Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

752/2002

Reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. - Brottfallin

1. gr.
Markmið og gildissvið.

Markmið með reglugerð þessari er að auðvelda umsækjendum að sækja um lögbundna styrki og uppbætur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna bifreiða hreyfihamlaðra einstaklinga. Jafnframt er það markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu eða skóla þótt önnur sjónarmið geti einnig réttlætt slíkar bætur, s.s. hvort sækja þurfi reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Þá er markmið með styrk til nauðsynlegrar ökuþjálfunar að aðstoða þá sem eru mikið hreyfihamlaðir við að öðlast færni við að stjórna bifreið og stuðla með þeim hætti að öryggi þeirra og annarra í umferðinni.

Reglugerð þessi gildir um styrki til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta skv. a-lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar og styrki til nauðsynlegrar ökuþjálfunar skv. b-lið 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Ennfremur gildir reglugerðin um uppbætur vegna kaupa og reksturs bifreiða skv. 11. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðarinnar.


2. gr.
Uppbót vegna reksturs bifreiðar skv. 2. mgr. 11. gr. laga um félagslega aðstoð.

Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót kr. 7.496 á mánuði til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega er nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt er að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Mánaðarleg fjárhæð uppbótarinnar tekur breytingum með sama hætti og aðrar bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði er undir 75 ára aldri.
2. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
3. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og m.a. taka tillit til eftirfarandi efnisatriða:

1. Umferðarhömlunar umsækjanda.
2. Hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla eða í reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.
3. Félagslegra aðstæðna umsækjanda, þ.e. heimilis- og fjölskylduaðstæðna.
4. Hárra útgjalda vegna meiri háttar viðhalds- eða viðgerðarkostnaðar á eldri bifreið sem ekki mátti búast við. Skulu lögð fram gögn er staðfesta útgjöld.

Áður en Tryggingastofnun ríkisins greiðir uppbótina skulu lagðar fram upplýsingar um eignarhald bifreiðar. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi hennar.


3. gr.
Styrkur vegna hjálpartækja í bifreið
skv. a-lið 1. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar.

Veita skal sjúkratryggðum styrk til að afla hjálpartækja í bifreið sem nauðsynleg eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

Tryggingastofnun ríkisins skal meta þörf fyrir hjálpartæki og hvaða bifreið henti þeim, þ.e. fólksbifreið eða sendibifreið.

Eftirfarandi gildir um þau hjálpartæki í bifreiðar sem veittir eru styrkir til kaupa á (númeraflokkun fer eftir alþjóðaflokkunarkerfinu ISO/FDIS 9999:2001):

Heimilt er að veita einstaklingi 75 ára og yngri styrk til kaupa á sjálfskiptingu og öðrum stýribúnaði (m.a. breytingum á bremsum og bensíngjöf) í eigin bifreið (eða bifreið maka), ef færniskerðing er slík, að hann getur ekki ekið bifreið nema með slíkum búnaði. Skilyrði fyrir styrkveitingu eru ökuréttindi, regluleg notkun bifreiðar og að mat á ökuhæfni liggi fyrir.
Fullur styrkur er veittur á fjögurra ára fresti. Ef búnaður er endurnýjaður fyrr er heimilt að veita fjórðung af fullum styrk fyrir hvert ár sem liðið er frá síðustu styrkveitingu.
Lyftur í bifreiðar: Fyrir þá sem eru með verulega færniskerðingu í öllum útlimum.
Aðlögun bifreiðar til að geta nýtt aukastjórnbúnað, s.s. spegla, læsingar, þurrkur, miðstöð og ljós: Fyrir þá sem eru með verulega færniskerðingu í öllum útlimum.
Skriðstillir í bifreið: Heimilt er að samþykkja skriðstilli í bifreið með 70% greiðsluhlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins, þó aldrei hærri upphæð en kr. 30.000 (ísetning innifalin) til þeirra sem þurfa stjórnbúnað í stýri til að geta ekið bifreið, eru með verulega skerta færni í höndum og þurfa að sækja þjónustu um langan veg.
Bílsæti fyrir börn: Tryggingastofnun ríkisins greiðir einungis bílsæti fyrir börn yngri en 12 ára og að jafnaði ekki bílsæti fyrir börn yngri en tveggja ára.
12 12 04 Aðlögun á stýribúnaði bifvéla. Til að stjórna bremsum og bensíngjöf 100%, að hámarki kr. 41.000 í breytingu á bensíngjöf, kr. 41.000 í breytingu á bremsum. Sjálfskipting 50% að hámarki kr. 60.000
12 12 07 Aðlögun á stýrisbúnaði í bifreiðum 70% (t.d. stýrishnúðar/stýrispinnar, hand-/fótstýring og skriðstillir (að hámarki kr. 30.000, sbr. að ofan))
12 12 08 Aðlögun bifreiða til að geta nýtt aukastjórnbúnað s.s. spegla, læsingar, þurrkur, miðstöð og ljós 100%
12 12 09 Belti og ólar í bifreiðar 100%
(þriggja punkta belti (ef ekki staðalbúnaður í bifreiðinni) og fjögurra punkta belti, vesti, ólar sem styðja einstaklinga við akstur)
12 12 12 Bílsæti og púðar með sérstökum eiginleikum 100%, sbr. að ofan
Sleðar fyrir sæti bifreiða 100% (fyrir snúning og fram/aftur færslu)
12 12 15 Lyftur til að lyfta einstaklingum inn í bifreiðar 100%
12 12 18 Lyftur til að lyfta hjólastólum með notendur inn í bifreiðar 100%
12 12 21 Lyftur til að setja hjólastóla á eða inn í bifreiðar 100%
12 12 24 Útbúnaður til að festa hjólastóla í bifreiðar 100%
12 12 90 Ísetning tækja í bifreiðar 100%
12 12 91 Viðgerðir á lyftum í bifreiðar 100%
12 12 92 Flutningur á stýribúnaði bifvéla milli bifreiða 100% að hámarki kr. 30.000
12 12 94 Sjálfvirkir hurðaopnarar fyrir bifreiðar 100%
12 12 95 Vinkiljárn á hurðir bifreiða 100%
12 12 96 Hanskar með sérgripi fyrir akstur bifreiða 50%.


4. gr.
Uppbót vegna kaupa á bifreið skv. 1. mgr. 11. gr. laga um félagslega aðstoð.

Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Þá er heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en í þeim tilvikum skal sýna fram á þörf á að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla og þá gilda eftirfarandi skilyrði eftir því sem við á.

Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði er undir 75 ára aldri.
2. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
3. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.
4. Mat á ökuhæfni liggi fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og m.a. taka tillit til eftirfarandi efnisatriða:

1. Umferðarhömlunar umsækjanda eða umönnunarþarfar barns.
2. Hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, þ.e. til vinnu, í skóla eða í reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.
3. Hvers konar bifreið umsækjandi hyggst kaupa, þ.e. hvort bifreiðin sé í samræmi við þörf umsækjanda og hvaða hjálpartæki eru nauðsynleg.
4. Félagslegra aðstæðna umsækjanda, þ.e. heimilis- og fjölskylduaðstæðna.

Fjárhæðir uppbóta eru eftirfarandi:

1. Kr. 250.000 til þeirra sem uppfylla ofangreind skilyrði og eru minna hreyfihamlaðir en þeir sem getið er um í 5. gr.
2. Kr. 500.000 til þeirra sem uppfylla ofangreind skilyrði, eru minna hreyfihamlaðir en þeir sem getið er um í 5. gr. og eru að fá uppbót í fyrsta sinn.

Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það á við. Uppbót er heimilt að veita á fjögurra ára fresti vegna sama einstaklings.

Áður en Tryggingastofnun ríkisins greiðir uppbótina skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar. Einnig skal hinn hreyfihamlaði eða maki hans vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Skilyrði er að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fjórum árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins og skal kvöð þess efnis þinglýst á bifreiðina. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts.


5. gr.
Styrkur til kaupa á bifreið skv. a-lið 1. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar.

Veita skal sjúkratryggðum styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

Styrkur skal vera kr. 1.000.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði er undir 75 ára aldri.
2. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi.
3. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.
4. Hinn hreyfihamlaði er bundinn hjólastól, notar hækjur, spelkur eða gervilimi.
5. Mat á ökuhæfni liggi fyrir.

Heimilt er að víkja frá kröfunni um ökuréttindi í 2. tölul. ef þörf er fyrir bifreið vegna mikillar hreyfihömlunar. Í þeim tilvikum skal tilnefna heimilismann sem ökumann bifreiðarinnar.

Heimilt er að veita styrk samkvæmt 2. mgr. til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þá skal sýna fram á þörf á að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla. Skilyrði skv. 2. mgr. gilda í þeim tilvikum eftir því sem við á. Þá er heimilt að veita styrk allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, sé um að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi ekur sjálfur og þarf á bifreið að halda til að stunda launaða vinnu eða skóla.

Þegar um er að ræða styrk skv. 2. mgr. skal kaupverð bifreiðar ekki vera lægra en fjárhæð styrksins að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það á við. Styrk skv. 2. mgr. er heimilt að veita á fjögurra ára fresti en styrk skv. 3. málsl. 4. mgr. á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Áður en Tryggingastofnun ríkisins greiðir styrkinn skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar. Skilyrði er að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja. Einnig skal hinn hreyfihamlaði eða maki hans vera skráður eigandi bifreiðarinnar.

Styrkþegum er óheimilt að selja bifreið fyrr en fjórum árum eftir styrkveitingu nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins og skal kvöð þess efnis þinglýst á bifreiðina. Þegar um er að ræða styrk skv. 3. málsl. 4. mgr. er óheimilt að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts styrkþega.


6. gr.
Styrkur til nauðsynlegrar ökuþjálfunar
skv. b-lið 1. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar.

Veita skal sjúkratryggðum styrk til ökuþjálfunar að undangengnu ökuhæfnismati sem leiðir í ljós nauðsyn ökuþjálfunar. Styrkur til ökuþjálfunar skal nema að hámarki tíu ökutímum en heimilt er að samþykkja allt að tíu viðbótartíma að fenginni rökstuddri greinargerð þeirra sem annast ökuhæfnismat samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Tryggingastofnun getur ákveðið að ökuþjálfunin verði einungis gerð í tengslum við endurhæfingarstað sem annast ökuhæfnismat. Styrkurinn er ekki veittur til þjálfunar í almennum ökuskóla heldur einungis til ökuþjálfunar í eigin bifreið hins hreyfihamlaða og þegar aðstæður kalla á frekari þjálfun. Skal styrkurinn vera 70% af samþykktum kostnaði.

Styrkur til ökuþjálfunar skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði er undir 75 ára aldri.
2. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi og er skráður eigandi bifreiðarinnar. Ef hinn hreyfihamlaði hefur ekki haft ökuréttindi áður þá skal hann hafa staðist bóklega hluta náms til ökuréttinda.
3. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.
4. Mat á ökuhæfni liggi fyrir.

Ökuþjálfun skal fara fram í samræmi við gildandi reglugerð um ökuskírteini.


7. gr.
Umsóknir og afgreiðsla þeirra.

Sækja skal um styrki og uppbætur samkvæmt reglugerð þessari hjá Tryggingastofnun ríkisins og skulu umsóknir vera á eyðublöðum stofnunarinnar eða með rafrænum hætti á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar. Umsækjanda er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um veitingu styrks eða uppbóta. Einnig er maka umsækjanda eða bótaþega skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á afgreiðslu umsóknar.

Styrkir og uppbætur vegna bifreiðakaupa skulu greiddar út fjórum sinnum á ári. Styrkir og uppbætur sem ekki eru nýttir innan 12 mánaða falla niður en ákvarða má styrk á ný ef rökstudd umsókn berst, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.

Um umsóknir og framkvæmd að öðru leyti fer skv. 47., 48. og 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum.


8. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 118/1993, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2003 og gildir um umsóknir sem berast eftir þann tíma. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 170/1987 um þátttöku almannatrygginga í bifreiðakaupum fatlaðra, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 690/2000 um greiðslu sérstakrar fjárhæðar til rekstrar ökutækis hreyfihamlaðra. Þá falla brott óbirtar reglur tryggingaráðs frá 22. mars 2002 um afgreiðslu umsókna um styrki til bifreiðakaupa.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 24. október 2002.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica