Fjármálaráðuneyti

288/1995

Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. - Brottfallin

Gildissvið.

1. gr.

Eftir ákvæðum reglugerðar þessarar geta erlend fyrirtæki fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi vegna kaupa á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar.

Það telst erlent fyrirtæki í skilningi þessarar reglugerðar þegar aðili hefur hvorki búsetu né starfsstöð hér á landi.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu.

2. gr.

Skilyrði endurgreiðslu skv. 1. gr. eru:

  • Að virðisaukaskattur sem umsókn tekur til varði atvinnustarfsemi sem aðili rekur erlendis.
  • Að starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi.
  • Að um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts eftir ákvæðum 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Endurgreiðslubeiðni o. fl.

3. gr.

Sækja skal um endurgreiðslu á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í umsókn skal umsækjandi skýra notkun þeirra aðfanga sem umsókn tekur til og lýsa því yfir að hafa ekki stundað skráningarskylda starfsemi hér á landi á því tímabili sem umsókn tekur til.

4. gr.

Hvert endurgreiðslutímabil samkvæmt reglugerð þessari er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Endurgreiðslutímabil getur þó tekið til heils almanaksárs, sbr. 3. mgr. .

Fjárhæð virðisaukaskatts sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni skal nema a.m.k. 20.000 kr.

Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt að fjárhæð 4.000 kr. eða meira ef umsókn varðar heilt almanaksár eða eftirstöðvar almanaksárs. Slík umsókn skal afgreidd með síðasta endurgreiðslutímabili hvers árs.

5. gr.

Umsókn vegna almennra endurgreiðslustímabila skal hafa borist 15. dag næsta mánaðar eftir að viðkomandi tímabili lýkur. Umsókn skal þó hafa borist í síðasta lagi sex mánuðum eftir lok þess almanaksárs sem umsóknin tekur til.

Með umsókn skal fylgja frumrit sölureikninga eða greiðsluskjala úr tolli þar sem kemur fram sá virðisaukaskattur sem umsækjandi hefur greitt. Þessi skjöl skulu endursend umsækjanda að lokinni afgreiðslu.

Auk gagna skv. 2. mgr. skal fylgja umsókn vottorð frá þar til bærum yfirvöldum í heimalandi umsækjanda þar sem fram kemur hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum. Vottorð af þessu tagi gildir í tvö ár frá útgáfudegi og þarf ekki að senda nýtt vottorð við síðari umsókn innan gildistíma þess. Skattstjóri getur framlengt gildistíma vottorðs um tvö ár í senn, þyki staðfest að forsendur séu óbreyttar frá því vottorðið var gefið út.

Afgreiðsla á umsóknum.

6. gr.

Skattstjórinn í Reykjavík afgreiðir beiðnir um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari. Skattstjóri skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og getur hann í því sambandi krafið umsækjanda og þá sem selt hafa umsækjanda vörur þær og þjónustu sem umsókn varðar nánari skýringa á viðskiptunum. Skattstjóri skal tilkynna ríkisféhirði um samþykki sitt til endurgreiðslu. Ríkisféhirðir annast endurgreiðslu.

Umsóknir sem berast innan skilafrests og með réttum fylgigögnum skulu afgreiddar einum mánuði og fimm dögum eftir lok endurgreiðslutímabils. Endurgreiðslubeiðnir sem berast eftir lok skilafrests skulu afgreiddar með beiðnum næsta endurgreiðslutímabils.

Umsækjandi getur óskað eftir að fá endurgreiðslu hér á landi eða í heimalandi sínu. Ef umsækjandi óskar eftir að greiðsla fari fram í heimalandi hans, skal hann greiða allan kostnað sem af því hlýst.

Ýmis ákvæði.

7. gr.

Heimilt er erlendum aðila að fela umboðsmanni sínum hér á landi að sækja um og taka við endurgreiðslu, enda leggi umboðsmaðurinn fram skriflegt umboð þar um.

8. gr.

Fjárhæðir þær sem um ræðir í 2. og 3. mgr. 4. gr. taka árlega sömu hlutfallslegu breytingu og byggingarvísitala sú er öðlast gildi 1. janúar ár hvert, sbr. lög nr. 42/1987. Grunnfjárhæðir þessar miðast við vísitölu 1. mars 1995, þ.e. 200,0 stig.

9. gr.

Komi í ljós að endurgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari hafi verið of há, vegna framlagningar rangra gagna eða annarra atriða er varða umsækjanda, skal hann sæta álagi samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

10.gr.

Um dráttarvexti vegna of hárrar endurgreiðslu fer skv. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og reiknast frá þeim tíma er ofgreiðsla átti sér stað.

11. gr.

Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna, svo og röng upplýsingagjöf látin í té í því skyni að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, varðar við 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

12. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, með áorðnum breytingum, öðlast þegar gildi. Endurgreiðsla samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar er heimil vegna viðskipta frá 1. mars 1995, enda sé sótt um endurgreiðslu innan tímamarka skv. 1. mgr. 5. gr. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 247/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.

Fjármálaráðuneytið, 11. maí 1995.

F. h. r.
Jón Guðmundsson.

Bragi Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica