Fjármálaráðuneyti

309/1992

Reglugerð um tollafgreiðslu og greiðslufrest á aðflutningsgjöldum þegar tollskjöl eru send milli tölva. - Brottfallin

Reglugerð um tollafgreiðslu og greiðslufrest á aðflutningsgjöldum þegar tollskjöl eru send milli tölva.

I. KAFLI - Orðaskýringar.

1. gr.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Tollstjórar: Tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn í sýslum utan Reykjavíkur.

Aðflutningsgjöld: Gjöld og skattar hvers konar sem greiða ber við tollafgreiðslu innfluttra vara, t.d. tollur, virðisaukaskattur og vörugjald.

Leyfishafi: Aðili sem fær leyfi til samskipta við tollstjóra með skjalasendingum milli tölva og getur með þeim hætti ráðstafað vöru til tollmeðferðar.

Skjalasending milli tölva (SMT): Sendingar á gögnum milli gagnavinnslukerfa sem fylgja ákveðnum stöðlum.

Rammaskeyti: Safn samstæðra gagna sem raðað er saman samkvæmt ákveðnum stöðlum fyrir skeyti til flutnings með rafeindaboðum milli tölva og forsniðið er þannig að það sé unnt í tölvu að lesa það og vinna sjálfvirkt á vélrænan og ótvíræðan hátt. Rammaskeytin eru gerð samkvæmt staðli Sameinuðu þjóðanna (UN/EDIFACT) fyrir Sþ-rammaskeyti vegna tollafgreiðslu vara og í þeim eiga að koma fram sömu upplýsingar og í þeim tollskjölum sem þau eiga að koma í staðinn fyrir og send eru á milli innflytjenda, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra, auk annarra upplýsinga sem nefndar eru í reglugerðinni.

Gagnaflutningur: Sending rammaskeyta milli innflytjenda, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra vegna tollafgreiðslu innfluttra vara.

Gagnaflutningsnet: Almenna gagnaflutningsnet Póst- og símamálastofnunarinnar eða annað sambærilegt gagnaflutningsnet sem notar alþjóðastaðalinn X.400 og fullnægir skilyrðum ríkistollstjóra að öðru leyti.

Gagnahólf leyfishafa: Gagnahólf í gagnaflutningsneti, skráð á nafn leyfishafa, þar sem unnt er að geyma rammaskeyti frá leyfishafa og tollyfirvöldum.

Lykilorð að gagnahólfi leyfishafa: Sérstakt stafrænt auðkenni sem gerir leyfishafa mögulegt að fá aðgang að gagnahólfi sínu í gagnaflutningsneti til að senda rammaskeyti eða veita þeim viðtöku.

Tölvukerfi ríkistollstjóra: Tölvukerfi og hugbúnaður sem notaður er af tollyfirvöldum við tollafgreiðslu innfluttra vara, álagningu aðflutningsgjalda og innheimtu þeirra.

Tollalínan: Sérstakur aðgangur leyfishafa að tölvukerfi ríkistollsjóra sem gerir honum mögulegt að fá upplýsingar um tollafgreiðslu eigin vörusendinga.

II. KAFLI - Gildissvið.

2. gr.

Með reglugerð þessari er heimilað að aðilar sem um ræðir í III. kafla og til þess fá tilskilin leyfi láti tollyfirvöldum í té með skjalasendingum milli tölva þær upplýsingar sem afhenda ber við tollafgreiðslur vara, sbr. 14.-19. gr. tollalaga nr. 55/1987, fyrirmæli sett samkvæmt þeim og sérstök fyrirmæli samkvæmt reglugerð þessari. Upplýsingaskipti á milli tollyfirvalda og leyfishafa eða annarra fari þá fram með skjalasendingum milli tölva.

Þegar tollafgreiðsla fer fram samkvæmt 1. málsgrein skal viðkomandi leyfishafa, sem ráðstafar vöru eða sendingu til tollmeðferðar, veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum og skal hann skuldfærður fyrir lánuðum aðflutningsgjöldum.

III. KAFLI - Leyfishafar.

3. gr.

Leyfi til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari má veita þeim aðilum sem stunda innflutningsverslun, framleiðslu eða viðgerðarþjónustu í atvinnuskyni, enda uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:

a. Þeir hafi tilskilin leyfi til viðkomandi atvinnustarfsemi, svo sem verslunarleyfi, sbr. lög um verslunaratvinnu nr. 41/1968, iðnaðarleyfi, sbr. iðnaðarlög nr. 42/1978, eða önnur leyfi sem krafist er.

b. Þeir hafi tilkynnt Hagstofu Íslands um atvinnustarfsemi sína og hafi verið færðir á fyrirtækjaskrá, sbr. lög um fyrirtækjaskrá nr. 62/1969.

c. Þeir hafi tilkynnt skattstjóra um starfsemi sína samkvæmt 5. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

d. Þeir séu ekki í vanskilum við ríkissjóð með greiðslu opinberra gjalda eða skatta.

e. Ríkistollstjóri hafi samþykkt þann hugbúnað sem umsækjandi hyggst nota til samskipta við tollyfirvöld.

f. Þeir hafi á að skipa starfsliði sem hefur til að bera fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum sem gilda um tollmeðferð vara.

4. gr.

Flutningsmiðlurum og þeim sem hafa leyfi til að reka frísvæði eða almennar tollvörugeymslur má veita leyfi til að koma fram gagnvart tollyfirvöldum við tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari fyrir hönd innflytjenda eða viðtakenda vara eða sendinga.

Þegar tollmeðferð fer fram samkvæmt þessari grein ábyrgjast umboðsaðilar og innflytjendur eða viðtakendur vara eða sendinga in solidum greiðslu aðflutningsgjalda.

IV. KAFLI - Umsókn um leyfi og leyfisveiting.

5. gr.

Tollstjórar, hver í sínu umdæmi, veita leyfi til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari.

Þeir sem óska eftir leyfi skulu sækja um það skriflega á þar til gerðu eyðublaði, sbr. 6. gr., til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem þeir eiga lögheimili. Telji tollstjóri skilyrði uppfyllt gefur hann út staðfestingu til handa umsækjanda sem veitir honum leyfi til að fá tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari í öllum tollumdæmum landsins. Hefja má tollmeðferð vara og sendinga með þessum hætti þegar ríkistollstjóri hefur veitt heimild til að tengja tölvukerfi leyfishafa við tölvukerfi ríkistollstjóra og leyfishafi hefur fengið lykilorð að gagnahólfi sem skráð er á hans nafn.

6. gr.

Í umsókn um leyfi til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari skal greina:

a. Nafn umsækjanda, kennitölu, aðsetur og virðisaukaskattsnúmer.

b. Hverjir hafi umboð til að skuldbinda hann samkvæmt reglugerð þessari.

c. Aðrar þær upplýsingar sem eyðublaðið gefur tilefni til.

Ríkistollstjóri ákveður gerð eyðublaðs sem notað skal samkvæmt 1. máls- grein.

Verði breytingar síðar á þeim upplýsingum sem fram koma í umsókn, skal það þegar tilkynnt þeim tollstjóra sem veitti leyfið, sbr. 5. gr.

V. KAFLI - Ábyrgðir vegna lánaðra aðflutningsgjalda.

7. gr.

Umsækjandi skal skila með umsókn sinni yfirlýsingu banka, sparisjóðs eða viðurkennds tryggingar- eða ábyrgðarfélags um að tekin sé skilyrðislaus sjálfskuldarábyrgð á tiltekinni fjárhæð lánaðra aðflutningsgjalda hans vegna, auk dráttarvaxta og annars kostnaðar sem leiða kann af vanefndum, sbr. 20. gr.

Fjárhæð ábyrgðar samkvæmt 1. málsgrein er jafnframt hámark lánaðra aðflutningsgjalda.

Ábyrgð skal vera ótímabundin en hún má vera uppsegjanleg af hálfu ábyrgðaraðila með ábyrgðarbréfi til viðkomandi tollstjóra með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Ef ábyrgð er sagt upp breytir það ekki ábyrgð á aðflutningsgjöldum sem eru lánuð fyrir gildistöku uppsagnar. Eftir uppsögn ábyrgðar er tollstjóra óheimilt að tollafgreiða vörur samkvæmt reglugerð þessari nema önnur ábyrgð sé sett í stað þeirrar sem sagt var upp.

8. gr.

Tollstjóri má síðar að ósk leyfishafa falla frá kröfu um ábyrgð samkvæmt 7. gr. ef fullnægt er eftirtöldum skilyrðum:

a. Hann hefur haft leyfi til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari í minnst 6 mánuði og ekki hafi þann tíma komið til vanskila af hans hálfu.

b. Hann sé ekki í vanskilum með opinber gjöld eða skatta til ríkissjóðs.

Komi í ljós síðar að leyfishafi uppfyllir ekki lengur ofangreind skilyrði, skal tollstjóri þegar í stað krefjast ábyrgðar samkvæmt 7. gr.

9. gr.

Víkja má frá kröfu um sjálfskuldarábyrgð samkvæmt 7. gr. að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a. Viðkomandi hafi leyfi til einfaldari tollmeðferðar samkvæmt reglum nr. 510/1990, um einfaldari tollmeðferð á vörum,

b. sé ekki í vanskilum með opinber gjöld eða skatta til ríkissjóðs þegar beiðni um leyfi til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari er borin fram og

c. hafi á sama tíma haft tilskilin leyfi til viðkomandi atvinnustarfsemi í a.m.k. þrjá mánuði.

Komi í ljós að leyfishafi uppfyllir ekki lengur ofangreind skilyrði skal tollstjóri þegar í stað krefjast ábyrgðar samkvæmt 7. gr.

10. gr.

Ákvæði 8.-9. gr. taka ekki til flutningsmiðlara.

Ákvæði þessa kafla taka ekki til rekstraraðila frísvæða og almennra toll- vörugeymslna, enda hafi þeir sett tryggingu samkvæmt 3. málsgrein 73. gr. tollalaga nr. 55/1987 og hún taki til ábyrgðar á aðflutningsgjöldum þeirra vara sem þeir ráðstafa til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari.

VI. KAFLI - Tollmeðferð.

11. gr.

Þegar tollmeðferð fer fram samkvæmt reglugerð þessari sendir leyfishafi aðflutningsskýrslu um viðkomandi vöru eða sendingu með rammaskeyti um gagnaflutningsnet til tollstjóra þar sem tollmeðferð á að fara fram. Hann skal nota gagnahólf sem skráð er á nafn hans.

Auk leyfishafa mega þeir sem heimild hafa til að skuldbinda hann, sbr. b-lið 1. málsgreinar 6. gr., annast skjalasendingu milli tölva og notkun gagnahólfs fyrir hönd hans vegna tollmeðferðar á vörum samkvæmt reglugerð þessari.

Í rammaskeyti samkvæmt þessari grein skulu koma fram þær upplýsingar sem veita ber í aðflutningsskýrslu samkvæmt ákvæðum 14.-19. gr. tollalaga nr. 55/1987 og fyrirmælum settum samkvæmt þeim, auk þess sem þar skal tilgreina tilvísunarnúmer leyfishafa og númer vörureikninga vegna vara í þeirri sendingu sem rammaskeytið tekur til. Tilvísunarnúmer samkvæmt þessari málsgrein skal gefið öllum tollskjölum sem eiga við um þá vöru eða sendingu sem aðflutningsskýrsla sem send er tollstjóra með rammaskeyti tekur til. Tilvísunarnúmer skulu vera einkvæm, en að öðru leyti ákveður viðkomandi leyfishafi sjálfur úrfærslu númerakerfis í bókhaldi sínu.

Rammaskeyti samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við fyrirmynd að rammaskeyti fyrir aðflutningsskýrslu eins og ákveðið er af ríkistollstjóra skv. 26. gr.

12. gr.

Aðflutningsskýrsla sem send er með rammaskeyti samkvæmt 11. gr. telst vera móttekin hjá tollstjóra við skráningu í tölvukerfi ríkistollstjóra. Vara eða sending telst þá vera tekin til tollmeðferðar, enda fullnægi upplýsingarnar sem veittar eru með þessum hætti að öllu leyti þeim skilyrðum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að heimila afhendingu vöru eða sendingar þegar í stað. Um ábyrgð leyfishafa á réttmæti þeirra upplýsinga sem koma fram í rammaskeyti fer eftir ákvæðum 16. gr. tollalaga. Auk þess að bera ábyrgð á að upplýsingarnar séu réttar, ber hann ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollmeðferðarinnar og að þær séu byggðar á þeim tollskjölum sem hefði átt að leggja fram með aðflutningsskýrslu ef hann hefði ráðstafað vöru eða sendingu til tollmeðferðar samkvæmt almennum reglum.

Leyfishafi telst með skeyti samkvæmt 11. gr. samþykkja að tollstjóri skuldfæri öll aðflutningsgjöld af þeirri vöru eða sendingu sem skeytið tekur til, án frekari beiðni þess efnis og jafnframt felst í því skuldbinding af hans hálfu um greiðslu aðflutningsgjaldanna samkvæmt VII. kafla.

13. gr.

Tollstjóri sendir viðkomandi leyfishafa með rammaskeyti í gagnahólf hans heimild til að veita vörunni eða sendingunni viðtöku frá vörsluhafa og tilkynningu um skuldfærslu aðflutningsgjalda. Enn fremur sendir tollstjóri farmflytjanda eða öðrum vörsluhafa vöru eða sendingar rammaskeyti þar sem afhending vöru eða sendingar er heimiluð (afhendingarheimild).

Rammaskeyti samkvæmt þessari grein skulu vera í samræmi við fyrirmynd slíkra skeyta eins og ákveðið er af ríkistollstjóra skv. 26. gr.

14. gr.

Vara eða sending sem fær tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari telst tollafgreidd þegar tollstjóri hefur heimilað afhendingu samkvæmt 13. gr.

15. gr.

Leyfishafar skulu einungis ráðstafa þeim vörum eða sendingum til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari sem þeir hafa vissu fyrir að séu rétt tollflokkaðar samkvæmt tollskrá, sbr. viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, og að aðrar tilskildar upplýsingar um þá vöru eða sendingu séu réttar, svo sem um verðmæti við ákvörðun tollverðs, sbr. 8.-10. gr. tollalaga og reglugerð nr. 395/1987, um tollverð og tollverðsákvörðun. Enn fremur þurfa leyfishafar að hafa vissu fyrir því að öllum innflutningsskilyrðum sé fullnægt hverju sinni, t.d. að fyrir liggi tilskilin innflutningsleyfi og að vottorð séu til staðar sé þeirra krafist við tollmeðferð viðkomandi vöru eða sendingar.

Ef leyfishafar eru í vafa um að öllum skilyrðum samkvæmt 1. málsgein sé fullnægt, skulu þeir hafa samráð við viðkomandi tollstjóra áður en vöru eða sendingu er ráðstafað til tollmeðferðar samkvæmt 11. gr.

16. gr.

Þeim sem leyfi fá til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að senda aðflutningsskýrslur með rammaskeytum hvenær sem er, enda hafi ríkistollstjóri ekki stöðvað móttöku skeyta, sbr. 3. málsgrein 26. gr.

Leyfishafar skulu hafa aðgang að tollalínu tölvukerfis ríkistollstjóra.

VII. KAFLI - Uppgjörstímabil, gjalddagar og skil aðflutningsgjalda.

17. gr.

Uppgjörstímabil vegna greiðslufrests á aðflutningsgjöldum samkvæmt reglugerð þessari skulu vera þau sömu og um ræðir í 1. málsgrein 4. gr. reglugerðar nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 352/1990, um breytingu á henni.

18. gr.

Þeir sem fengið hafa greiðslufrest á aðflutningsgjöldum samkvæmt reglugerð þessari skulu eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða tollstjóra þar sem þeir eiga lögheimili aðflutningsgjöld sem þeim hafa verið lánuð.

Greiða má samkvæmt gíróseðli sem sendur er leyfishafa í lok uppgjörstímabils.

Aðflutningsgjöld skal greiða eigi síðar en á gjalddaga sem er 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna tollafgreiðslna á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir.

19. gr.

Greiðsla aðflutningsgjalda samkvæmt 18. gr. telst fullnægjandi ef:

a. greitt er í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga,

b. greitt er hjá tollstjóra í síðasta lagi á gjalddaga eða

c. póstlögð greiðsla hefur borist tollstjóra í síðasta lagi á gjalddaga.

20. gr.

Verði um vanskil á greiðslu aðflutningsgjalda að ræða samkvæmt 18.-19. gr. skal tollstjóri synja leyfishafa um tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari á meðan vanskil vara. Jafnframt skulu dráttarvextir reiknaðir á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga og innheimtir í ríkissjóð. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta skulu gilda ákvæði 1. mgr. 9. gr. og 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, með áorðnum breytingum.

Hafi vangreidd aðflutningsgjöld ásamt dráttarvöxtum ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga eins og hann er ákveðinn samkvæmt 18. gr. skal tollstjóri ganga að ábyrgð samkvæmt 7. gr., hafi innflytjendur samkvæmt 3. gr. eða flutningsmiðlarar samkvæmt 4. gr. ráðstafað vöru eða sendingu til tollmeðferðar. Tollstjóri skal þá ganga að tryggingu rekstraraðila frísvæðis eða almennrar tollvörugeymslu, sbr. 4. gr., hafi þeir aðilar ráðstafað vörunni eða sendingunni til tollmeðferðar.

Einföld krafa tollstjóra til ábyrgðaraðila samkvæmt 2. málsgrein nægir og skal greiðsla hafa borist tollstjóra innan 7 daga frá dagsetningu kröfubréfs. Hafi greiðsla eigi borist tollstjóra innan þess tíma skal hvers konar tollafgreiðsla til þess aðila sem ráðstafaði vöru eða sendingu til tollmeðferðar þegar stöðvuð og ekki hefjast að nýju fyrr en fullnaðarskil hafa verið gerð.

Komi til vanskila af hálfu aðila sem 3. gr. tekur til og ekki er um að ræða ábyrgð samkvæmt 7. gr., skulu um stöðvun tollafgreiðslu gilda ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 61/1989, um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á vörum, eftir því sem við getur átt.

Nú á innflytjandi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, eða endurgreiðslu vegna ofgreiddra aðflutningsgjalda og skal tollstjóri þá skuldajafna endurgreiðslunni á móti kröfum um vangreidd opinber gjöld eða skatta til ríkissjóðs.

IIX. KAFLI - Bókhald og varðveisla gagna.

21 gr.

Þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vara eða sendinga samkvæmt reglugerð þessari skulu varðveita í bókhaldi sínu á aðgengilegan og tryggilegan hátt öll gögn sem snerta tollmeðferð vara og sendinga, hvort sem þau eru skrifleg eða ekki.

Aðilar samkvæmt 1. málsgrein skulu halda fullkomna skrá eða gagnadagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem þeir senda tollstjórum eða móttaka frá þeim. þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi skal á auðveldan hátt vera unnt að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau á læsilegan hátt og prenta þau, ef þess er óskað.

Leyfishafi skal prenta á pappír og varðveita tilkynningu tollstjóra um skuldfærslu aðflutningsgjalda, sbr. 13. gr., og varðveitist hún með tilheyrandi tollskjölum, sbr. og m.a. VIII. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

Varðveita ber bókhaldsgögn í samræmi við lög um bókhald nr. 51/1968, með áorðnum breytingum, og fyrirmæli settum samkvæmt þeim.

22. gr.

Reglur 21. gr. um varðveislu gagna skulu enn fremur eiga við, eftir því sem við getur átt, um varðveislu gagna af hálfu annarra aðila en þeirra sem ráðstafa vöru eða sendingu til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari, t.d. flutningsmiðlara, farmflytjenda, tollvörugeymslna og rekstraraðila frísvæða, varðandi gögn og upplýsingar sem þessir aðilar hafa sent tollyfirvöldum eða móttekið frá þeim vegna tollmeðferðar vara samkvæmt reglugerð þessari.

IX. KAFLI - Endurskoðun aðflutningsgjalda og ákvörðun gjalda að nýju.

23. gr.

Endurskoðun vegna tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari skal fara fram eftir á, nema gild rök réttlæti annað. Ríkistollstjóri getur sett nánari framkvæmdareglur um endurskoðun tollstjóra.

Komi í ljós við tollmeðferð vöru samkvæmt reglugerð þessari að annmarki þyki að mati tollstjóra á upplýsingagjöf innflytjanda eða frekari skýringa sé þörf á einhverju atriði, skal fara að fyrirmælum 98. gr. tollalaga nr. 55/1987. Tollstjóri skal þá ekki heimila afhendingu vöru fyrr en bætt hefur verið úr annmörkum eða fullnægjandi skýringar hafa verið látnar í té.

Um heimild tollstjóra til að endurákvarða aðflutningsgjöld eftir afhendingu vöru fer eftir ákvæðum 99. gr. tollalaga og skulu gilda sömu reglur og um rétt tollstjóra til að endurákvarða aðflutningsgjöld þegar vörur eru tollafgreiddar samkvæmt reglum um einfaldari tollmeðferð vöru, sbr. reglugerð nr. 510/1990.

Um heimild ríkistollstjóra til endurákvörðunar aðflutningsgjalda fer eftir 3. mgr. 32. gr. tollalaga.

X. KAFLI - Ýmis ákvæði.

24. gr.

Leyfishafar samkvæmt reglugerð þessari skulu að kröfu tollyfirvalda leggja fram og veita aðgang að bókhaldi sínu og bókhaldsgögnum og öðrum gögnum sem varða innflutning vara sem tollmeðferð fá samkvæmt reglugerðinni og veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru að mati tollyfirvalda til að ganga úr skugga um að upplýsingar sem veittar eru með þeim hætti, sem hér hefur verið fjallað um, séu réttar.

25. gr.

Ákvæði tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, svo og fyrirmæli sett samkvæmt þeim, skulu gilda um tollmeðferð og tolleftirlit vegna framkvæmdar reglugerðar þessarar eftir því sem við getur átt.

26. gr.

Ríkistollstjóri hefur umsjón með tölvukerfi því sem notað er af hálfu tollyfirvalda við tollafgreiðslur samkvæmt reglugerð þessari. Getur hann sett nánari fyrirmæli um framkvæmd slíkra afgreiðslna og m.a. ákveðið gerð þeirra rammaskeyta sem nota ber af hálfu tollstjóra, innflytjenda og annarra.

Ríkistollstjóri getur ákveðið til hvers konar tollafgreiðslna reglugerð þessi tekur.

Ríkistollsjóri getur ákveðið að stöðva móttöku skeyta sem send eru í tölvukerfi ríkistollstjóra vegna breytinga á aðflutningsgjöldum, tollskrá, tollgengi eða af öðrum ástæðum sem gera það nauðsynlegt að hans mati.

27. gr.

Leyfishafi greiðir kostnað af gagnaflutningi samkvæmt reglugerð þessari og annan kostnað samkvæmt gjaldskrá sem ríkistollstjóri ákveður.

28. gr.

Tollstjóri getur svipt leyfishafa heimild til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari vegna ítrekaðra vanskila á greiðslu aðflutningsgjalda sem veittur hefur verið greiðslufrestur á, ef hann fullnægir ekki lengur skilyrðum reglugerðar þessarar eða ef hann hefur af öðrum ástæðum að mati tollstjóra fyrirgert rétti sínum til tollmeðferðar samkvæmt reglugerðinni.

Ákvörðun tollstjóra um sviptingu leyfis samkvæmt þessari grein skal vera rökstudd og ber að tilkynna hana í ábyrgðarbréfi. Leyfissvipting tekur gildi 7 dögum frá póstlagningardegi tilkynningar og hefur hún gildi í öllum tollumdæmum landsins.

Heimild til tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari fellur jafnframt niður þegar ákvæði 3. málsgreinar 104. gr. tollalaga eiga við.

29. gr.

Misnotkun leyfis sem veitt hefur verið samkvæmt reglugerð þessari getur m.a. varðað við XIV. kafla tollalaga nr. 55/1987.

Um meðferð mála vegna brota á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála.

30. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 20. gr., 109. gr. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, sbr. og heimild í 3. mgr. 34. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, með áorðnum breytingum, til að öðlast gildi 15. september 1992.

Fjármálaráðuneytið, 19. ágúst 1992.
Friðrik Sophusson
Indriði H. Þorláksson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica