Fjármálaráðuneyti

723/1997

Reglugerð um tollafgreiðslugengi. - Brottfallin

1. gr.

Sé tollverð eða einhver hluti þess við innflutning eða útflutning á vöru tilgreindur í erlendum gjaldmiðli skal breyta því eða hluta þess í íslenskar krónur miðað við tollafgreiðslugengi eins og það er ákveðið samkvæmt reglugerð þessari.

2. gr.

Tollafgreiðslugengi miðast við opinbert viðmiðunargengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðli, kaup- og sölugengi, sem skráð er af Seðlabanka Íslands og í gildi er við opnun banka hinn 28. hvers mánaðar eða næsta vinnudag þar á eftir ef ekki er opið í banka þann dag. Skal tollafgreiðslugengi, þannig ákveðið, gilda við ákvörðun tollverðs við innflutning eða útflutning næsta almanaksmánuð á eftir, enda fari fullnaðartollafgreiðsla á vöru fram í þeim mánuði, sbr. þó 5. gr. Tollafgreiðslugengi vegna útflutnings getur þó aldrei miðast við nýrra gengi en í gildi er á útflutningsdegi. Tollafgreiðslugengi vegna innflutnings er sölugengi, en kaupgengi vegna útflutnings.

3. gr.

Tollafgreiðslugengi viðkomandi erlends gjaldmiðils skv. 2. gr. fellur úr gildi ef skráning opinbers viðmiðunargengis Seðlabankans fellur niður.

Hafi skráning á opinberu viðmiðunargengi verið felld niður er fyrsta sölugengi og kaupgengi, sem Seðlabankinn skráir að nýju, það tollafgreiðslugengi sem gilda skal til loka mánaðarins. Sama gildir verði breyting á opinberu viðmiðunargengi, sölugengi og kaupgengi, 5% eða meira milli skráninga á gildistíma tollafgreiðslugengis.

4. gr.

Sé verð vöru tilgreint í erlendum gjaldmiðli sem Seðlabankinn hefur ekki skráð opinbert viðmiðunargengi fyrir skal tollafgreiða vöruna miðað við það sölugengi eða kaupgengi sem Seðlabankinn ákveður í hverju tilviki og skal það gilda til loka þess mánaðar þegar það var ákveðið, sbr. þó 5. gr.

5. gr.

Vöru, sem hlotið hefur bráðabirgðatollafgreiðslu gegn tryggingu skv. 21. gr. tollalaga nr. 55/1987, skal tollafgreiða miðað við það tollafgreiðslugengi sem gilti þegar bráðabirgðatollafgreiðsla fór fram, enda hafi verið gætt þeirra frestskilyrða sem tollstjóri setti þegar heimild til bráðabirgðatollafgreiðslu var veitt.

Ökutæki, sem heimilaður hefur verið tímabundinn innflutningur á skv. 7. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, skulu tollafgreidd miðað við það tollafgreiðslugengi sem í gildi var þegar heimild til tollfrjáls innflutnings var veitt, enda fari fullnaðartollafgreiðsla fram innan mánaðar frá komudegi flutningsfars til landsins. Ökutæki sem tímabundinn innflutningur hefur verið heimilaður á umfram einn mánuð og eigi eru endurútflutt, skulu tollafgreidd miðað við það tollafgreiðslugengi sem í gildi er þegar fullnaðartollafgreiðsla fer fram.

Vörur sem heimilaður er tímabundinn innflutningur eða útflutningur á samkvæmt öðrum ákvæðum tollalaga eða sérstökum heimildum skal tollafgreiða miðað við það tollafgreiðslugengi sem í gildi var þegar heimild til bráðabirgðatollafgreiðslu var veitt, enda hafi fjártrygging í peningum verið sett eða skuldarviðurkenning sem ber hæstu vexti verið gefin út til tryggingar greiðslu ríkissjóðsgjalda, verði vara eigi endursend og fullnaðartollafgreiðsla fari fram innan þess frests sem tollstjóri ákvað við veitingu heimildarinnar.

6. gr.

Þegar Seðlabankinn fellir niður skráningu opinbers viðmiðunargengis skal tollstjóri hætta móttöku tollskýrslna og fylgiskjala þeirra þar til opinbert viðmiðunargengi hefur verið skráð að nýju.

Tollstjóra er þó heimilt þegar svo stendur á, sem um ræðir í 1. mgr., að heimila bráðabirgða tollafgreiðslu á vörum gegn fjártryggingu í samræmi við 21. gr. tollalaga og þeim reglum sem settar hafa verið með stoð í henni. Í þeim tilvikum skal tollafgreiðslugengi vera það opinbera viðmiðunargengi sem síðast var skráð af Seðlabankanum að viðbættu því álagi sem viðkomandi viðskiptabanki eða -stofnun ákveður til bráðabirgða fyrir gjaldeyrisyfirfærslur vegna innflutnings eða útflutnings á vörum. Ríkissjóðsgjöld, við það miðað, skulu álögð og innheimt án frekara álags, enda séu tollskjöl að öðru leyti fullnægjandi. Fjártrygging, sem sett hefur verið samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skal gerð upp miðað við það tollafgreiðslugengi sem gildi tekur er opinbert viðmiðunargengi er skráð að nýju af Seðlabankanum. Skal innflytjandi eða útflytjandi afhenda viðkomandi tollstjóra vegna lokauppgjörs fullnægjandi tollskjöl innan fimm virkra daga frá gildistöku hins nýja tollafgreiðslugengis, nema lengri frestur hafi verið veittur. Liggi hins vegar fullnægjandi tollskjöl fyrir að mati tollstjóra skal hann gera ríkissjóðsgjöld upp samkvæmt hinu nýja gengi og senda innflytjanda eða útflytjanda mismun fjártryggingar og álagðra gjalda ásamt greiðslukvittun en krefja um viðbótargreiðslu reynist trygging ekki fullnægjandi.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 13. gr. tollalaga nr. 55/1987 til að öðlast gildi frá og með 1. janúar 1998. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 605/1987 um sama efni.

Fjármálaráðuneytinu, 22. desember 1997.

F. h .r.

Indriði H. Þorláksson.

Bergþór Magnússon.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica