Fjármálaráðuneyti

107/1997

Reglugerð um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru. - Brottfallin

1.gr.

            Fari tollafgreiðsla fram utan almenns afgreiðslutíma, sbr. 99. gr. reglugerðar nr. 41/1957, um tollheimtu og tolleftirlit, með síðari breytingum, eða sé óskað eftir sérstakri tollmeðferð vöru, ber þeim sem tollafgreiðslu fær að greiða tollafgreiðslugjöld í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

            Ákvæði þessarar reglugerðar taka hvorki til erlendra herskipa eða herflugfars né skipa eða flugfara í opinberri eigu sem ferðast eingöngu í opinberum erindagerðum og flygja hvorki vörur né farþega gegn greiðslu. Sama gildir ef far leitar hafnar samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, vegna neyðar, slysa, sjúkdóma manna um borð eða annars ófarnaðar.

Tollafgreiðsla og önnur tollmeðferð utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna.

2.gr.

            Fari tollafgreiðsla vegna aðkomu skips eða flugvélar fram utan almenns afgreiðslutíma eða fari tollafgreiðsla fram utan aðaltollhafna eða utan tollhafna, sbr. 1. mgr. 29. gr. tollalaga, skal sá er tollafgreiðsluna fær greiða tollafgreðslugjald.

            Tollafgreiðslugjald vegna skipa eða flugvéla sem flytja farþega eða varning í atvinnuskyni er 10.000 kr. Tollafgreiðslugjald vegna annarra skipa eða flugvéla er 2.000 kr.

            Vegna tollmeðferðar vöru utan almenns afgreiðslutíma, annarrar en þeirrar sem tilgreind er í 2. mgr., skal kostnaður vera 1.500 kr. vegna hverrar byrjaðrar vinnustundar tollstarfsmanns utan afgreiðslutímans. Ef kalla þarf tollstarfsmann út vegna tollmeðferðarinnar skal kostnaður þó að lágmarki miðast við fjórar vinnustundir.

Sérstök tollmeðferð vöru.

3.gr.

            Þegar eftirfarandi þjónusta er veitt við tollmeðferð vöru, skal sá er þjónustunnar óskar greiða kostnað vegna hennar:

  1. Bráðabirgðatollafgreiðsla
  2. Endurútflutningur og endursending vöru.
  3. Veiting heimildar til tímabundins innflutnings á vörum, þó ekki á ökutækjum eða öðrum farartækjum sem ferðamenn mega flytja tollfrjálst til landsins.
  4. Heimild til að taka vörur við uppskipun eða við flutningsfar eða í beinu framhaldi af uppskipun eða skipa vöru beint um borð í flutningsfar.
  5. Eyðilegging á vöru.
  6. Mat á vöru sem orðið hefur fyrir skemmdum.
  7. Flutningur á vöru undir tolleftirliti úr einni vörugeymslu í aðra eða á annan stað til skoðunar, t.d. sé vara flutt í tollbandi.
  8. Eftirlit með ótollafgreiddum vörum í geymslum sem fengið hafa sérstakt leyfi, sbr. 65. gr. tollalaga.

Kostnaður vegna þjónustu skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. skal vera 1.000 kr. Kostnaður vegna þjónustu skv. 5.-8. tölul. 1. mgr. skal vera 1.000 kr. vegna hverrar byrjaðrar vinnustundar tollstarfsmanns. Ef þjónusta skv. 1. mgr. er veitt utan almenns afgreiðslutíma fer um greiðslu kostnaðar eftir 3. mgr. 2. gr.

4.gr.

Tollstjóra er heimilt að krefja um greiðslu vegna aukakostnaðar við tollafgreiðslu sem rekja má til eftirtalinna atriða:

  1. Vanrækslu innflytjanda eða vörsluaðila vöru á þeirri aðstoð sem veita ber við tollmeðferð vöru, sbr. 2. mgr. 25. gr. tollalaga.
  2. Vanrækslu stjórnanda, eiganda eða umráðamanns fars á skyldu til að láta tilskilin skjöl og skilríki fylgja fari, eða ef tilskilin skjöl og skilríki tilgreina ekki allar vörur sem skylt er, eða vanrækt er að afhenda þau tollafgreiðslumanni, enda hafi vanrækslan leitt til þessað rannrókn eða eftirlit með fermingu eða affermingu þurfi að fara fram á farmi fars, sbr. 2. mgr. 132. gr. tollalaga.

Kröfu skv. 1. mgr. skal beint að þeim aðila sem ábyrgð ber á greiðslunni hverju sinni samkvæmt þeim ákvæðum tollalaga sem vísað er til. Um fjárhæð kröfunnar fer eftir ákvæðum 2. mgr. 3.gr.

Geymslukostnaður

5.gr.

            Hafi farmflytjandi ekki til umráða eða aðgang að viðurkenndri vörugeymslu til geymslu á ótollafgreiddum vörum getur tollstjóri tekið vörur í sínar vörslu á kostnað farmflytjanda. Sama gildir varðandi tollskyldan varning sem farþegar hafa með sér til landsins og þeir greiða ekki af logboðin gjöld þegar við komu til landsins.

            Fyrir geymslu á varningi sem um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar skal farmflytjandi eða farþegi greiða geymslugjald samkvæmt gjaldskrá sem ríkitollstjóri ákveður. Hafi reynst nauðsynlegt að leigja geymslu eða svæði undir varning skal farmflytjandi eða farþegi greiða allan kostnað sem af því hlýst.

Ýmis ákvæði.

6.gr.

            Kostnaður og gjöld, sem innheimt eru samkvæmt reglugerð þessari, skulu renna til þess tollstjóra sem ber kostnað af tollafgreiðslu eða tollmeðverð vöru.

            Ákvæði reglugerðar þessarar skulu gilda um innflutning, útflutning og umflutning.

7.gr.

            Ákvarðanir tollstjóra um gjaldtöku samkvæmt reglugerð þessari eru kæranlegar til ríkistollstjóra.

8.gr.

            Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimilt í 4. mgr. 21. gr., 2. mgr. 25. gr., 4. mgr. 61. gr., 63. gr., 8. mgr. 64. gr., 2. mgr. 132. gr., 145. gr. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 13. febrúar 1997.

F.h.r.

Magnús Pétursson.

Indriði H. Þorláksson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica