I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til allra lífeyrissjóða eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari og tekur til þeirra þátta í starfsemi þeirra sem fjallað er um í reglugerðinni.
2. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
Lífeyrissjóður: Félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í I., II. og III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur starfsleyfi samkvæmt þeim lögum, starfar samkvæmt staðfestri reglugerð, sbr. lög nr. 55/1980, um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda eða starfar samkvæmt sérlögum.
Sjóðfélagi: Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóðs og á hjá honum réttindi.
Lágmarksiðgjald: Iðgjald sem nemur a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni, sbr. 5. gr.
Skyldutrygging lífeyrisréttinda: Sú skylda að eiga aðild að lífeyrissjóði og til greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs og eftir atvikum annarra aðila samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd.
Lágmarkstryggingavernd: Sú tryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir samkvæmt lögum eða samþykktum sínum miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds.
Viðbótartryggingavernd: Sú tryggingavernd sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður skilgreinir og greitt er fyrir með greiðslu framlaga samkvæmt sérstökum samningi við þá aðila sem tilgreindir eru í 1.-4. tölul. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.
II. KAFLI
Um skyldutryggingu, iðgjald og tryggingavernd.
3. gr.
Aðild að lífeyrissjóði.
Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.
Um aðild að lífeyrissjóði fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi, velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Tiltaka skal aðild í skriflegum ráðningarsamningi.
4. gr.
Iðgjald.
Iðgjald til lífeyrissjóðs skal ekki vera lægra en 10% af iðgjaldsstofni sbr. 5. gr. Heimilt er að hafa iðgjaldið hærra enda sé kveðið á um hærra iðgjald í sérlögum eða samið um það í kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.
5. gr.
Iðgjaldsstofn.
Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skv. 4. gr. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Enn fremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 59. gr. þeirra laga.
Lífeyrisiðgjaldi skal ráðstafa til lágmarkstryggingaverndar og eftir atvikum til viðbótartryggingaverndar.
6. gr.
Lágmarkstryggingavernd og réttindaávinnsla.
Útreikningur á lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir skal taka mið af að iðgjald sé greitt í 40 ár og að inngreiðslur hefjist þegar einstaklingur hefur náð 25 til 30 ára aldri. Viðmiðunaraldur skal tilgreindur í samþykktum. Útreikningur réttinda hvers sjóðfélaga skal eiga sér stað samhliða iðgjaldsgreiðslum.
Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir skal tryggja a.m.k., miðað við þær forsendur sem tilgreindar eru í 1. mgr., 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í mánaðarlegan ellilífeyri frá því almenna aldursmarki sem sjóðurinn miðar töku ellilífeyris við, þó eigi síðar en frá 70 ára aldri. Enn fremur skal lágmarkstryggingaverndin fela í sér 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í örorkulífeyri á mánuði miðað við full réttindi til framreiknings, og að jafnað sé milli sjóðfélaga kostnaði vegna makalífeyris og barnalífeyris, sbr. 15.-17. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og samþykktir sjóðsins.
Lífeyrissjóður skal, að teknu tilliti til tryggingafræðilegrar stöðu sjóðsins, tilgreina það iðgjald sem þarf til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem hann veitir, sbr. 1. og 2. mgr. Réttindaávinnsla getur verið jöfn allan greiðslutímann eða háð aldri en skal að meðaltali vera 1,4% á ári miðað við 40 ára innborgunartíma.
Iðgjald til lágmarkstryggingaverndar skal vera ákveðið hlutfall af launum alla starfsævina, óháð starfshlutfalli, starfstíma eða lífeyrisaldri.
Lífeyrissjóði er heimilt, í samræmi við tryggingafræðilega athugun, að ákveða lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjaldi sé varið að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign, skv. II. kafla laga nr. 129/1997, og að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í sameign, skv. III. kafla sömu laga.
7. gr.
Ráðstöfun iðgjalds.
Sjóðfélagi getur ákveðið að ráðstafa til þeirra aðila sem tilgreindir eru í 8. gr. þeim hluta iðgjalds sem renna skal til séreignar skv. 5. mgr. 6. gr. og þeim hluta iðgjalds sem renna skal til viðbótartryggingaverndar.
Velji sjóðfélagi að ráðstafa séreignarhluta iðgjalds vegna lágmarkstryggingaverndar til annars aðila, sbr. 1. mgr. skulu um útborgun séreignarinnar gilda sömu reglur og gilda myndu fyrir séreignarhlutann í þeim lífeyrissjóði sem hann greiðir samtryggingarhluta iðgjaldsins til.
Lífeyrissjóði er skylt að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra skv. 1. mgr. eftir því sem við á.
Viðkomandi launagreiðanda eða lífeyrissjóði ber að færa greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga skv. 1. mgr. til annars aðila án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélagann.
Tilkynni sjóðfélagi ekki launagreiðanda eða lífeyrissjóði með hæfilegum fyrirvara hvert iðgjald það sem hann getur ráðstafað skv. 1. mgr. skuli renna skal það greiðslufært samkvæmt samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs.
8. gr.
Samningar um tryggingavernd.
Launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að gera samning, um tryggingavernd á grundvelli iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir skv. 1. mgr. 7. gr., við eftirtalda aðila:
1. Viðskiptabanka og sparisjóði sem hafa starfsstöð hér á landi, sbr. lög um viðskiptabanka og sparisjóði.
2. Líftryggingafélög sem hafa starfsstöð hér á landi, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.
3. Verðbréfafyrirtæki sem starfa skv. 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti og hafa starfsstöð hér á landi.
4. Lífeyrissjóði.
Iðgjaldi eða iðgjaldshluta samkvæmt þeim samningi skal verja til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða í sameign skv. III. kafla sömu laga.
III. KAFLI
Um samskipti lífeyrissjóða, stærð þeirra, áhættudreifingu og tryggingakaup.
9. gr.
Um samskipti lífeyrissjóða.
Lífeyrissjóðir skulu með aðild að samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða eða með öðrum sambærilegum hætti tryggja að sjóðfélagar glati ekki réttindum eða öðlist meiri rétt vegna þess að iðgjaldagreiðslur skiptast milli tveggja eða fleiri sjóða.
10. gr.
Stærð lífeyrissjóða.
Ekki er heimilt að starfrækja lífeyrissjóð nema minnst 800 sjóðfélagar greiði iðgjald til hans að jafnaði í mánuði hverjum enda tryggi sjóðurinn ekki áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna í samræmi við tryggingafræðilega athugun og ákvæði 11. gr.
11. gr.
Áhættudreifing.
Lífeyrissjóður getur tryggt áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með eftirfarandi hætti:
1. Tryggt einstaka áhættuþætti eða einstaka sjóðfélaga hjá vátryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi. Gerður skal skriflegur samningur um slíka tryggingu þar sem fram kemur til hvaða sjóðfélaga eða þátta tryggingin tekur og hvaða skilmálar gilda um hana að öðru leyti.
2. Gert samkomulag við annan lífeyrissjóð, einn eða fleiri, um samstarf um einstaka þætti tryggingaverndar. Velji lífeyrissjóður þessa leið skal haga samstarfinu með þeim hætti að lífeyrissjóðir sem taka þátt í því jafni áhættu vegna lífeyrisskuldbindinga sinna að hluta til eða öllu leyti. Gerður skal sérstakur samningur um samstarfið þar sem fram kemur hvernig áhættunni er jafnað milli sjóðanna, hvernig kostnaði er skipt og hvaða reglur gilda um samstarfið að öðru leyti.
Tryggi lífeyrissjóður áhættu vegna lífeyrisskuldbindinga sinna með þeim hætti sem tilgreindur er í 1. eða 2. tölul. 1. mgr., skal það koma fram í samþykktum sjóðsins.
Nú eru sjóðfélagar færri en 800 og skal þá tryggingafræðingur lífeyrissjóðsins leggja mat á hvort ráðstafanir, sem lífeyrissjóður grípur til samkvæmt þessari grein, nægi til að tryggja það að áhætta lífeyrissjóðsins verði ekki meiri en ef greiðandi sjóðfélagar væru 800.
12. gr.
Áhrif ráðstafana skv. 11. gr.
Ráðstafanir sem lífeyrissjóður grípur til samkvæmt 11. gr skulu engin áhrif hafa á réttarsamband sjóðfélagans og lífeyrissjóðsins né leysa lífeyrissjóðinn undan þeirri skyldu að tilgreina í samþykktum sínum þau réttindi sem hann veitir.
Tryggi lífeyrissjóður einstaka sjóðfélaga hjá vátryggingafélagi. sbr. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr., umfram lágmarkstryggingavernd samkvæmt samþykktum lífeyrissjóðs skal þess sérstaklega gætt að um tryggingaverndina gilda sömu reglur og samkvæmt II. og III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Iðgjaldagreiðslum skal skýrlega haldið aðgreindum í bókhaldi.
IV. KAFLI
Tryggingafræðileg athugun.
13. gr.
Almennt.
Árlega skal stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við ákvæði þessa kafla.
Athugunin skal vera unnin af tryggingafræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hefur viðurkenningu Vátryggingaeftirlitsins til slíks starfs.
Fyrir 1. júlí ár hvert skal senda bankaeftirliti Seðlabanka Íslands eintak af hinni tryggingafræðilegu athugun.
14. gr.
Dánar- og lífslíkur.
Við mat á dánar- og lífslíkum skal nota nýjustu íslenskar dánar- og eftirlifendatöflur, útgefnar af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga.
15. gr.
Líkur á að sjóðfélagi verði í sambúð.
Við mat á líkum þess að sjóðfélagar verði í hjónabandi eða annarri sambúð á hverju aldursári í framtíðinni, skal stuðst við tíðni hjónabands eða sambúðar á hverju aldursári, samkvæmt töflum gefnum út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og skulu þær byggðar á nýjustu upplýsingum úr þjóðskrá. Aldursmunur hjóna eða sambúðarfólks skal miðaður við meðalaldursmun hjóna eða sambúðarfólks samkvæmt fyrrgreindum töflum.
16. gr.
Örorkulíkur.
Við mat á örorku- og endurhæfingarlíkum skal nota örorku- og endurhæfingartöflur, útgefnar af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga, byggðar á innlendri reynslu um tíðni örorku. Þangað til slíkur reiknigrundvöllur liggur fyrir, skal stuðst við staðfærðan reiknigrundvöll útgefinn af félaginu.
17. gr.
Líkur á að sjóðfélagi eigi barn.
Við mat á líkum þess að sjóðfélagar eigi börn á hverju aldursári í framtíðinni, skal stuðst við fjölda og aldur barna á framfæri á hverju aldursári foreldra samkvæmt töflum gefnum út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og skulu þær byggðar á nýjustu upplýsingum úr þjóðskrá.
18. gr.
Mat á rekstrarkostnaði.
Áætla skal rekstrarkostnað lífeyrissjóðs til framtíðar á grundvelli kostnaðar síðustu þriggja ára umreiknaðs til verðlags í lok úttektarárs.
19. gr.
Núvirðing væntanlegs lífeyris og framtíðariðgjalda.
Við núvirðisreikning væntanlegs lífeyris og framtíðariðgjalda skal nota 3,5% vaxtaviðmiðun umfram vísitölu neysluverðs. Þar sem lífeyrisréttindi miðast við kaupgjald, skal nota 2,0% vaxtaviðmiðun.
20. gr.
Mat verðbréfa með fastar tekjur.
Núvirði verðbréfa með föstum tekjum skal metið miðað við 3,5% raunávöxtunarkröfu enda þótt bókfært verð eignanna sé annað. Þó skal við núvirðingu verðbréfa með ákvæði um breytilega vexti miðað við að bréfin beri vexti sem eru 1,5% lægri en vextir bréfanna á uppgjörsdegi, þó aldrei lægri en lágmarksvextir samkvæmt ákvæðum þeirra. Áætla skal framtíðar skrifstofu- og stjórnunarkostnað, sem bókfærður er sem fjárfestingargjöld í ársreikningi, og draga frá núvirði eigna. Sé bréf með uppgreiðsluákvæði, skal taka tillit til þess til lækkunar mats í samræmi við reglur gefnar út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga.
21. gr.
Mat verðbréfa með breytilegar tekjur.
Verðmæti verðbréfa með breytilegar tekjur, skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, skal miðað við markaðsvirði á uppgjörsdegi eða vegið markaðsvirði þeirra á undangengnu þriggja mánaða tímabili ef það er lægra.
22. gr.
Frávik.
Telji tryggingastærðfræðingur að það gefi réttari mynd af fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs að nota aðrar forsendur en að ofan greinir, vegna sérstakra aðstæðna í viðkomandi sjóði, skal í útreikningi gerð grein fyrir frávikinu. Til samanburðar skal greina frá því hverjar niðurstöður yrðu ef staðalforsendurnar væru lagðar til grundvallar.
V. KAFLI
Eftirlit með greiðslu lífeyrisiðgjalds.
23. gr.
Almennt.
Ríkisskattstjóri skal hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.
24. gr.
Upplýsingaskylda lífeyrissjóða.
Lífeyrissjóðum er skylt, eigi síðar en 15. apríl ár hvert að tekjuári liðnu, að gera ríkisskattstjóra grein fyrir því iðgjaldi sem greitt hefur verið til sjóðsins fyrir hvern sjóðfélaga vegna næstliðins árs. Skal greinargerð vera á sérstakri sundurliðun.
Á sundurliðun skal koma fram nafn sjóðfélaga og launagreiðanda hans, kennitölur, iðgjaldshluti sjóðfélagsins og iðgjaldshluti launagreiðanda hans.
Sundurliðun skal vera í tölvutæku formi á rafrænum segulmiðli eða eftir beinlínusambandi lífeyrissjóðs og ríkisskattstjóra.
25. gr.
Upplýsingaskylda launagreiðanda.
Launagreiðendur og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, svo og aðrir þeir sem inna af hendi iðgjaldsskyldar greiðslur, skulu, eigi síðar en 28. janúar að tekjuári liðnu, tilgreina á launamiðum, eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður, þá fjárhæð sem iðgjöld hvers manns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs.
26. gr.
Upplýsingar á framtölum launamanna.
Hver sá, sem er skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og er framtalsskyldur skv. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal í framtali sínu tilgreina þau iðgjöld til lífeyrissjóða sem hann hefur greitt á árinu og þá lífeyrissjóði sem hann hefur greitt til.
27. gr.
Upplýsingar sem ríkisskattstjóri sendir lífeyrissjóðum.
Að tekjuári liðnu, og eigi síðar en 20. september ár hvert, skal ríkisskattstjóri senda hverjum og einum lífeyrissjóði yfirlit vegna vangreiddra iðgjalda þess manns sem er aðili að sjóðnum samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefur fengið samkvæmt þessari grein. Á yfirlitinu skal koma fram iðgjaldsstofn, iðgjaldatímabil og greitt iðgjald hvers manns og mótframlag launagreiðanda. Sé enginn lífeyrissjóður tilgreindur á framtölum eða skilagreinum launagreiðanda og lífeyrissjóða, skal senda yfirlitið til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda sem skal þá innheimta iðgjaldið.
VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
28. gr.
Undanþágur.
Ákvæði III. kafla þessarar reglugerðar gilda ekki fyrir þá sjóði sem undanþegnir eru ákvæðum III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. XI. kafla þeirra laga. Jafnframt eru þeir undanþegnir ákvæðum 5. og 6. gr. enda sé kveðið á um iðgjaldsstofn og réttindi í viðkomandi lögum.
29. gr.
Refsingar.
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt.
30. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, öðlast þegar gildi.
Fjármálaráðuneytinu, 1. júlí 1998.
Geir H. Haarde.
Magnús Pétursson.