Iðnaðarráðuneyti

852/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð varðandi umsóknir um einkaleyfi o.fl., nr. 574/1991, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

1. gr. orðast svo:
Íslenskar einkaleyfisumsóknir eru lagðar inn hjá Einkaleyfastofunni.

Alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir, sem ná til Íslands, eru afhentar yfirvaldi eða alþjóðlegri stofnun sem telst réttur viðtakandi samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi. Ákvæði um Einkaleyfastofuna sem viðtökuyfirvald er að finna í 65. – 70. gr.

Evrópskar einkaleyfisumsóknir, sem taka til Íslands, eru afhentar yfirvaldi eða evrópskri stofnun sem telst réttur viðtakandi samkvæmt evrópska einkaleyfasamningnum. Ákvæði um Einkaleyfastofuna sem viðtökuyfirvald er að finna í 77. – 78. gr.

Ef annað er ekki tekið fram gilda ákvæði þessarar reglugerðar aðeins um:

1) íslenskar einkaleyfisumsóknir,
2) alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir, sem hafa verið yfirfærðar skv. 31. gr. einkaleyfalaga eða teknar til meðferðar skv. 38. gr. laganna, og
3) evrópskar einkaleyfisumsóknir sem hefur verið breytt í landsbundnar umsóknir skv. 88. gr. einkaleyfalaga.


2. gr.

Á eftir 9. tölul. 3. mgr. 7. gr. bætist við nýr tölul., 10. tölul., sem orðast svo, og breytist röð töluliða samkvæmt því:

10) ef umsókn er evrópsk einkaleyfisumsókn sem breytt hefur verið í landsbundna umsókn, númer evrópsku einkaleyfisumsóknarinnar, umsóknardag hennar samkvæmt evrópska einkaleyfasamningnum og þann dag sem evrópsku einkaleyfisumsókninni var breytt í landsbundna umsókn hér á landi.


3. gr.

Á eftir orðinu "(Búdapestsáttmálinn)" í 1. mgr. 17. gr. a kemur: eða hjá öðrum varðveislustofnunum sem viðurkenndar eru af Evrópsku einkaleyfastofunni.


4. gr.

17. gr. c orðast svo:
Ný varðveisla sýnis af líffræðilegu efni skv. 7. mgr. 8. gr. einkaleyfalaga skal vera í samræmi við ákvæði Búdapestsáttmálans um nýja varðveislu.

Ný varðveisla skal hefjast innan 3 mánaða frá þeim degi sem eigandi sýnisins fékk tilkynningu frá varðveislustofnuninni um að ekki væri hægt að afhenda sýnishorn af varðveittu líffræðilegu efni.

Hafi varðveislustofnun samkvæmt Búdapestsáttmálanum hætt störfum sem alþjóðleg varðveislustofnun fyrir þá tegund líffræðilegs efnis sem varðveislan tók til, eða uppfylli hún ekki lengur tilskildar kröfur um varðveislustofnanir, og hafi eigandi sýnisins ekki fengið vitneskju um þetta innan 6 mánaða frá því að Alþjóðahugverkastofnunin birti tilkynningu þar um getur ný varðveisla þó hafist innan 9 mánaða frá birtingu þeirrar tilkynningar.

Hafi varðveislustofnun, sem viðurkennd er af Evrópsku einkaleyfastofunni, hætt störfum sem varðveislustofnun fyrir þá tegund líffræðilegs efnis sem varðveislan tók til, eða uppfylli hún ekki lengur tilskildar kröfur um varðveislustofnanir og hafi eigandi sýnisins ekki fengið vitneskju um þetta innan 6 mánaða frá því að Evrópska einkaleyfastofan birti tilkynningu þar um, getur ný varðveisla þó hafist innan 9 mánaða frá birtingu þeirrar tilkynningar.

Umsækjandi skal, innan 4 mánaða frá þeim degi sem nýtt sýni af líffræðilegu efni var lagt inn hjá annarri stofnun, afhenda einkaleyfayfirvöldum afrit af kvittun um varðveisluna frá hinni nýju varðveislustofnun. Ef frestur sá sem um getur í 1. og 2. mgr. 17. gr. b rennur út síðar nægir þó að afhenda afrit af kvittuninni innan þess frests. Um leið og afrit af kvittuninni er afhent skal veita upplýsingar um númer umsóknar eða einkaleyfis sem sýnið tilheyrir.


5. gr.

Á eftir 17. gr. c kemur ný grein, 17. gr. d, sem orðast svo:
Hafi umsókn að geyma amínósýru- eða kirnaraðir, skal listi yfir raðirnar fylgja lýsingu. Listinn skal gerður í samræmi við þar til gerðan staðal Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

Einkaleyfastofan getur ákveðið að listi skv. 1. mgr. skuli einnig lagður inn á rafrænu formi. Sé listinn lagður inn á rafrænu formi skal umsækjandi gefa yfirlýsingu um að rafrænu upplýsingarnar séu þær sömu og fram koma á listanum skv. 1. mgr.

Einkaleyfastofunni er heimilt að ákveða að listi skv. 1. mgr. skuli eingöngu lagður inn á rafrænu formi.


6. gr.

1. málsl. 2. mgr. 18. gr. orðast svo:
Hafi alþjóðleg nýnæmisrannsóknarstofnun viðurkennt ágrip af alþjóðlegri umsókn eða evrópskri einkaleyfisumsókn sem breytt hefur verið í landsbundna umsókn ber að leggja það til grundvallar.


7. gr.

1. málsl. 1. mgr. 21. gr. orðast svo:
Grunngögn í íslenskri einkaleyfisumsókn, einkaleyfisumsókn sem tekin er til meðferðar skv. 38. gr. einkaleyfalaga og evrópskri einkaleyfisumsókn sem óskað er eftir að verði breytt í landsbundna umsókn, teljast lýsing, teikningar og kröfur sem liggja fyrir á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku á umsóknardegi.


8. gr.

26. gr. orðast svo:
Einkaleyfisumsóknir þarf að rannsaka með tilliti til nýnæmis og einkaleyfishæfis, sbr. 2. gr. einkaleyfalaga.

Við nýnæmisrannsókn skal tekið tillit til alls sem þekkt er, þ. á m. birtra einkaleyfisumsókna, sem gerðar hafa verið aðgengilegar almenningi, og einkaleyfa, sem og annarra tiltækra upplýsinga og gagna ef það telst nauðsynlegt. Heimilt er að byggja á niðurstöðum erlendra stofnana sem rannsakað hafa nýnæmi og einkaleyfishæfi.


9. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr.:

a. 1. tölul. orðast svo: umsóknarnúmer og skráningarnúmer einkaleyfis ásamt heiti uppfinningar.
b. 5. tölul. orðast svo: alþjóðaflokka.
c. Á eftir 7. tölul. kemur nýr tölul., 8. tölul., sem orðast svo, og breytist röð töluliða samkvæmt því:
8) sé umsóknin evrópsk einkaleyfisumsókn sem breytt hefur verið í landsbundna umsókn, númer evrópsku einkaleyfisumsóknarinnar, umsóknardag hennar samkvæmt evrópska einkaleyfasamningnum og þann dag sem evrópsku einkaleyfisumsókninni var breytt í landsbundna umsókn hér á landi.


10. gr.

43. gr. orðast svo:
Einkaleyfayfirvöld halda skrá yfir einkaleyfi, veitt af Einkaleyfastofunni, og einnig yfir evrópsk einkaleyfi sem öðlast hafa gildi hér á landi.


11. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr.:

a. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Vegna einkaleyfa, sem Einkaleyfastofan veitir, skal eftirfarandi koma fram í einkaleyfaskrá:
b. Á eftir b-lið 5. tölul. kemur nýr c-liður sem orðast svo:
c) ef umsóknin er evrópsk einkaleyfisumsókn sem breytt hefur verið í landsbundna umsókn, númer evrópsku einkaleyfisumsóknarinnar, umsóknardagur hennar samkvæmt evrópska einkaleyfasamningnum og sá dagur sem evrópsku einkaleyfisumsókninni var breytt í landsbundna umsókn hér á landi.


12. gr.

Á eftir 44. gr. kemur ný grein, 44. gr. a, sem orðast svo:
Evrópsk einkaleyfi, sem taka til Íslands, skulu færð í einkaleyfaskrá þegar Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um veitingu einkaleyfis eða tekið ákvörðun um að staðfesta einkaleyfi í breyttri útgáfu og umsækjandi hefur lagt inn þýðingar og greitt útgáfugjald skv. 1. mgr. 77. gr. einkaleyfalaga.

Að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. eru eftirfarandi upplýsingar færðar í einkaleyfaskrá:

1) sá dagur sem Evrópska einkaleyfastofan birti tilkynningu um veitingu einkaleyfis,
2) sá dagur sem Einkaleyfastofan tók við þýðingum og gjöldum skv. 1. mgr. 77. gr. einkaleyfalaga, auk birtingardagsetningar auglýsingar skv. 3. mgr. 77. gr. einkaleyfalaga,
3) umsóknardagur og, ef um hlutunarumsókn er að ræða, sá dagur sem hlutunarumsóknin var lögð inn, og
4) upplýsingar þær sem um getur í 1. – 3., b- og d-lið 5., 6. og 9. tölul. 44. gr.

Hafi Evrópska einkaleyfastofan birt tilkynningu um þá ákvörðun að evrópskt einkaleyfi, sem tekur til Íslands, skuli staðfest í breyttri útgáfu skal dagsetning tilkynningarinnar færð í skrána. Leggi einkaleyfishafi inn nýjar þýðingar og greiði gjald skv. 1. mgr. 77. gr. einkaleyfalaga innan frests skv. 1. mgr. 81. gr. skal fært í einkaleyfaskrána hvenær það var gert og hvenær Einkaleyfastofan birti auglýsingu þess efnis.

Hafi skilyrði um þýðingar og gjöld skv. 3. mgr. ekki verið uppfyllt innan tilskilins frests skv. 1. mgr. 81. gr. skulu upplýsingar þess efnis færðar í skrána.

Hafi Evrópska einkaleyfastofan tekið ákvörðun um að takmarka, fella niður eða ógilda evrópskt einkaleyfi sem tekur til Íslands skulu upplýsingar þess efnis færðar í skrána.

Afhendi einkaleyfishafi leiðrétta þýðingu á einkaleyfi og greiði tilskilið gjald skv. 1. mgr. 86. gr. einkaleyfalaga skal fært í skrána hvenær framangreint átti sér stað og hvenær Einkaleyfastofan birti auglýsingu þess efnis.


13. gr.

Á eftir kaflanum "Yfirfærsla á alþjóðlegri einkaleyfisumsókn o.fl." kemur nýr kafli, "Evrópskar einkaleyfisumsóknir, einkaleyfi o.fl." með átta nýjum greinum og breytist röð greina samkvæmt því:
a. (77. gr.)
Þegar evrópsk einkaleyfisumsókn er lögð inn hjá Einkaleyfastofunni er umsóknardagur færður á umsóknargögn, gefin út kvittun fyrir móttöku gagna og Evrópsku einkaleyfastofunni tilkynnt að Einkaleyfastofan hafi tekið við umsókn, sbr. 2. og 3. mgr. 24. gr. framkvæmdareglugerðar við evrópska einkaleyfasamninginn (á ensku: Implementing Regulations to the Convention on the Grant of European Patents).

Einkaleyfastofan framsendir umsókn til Evrópsku einkaleyfastofunnar í samræmi við 77. gr. evrópska einkaleyfasamningsins og viðeigandi ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar.

b. (78. gr.)
Þegar Einkaleyfastofan tekur við beiðni frá umsækjanda, í samræmi við 2. mgr. 136. gr. evrópska einkaleyfasamningsins, um að evrópskri einkaleyfisumsókn verði breytt í landsbundna umsókn framsendir Einkaleyfastofan þegar í stað beiðnina ásamt afriti af umsókninni til einkaleyfayfirvalda í þeim löndum sem tilgreind eru í beiðninni.

c. (79. gr.)
Þegar evrópsk einkaleyfisumsókn hefur verið framsend Einkaleyfastofunni í samræmi við 136. gr. evrópska einkaleyfasamningsins tilkynnir Einkaleyfastofan umsækjanda það svo fljótt sem auðið er.

Innan þriggja mánaða frá þeim degi, sem Einkaleyfastofan sendi tilkynningu skv. 1. mgr., skal umsækjandi greiða tilskilið umsóknargjald og afhenda þýðingu af umsókninni í samræmi við 1. mgr. 3. gr.

d. (80. gr.)
Einkaleyfastofan heldur sérstaka dagbók yfir þær evrópskar einkaleyfisumsóknir sem þýðing hefur verið afhent fyrir í samræmi við 83. gr. einkaleyfalaganna. Dagbókin er aðgengileg almenningi.

Í dagbókina skal færa eftirtalin atriði:

1) númer umsóknar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni,
2) nafn og heimilisfang umsækjanda,
3) þann dag sem þýðing eða leiðrétt þýðing var afhent Einkaleyfastofunni,
4) dagsetningu birtingar tilkynningar um afhendingu þýðingar eða leiðréttrar þýðingar,
5) umsóknardag umsóknar,
6) þær upplýsingar sem um getur í 4. – 6., 13. og 16. – 17. tölul. 3. mgr. 7. gr.,
7) ef umsókn er hlutunarumsókn, þann dag sem hlutunarumsóknin var lögð inn.

Ef þýðing er lögð inn og gjald greitt skv. 1. mgr. 77. gr. einkaleyfalaga er sú dagsetning og dagsetning auglýsingar skv. 3. mgr. 77. gr. færðar í dagbókina.

e. (81. gr.)
Umsækjandi skal leggja inn hjá Einkaleyfastofu þýðingar og greiða útgáfugjald skv. 1. mgr. 77. gr. einkaleyfalaga innan fjögurra mánaða frá þeim degi sem Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um veitingu einkaleyfis eða tekið ákvörðun um að staðfesta einkaleyfið í breyttri útgáfu.

Með þýðingu skv. 1. mgr. 77. gr. einkaleyfalaga skulu fylgja upplýsingar um númer einkaleyfis og nafn og heimilisfang umsækjanda eða einkaleyfishafa. Ef skilyrði þessu er ekki fullnægt skal litið svo á að þýðingin hafi ekki verið lögð inn.

Ef skilyrðum skv. 1. mgr. er ekki fullnægt öðlast evrópska einkaleyfið ekki gildi hér á landi.

f. (82. gr.)
Með þýðingu skv. 83. gr. einkaleyfalaga skulu fylgja upplýsingar um númer umsóknar, nafn umsækjanda og heimilisfang. Sé skilyrði þetta ekki uppfyllt skal litið svo á að þýðingin hafi ekki verið lögð inn.

g. (83. gr.)
Í auglýsingu, sem birt er um afhendingu þýðinga skv. 77. gr. einkaleyfalaga, skulu koma fram upplýsingar þær sem getið er um í 2. mgr. 81. gr., auk upplýsinga um tækniflokkun einkaleyfis, heiti uppfinningar, umsóknardag og þann dag sem Evrópska einkaleyfastofan birti tilkynningu um veitingu einkaleyfis eða töku ákvörðunar um að staðfesta einkaleyfið í breyttri útgáfu. Ef krafist er forgangsréttar skal koma fram hvar forgangsréttarumsókn var lögð inn, svo og umsóknardagur og umsóknarnúmer þeirrar umsóknar.

Í auglýsingu, sem birt er um afhendingu þýðingar skv. 83. gr. einkaleyfalaga, skulu koma fram upplýsingar þær sem getið er um í 82. gr., auk upplýsinga um tækniflokkun umsóknar, heiti uppfinningar og umsóknardag. Ef krafist er forgangsréttar skal koma fram hvar forgangsréttarumsókn var lögð inn, svo og umsóknardagur og umsóknarnúmer þeirrar umsóknar.

h. (84. gr.)
Sé þýðing leiðrétt skv. 86. gr. skal afhenda nýtt eintak af allri þýðingunni þar sem greinilega kemur fram í hverju leiðréttingarnar felast. Leiðréttingu skulu fylgja upplýsingar um númer einkaleyfis eða umsóknar og nafn og heimilisfang einkaleyfishafa eða umsækjanda.

Ef skilyrðum skv. 1. mgr. er ekki fullnægt er litið svo á að hin leiðrétta þýðing hafi ekki verið afhent.

Í auglýsingu, sem birt er skv. 1. mgr. 86. gr. einkaleyfalaga, skulu koma fram þær upplýsingar sem getið er um í 2. mgr. 81. gr., auk upplýsinga um tækniflokkun einkaleyfis, heiti uppfinningar og þann dag sem Einkaleyfastofan móttók hina leiðréttu þýðingu.

Í auglýsingu, sem birt er skv. 2. mgr. 86. gr. einkaleyfalaga, skulu koma fram þær upplýsingar sem getið er um í 82. gr., auk upplýsinga um tækniflokkun umsóknar, heiti uppfinningar og þann dag sem Einkaleyfastofan móttók hina leiðréttu þýðingu.


14. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 69. og 90. gr. laga nr. 17/1991 um einkaleyfi, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. nóvember 2004.


Iðnaðarráðuneytinu, 22. október 2004.

Valgerður Sverrisdóttir.
Jón Ögmundur Þormóðsson.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica