Fjármálaráðuneyti

613/1995

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 477/1995, um áfengisgjald, með breytingu skv. reglugerð nr. 480/1995. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 477/1995, um áfengisgjald, með breytingu skv. reglugerð nr. 480/1995.

1. gr.

Við 7. gr. bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:

Við útreikning áfengisgjalds skv. 4. gr. skal vínandamagn reiknað í sentilítrum með tveimur aukastöfum.

2. gr.

12. gr. reglugerðarinnar, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Bókhald og skráning viðskipta.

Allir, sem eru skráningarskyldir skv. 1. mgr. 3. gr., skulu haga bókhaldi sínu og uppgjöri á áfengisgjaldi þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti skila þeirra á áfengisgjaldi.

Gjaldskyldum aðila skv. 1. mgr. 3. gr., sem leyfi hefur til innflutnings og/eða heildsölu á áfengi er skylt að halda birgðabókhald fyrir áfengi.

Gjaldskyldum aðila skv. 1. mgr. 3. gr., sem leyfi hefur til framleiðslu á áfengi er skylt að halda framleiðsluskýrslur og birgðabókhald fyrir áfengi. Framleiðsluskýrslur skal halda með þeim hætti að hægt sé með auðveldum og öruggum hætti að rekja hverja átöppun á áfengi til einstakra áfengistegunda og umbúða.

Birgðabókhald skal haldið með þeim hætti að hægt sé að rekja sérhverja átöppun eða innkaup frá innflutningsgögnum og innkaupareikningum til færslu í birgðabókhaldi og hvenær sem er bera saman vörubirgðir og niðurstöðu birgðabókhalds. Í birgðabókhaldi þarf að koma fram á aðgengilegan hátt ráðstöfun birgða vegna sölu innanlands, útflutnings, rannsókna, rýrnunar og skýringa á henni eða annarra atriða.

Gjaldskyldur aðili skal skrá sérhverja sölu áfengis á sölureikninga til samræmis við ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Gjaldskyldur aðili skal veita skattstjóra upplýsingar um heildarsölu sína skipt niður á viðskiptamenn og tímabil telji hann slíkt nauðsynlegt vegna eftirlits. Kaupendur áfengis sem um getur í 5. gr. reglugerðar nr. 585/1995, um framleiðslu, heildsölu og innflutning áfengis í atvinnuskyni, skulu halda sérstaka innkaupareikninga í bókhaldi sínu og veita skattstjóra sams konar upplýsingar um innkaup sín sé þess óskað.

Um bókhald fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum.

3. gr.

Á eftir 12. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein ásamt fyrirsögn, er verður 12. gr. A, sem orðast svo:

Eftirlit.

Skattstjóri í því skattumdæmi þar sem starfsstöð gjaldskylds aðila er hefur eftirlit með starfsemi hans samkvæmt reglugerð þessari enda hafi fjármálaráðherra ekki ákveðið að sérstakir eftirlitsmenn á vegum embættis ríkisskattstjóra annist eftirlit þetta.

Gjaldskyldum aðila ber að veita eftirlitsmönnum aðgang að öllum húsakynnum, sem nýtt eru til áfengisframleiðslu og birgðahalds svo og bókhaldsgögnum er sýna hráefnisnotkun og birgðir vöru. Skal hann láta eftirlitsmönnum í té fullnægjandi aðstöðu að mati skattstjóra þegar þeir sinna eftirlitsstörfum í atvinnuhúsnæði hans.

Ríkisskattstjóri getur ákveðið að átöppun áfengis skuli fara fram undir eftirliti og skal því aðeins taka tillit til rýrnunar að förgun úrgangsefna og skemmdrar eða gallaðrar framleiðslu fari fram undir eftirliti. Hann getur einnig ákveðið að innsigla skuli framleiðslutæki og -búnað svo og geyma og kúta sem notaðir eru undir áfengi sem selt er í miklu magni m.a. til veitingahúsa. Ríkisskattstjóri ákveður gerð og notkun innsigla. Hann getur sett eftirlitsmönnum nánari starfsfyrirmæli.

Um eftirlit skattstjóra og tollstjóra að öðru leyti fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og ákvæðum tollalaga nr. 55/1987.

Um almennt eftirlit lögreglu með framleiðslu, sölu og meðferð áfengis í landinu gilda ákvæði áfengislaga nr. 82/1969, með síðari breytingum.

4. gr.

Á eftir 14. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein ásamt fyrirsögn, er verður 14. gr. A, sem orðast svo:

Kaup á áfengi án áfengisgjalds.

Að undangenginni umsókn gjaldskylds framleiðanda, sem tilkynnt hefur starfsemi sína, sbr. 6. gr., og uppfyllir að öðru leyti skilyrði reglugerðar þessarar og reglugerðar nr. 585/1995, um framleiðslu, heildsölu og innflutning áfengis í atvinnuskyni, skal skattstjóri gefa út sérstakt skírteini honum til handa er veitir heimild til þess að flytja inn eða kaupa innanlands án greiðslu áfengisgjalds áfengi til frekari vinnslu og/eða sölu. Tilgreina skal í skírteini til hvaða vörutegunda og aðvinnslu heimildin tekur. Skírteini þessi skulu gefin út til eins árs í senn.

Noti skírteinishafi vöru, sem hann hefur keypt gegn framvísun skírteinis, á annan hátt en til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar eða til framleiðslu á gjaldfrjálsri vöru eða vöru með lækkuðu gjaldi skal hann innheimta og standa skil á áfengisgjaldi af heildarandvirði vörunnar við afhendingu hennar til annars aðila eða við úttekt til eigin nota.

5. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 15. gr. reglugerðarinnar.

Við 1. málslið. 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo:

Sama á við um þá sem selja eða afhenda áfengi til handhafa skírteina skv. 14. gr. A og fallið hafa frá innheimtu áfengisgjalds.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 96/1995, um áfengisgjald, öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytið, 4. desember 1995.
F. h. r.
Jón Guðmundsson.
Hermann Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica