sbr. 4. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, og eru yfir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar. Reglugerðin tekur þó ekki til samninga sem undanskildir eru með 7. gr. laga nr. 94/2001 eða eftirfarandi samninga:

a. Samninga eða hönnunarsamkeppna sem kaupendur efna til í öðru skyni en að stunda starfsemi sem lýst er í 4. gr. eða samninga um slíka starfsemi í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins við aðstæður þar sem ekki er um að ræða áþreifanlega notkun kerfa eða landsvæða innan efnahagssvæðisins. Reglugerðin gildir þó um samninga eða hönnunarsamkeppni sem efnt er til af kaupanda sem leggur til og rekur föst veitukerfi ætluð til að veita almenningi þjónustu í tengslum við öflun, flutning eða dreifingu á drykkjarvatni og snertir framkvæmdir við vatnsvirkjun, áveitur eða framræslu að því tilskildu að rúmmál vatns sem ætlað er til drykkjar sé meira en 20% af heildarrúmmáli af því vatni sem fæst með þessum virkjunum, áveitum eða framræsluvirkjum, eða snertir losun eða meðhöndlun fráveituvatns.
b. Samninga sem gerðir eru vegna endursölu eða leigu til þriðja aðila að því tilskildu að kaupandi njóti engra sérleyfa eða sérréttinda til að selja eða leigja umsaminn hlut og öðrum er frjálst að selja hann eða leigja með sömu skilyrðum og kaupanda.
c. Samninga sem kaupendur sem leggja til eða reka almennt fjarskiptakerfi eða veita almenna fjarskiptaþjónustu, gera um innkaup sem eingöngu eru ætluð til að gera þeim kleift að veita eina eða fleiri tegundir fjarskiptaþjónustu, þar sem öðrum aðilum er frjálst að bjóða sömu þjónustu á sama landsvæði og með sambærilegum skilyrðum.
d. Samninga sem kaupendur samkvæmt I. viðauka tilskipunarinnar gera um kaup á vatni eða samninga, sem kaupendur samkvæmt II. til V. viðauka tilskipunarinnar gera um aðfengna orku eða eldsneyti til orkuframleiðslu.
e. Samninga sem kaupandi gerir við aðila í eignartengslum við sig að því tilskildu að a.m.k. 80% af meðalveltu aðilans vegna veitingar þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins sé fengin við kaupanda. Ef fleiri en einn aðili, sem er í eignartengslum við kaupanda, veita sömu eða svipaða þjónustu skal taka heildarveltu af þjónustuveitingu þessara aðila til athugunar. Sama gildir um samninga, sem kaupandi gerir við félag, sem stofnað hefur verið um samstarf hans og annarra kaupenda, til þess að reka starfsemi samkvæmt 4. gr. eða samninga sem kaupandi gerir við dótturfélag eins þessara kaupenda.

Að ósk fjármálaráðuneytisins skulu kaupendur tilkynna um alla starfsemi sem þeir telja undanþegna samkvæmt a. til e. lið 1. mgr. Að því er varðar e. lið skal kaupandi að beiðni fjármálaráðuneytisins einnig gefa upplýsingar um heiti hlutaðeigandi fyrirtækja, eðli og verðmæti þjónustusamninganna og aðrar upplýsingar sem ráðuneytið telur nauðsynlegar til að sanna að tengsl kaupanda og aðila samrýmist skilyrðum málsgreinarinnar.


6. gr.
Þeir sem njóta réttar samkvæmt reglugerðinni.
Réttar samkvæmt reglugerð þessari njóta sömu aðilar og greinir í 8. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup og reglum settum samkvæmt þeirri grein.


7. gr.
Viðmiðunarfjárhæðir.

Reglugerð þessi tekur því aðeins til innkaupa að áætluð fjárhæð þeirra, að frádregnum virðisaukaskatti, sé sem hér segir:

a. Vegna kaupanda, sem rekur fjarskiptakerfi og fjarskiptaþjónustu, sbr. X. viðauka tilskipunarinnar:
i. 47.481.612 kr. vegna vörukaupa- og þjónustusamninga.
ii. 396.680.100 kr. vegna verksamninga.
b. Vegna kaupanda sem sinnir öflun drykkjarvatns og vatnsveitu, raforkuframleiðslu og rafveitu, fólksflutningum í þéttbýli með járnbrautum, sporvögnum, rafknúnum strætisvögnum eða hópbifreiðum, rekstri flugstöðva eða hafna við sjó eða vatnaleiðir eða annarri stöðvaraðstöðu, sbr. I., II., VII., VIII. og IX. viðauka tilskipunarinnar:
i. Jafngildi íslenskra króna 33.921.892 af sérstökum dráttarréttindum (SDR) vegna vörukaupa- og þjónustusamninga sem greinir í XVI. viðauka A tilskipunar nr. 38/93/EBE, að undanskildum rannsókna- og þróunarsamningum og fjarskiptaþjónustusamningum, sbr. 5. og 8. tölulið viðaukans.
ii. Íslenskra króna 31.654.408 þegar um er að ræða aðra þjónustusamninga en þá sem nefndir eru í a. lið.
iii. Jafngildi íslenskra króna 424.022.903 af sérstökum dráttarréttindum (SDR) vegna verksamninga.
c. Vegna kaupanda, sem sinnir gasveitu og hitaveitu, leit og námi olíu og gass, leit og námi kola og annars eldsneytis í föstu formi eða járnbrautarflutningum, sbr. III., IV., V. og VI. viðauka tilskipunarinnar:
i. 31.654.408 kr. vegna vörukaupa- og þjónustusamninga.
ii. 396.680.100 kr. vegna verksamninga.

Fjárhæð viðmiðunarmarka, sem mælt er fyrir um í 1. til 3. mgr., í íslenskum krónum skal að meginreglu endurskoðuð annað hvert ár.

Við áætlun fjárhæða samninga skal gætt ákvæða 14. til 17. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.

Viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt grein þessari gilda einnig um útboðsskyldu vegna innkaupa samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup sem Ísland er aðili að.


II. KAFLI
Fyrirkomulag innkaupa.
8. gr.
Útboðsskylda.
Vöru-, þjónustu- og verksamninga, sem reglugerð þessi tekur til, skal gera í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í 9. gr. Þetta á þó ekki við um samninga um þá þjónustu sem talin er upp í XVI. viðauka B tilskipunarinnar, en gæta skal ákvæða 14. gr. reglugerðarinnar og 24. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup við gerð þeirra.


9. gr.
Fyrirkomulag útboðs og undanþágur frá undangenginni kynningu.
Kaupandi getur valið milli almenns útboðs, lokaðs útboðs og samningskaupa að því tilskildu að innkaup hafi áður verið kynnt samkvæmt 10. gr. Við framkvæmd almenns útboðs, lokaðs útboðs eða samningskaupa skal fara að ákvæðum laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, ef ekki leiðir annað af ákvæðum reglugerðar þessarar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að kaupa inn án undangenginnar kynningar í eftirfarandi tilvikum:

a. Þegar engin tilboð eða engin viðunandi tilboð berast í kjölfar útboðs, að því tilskildu að upprunalegum skilmálum samningsins hafi ekki verið breytt verulega;
b. Þegar samningur er eingöngu gerður vegna rannsókna, tilrauna, athugana eða þróunar en ekki til að skila hagnaði eða endurheimta rannsóknar- og þróunarkostnað og að því tilskildu að gerð slíks samnings hafi ekki áhrif á útboð samninga síðar sem einkum eru gerðir í þessu skyni;
c. Þegar einungis ákveðinn bjóðandi getur uppfyllt samninginn af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða sökum þess að um vernd einkaréttar er að ræða;
d. Þegar ekki er hægt að halda þann skilafrest sem tiltekinn er fyrir almennt eða lokað útboð af brýnni nauðsyn vegna atburða sem kaupendur gátu ekki séð fyrir;
e. Þegar um er að ræða vörusamninga um viðbótarafgreiðslu frá upphaflegum birgi, sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða sem aukning á venjulegum birgðum eða búnaði, og val á nýjum birgi hefði í för með sér að kaupandi yrði að afla sér efna sem hefðu önnur tæknileg einkenni sem samræmdust illa eldri tæknibúnaði eða leiddu til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur eða viðhald;
f. Vegna viðbótarframkvæmda eða -þjónustu, sem ekki var gert ráð fyrir í upphaflegu verkefni eða í fyrstu samningsgerð en hafa síðar vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna orðið nauðsynlegar til að leiða samninginn til lykta, enda sé þeim úthlutað til sama verktaka og annast upprunalega samninginn:
þegar ekki er unnt að skilja slíkar framkvæmdir frá aðalsamningi af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum án þess að valda kaupanda stórfelldum vandkvæðum eða
slíkar viðbótarframkvæmdir, þó svo halda megi þeim aðgreindum frá framkvæmd upphaflegs samnings, eru óhjákvæmilegar á seinni stigum verksins;
g. Þegar um er að ræða verksamninga vegna nýrra framkvæmda sem eru endurtekning sambærilegra verka og fyrr var samið um við sama verktaka af sama kaupanda, svo fremi verkið sé í samræmi við slíkt undirstöðuverk og að um fyrsta verkið hafi verið samið eftir útboð. Um leið og fyrsta verk er boðið út, skal það kunngjört að þessum starfsreglum kunni að verða fylgt og ber kaupanda að taka til greina áætlaðan heildarkostnað síðari framkvæmda við áætlun fjárhæða samkvæmt 6. gr.;
h. Þegar vörur eru skráðar og keyptar á hrávörumarkaði;
i. Þegar samningar eru gerðir á grundvelli rammasamkomulags, sbr. 22. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup;
j. Þegar gera má mjög hagstæð vörukaup með því að hagnýta sér einstakt tækifæri sem gefst í mjög skamman tíma til kaupa á verði sem er verulega undir venjulegu markaðsverði;
k. Þegar vörur eru keyptar við sérstaklega hagstæðar aðstæður annaðhvort frá birgi sem er að leggja niður starfsemi sína, við nauðungarsölu eða frá þrotabúi;
l. Þegar samningurinn er gerður eftir samkeppni um hönnun, sem er skipulögð í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar, og þar sem reglum samkvæmt er skylt að semja við þann sem sigrar í keppninni eða einn þeirra sem sigra. Í síðara tilviki er skylt að bjóða öllum sigurvegurum keppninnar að taka þátt í samningsviðræðum.


III. KAFLI
Framkvæmd innkaupa.
10. gr.
Tilkynning um einstök innkaup.

Kynning innkaupa samkvæmt 1. mgr. 9. gr. skal fara fram með eftirtöldum hætti:

a. Með tilkynningu sem samin er í samræmi við liði A, B, eða C í XII. viðauka tilskipunarinnar, eða
b. Með tilkynningu sem birtist reglubundið og samin er í samræmi við XIV. viðauka tilskipunarinnar, eða
c. Með tilkynningu um notkun hæfismatskerfis sem samin er í samræmi við XIII. viðauka tilskipunarinnar.
Þegar útboð fer fram með því að tilkynna reglulega um innkaup samkvæmt b. lið 1. mgr. skal eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
a. Í tilkynningu ber að geta sérstaklega um vörurnar, verkin eða þjónustuna sem verður boðin út og samið um;
b. Í tilkynningu ber að taka fram að samningurinn verði gerður eftir lokað útboð eða samningskaup án frekari birtingar auglýsingar um útboð og þar skal fyrirtækjum sem hafa áhuga boðið að láta hann skriflega í ljós;
c. Kaupandi skal bjóða öllum umsækjendum að staðfesta áhuga sinn á grundvelli ítarlegra upplýsinga um viðkomandi samning áður en viðsemjendur eru valdir. Í upplýsingunum komi a.m.k. fram eftirfarandi:
i. tegund og magn, þar með talið möguleikar á kauprétti vegna frekari innkaupa og, ef unnt er, hvenær skal áætla að nota megi slíkan kauprétt. Þegar um endurtekna samninga er að ræða skal gefa upp tegund og magn og, ef unnt er, áætla tímasetningu frekari útboða varðandi þau verk, vörur eða þjónustu sem kaupa skal,
ii. hvort um lokað útboð eða samningskaup er að ræða,
iii. hvaða dag afhending vara eða framkvæmd verka og þjónustu skal hefjast eða ljúka,
iv. heimilisfang og lokafrestur til að skila umsóknum um að gera tilboð og á hvaða tungumáli eða tungumálum þeim skal skilað,
v. heimilisfang umsjónarmanns útboðs sem veitir nauðsynlegar upplýsingar varðandi öflun tæknilegra útskýringa og annarra skjala,
vi. efnahagslegar og tæknilegar kröfur, fjárhagslegar ábyrgðir og upplýsingar sem bjóðendur skulu gefa,
vii. fjárhæð og greiðsluskilmála allra upphæða sem greiða skal fyrir skjöl, sem varða reglur um innkaup, og
viii. hvort kaupandi leitar eftir tilboðum varðandi kaup, langtímaleigu, skammtímaleigu eða kaupleigu, eða fleiri en einn þessara möguleika.

Þegar útboð fer fram með því að tilkynna um tilvist hæfismatskerfis skal velja bjóðendur í lokuðu útboði eða þátttakendur í samningskaupum úr hópi hæfra umsækjanda eftir þessu kerfi.

Við hönnunarsamkeppni skal útboð fara fram með auglýsingu í samræmi við XVII. viðauka tilskipunarinnar.

Tilkynningar sem getið er um í þessari grein skulu birtar í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.


12. gr.
Tilkynning um heildarinnkaup.
Kaupendur skulu tilkynna eftirfarandi a.m.k. einu sinni á ári:
a. Vegna vörukaupasamninga: heildarfjárhæð samninga eftir vöruflokkum sem áætluð fjárhæð er 59.352.015 IKR eða hærri og sem bjóða á út á næstu tólf mánuðum;
b. Vegna verksamninga: aðaleinkenni verksamninga sem gera á að áætluðu verðmæti sem ekki er undir:
i. viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í öðrum undirlið a. liðar 1. mgr. 6. gr. að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í X. viðauka tilskipunarinnar.
ii. viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í þriðja undirlið b. liðar 1. mgr. 6. gr., að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í I., II., VII., VIII. og IX. viðauka tilskipunarinnar, eða
iii. viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í síðari undirlið c. liðar 1. mgr. 6. gr., að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í III., IV., V. og VI. viðauka tilskipunarinnar.
c. Vegna þjónustusamninga: áætlað heildarverðmæti þjónustusamninga í hverjum þjónustuflokki í XVI. viðauka A tilskipunarinnar sem þær hafa í hyggju að gera næstu tólf mánuði, ef áætlað heildarverðmæti, með hliðsjón af 6. gr., er jafnt eða hærra en 59.352.015 IKR.

Tilkynningu samkvæmt 1. mgr. skal semja í samræmi við XIV. viðauka tilskipunarinnar og birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

Þegar tilkynning er notuð til útboðs í samræmi við b. lið 1. mgr. 10. gr. má hún ekki hafa birst meira en tólf mánuðum fyrir þann dag sem boðið, sem getið er um í c. lið 2. mgr. 10. gr. er sent. Kaupendur skulu þar að auki uppfylla ákvæði 16. gr. um skilafrest tilkynningar.

Kaupendum er heimilt að birta reglubundnar tilkynningar um meiriháttar verkefni án þess að endurtaka upplýsingar sem áður hafa komið fram í reglubundinni kynningarauglýsingu, að því tilskildu að það sé skýrt tekið fram að þessar tilkynningar séu viðbótartilkynningar.


13. gr.
Hönnunarsamkeppni.

Grein þessi gildir um alla hönnunarsamkeppni sem efnt er til vegna samnings um kaup á þjónustu að áætluðu verðmæti, án virðisaukaskatts, sem ekki er undir:

viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í fyrsta undirlið a. liðar 1. mgr. 6. gr., að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í X. viðauka tilskipunarinnar,
viðmiðunarmörkunum sem sett eru í fyrsta eða öðrum undirlið b. liðar 1. mgr. 6. gr. að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í I., II., VII., VIII. og IX. viðauka tilskipunarinnar, eða
viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í fyrsta undirlið c. liðar 1. mgr. 6. gr., að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í III., IV., V. og VI. viðauka tilskipunarinnar.

Grein þessi gildir um alla hönnunarsamkeppni þar sem heildarvinningar eða -greiðslur til þátttakenda eru ekki undir:

viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í fyrsta undirlið a. liðar 1. mgr. 6. gr., að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í X. viðauka tilskipunarinnar,
viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í fyrsta eða öðrum undirlið b. liðar 1. mgr. 6. gr., að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í I., II., VII., VIII. og IX. viðauka tilskipunarinnar, eða
viðmiðunarmörkunum, sem sett eru í fyrsta undirlið c. liðar 1. mgr. 6. gr., að því er varðar samninga sem ætlað er að verði gerðir af kaupendum sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í III., IV. V. og VI. viðauka tilskipunarinnar.

Reglur um fyrirkomulag á hönnunarsamkeppni skulu vera í samræmi við skilyrði þessarar greinar og sendast öllum sem hug hafa á að taka þátt í samkeppninni.

Óheimilt er að takmarka aðgang þátttakenda að hönnunarsamkeppni með vísan til landsvæðis íslenska ríksins eða hluta þess.

Þegar einungis takmörkuðum fjölda er heimilt að taka þátt í hönnunarsamkeppni skulu samningsyfirvöld setja skýr skilyrði fyrir valinu sem mismuna ekki þátttakendum. Sjá verður til þess að fjöldi þátttakenda verði nægjanlegur til að tryggja raunverulega samkeppni.

Í dómnefnd mega einungis starfa menn sem engin tengsl hafa við þátttakendurna í samkeppninni. Sé farið fram á tiltekna starfsmenntun eða hæfi hjá þátttakendum í samkeppni skal að minnsta kosti þriðjungur dómnefndarmanna uppfylla þessar eða jafngildar kröfur. Dómnefndin tekur ákvarðanir eða myndar sér skoðanir á sjálfstæðan hátt. Hún byggir þær á tillögum sem eru ekki settar fram undir nafni og einungis á grundvelli viðmiða sem eru skilgreind í auglýsingunni, samanber XVII. viðauka tilskipunarinnar.


14. gr.
Tilkynning um gerða samninga.
Kaupendur, sem gert hafa samning eða efnt til hönnunarsamkeppni, skulu innan tveggja mánaða frá gerð samningsins, samkvæmt þeim skilyrðum sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að setja, tilkynna um niðurstöðuna með tilkynningu í samræmi við XV. viðauka eða XVIII. viðauka tilskipunarinnar.

Upplýsingarnar í I. þætti XV. viðauka tilskipunarinnar skal birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins. Þegar það er gert skal Eftirlitsstofnun EFTA taka tillit til viðskiptahagsmuna sem viðkvæmir eru og geta sérstaklega um, þegar þær afhenda þessar upplýsingar, í sambandi við 6., 9. og 11. lið í XV. viðauka tilskipunarinnar.

Kaupendur sem gera samninga um þjónustu í 8. flokki XVI. viðauka A tilskipunarinnar og b-liður 2. mgr. 9. gr. gildir um þurfa aðeins, varðandi 3. lið XV. viðauka tilskipunarinnar, að gefa upp aðalheiti samningsefnis samkvæmt flokkuninni í XVI. viðauka tilskipunarinnar. Kaupendur sem gera samninga um þjónustu í 8. flokki XVI. viðauka A tilskipunarinnar sem b-liður 2. mgr. 9. gr. gildir ekki um geta, vegna viðskiptatrúnaðar, takmarkað upplýsingarnar sem gert er ráð fyrir í 3. lið XV. viðauka tilskipunarinnar. Þeir verða þó að sjá til þess að upplýsingarnar séu að minnsta kosti jafn ítarlegar og í kynningu samkvæmt 1. mgr. 9. gr. eða, ef hæfismatskerfi er notað, að minnsta kosti jafn ítarlegar og flokkurinn sem um getur í 7. mgr. 19. gr. Ef þjónustan er skráð í XVI. viðauka B tilskipunarinnar skulu kaupendur gefa upp í auglýsingunni hvort þau samþykki birtingu.

Upplýsingarnar í II. þætti XV. viðauka tilskipunarinnar má ekki birta nema í hagskýrsluskyni og þá í einfölduðu formi.


15. gr.
Sönnun um sendingu tilkynningar.
Kaupandi skal geta fært sönnur á sendingu tilkynningar samkvæmt 11. til 14. gr.

Tilkynningu um samning eða hönnunarsamkeppni, sbr. 1. eða 4. mgr. 11. gr., skal ekki auglýsa á neinn annan hátt áður en sú tilkynning hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins. Ekki skal birta aðrar upplýsingar en þær sem koma í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.


16. gr.
Frestir.
Við almenn útboð skal fresturinn, sem kaupendur gefa til að skila tilboðum, ekki vera skemmri en 52 dagar frá sendingardegi tilkynningar. Í stað þessa frests er heimilt að setja frest sem er nægilega langur til að hlutaðeigandi geti gert gild tilboð sem að meginreglu skal ekki vera styttri en 36 dagar og aldrei skemmri en 22 dagar frá sendingardegi tilkynningar ef kaupendur hafa sent Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins kynningarauglýsingu sem birtist reglubundið í samræmi við 1. mgr. 12. gr., að því tilskildu að í auglýsingunni séu þær upplýsingar sem krafist er í II. og III. hluta XIV. viðauka tilskipunarinnar, að svo miklu leyti sem þær upplýsingar eru til staðar á birtingartíma auglýsingarinnar sem um getur í 1. mgr. 12. gr. Þessi kynningarauglýsing, sem birtist reglulega, skal þar að auki hafa verið send Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna í minnsta lagi 52 dögum og í mesta lagi 12 mánuðum fyrir sendingardag auglýsingarinnar, sem kveðið er á um í a. lið 1. mgr. 11. gr.

Við lokað útboð og samningskaup skal eftirfarandi gilda:

a. Skilafrestur umsókna um að gera tilboð eftir auglýsingu samkvæmt a. lið 1. mgr. 11. gr. eða að boði kaupanda í samræmi við c. lið 2. mgr. 11. gr. skal almennt vera að minnsta kosti 37 dagar frá sendingardegi auglýsingar en aldrei skemmri en 22 dagar frá sendingardegi;
b. Skilafrest tilboða er heimilt að ákveða með samningi milli kaupanda og útvalinna umsækjenda, að því tilskildu að allir bjóðendur fái jafnlangan tíma til að undirbúa og leggja fram tilboð;
c. Þegar ekki reynist unnt að ná samningi um skilafrest tilboða ákveður kaupandi skilafrest sem almennt skal vera að minnsta kosti 24 dagar en aldrei skemmri en 10 dagar frá dagsetningu boða um að leggja fram tilboð; frestur, sem gefinn er, skal vera nægilega langur til að tillit sé tekið til þeirra þátta sem getið er um í 3. mgr. 18. gr.


17. gr.
Útboðsgögn.
Kaupanda er heimilt að áskilja í útboðsgögnum að bjóðandi taki fram í tilboði sínu hvort einhver hluti samningsins verði falinn þriðja aðila sem undirverktaka. Þótt slíkt sé tekið fram í tilboði breytir það engu um ábyrgð bjóðanda.

Að öðru leyti gilda ákvæði V. kafla laga nr. 94/2001 um opinber innkaup um gerð og frágang útboðsgagna, tæknilegar útskýringar í útboðsgögnum, frágang tilboða og frávikstilboð.


18. gr.
Afhending útboðsgagna o.fl.
Hafi þess verið óskað með eðlilegum fyrirvara ber kaupanda að senda bjóðendum útboðsgögn og fylgiskjöl að jafnaði innan sex daga frá því að beiðni berst.

Kaupendur skulu útvega viðbótarupplýsingar, sem varða útboðsgögn, eigi síðar en sex dögum áður en frestur til að skila tilboðum rennur út, hafi þess verið óskað með eðlilegum fyrirvara.

Þegar tilboð útheimtir skoðun umfangsmikilla gagna svo sem langra tækniforskrifta, vettvangsskoðun eða könnun fylgiskjala útboðsgagna á staðnum skal lengja skilafrestinn í samræmi við það.

Kaupendur gefa útvöldum umsækjendum kost á að gera tilboð skriflega og samtímis. Boðsbréfi þess efnis fylgi útboðsgögn og fylgiskjöl. Í því komi a.m.k. fram eftirfarandi:

a. Póstfang þar sem fást viðbótargögn, frestur til að óska eftir slíku og upphæð og hvernig greitt skuli fyrir slík gögn;
b. Frestur til að skila tilboðum, póstfang viðtakanda og á hvaða tungumáli eða tungumálum þau skulu samin;
c. Tilvísun í útboðsauglýsingu sem hefur verið birt;
d. Upplýsingar um hvaða skjöl skuli fylgja tilboði;
e. Forsendur fyrir vali á viðsemjanda hafi þær ekki komið fram í útboðsauglýsingu;
f. Önnur sérstök skilyrði fyrir aðild að samningi.

Umsóknir um að gera tilboð og boð um að gera tilboð sendist eftir hröðustu leiðum. Þegar umsóknir um að gera tilboð eru sendar með símskeyti, fjarrita, símbréfi, símleiðis eða með öðrum rafrænum miðli getur kaupandi krafist þess að þær séu staðfestar með bréfi sem sendist áður en frestur tilgreindur í 2. mgr. 16. gr. rennur út.

Um form tilboða gilda ákvæði 48. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.


IV. KAFLI
Hæfi bjóðanda og val á samningsaðila.
19. gr.
Hæfismatskerfi.
Kaupanda er heimilt að stofna og starfrækja kerfi til að meta hæfi bjóðenda. Kaupendur sem setja á stofn eða starfrækja hæfismatskerfi, skulu tryggja að bjóðendur geti ávallt sótt um hæfismat.

Kerfið, sem getur tekið til mismunandi hæfisstiga, skal starfrækja á grundvelli hlutlægra reglna og viðmiða sem sett eru af kaupanda. Kaupandi skal vísa til evrópskra staðla þar sem við á. Heimilt er að endurskoða reglur og viðmið eftir þörfum.

Reglur og viðmið vegna hæfismats skal láta í té að ósk bjóðenda sem áhuga hafa. Láta skal áhugasama bjóðendur vita ef viðmið og reglur eru uppfærðar. Ef kaupandi telur að kerfi til að meta hæfi eða vottunarkerfi þriðja aðila eða stofnunar fullnægi kröfum hennar tilkynnir hún bjóðendum sem áhuga hafa nöfn þessara aðila og stofnana.

Kaupendur tilkynna þeim sem sækja um hæfismat um ákvörðun þar að lútandi innan hæfilegs tíma. Ef það tekur kaupanda lengri tíma en sex mánuði frá því að sótt er um að taka ákvörðun skal hann innan tveggja mánaða frá umsókn greina umsækjanda frá ástæðum sem réttlæta lengri tíma og hvaða dag umsóknin verði samþykkt eða henni synjað. Þegar kaupendur taka ákvörðun um hæfi eða þegar viðmið og reglur eru uppfærðar er þeim óheimilt að:

setja sumum bjóðendum skilyrði stjórnunarlegs, tæknilegs eða fjárhagslegs eðlis en ekki öðrum;
krefjast prófana eða sannana sem hlutlægur vitnisburður liggur þegar fyrir um.

Þeim sem sækja um hæfismat og dæmast vanhæfir skal tilkynnt um þá ákvörðun og forsendur hennar. Forsendurnar skulu byggðar á viðmiðum um hæfismat samkvæmt 2. mgr.

Halda ber skrá yfir hæfa bjóðendur og henni má skipta í flokka eftir gerð samninga sem hæfismatið gildir fyrir.

Kaupanda er einungis heimilt að ákveða að bjóðandi sé ekki lengur hæfur á grundvelli þeirra viðmiða sem getið er um í 2. mgr. Áform um að ákveða að hæfi sé ekki lengur fyrir hendi skal fyrirfram tilkynnt bjóðanda skriflega ásamt ástæðu eða ástæðum þessarar ákvörðunar.

Kerfi til að meta hæfi skal kynnt með auglýsingu sem samin er í samræmi við XIII. viðauka tilskipunarinnar og birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins þar sem tilgangur hæfismatskerfisins kemur fram og hvar reglur um notkun þess er að finna. Ef kerfið á að vera lengur í gildi en þrjú ár ber að birta auglýsinguna árlega. Ef kerfið á að vera skemur í gildi dugir upphaflega auglýsingin.


20. gr.
Forval.
Kaupandi skal velja umsækjendur til að gera tilboð í lokuðu útboði eða þátttakendur í samningskaupum á hlutlægum forsendum eða eftir reglum sem hann setur og áhugasamir birgjar, verktakar og þjónustuveitendur hafa aðgang að.

Heimilt er að hafa þær forsendur fyrir útilokun sem tilteknar eru í 23. gr. tilskipunar 71/305/EBE og 20. gr. tilskipunar 77/62/EBE meðal forsendna sem notaðar eru.

Heimilt er að byggja forsendur á efnislegri þörf kaupanda fyrir að fækka umsækjendum að því marki sem réttlætanlegt er vegna nauðsynjar á að taka tillit til hvortveggja, séreðlis útboðsreglnanna og bolmagns sem þarf til að fylgja þeim til hlítar. Fjöldi umsækjenda sem valinn er skal ákveðinn með hliðsjón af því að næg samkeppni sé tryggð.


21. gr.
Vottorð um gæði.
Ef kaupandi krefst vottorða frá sjálfstæðum stofnunum til að staðfesta að þjónustan sé í samræmi við tiltekna gæðastaðla skulu þau vísa til gæðaeftirlits sem byggist á viðeigandi evrópskum stöðlum í röð 29 000 og staðfestir eru af stofnunum sem samræmast evrópskum stöðlum í röð 45 000. Stofnanir skulu taka gild jafngild vottorð frá stofnunum sem starfa í öðrum aðildarríkjum. Þær skulu einnig taka gildan annars konar vitnisburð um jafngildar aðferðir við gæðaeftirlit frá þjónustuveitendum sem hafa ekki aðgang að slíkum vottorðum eða engan möguleika á að fá þau innan tilskilins tíma.


22. gr.
Sameiginleg tilboð fleiri aðila o.fl.
Bjóðendur mega standa saman að tilboði. Þeir geta lagt fram tilboð án þess að þess sé krafist að þeir myndi sérstaka lagalega rekstrarheild; þess má þó krefjast af hópi sem valinn er sem samningsaðili ef slíkt er nauðsynlegt til að samningsákvæði verði uppfyllt.

Óheimilt er að hafna þátttakendum eða bjóðendum, sem samkvæmt lögum aðildarríkis þar sem þeir hafa staðfestu eiga rétt til að veita þjónustuna sem um er að ræða, á þeim forsendum einum að samkvæmt lögum aðildarríkisins sem efnir til samkeppninnar komi einungis einstaklingar eða lögaðilar til álita.

Þegar lögaðilar gera tilboð eða sækja um þátttöku er heimilt að krefjast upplýsinga um nöfn og hæfi þeirra starfsmanna sem munu veita þjónustuna.


23. gr.
Val tilboðs.
Um val, höfnun og samþykki tilboðs gilda ákvæði VII. kafla laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.


V. KAFLI
Lokaákvæði.
24. gr.
Upplýsingagjöf.

Kaupendur skulu geyma viðeigandi upplýsingar um hvern samning sem nægja til að gera þeim kleift síðar að rökstyðja ákvarðanir sem teknar verða í sambandi við:

a. hæfismat og val verktaka, birgja eða þjónustuveitenda og úthlutun samninga;
b. nýtingu undanþágna frá notkun evrópskra tækniforskrifta 4. mgr. 24. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup;
c. notkun starfsreglna sem ekki krefjast undanfarandi útboðs í samræmi við 2. mgr. 9. gr.;
d. að ákvæðum reglugerðarinnar sé beitt í samræmi við undanþágur í 4. og 5. gr. hennar.

Upplýsingarnar skal geyma í að minnsta kosti fjögur ár frá því að samningur er gerður svo að kaupandi geti á því tímabili veitt Eftirlitsstofnun EFTA nauðsynlegar upplýsingar fari hún fram á það.

Kaupendur, sem standa fyrir þeirri starfsemi, sem um getur í I., II., VII., VIII. og IX. viðauka tilskipunarinnar, skulu tilkynna viðsemjendum sínum um ákvarðanir varðandi gerða samninga eins fljótt og auðið er og skal, sé þess óskað, veita upplýsingarnar skriflega.

Kaupendur, sem standa fyrir þeirri starfsemi sem um getur í I., II., VII., VIII. og IX. viðauka tilskipunarinnar, skulu, svo fljótt sem auðið er frá viðtöku skriflegrar beiðni, tilkynna öllum umsækjendum eða bjóðendum, sem hafnað er, um ástæður þess að umsóknum eða tilboðum þeirra var hafnað og bjóðendum, sem skiluðu gildum tilboðum, skal veita upplýsingar um eiginleika og hlutfallslega kosti tilboðsins sem valið var auk heitis þess bjóðanda sem valinn var. Þó er kaupendum heimilt að ákveða að tilteknum upplýsingum um samningsgerðina, sem um getur í fyrsta lið málsgreinarinnar, verði haldið leyndum ef birting þessara upplýsinga kynni að hindra framgang laga eða ganga á annan hátt gegn hagsmunum almennings, eða skaða réttmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, opinberra eða í einkaeign, þar með taldir hagsmunir þess fyrirtækis sem samningurinn var gerður við, eða hindra heiðarlega samkeppni milli bjóðenda.


25. gr.
Tilvísun til EES-gerðar.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun nr. 93/38/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, eins og henni hefur verið breytt með tilskipun nr. 98/4/EB, og hún tekin upp í XVI. viðauka samningsins um Evrópska efnhagssvæðið. Ákvæði reglugerðarinnar ber að skýra til samræmis við greinda tilskipun.


26. gr.
Lagaheimild og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup og tekur gildi þegar í stað.

Fjármálaráðuneytinu, 18. september 2001.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Guðmundur Ólason.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica