Fjármálaráðuneyti

755/2011

Reglugerð um vöruval og sölu áfengis og skilmálar í viðskiptum við birgja. - Brottfallin

I. KAFLI

1. gr.

Hlutverk.

Hlutverk reglugerðarinnar er að ákveða og skýra vöruval Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) út frá vöruvalsstefnu sem er byggð á stefnu stofnunarinnar, ákvæðum laga nr. 86/2011, um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, áfengislögum nr. 75/1998, með síðari breytingum og stefnu stjórnvalda í áfengismálum hverju sinni.

Á grundvelli vöruvalsstefnu eru skilgreindir söluflokkar, vöruvalsdeildir og vörudeildir sem stýra aðgengi vöru að vínbúðum í samræmi við eftirspurn og tryggja fjölbreytt vöruúrval sem mætir óskum og þörfum neytenda. Ákvörðun um sölumeðferð byggist á söluárangri sem er mældur með framlegð.

Í reglugerðinni er greint frá kröfum sem gerðar eru til vöru, umbúða hennar, merkinga og annarra atriða. Í skilmálum um viðskipti við birgja er skýrður ferill umsókna um sölu áfengis sem og hvernig standa skuli að samningi um vörukaup og pöntun. Fjallað er um afhendingarskilmála, ábyrgð birgja, verð og greiðslu.

ÁTVR skal leitast við að tryggja að söluvörur fyrirtækisins séu framleiddar samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og siðareglum sem birtar eru í viðauka 2 við reglugerð þessa.

2. gr.

Orðskýringar.

Áfengistegund: Vara eða vörur með samskonar innihald og framsetningu, þótt einstök afbrigði séu ekki nákvæmlega eins.
Framlegð: Munur söluverðs og innkaupsverðs að frádregnum virðisaukaskatti.
Framlegðarskrá: Skrá yfir framlegð vöru á 12 mánaða tímabili.
Söluflokkur: Röðun vöru í hóp eftir aðgengi hennar að vínbúðum.
Sölutegund: Vara sem er frábrugðin öðrum vörum og fær sérstakt númer í skrám.
Vörudeild: Skilgreining á vörum með tiltekin einkenni sem ætlað er að tryggja breitt og heilsteypt vöruúrval m.t.t. til ólíkra vínbúða og að auka fjölbreytni og gæði vöruúrvals almennt.
Vöruúrval: Vörur fáanlegar í vínbúðum.
Vöruval: Val á vörum til sölu.
Vöruvalsdeild: Flokkun á vörum sem mótar meginsamsetningu vöruúrvals vínbúða. Við skilgreiningu flokka er einkum horft til hráefnis, framleiðsluaðferða og umbúðagerðar.

3. gr.

Vöruvalsstefna.

ÁTVR skal stefna að fjölbreytni og gæðum í vöruúrvali og skal ákveða vöruúrval vínbúða með hliðsjón af eftirspurn og væntingum viðskiptavina.

ÁTVR skal stuðla að ábyrgri áfengisneyslu og ábyrgri umgengni við áfengi með vöruvali. Við vöruval skal farið að markmiðum laga um verslun með áfengi og tóbak.

II. KAFLI

4. gr.

Söluflokkar.

Áfengi er skipt í fjóra söluflokka: Reynsluflokk, kjarna, mánaðarflokk og sérflokk.

5. gr.

Reynsluflokkur.

Reynsluflokkur er ætlaður vöru sem birgjar bjóða til tilraunasölu í vínbúðum.

Vínbúðir sem selja vörur í reynsluflokki eru tilgreindar í d. lið í viðauka 1. Tímabil reynslusölu skal vera 12 mánuðir. Verði umsóknir um sölu í reynsluflokki fleiri en hægt er að veita viðtöku getur birgir skráð vöru á biðlista.

Nái sölutegund í reynsluflokki viðmiðunarframlegð sem ákvörðuð er á grunni 2. mgr. 15. gr. reglugerðar þessarar flyst hún í kjarna.

Vara sem ekki flyst í kjarna fellur úr reynsluflokki að loknum 12 mánaða reynslutíma.

Vara, sem felld hefur verið úr reynsluflokki, á ekki afturkvæmt í reynslusölu fyrr en að liðnum 12 mánuðum.

6. gr.

Kjarni.

Kjarni er aðalsöluflokkur. Kjarna er ætlað að tryggja framboð á vörum sem njóta mestrar eftirspurnar kaupenda. Vörur í kjarna hafa forgang um dreifingu í vínbúðir.

Kjarni skal endurmetinn á fjögurra mánaða fresti samhliða endurskoðun á vöruúrvali vínbúða.

Vara fellur úr kjarna nái hún eigi á 12 mánaða tímabili framlegð sem ákvörðuð er á grunni 2. mgr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Vara, sem felld hefur verið úr kjarna, getur flust í sérflokk skv. ákvörðun ÁTVR, eða hafið reynslusölu, þegar birgðir í eigu ÁTVR eru uppseldar.

7. gr.

Mánaðarflokkur.

Mánaðarflokkur er ætlaður árstíðabundinni vöru. Til að vara teljist gjaldgeng í mánaðarflokk þarf framleiðsla vörunnar að vera árstíðabundin eða hefð fyrir sölu tengd viðkomandi árstíma.

Sölutímabil mánaðarflokks eru þorri, langafasta og jólamánuður. Sölutími þorra er frá bóndadegi til konudags. Sölutími lönguföstu er frá öskudegi til loka dymbilviku. Sölutími jólamánaðar hefst 15. nóvember og lýkur á þrettándanum. Dreifing fer eftir ákvörðun ÁTVR hverju sinni.

8. gr.

Sérflokkur.

Sérflokki er ætlað að styðja við vöruvalsstefnu með því að auka fjölbreytni og gæði vöruúrvals og stuðla að því að það mæti óskum og þörfum viðskiptavina. Í sérflokki er hægt að bjóða vöru í tímabundinni sölu utan mánaðarflokks.

9. gr.

Val í sérflokk.

Til að vara komist í sérflokk þarf hún jafnan að hafa farið í reynslusölu eða kjarna og fallið úr þeim söluflokkum samkvæmt gildandi reglum. Innan mánaðar frá tilkynningu um fall vöru úr reynslu eða kjarna, getur birgir lagt fram rökstudda ósk um færslu vörunnar í sérflokk. Til að vara fari í sérflokk þarf ÁTVR að fallast á rökstuðning birgja og getur hafnað beiðninni á grundvelli eftirtalinna atriða:


a. séu sambærilegar vörur þegar í sölu sem hafa hærri framlegð og/eða meiri gæði,
b. séu gæði vörunnar ófullnægjandi,
c. sé söluverð vörunnar of hátt miðað við gæði,
d. að birgir geti ekki tryggt framboð vörunnar,
e. sé ekki grundvöllur fyrir stofnun nýrrar vörudeildar fyrir vöru af því tagi sem boðin er.


ÁTVR getur valið vörur í sérflokk, án sérstakrar óskar birgja eða án undangenginnar sölu í reynslu eða kjarna í samræmi við 3. gr. reglugerðar þessarar.

10. gr.

Dreifing vara í sérflokki.

Ef ekki er til vara í kjarna í tiltekinni vörudeild sem mælt er fyrir um að hljóti almenna dreifingu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar þá skal jafnan sótt vara í reynslu- eða sérflokk til að fylla það skarð.

Dreifing vegna sérstakrar eftirspurnar viðkomandi vínbúða eftir tilteknum vöruflokkum skal fara eftir framlegðarhæstu tegundum sérflokks í viðkomandi flokkum.

Sérhæfð dreifing er fyrir afmarkaða vöruflokka (bjór, sterkt áfengi, vín) sem hafa sérhæft vöruval í þeim vöruflokkum, umfram aðrar vínbúðir. Um dreifingu skal farið eftir 2. mgr. 16. gr. ásamt kvíaskjali. ÁTVR getur gert undantekningar varðandi einstakar vörur, t.d. takmarkað dreifingu dýrustu tegunda.

11. gr.

Viðmiðunarmörk vöru.

Til viðmiðunar um innbyrðis stöðu tegunda sem keppa um dreifingu er horft til framlegðar, mats á gæðum eða dreifingar sem sambærilegar vörur í sérflokki njóta.

ÁTVR getur ákveðið að velja eða hafna tegund á grundvelli gæða. ÁTVR getur við ákvörðun dreifingar ákveðið að jafna mismun sem orsakast af fyrri dreifingu.

Til viðmiðunar um stöðu einstakra tegunda óháð samkeppni er horft til framlegðar og eftirspurnar, breyttra gæða, t.d. vegna árgangaskipta og vörubreytinga, og framboðs.

12. gr.

Aðrar vörur í sérflokki.

Aðrar vörur í sérflokki eru:

a. Árstíðabundnar vörur af ýmsu tagi sem ekki falla innan mánaðarflokks og vörur sem keyptar eru inn í takmörkuðu magni.
b. Vörur í gjafaumbúðum, með eða án aukahluta.


13. gr.

Sérpantanir.

Vörur sem falla ekki undir 4.-12. gr. má sérpanta. Sérpantaðri vöru verður ekki skilað nema hún teljist ónothæf vegna galla.

ÁTVR getur ákveðið að sá er pantar skuli setja tryggingu fyrir því að kostnaður við kaup og flutning hinnar pöntuðu vöru fáist greiddur. Tryggingarfé endurgreiðist sé vara ófáanleg.

III. KAFLI

14. gr.

Nærsvæði.

Tilgangur nærsvæðis er annars vegar að gera vínbúðum kleift að mæta staðbundinni eftirspurn eftir vörum sem eru framleiddar utan höfuðborgarsvæðisins og hins vegar að auðvelda framleiðendum að kynna framleiðslu sína á heimasvæði.

Á nærsvæði er ein heimavínbúð, sem skal vera næsta vínbúð við framleiðanda í landfræðilegu tilliti, og tvær grenndarvínbúðir, sem framleiðandi velur úr nálægum vínbúðum skv. tillögu ÁTVR.

Í heimavínbúð skulu fást allar vörur framleiðanda sem eru í sölu hjá ÁTVR. Í grenndarvínbúð skulu fást allt að fjórar vörutegundir umfram venjulegt vöruval þeirrar vínbúðar, og skulu þær valdar af framleiðanda, óháð söluflokkum. Framleiðandi getur nýtt nærsvæði til að kynna vörur sem ekki eru fáanlegar í öðrum vínbúðum ÁTVR.

ÁTVR birtir á birgjavef sínum skrá sem sýnir heimavínbúðir framleiðenda og tillögu ÁTVR um grenndarvínbúðir. Þar komi jafnframt fram val framleiðenda á grenndarvínbúð.

IV. KAFLI

15. gr.

Vöruvalsdeildir, framlegð og vörudeildir.

Vörum er skipað í vöruvalsdeildir eftir gerð hráefnis og framleiðsluaðferðum, gerð umbúða og endingartíma. Vöruvalsdeildir stýra meginsamsetningu vöruúrvals kjarnategunda í vínbúðum. ÁTVR getur breytt skilgreiningu vöruvalsdeilda og framlegðarviðmiðum. Við slíka breytingu skal taka mið af vöruvalsstefnu 3. gr. reglugerðar þessarar.

ÁTVR skal halda utan um, og birta með sannanlegum hætti á heimasíðu ÁTVR eða öðrum hætti til birgja, vöruvalsdeildartöflu og framlegðarviðmið kjarna og reynslu.

Vöruvalstaflan skal endurskoðuð í janúar og júlí á ári hverju. ÁTVR er þó heimilt að breyta vöruvalsdeild á milli tímabila séu sérstakar ástæður fyrir því. Allar breytingar skulu þó birtar með tveggja mánaða fyrirvara.

Mánaðarlega skal ÁTVR birta á birgjavef sínum skrár um framlegð sölutegunda í kjarna, reynsluflokki og sérflokki. Framlegðarskrá sýnir sölu undanfarinna tólf mánaða eftir vöruvalsdeildum. Raða skal sölutegundum eftir framlegð frá mestu framlegð til þeirrar minnstu. Til grundvallar útreiknings framlegðar skal lögð heildarsala ÁTVR.

ÁTVR skal ákveða vörudeildir og birta með sannanlegum hætti á vefsvæði sínu. Vörudeildum er ætlað að styðja við vöruvalsstefnu. Á grundvelli vörudeilda skal ákvarða vöruúrval sérflokks og aukið val vínbúða. Samhliða endurskoðun vöruúrvals vínbúða skal ÁTVR birta skrá yfir vörudeildir og áætlaða dreifingu þeirra í vínbúðir eftir stærðarflokkum vínbúða.

V. KAFLI

16. gr.

Flokkun vínbúða og vöruval.

Vínbúðir skiptast í þrjá flokka: minni vínbúðir, svæðisbúðir og stærri vínbúðir sbr. viðauka 1. ÁTVR getur breytt fjölda tegunda í vínbúðum og flokkun vínbúða ef ástæða er til.

Vöruúrval ræðst af stærðarflokki vínbúðar. Í hvern stærðarflokk skal skipað tilteknum vöruhópum, svokölluðum kvíum. Í kví eru vörur sem fylgjast að varðandi dreifingu í vínbúðir. Vörur veljast í kví í fyrsta lagi á grundvelli söluárangurs eins og hann er mældur í framlegðarskrá og í öðru lagi á grundvelli vörudeilda sem fylgja viðkomandi kví og sjá má á vörudeildaskrá.

Vöruúrval vínbúða skal endurmetið í janúar, maí og september ár hvert og skal nýtt vöruval koma til framkvæmda í febrúar, júní og október. Til grundvallar endurmats vöruúrvals skal nota framlegðarskrár undangengis janúar-, maí- og septembermánaðar. Fylla skal í vöruvalsdeildir kjarna samkvæmt töflu vöruvalsdeilda og skal velja framlegðarhæstu tegundir eftir röð á framlegðarskrá.

17. gr.

Aukið vöruúrval.

ÁTVR getur aukið vöruúrval vínbúða frá því sem getið er um í grein þessari til að uppfylla betur ákvæði vöruvalsstefnu. Við aukningu vöruúrvals skal horft til þess að vöruúrval vínbúðar sé heilsteypt m.t.t. stærðarflokks vínbúðar. Almennri eftirspurn er svarað með framboði á söluhæstu vörum, æskileg fjölbreytni er tryggð með vörudeildum, takmarkaðri eftirspurn má svara með staðbundinni eða tímabundinni aukningu vöruframboðs.

Ef vara í föstu vöruvali vínbúða, er ófáanleg frá birgja í a.m.k. 15 daga, þá er ÁTVR heimilt að bæta næstu sambærilegu vöru á vöruvalsskrá í vöruval. Slík aukning stæði út yfirstandandi vöruvalstímabil.

Fjölbreytni er tryggð með framboði vörudeilda, sem æskilegt er talið að bjóða í viðkomandi stærðarflokki vínbúðar. Vörudeildaskrá sýnir skipan vörudeilda í stærðarflokka vínbúða. Niðurstöður aukins vals að þessu leyti eru birtar í vöruvalsskrá við endurskoðun vöruvals.

Sérstakri staðbundinni eftirspurn má svara með sérstöku auknu vali vínbúðar og nærsvæðisvali. ÁTVR hefur umsjón með auknu vali vínbúðar.

Sérstakri tímabundinni eftirspurn má svara með auknu tímabundnu vali. ÁTVR hefur umsjón með slíku vali. Heimila má tímabundna sölu tegunda, þ.m.t. vörur í reynsluflokki í vínbúðum sem að jafnaði selja ekki reynsluflokk.

Aukið vöruúrval er tímabundið og endurskoðast eigi sjaldnar en samhliða almennri endurskoðun á vöruúrvali vínbúða.

VI. KAFLI

18. gr.

Stofnsamningur og umsókn um sölu.

ÁTVR og birgir, sem hefur leyfi til að selja áfengi í heildsölu, skulu gera með sér sérstakan stofnsamning um vörukaup. Stofnsamningurinn er heildarsamningur og tekur til allra vörukaupa ÁTVR frá birgja. Með undirritun stofnsamnings skuldbindur birgir sig til að hlíta í einu og öllu þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um innkaup og sölu á áfengi hjá ÁTVR.

Vanefni seljandi samningsskyldur sínar, verður gjaldþrota eða ógjaldfær af öðrum ástæðum er ÁTVR heimilt að segja upp öllum samningum aðila fyrirvara- og bótalaust.

Til að umsókn um sölu teljist gild þarf að skila vöruvottun og sýnishorni af vörunni, a.m.k. 500 millilítrum og ytri smásöluumbúðum þegar við á. Sé um dýrar sölueiningar að ræða getur ÁTVR frestað eða fallið frá kröfu um sýnishorn. Sýnishorn vegna umsóknar um sölu á vöru er óafturkræft.

ÁTVR samþykkir eða hafnar umsókn innan þriggja vikna frá því að gild umsókn er send. Sé umsókn eða fylgigögnum ábótavant eða ef umsókn er hafnað, skal birgi gerð grein fyrir ágöllum og gefinn kostur á úrbótum og andmælum.

19. gr.

Vörukaupasamningur.

Sérstakur rafrænn vörukaupasamningur er gerður í framhaldi af umsókn um sölu á vöru fyrir hverja vöru um sig. Í vörukaupasamningi er vísað til ákvæða stofnsamnings og gilda þau eftir því sem við á.

Í vörukaupasamningi skal tilgreina hvenær fyrsta afhending vöru til ÁTVR fari fram og hvenær sala skuli hefjast. Verði vara ekki afhent innan 60 daga frá pöntun, hefur ÁTVR heimild til að fella úr gildi vörukaupasamninginn svo og allar óafgreiddar pantanir á vörunni.

Vörukaupasamningur um reynslusölu skal gerður a.m.k. mánuði áður en sala í reynsluflokki hefst. Takist samningar eigi fyrir þau tímamörk vegna tómlætis birgis, fellur umsókn hans um sölu vörunnar úr gildi. Verði vara sem hefja á reynslusölu á ekki afhent a.m.k. 4 dögum fyrir upphafsdag sölu skv. vörukaupasamningi, fellur vöru­kaupa­samningurinn úr gildi. Birgir getur óskað eftir því að seinka söluupphafi vöru vegna sérstakra aðstæðna.

Þegar vara í reynsluflokki hefur náð tilskildum árangri til að flytjast í kjarna, fer samkvæmt samningi birgis og ÁTVR hversu mikið af hinni óseldu vöru ÁTVR kaupir.

20. gr.

Vörubreytingar.

Vöru verður ekki breytt án samþykkis ÁTVR. Það telst til dæmis breyting á vöru, fái hún nýtt efnainnihald, þ.m.t. vínandastyrkleika, breytta gerilsneyðingu, stærð og útlit umbúða eða gerð sölueiningar. Birgjar skulu afhenda ÁTVR sýnishorn til samþykktar vegna vörubreytinga, þ.m.t. vegna árgangaskipta. ÁTVR áskilur sér rétt til að fá sýnishorn frá birgja af vöru á að minnsta kosti þriggja ára fresti.

VII. KAFLI

21. gr.

Vörur og umbúðir.

Birgir ábyrgist að innihald vöru, merkingar, myndmál og umbúðir samræmist reglum upprunalands og íslenskum lögum um matvæli og reglugerðum.

Á umbúðum sölueiningar skulu eftirtalin atriði koma fram með áberandi hætti:

a. Vöruheiti.
b. Vöruflokkur.
c. Magn (lítramál).
d. Styrkleiki vínanda (m.v. rúmmál).
e. Lotunúmer.
f. Dagsetning um neyslutíma ("best fyrir").
g. Heiti og aðsetur ábyrgðaraðila á evrópska efnahagssvæðinu.
h. Upplýsingar um notkun brennisteinstvíoxíðs, ofnæmis- og óþolsvalda þar sem við á.


Vara sem hefur merki lífrænnar ræktunar hafi viðurkennda vottun.

Strikamerki, EAN eða UPC,verða að vera á hverri sölueiningu. ÁTVR skal hafna vöru sem ber merki fríhafnarsölu.

Heimilt er að hengja miða á flöskur með uppskriftum eða kynningu á vörunni eða framleiðanda. Áhengi mega hvorki hylja almennar vörumerkingar né valda óhagræði við vörumeðferð né hamla afgreiðslu.

Heimilt er að bjóða vöru í fjölpakka eða pakkningar með fylgihlutum sem tengjast neyslu vöru, s.s. glös eða upptakara.

Dósir skulu vera með áföstum flipa.

ÁTVR getur, telji það tilefni til, krafið birgi um upplýsingar sem staðfesta uppruna vöru.

22. gr.

Umbúðir og áletranir.

Umbúðir og áletranir mega einungis innhalda skilaboð er tengjast vörunni, gerð hennar eða eiginleikum. ÁTVR tekur ekki við vörum ef texti eða myndmál á umbúðum vörunnar:

a. gefa til kynna lægri áfengiskaupaaldur en lög kveða á um eða geta höfðað til barna og unglinga, m.a. með myndskreytingum og slagorðum,
b. hvetja til áfengisneyslu eða tengjast aðstæðum þar sem neysla áfengis tíðkast ekki eða getur verið hættuleg,
c. innihalda gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar eða gefa til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu,
d. særa blygðunarkennd eða brjóta á annan hátt í bága við almennt velsæmi m.a. með skírskotun til ofbeldis, trúar, ólöglegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar, refsiverðrar háttsemi o.s.frv.,
e. fela í sér happdrætti eða tilboð eða geta talist sérstaklega neysluhvetjandi að öðru leyti.


ÁTVR er heimilt að hafna vöru sem er keimlík annarri vöru á markaði.

ÁTVR er heimilt að hafna vöru sem inniheldur koffein eða önnur örvandi efni.

Heimilt er að hafna vöru sem er í viðkvæmum eða óhefðbundnum umbúðum eða ef beita þarf sérstökum aðferðum við framsetningu vöru í hillu. ÁTVR tekur afstöðu til ofangreindra skilyrða, með hliðsjón af gerð pakkningar, umfangi, plássi í vínbúðum og verði.

23. gr.

Form umbúða.

Umbúðir skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:

a. Lagarmál vöru skal vera meira en 50 millilítrar og að hámarki 5 lítrar. ÁTVR getur samþykkt umbúðir úr samsettum einingum sem hver fyrir sig rúmar minna en 50 millilítra en að heild meira en 50 millilítra, ef slíkar vörur eru seldar saman sem ein eining.
b. ÁTVR samþykkir að jafnaði eftirfarandi umbúðaefni: Gler- eða leirflöskur; áldósir með áföstum flipa, álflöskur; belgi eða kassavín (pappaaskja utan um ál- eða plastpoka með einstreymisloka); pappafernur, t.d. tetra-pak; plastflöskur (fjölhúðaðar); kútar með krana.
c. Lagarmál fernu eða kassa skal vera að lágmarki 500 millilítrar og að hámarki 3000 millilítrar.


Sé efni umbúða annað en það sem tilgreint er í grein þessari þarf að leita sérstaks samþykkis ÁTVR.

24. gr.

Afhending vöru.

Hver pöntun skal afhent sérstaklega ásamt afhendingarseðli í vöruhús ÁTVR að Stuðlahálsi í Reykjavík. Þó getur ÁTVR við sérstakar aðstæður samið við birgja um afhendingu á vörum á öðrum dreifingarstað sem ÁTVR tilgreinir.

Reikningur skal berast ÁTVR einum virkum degi fyrir afhendingu vöru.

Vara sem hefur "best fyrir" merkingu, verður að eiga a.m.k. 3 mánuði eftir af geymsluþoli þegar hún berst í vöruhús ÁTVR. Í sérstökum tilvikum er ÁTVR heimilt að leyfa skemmri endingartíma.

Strikamerki, frábrugðið strikamerki sölueiningar, skal vera á hverjum kassa. Vöru sem ekki er afhent í upprunalegum umbúðum má afhenda í ómerktum kassa.

Sé magn vöru í afhendingu meira en sem svarar einu lagi á bretti skal varan afhent á EUR vörubretti. Andvirði vörubretta skal innifalið í vöruverði. Mesta hæð vöru og brettis sé 150 sm. Sé hleðsla á bretti umfram 70 sm. að hæð, skal vefja vöru plastfilmu.

Hver pöntun skal merkt með pöntunarnúmeri ÁTVR á plastfilmu, kassa eða vörubretti.

Heimilt er að afhendingarseðill sé rafrænn s.s. strikamerki með pöntunarnúmeri. Ekki er heimilt að afhenda sömu vöru í ólíkum umbúðum á sama pöntunarnúmeri.

ÁTVR getur hafnað móttöku vara séu skilyrði greinarinnar ekki uppfyllt.

VIII. KAFLI

25. gr.

Ábyrgð.

Birgir skal taka til sín og endurgreiða við móttöku vöru sem er ósöluhæf vegna gallaðra umbúða eða innihalds.

Taki birgir eigi til sín gallaða vöru hefur ÁTVR heimild til að krefjast geymslugjalds fyrir vöruna. ÁTVR er heimilt að láta eyða vörunni á kostnað birgis þegar tvær vikur eru liðnar frá því birgi var tilkynnt að hann ætti að taka vöruna til sín. Heimilt er að skuldajafna kostnaði við andvirði sölu.

26. gr.

Verð og greiðsla.

Verð birgis til ÁTVR skal innihalda áfengisgjald og skilagjald.

Álagning ÁTVR er skv. lögum nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak.

Virðisaukaskattur leggst á verð birgja og álagningu ÁTVR. Söluverð úr vínbúð skal jafnað á næstu krónu.

Þeir, sem bjóða vöru í reynsluflokki eða mánaðarflokki, skuldbinda sig til að lána ÁTVR vöruna sölutímann. ÁTVR skal greiða lánardrottni selda vöru eigi síðar en á 10. degi eftir lok sölumánaðar. Birgjar skulu taka til baka innan 4 daga þá vöru sem óseld kann að vera við lok sölutímans.

Greiðslufrestur fyrir vörur í kjarna og sérflokki skal ekki vera skemmri en til næsta greiðsludags aðfanga, en greiðsludagar ÁTVR eru 16. hvers mánaðar og síðasti dagur mánaðar. Beri greiðsludag upp á frídag er næsti vinnudagur greiðsludagur.

ÁTVR skal birta verðskrá á heimasíðu sinni. Breytingar á söluverði vöru hjá ÁTVR miðast að jafnaði við fyrsta dag hvers mánaðar. Tilkynna skal verðbreytingar skriflega til ÁTVR eigi síðar en tuttugasta dag hvers mánaðar á undan verðbreytingardegi.

Birgjar geta tilkynnt um breytingar á verði sínu til ÁTVR mánaðarlega. ÁTVR ákveður hvenær breyting á söluverði tekur gildi á vörum í sinni eigu. ÁTVR getur hafnað verðbreytingu frá birgjum á vörum í eigu ÁTVR.

Breyti birgir verði vöru í reynsluflokki, skal ljúka uppgjöri á þegar seldri vöru, færa birgðir óseldrar vöru af lager og skrá hana aftur skv. reikningi birgis á nýju verði. Sala getur fyrst hafist að nýju að færslum loknum.

IX. KAFLI

27. gr.

Verðboð.

Berist ÁTVR boð um betra verð í vöru sem er til sölu en samningsaðili býður, skal ÁTVR tilkynna þeim birgi, sem varan er keypt frá, að annar birgir hafi boðið sömu vöru. Jafnframt er gildandi vörukaupasamningi sagt upp með 90 daga uppsagnarfresti.

Óska skal verðboðs í vöruna frá birgi og þeim, er nýtt verð bauð, enda geti sá leitt líkur að því að hann geti tryggt samfellt framboð vörunnar í a.m.k. eitt ár. Í verðboði er birgir, sem verðboðs óskaði, skuldbundinn til þess að bjóða a.m.k. jafnlágt verð og hann upphaflega bauð.

Skilyrði fyrir verðboði er að birgir leggi fram eftirfarandi:

a. að sýnt sé fram á a.m.k. 12 mánaða vöruframboð,
b. upprunavottorði sé skilað,
c. sýnishorn sé afhent,
d. afhendingasaga birgja, sé hún fyrir hendi.


Vörukaupasamningur skal gerður við þann birgi sem uppfyllir ofangreind skilyrði og býður lægra verð. Að 90 dögum liðnum er vara tekin til sölu á grundvelli nýs vörukaupasamnings.

Birgir getur ekki hækkað samningsverð fyrr en að liðnum 90 dögum frá gildistöku nýs vörukaupasamnings.

Birgjar geta ekki óskað verðboðs vegna vöru sem hefur verið skemur en 6 mánuði í kjarna. Tímamörk þessi eiga ekki við, reynist vara ófáanleg frá þeim birgi, sem ÁTVR hafði skipt við. Verðboðs verður eigi óskað oftar en einu sinni innan 12 mánaða vegna sömu vöru.

X. KAFLI

28. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 11. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, kemur í stað reglna nr. 631/2009, um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

 

Fjármálaráðuneytinu, 8. júlí 2011.

F. h. r.
Guðrún Þorleifsdóttir.

Guðmundur Jóhann Árnason.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica