Viðskiptaráðuneyti

555/1997

Reglugerð um samstarf við önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins um eftirlit með gjaldþoli útibúa vátryggingafélags með aðalstöðvar utan þess. - Brottfallin

Gildissvið.

1. gr.

                Reglugerð þessi gildir um eftirlit eins aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins með sameiginlegu gjaldþoli allra útibúa vátryggingafélags á svæðinu, enda hafi það vátryggingafélag aðalstöðvar utan svæðisins og hafi fengið leyfi skv. 3. gr. til þess að útibúin lúti sameiginlegu gjaldþolseftirliti.

 

Sameiginlegt gjaldþol útibúa.

2. gr.

                Vátryggingafélag með aðalstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins sem sótt hefur um eða fengið starfsleyfi í fleiri en einu aðildarríki getur sótt um að fá að njóta þess hagræðis sem hér segir og skulu þá eftirfarandi skilyrði öll uppfyllt:

a)             Gjaldþol, sbr. 72. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, með síðari breytingum, sé reiknað á grundvelli starfseminnar í heild innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá skal aðeins höfð hliðsjón af starfsemi sem rekin er á vegum allra umboða og útibúa félagsins sem stofnsett hafa verið þar.

b)            Geymslufé sem krafist er skv. 3. mgr. 72. gr. tilvitnaðra laga skal aðeins    varðveitt í einu hlutaðeigandi aðildarríki.

c)             Eignir sem mynda ábyrgðarsjóð skulu vera í einu þeirra aðildarríkja þar sem starfsemi þess fer fram.

 

Umsókn um hagræði og afturköllun þess.

3. gr.

                                Umsókn um leyfi til að njóta þess hagræðis sem kveðið er á um í 2. gr. skal send eftirlitsstjórnvöldum allra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins þar sem vátryggingafélagið hefur útibú eða umboð, hér á landi Vátryggingaeftirlitinu. Aðeins er heimilt að veita leyfið ef yfirvöld allra viðkomandi aðildarríkja veita samþykki sitt.

                                Í umsókn skal tilgreina eftirlitsstjórnvald þess ríkis sem á að annast eftirlit með gjaldþoli vegna heildarstarfsemi umboða og útibúa sem stofnuð hafa verið innan Evrópska efnahagssvæðisins. Greint skal frá ástæðum þess að viðkomandi stjórnvald var valið. Geymslufé skv. 3. mgr. 72. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, með síðari breytingum, skal varðveitt í því ríki.

                                Leyfið gildir frá þeim tíma er það eftirlitsstjórnvald sem valið var hefur tilkynnt öðrum hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöldum að það muni hafa eftirlit með gjaldþoli allra umboða og útibúa vátryggingafélagsins á Evrópska efnahagssvæðinu.

                                Komi fram krafa um slíkt frá einhverju aðildarríki sem hlut á að máli skulu þau öll nema úr gildi það hagræði sem veitt er samkvæmt þessari reglugerð.

 

Eftirlit með gjaldþoli.

4. gr.

                                Hafi Vátryggingaeftirlitið eftirlit með gjaldþoli félags skv. 3. gr. skal það afla sér þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til þess að það geti metið heildargjaldþol umboða og útibúa félagsins á Evrópska efnahagssvæðinu.

                                Sé útibú á Íslandi undir eftirliti stjórnvalds annars aðildarríkis á grundvelli þessarar reglugerðar skal Vátryggingaeftirlitið láta því stjórnvaldi í té allar nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina á Íslandi til þess að það geti metið gjaldþolið. Sama gildir um önnur íslensk stjórnvöld eftir því sem við kann að eiga.

 

Brottfall starfsleyfis.

5. gr.

                                Afturkalli það stjórnvald sem eftirlit hefur með gjaldþoli útibúanna starfsleyfi útibús skal tilkynna það viðkomandi stjórnvöldum annarra aðildarríkja þar sem félagið er með starfsemi og skulu þau gera viðeigandi ráðstafanir.

                                Sé starfsleyfi afturkallað vegna þess að gjaldþol skv. a-lið 2. gr. sé ófullnægjandi skulu stjórnvöld hvers aðildarríkis þar sem félagið hefur útibú einnig afturkalla starfsleyfið.

                                Um afturköllun starfsleyfis hér á landi fer skv. ákvæðum 75. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, með síðari breytingum.

 

Flutningur vátryggingastofna.

6. gr.

                                Berist ósk um að stofn verði fluttur milli útibúa félags eða að félag taki við stofni frá öðru vátryggingafélagi, sbr. 87. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, með síðari breytingum, skal Vátryggingaeftirlitið afla staðfestingar þeirra eftirlitsstjórnvalda sem eftirlit hafa með gjaldþoli útibúanna á að gjaldþol eftir viðtöku stofnsins verði fullnægjandi.

 

Gildistaka.

7. gr.

                                Reglugerð þessari sem sett er á grundvelli 3. málsl. 2. mgr. 72. gr., sbr. 98. gr., laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, með síðari breytingum, er ætlað að taka upp í íslenskan rétt ákvæði 26. gr. og 28. gr. og að hluta 28. gr. a í tilskipun ráðsins 73/239 (fyrstu tilskipun um skaðatryggingar) og 30. gr. og 31. gr. a í tilskipun ráðsins 79/267 (fyrstu tilskipun um líftryggingar).

                Öðlast hún þegar gildi.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 15. september 1997.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica