Leita
Hreinsa Um leit

Fjármálaráðuneyti

526/2000

Reglugerð um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins. - Brottfallin

Aðflutningsgjöld.
1. gr.

Með aðflutningsgjöldum er í reglugerð þessari átt við alla skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru.


Ferðabúnaður og annar farangur.
2. gr.

Ferðamönnum, sem búsettir eru hér á landi, er heimilt að hafa með sér við komu til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda fatnað og ferðabúnað sem þeir hafa haft með sér héðan til útlanda og auk þess varning fenginn erlendis í ferðinni, um borð í flutningsfari eða í tollfrjálsri verslun hér á landi - auk áfengis og tóbaks sbr. 3. og 5. gr., fyrir allt að 36.000 kr. að smásöluverði á innkaupsstað. Andvirði hvers hlutar má þó ekki nema hærri fjárhæð en 18.000 kr. Börn yngri en 12 ára skulu njóta að hálfu þeirra réttinda er að framan greinir.

Skipverjum og flugliðum innlendra farartækja svo og íslenskum farmönnum og flugliðum erlendra farartækja sem leigð eru til nota hérlendis af íslenskum aðilum er heimilt að hafa með sér án greiðslu aðflutningsgjalda varning er greinir í 1. mgr. fyrir allt að 13.000 kr. við hverja komu til landsins, hafi þeir verið skemur en 15 daga í ferð, en 26.000 kr. fyrir lengri ferð. Andvirði hvers hlutar má þó ekki nema hærri fjárhæð en 13.000 kr.

Sé verðmæti hlutar sem framvísað er meira en um ræðir í 1. og 2. mgr. getur viðkomandi notið undanþágu frá aðflutningsgjöldum, enda greiði hann aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram fyrrgreindar fjárhæðir.

Ferðamönnum, sem búsettir eru erlendis, er heimilt að hafa með sér án greiðslu aðflutningsgjalda fatnað, sængurföt, viðlegubúnað og annan ferðabúnað (þ.m.t. matvæli og aðrar vistir) til eigin nota á ferðalaginu, enda geti varningur þessi talist hæfilegur og eðlilegur miðað við tilgang ferðalagsins, dvalartíma viðkomandi hérlendis og hagi hans að öðru leyti og varningurinn verði ennfremur fluttur úr landi við brottför eiganda að svo miklu leyti sem hann eyðist ekki hérlendis.

Andvirði matvæla (þ.m.t. sælgæti) sem heimilt er að taka með inn í landið án greiðslu aðflutningsgjalda má ekki vera meira en 10.000 kr. og skulu þau ekki vera meira en 3 kg að þyngd.


Áfengi sem ferðamenn og farmenn hafa með sér til landsins.
3. gr.

Ferðamönnum, farmönnum og flugliðum er heimilt að hafa með sér til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda áfengi sem hér segir:

1. Ferðamenn:
a. Einn lítri áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og einn lítri áfengis sem er minna en 22% að styrkleika, eða
b. Einn lítri áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og sex lítrar öls, eða
c. Einn lítri áfengis sem er minna en 22% að styrkleika og sex lítrar öls, eða
d. Tveir lítrar áfengis sem er minna en 22% að styrkleika.
2. Skipverjar á íslenskum skipum og erlendum skipum í leigu íslenskra aðila sem eru 15 daga eða lengur í ferð:
a. Einn og hálfur lítri áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og þrír lítrar áfengis sem er minna en 22% að styrkleika, eða
b. Einn og hálfur lítri áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og 24 lítrar öls.
3. Skipverjar á íslenskum skipum og erlendum skipum í leigu íslenskra aðila sem eru skemur en 15 daga í ferð:
a. 0,75 lítrar áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og einn og hálfur lítri áfengis sem er minna en 22% að styrkleika, eða
b. 0,75 lítrar áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og 12 lítrar öls.
4. Flugáhafnir (þ.m.t. aukaáhafnir), sem hafa 15 daga samfellda útivist eða lengri:
a. Einn lítri áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og 0,75 lítrar áfengis sem er minna en 22% að styrkleika, eða
b. Einn lítri áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og sex lítrar öls, eða
c. 0,75 lítrar áfengis sem er minna en 22% að styrkleika og sex lítrar öls.
5. Flugáhafnir (þ.m.t. aukaáhafnir), sem hafa skemmri útivist en 15 daga:
a. 0,375 lítrar áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og 0,75 lítrar áfengis sem er minna en 22% að styrkleika, eða
b. 0,375 lítrar áfengis sem er 22% eða meira að styrkleika og þrír lítrar öls, eða
c. 0,75 lítrar áfengis sem er minna en 22% að styrkleika og þrír lítrar öls.

4. gr.

Hafi farmaður eða farþegi meðferðis meira magn af áfengum drykkjum en heimilaður er innflutningur á án greiðslu aðflutningsgjalda skv. 3. gr. skal honum heimilt að flytja inn umframmagn gegn greiðslu áfengisgjalds og virðisaukaskatts, enda hafi viðkomandi gert grein fyrir og framvísað varningnum við tollgæslu.


Tóbak sem ferðamenn og farmenn hafa með sér til landsins.
5. gr.

Ferðamönnum, farmönnum og flugliðum er heimilt að hafa með sér til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda tóbak sem hér segir:

1. Ferðamenn: 200 stk. af vindlingum eða 250 grömm af öðru tóbaki.
2. Skipverjar á íslenskum skipum og erlendum skipum í leigu íslenskra aðila sem eru 15 daga eða lengur í ferð: 400 stk. af vindlingum eða 500 grömm af öðru tóbaki.
3. Skipverjar á íslenskum skipum og erlendum skipum í leigu íslenskra aðila sem eru skemur en 15 daga í ferð: 200 stk. af vindlingum eða 250 grömm af öðru tóbaki.
4. Flugáhafnir (þ.m.t. aukaáhafnir), sem hafa 15 daga samfellda útivist eða lengri: 200 stk. af vindlingum eða 250 grömm af öðru tóbaki.
5. Flugáhafnir (þ.m.t. aukaáhafnir), sem hafa skemmri útivist en 15 daga: 100 stk. af vindlingum eða 125 grömm af öðru tóbaki.

Við útreikning á gjaldfrjálsu magni skv. 1. mgr. telst hver vindill vega 5 grömm, hver smávindill 2,5 grömm og hver vindlingur 1,25 grömm. Smávindlar sem eru 1,5 grömm og léttari reiknast sem vindlingar.

Ef skip í utanlandssiglingum hefur viðdvöl hér samfleytt í sjö daga skal tollstjóri að beiðni eiganda skips veita skipverjum undan innsigli án greiðslu tóbaksgjalds 200 stk. af vindlingum eða 250 grömm af öðru tóbaki til hverra sjö daga án greiðslu tóbaksgjalds. Ekki skal veita undan innsigli sama dag og skip leggur úr höfn. Eigandi skips skal greiða kostnað fyrir afgreiðslu samkvæmt þessari málsgrein.

Skipstjóra, yfirstýrimanni, yfirvélstjóra, bryta og matsveinum á farþega- og vöruflutningaskipum er heimilt að taka aukalega til risnu um borð jafnstóran skammt og þeir hafa samkvæmt framansögðu.


6. gr.

Hafi farmaður eða farþegi meðferðis meira magn af tóbaki en heimilaður er innflutningur á án greiðslu aðflutningsgjalda skv. 5. gr., skal honum heimilt að flytja umframmagn inn gegn greiðslu tóbaksgjalds skv. 2. mgr. auk virðisaukaskatts, enda hafi viðkomandi gert grein fyrir og framvísað varningnum við tollgæslu og ekki verði talið að um innflutning í atvinnuskyni sé að ræða.

Tóbaksgjald af tóbaki sem flutt er inn skv. 1. mgr. er sem hér segir:

1. Reyktóbak. 2.500 kr/tylft bréfa eða lb.
2. Vindlingar 1.500 kr/200 stk.
3. Smávindlar 110 kr/10 stk.
4. Vindlar, meðalstærð 560 kr/25 stk.
5. Vindlar, aðrir 1.000 kr/25 stk.

Lágmarksaldur til innflutnings á áfengi og tóbaki.
7. gr.

Lágmarksaldur til innflutnings áfengis er 20 ár. Lágmarksaldur til innflutnings á tóbaki er 18 ár. Tollgæslumaður getur krafist þess að lágmarksaldur sé sannaður með framvísun persónuskilríkja.


Skilyrði gjaldfríðinda.
8. gr.

Ferðamenn og farmenn skulu ekki njóta undanþágu frá aðflutningsgjöldum samkvæmt reglugerð þessari oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum.

Undanþága frá aðflutningsgjöldum gildir um varning sem viðkomandi farmaður eða ferðamaður hefur í eigin vörslu við komu frá útlöndum og fluttur er inn til persónulegra nota viðkomandi, fjölskyldu hans eða til gjafa. Ennfremur er heimilt að leyfa innflutning án greiðslu aðflutningsgjalda á farangri sem orðið hefur viðskila við eiganda, enda sýni hann fram á með vottorði tollgæslunnar að hann hafi ekki nýtt sér rétt til niðurfellingar þegar hann kom til landsins.


Innflutningsbann og innflutningstakmarkanir.
9. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar veita hvorki undanþágu frá innflutningsbanni né innflutningstakmörkunum á ýmsum vörutegundum samkvæmt lögum, reglugerðum, eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.

Meðal vara sem innflutningur er bannaður á eru eftirtaldar vörutegundir:

1. Ávana- og fíkniefni, svo sem Asetorfín, Desómorfín, DET, DMHP, DMT, Etorfín, Heróín, Kókaín, Kannabis (Marihuana) og Kannabis harpeis, Ketóbemídón, Lýsergíð (LSD, LSD-25) Meskalín (peyote), Parahexýl, Psílosine, Psílotsín, Psílocybin, STP, DOM, Tetrahýdrócannabínólar, allir ísómerar.
2. Ósoðið kjötmeti og kjötvörur ýmiss konar, t.d. þurrkað kjötmeti, ósoðin reykt svínslæri, beikon svínahryggir, reyktar ósoðnar pylsur, ósoðnir fuglar og fuglainnyfli, fersk eða fryst, innmatur, svið og blóð.
3. Ósoðin mjólk, ósoðin egg, eggjaduft og sykraðar eggjarauður.

Meðal vara sem háðar eru innflutningsleyfum eru eftirtaldar vörutegundir:

1. Lyf. Þó er farmanni eða ferðamanni heimilt að taka með í farangri sínum lyf til eigin nota í magni sem miðast við mest 100 daga notkun, enda sé ljóst á leiðbeiningum á umbúðum lyfs eða öðrum fullnægjandi gögnum, sem ferðamaður skal framvísa, hvert það magn sé. Ekki er þó heimilt að flytja inn karlkynshormónalyf af flokki anabólískra stera og hliðstæðra efna samkvæmt c. lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar, eða peptíð hormón og hliðstæð efni samkvæmt f. lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar yfir lyf sem bönnuð eru í íþróttum, umfram það magn sem farmaður eða ferðamaður þarf að nota til mest 30 daga. Tollverðir geta krafist þess að viðkomandi farmaður eða ferðamaður færi fullnægjandi sönnur á að honum sé nauðsyn á töku ofangreindra lyfja í því magni sem tilgreint er, t.d. með vottorði læknis.
2. Skotvopn, skotfæri og sprengiefni.
3. Símar, talstöðvar, radíósendar og viðtæki sem ekki eru ætluð til almennrar útvarpsviðtöku.
4. Lifandi dýr.

Gjaldfríðindi geta náð til vara, sem háðar eru innflutningsleyfum, enda sé þess gætt að tilskilin leyfi séu fyrir hendi.


Framvísunarskylda o.fl.
10. gr.

Farþegi sem kemur til landsins frá útlöndum skal við komu ótilkvaddur skýra tollgæslumanni frá og framvísa við hann tollskyldum varningi sem hann hefur meðferðis svo og þeim varningi sem háður er innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni. Af tollskyldum varningi sem heimilaður er innflutningur á skal greiða aðflutningsgjöld með venjulegum hætti.

Þar sem tollafgreiðsla farþega fer fram er tollstjóra heimilt að hafa aðskilda tollafgreiðslu, annars vegar fyrir þá sem hafa engan tollskyldan farangur meðferðis við komu til landsins og hins vegar fyrir þá sem annað hvort hafa tollskyldan farangur meðferðis eða farangur sem háður er innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni. Fyrrnefndir farþegar skulu ganga um hlið, merkt grænu átthyrndu skilti með áletruninni: ,,ENGINN TOLLSKYLDUR VARNINGUR''. Síðarnefndir farþegar skulu ganga um hlið, merkt rauðu ferhyrndu skilti með áletruninni: ,,TOLLSKYLDUR VARNINGUR''. Við skiltin skal skráð ,,TOLLGÆSLA''. Áletranir skulu vera á íslensku og þeim erlendu tungumálum sem tollstjóra þykir ástæða til. Um leið og farþegi hefur gengið um hlið sem merkt er samkvæmt framansögðu telst hann hafa svarað því hvort hann hafi meðferðis tollskyldan varning eða varning sem háður er innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni.

Við tollafgreiðslu aðkomufars skal sérhver farmaður gera tollgæslunni skriflega grein fyrir öllum varningi sem hann hefur fengið erlendis eða í ferðinni, hvort sem hann er tollskyldur eða ekki og eins þótt sá varningur kunni að vera háður innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni. Einnig skal hann gera tollgæslunni skriflega grein fyrir áður fengnum tollskyldum varningi, en ótollafgreiddum, sem notaður er um borð í fari. Framvísa ber við tollgæslumann þeim varningi sem kann að vera háður innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni svo og öðrum þeim varningi sem tollgæslumaður óskar eftir að skoða.

Óski tollgæslumaður eftir því að skoða farangur farþega eða farmanns skulu þeir veita til þess alla aðstoð með því að opna töskur og umbúðir, taka upp úr þeim og gefa þær upplýsingar um farangurinn sem um er beðið. Komi fram varningur við þessa skoðun sem ekki er greint frá eins og fyrir er mælt hér að framan skoðast hann ólöglega innfluttur og er þá heimilt að gera hann upptækan til ríkissjóðs auk þess sem viðkomandi kann að þurfa að sæta refsingu.


Kæra á úrskurði tollstjóra um gjaldfrelsi.
11. gr.

Telji ferðamaður eða farmaður ákvörðun tollstjóra, er varðar gjaldfrelsi vara samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi. Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð eigi síðar en innan 30 daga frá því er gagnöflun er lokið. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurð til ríkistollstjóra, sbr. 2. mgr.

Úrskurði tollstjóra um gjaldfrelsi vara, sbr. 1. mgr., verður skotið til ríkistollstjóra innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollstjóri skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollstjóra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.


Lagastoð, gildistaka.
12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. tölul. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 5. gr., svo og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, 2. mgr. 12. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, 36. gr. sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, 10. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum, svo og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. ágúst 2000. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 251/1992, um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum, áfengisgjald, tóbaksgjald o.fl., með síðari breytingum.


Fjármálaráðuneytinu, 10. júlí 2000.

Geir H. Haarde.
Árni Kolbeinsson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica