Iðnaðarráðuneyti

574/1991

Reglugerð varðandi umsóknir um einkaleyfi o. fl. - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

Innlagning einkaleyfisumsókna og færsla dagbókar.

1. gr.

Íslenskar cinkaleyfisumsóknir eru lagðar inn hjá Einkaleyfastofunni.

Alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir sem ná til Íslands eru afhentar yfirvaldi eða alþjóðlegri stofnun sem telst réttur viðtakandi samkvæmt Samstarfssáttmálanum um einkaleyfi. Ákvæði um Einkaleyfastofuna sem viðtökuyfirvald er að finna í 45.-50. gr.

Ef annað er ekki tekið fram gilda ákvæði þessarar reglugerðar aðeins fyrir:

1) íslenskar einkaleyfisumsóknir og

2) alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir sem hafa verið yfirfærðar skv. 31. gr. einkaleyfalaga eða teknar til meðferðar skv. 38. gr. laganna.

2. gr.

Íslensk einkaleyfisumsókn skal hafa að geyma skriflega beiðni (umsóknarblað) ásamt fylgigögnum.

Umsóknarblaðið skal vera undirritað af umsækjanda eða umboðsmanni hans og skal þar tilgreina:

1) nafn og heimilisfang umsækjanda og umboðsmanns, ef umsækjandi hefur umboðsmann,

2) nafn og heimilisfang uppfinningamanns,

3) stutt og lýsandi heiti á þeirri uppfinningu sem óskast vernduð með einkaleyfi,

4) hver umsækjenda, ef fleiri en einn sækja sameiginlega um einkaleyfi, fer með umboð til að taka á móti tilkynningum frá einkaleyfayfirvöldum,

5) að hve miklu leyti umsóknin nær til varðveislu örvera á þann hátt sem lýst er í 6. mgr. 8. gr. einkaleyfalaganna,

6) fylgigögn með umsókninni.

Umsókninni skal fylgja:

1) lýsing á uppfinningunni, ásamt teikningum sem nauðsynlegar eru til að uppfinningin skiljist, einkaleyfiskröfur og ágrip,

2) umboð, ef umsækjandi hefur umboðsmann og umboð er ekki veitt á umsóknarblaðinu,

3) sönnun á rétti umsækjanda (framsal) ef umsækjandi er annar en uppfinningamaður.

Með umsókninni skal fylgja tilskilið umsóknargjald.

3. gr.

Lýsing, einkaleyfiskröfur og ágrip skal vera á íslensku. Önnur skjöl mega vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku.

Ef skjal er á öðru tungumáli en um getur í 1. mgr. skal fylgja þýðing. Einkaleyfastofan getur þó fallið frá kröfu um þýðingu á öðrum skjölum en lýsingu, einkaleyfiskröfum og ágripi og þeim hlutum lýsingar eða einkaleyfiskrafna í íslenskri einkaleyfisumsókn sem ekki teljast grunngögn skv. 1. mgr. 21. gr. eða leyft að þýðing sé á öðrum tungumálum en dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Einkaleyfastofan getur krafist þess að löggiltur skjalaþýðandi, eða annar aðili sem einkaleyfayfirvöld viðurkenna, staðfesti þýðinguna.

4. gr.

Lýsingu, einkaleyfiskröfur og ágrip skal vélrita eða prenta með svörtu letri á hvítan pappír í stærðinni A4 (21 x 29,7 cm). Teikningar skulu gerðar með dökkum eða svörtum línum á hvítan eða ljósan, endingargóðan pappír í stærðinni A4.

Frágangur á lýsingu, einkaleyfiskröfum, teikningum og ágripi skal vera þannig að auðvelt sé að fjölfalda gögnin.

Einkaleyfastofan setur nánari reglur um frágang einkaleyfaskjala og fjölda eintaka.

5. gr.

Óski umsækjandi eftir að gerð verði nýnæmisrannsókn skv. 9. gr. einkaleyfalaganna skal hann skila skriflegri beiðni þar um til Einkaleyfastofunnar innan þriggja mánaða frá umsóknardegi eða þeim degi er umsóknin telst lögð inn, og greiða tilskilið gjald. Ef einkaleyfisumsóknin er ekki á einhverju því tungumáli sem viðurkennt er af þeirri stofnun sem annast nýnæmisrannsóknina skal fylgja beiðninni þýðing á tungumál sem Einkaleyfastofan ákveður.

Óski umsækjandi að nýnæmisrannsókn skv. 1. mgr. sé gerð hjá einhverri tiltekinni alþjóðastofnun, skal hann tilgreina þá stofnun í beiðninni.

Ef einkaleyfisumsóknin og tilskilin þýðing uppfyllir ekki þær formkröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra einkaleyfisumsókna, innan þess frests sem nefndur er í 1. mgr., er beiðninni vísað frá.

6. gr. Einkaleyfastofan færir umsóknardag á innlagðar umsóknir.

7. gr.

Einkaleyfastofan heldur dagbók yfir innlagðar einkaleyfisumsóknir. Dagbókin skal vera aðgengileg almenningi.

Í dagbókina skal færa eftirtalin atriði varðandi hverja umsókn:

1) umsóknarnúmer,

2) flokkunartákn þess alþjóðaflokks sem umsóknin fellur undir,

3) nafn og heimilisfang umsækjanda,

4) nafn og heimilisfang umboðsmanns, sé hann fyrir hendi,

5) nafn og heimilisfang uppfinningamanns,

6) heiti uppfinningar,

7) hvort umsóknin er íslensk eða alþjóðleg,

8) umsóknardag, ef umsóknin er íslensk, og gildisdag ef hann er annar en umsóknardagur,

9) alþjóðlegan umsóknardag, ef umsóknin er alþjóðleg, og þann dag sem umsóknin var yfirfærð skv. 31. gr. einkaleyfalaganna, eða þegar hún telst hafa verið lögð inn skv. 38. gr. laganna,

10) heiti viðtökulands fyrri umsóknar, sé forgangsréttar krafist á grundvelli hennar, svo og umsóknardag og umsóknarnúmer þeirrar umsóknar,

11) númer frumumsóknar, ef umsóknin hefur orðið til við hlutun eða úrfellingu,

12) upplýsingar um hvort nýjar umsóknir hafi orðið til við hlutun eða úrfellingu og númer viðkomandi umsókna,

13) ef við á, frá og með hvaða degi umsóknin hefur orðið aðgengileg almenningi skv. 3. mgr. 22. gr. einkaleyfalaganna,

14) alþjóðlegt umsóknarnúmer ef um alþjóðlega einkaleyfisumsókn er að ræða,

15) upplýsingar um gjöld sem greidd hafa verið vegna umsóknarinnar,

16) ef við á, upplýsingar um andmæli og andmælanda,

17) upplýsingar um endanlega afgreiðslu umsóknar.

8. gr.

Einkaleyfastofan útbýr mánaðarlega eða í tengslum við útgáfu rits skv. 44. gr.:

1 ) yfirlit yfir umsóknir, sbr. 7. gr. , þar sem fram koma þær upplýsingar sem um getur í 1. , 3. , 5.-11. og 14. lið 3. mgr. 7. gr.

2) yfirlit yfir alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir sem ná til Íslands og Einkaleyfastofan hefur fengið upplýsingar um frá Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO) í Genf. Yfirlitið skal innihalda allar þær upplýsingar um hverja einkaleyfisumsókn sem getið er í b-lið 2. mgr. 30. gr. Samstarfssáttmálans um einkaleyfi.

Yfirlit skv. 8. gr. skulu fást hjá Einkaleyfastofunni gegn ákveðnu gjaldi ef um sérprent er að ræða.

9. gr.

Ef tilkynning berst um eigendaskipti á einkaleyfisumsókn verður nafn nýs umsækjanda því aðeins fært í dagbók að fyrir liggi sönnun um framsal.

Forgangsréttur.

10. gr.

Til að njóta forgangsréttar skv. 6. gr. einkaleyfalaga þarf umsækjandi að krefjast þess skriflega innan þriggja mánaða frá umsóknardegi hérlendis, eða frá þeim degi sem umsóknin telst lögð inn (gildisdagur), ásamt upplýsingum um hvar umsókn sem forgangsréttarkrafa er byggð á var lögð inn, umsóknardag hennar svo og umsóknarnúmer eins fljótt og verða má.

Ef um alþjóðlega einkaleyfisumsókn er að ræða skal krefjast forgangsréttar um leið og umsóknin er lögð inn. Kröfunni skulu fylgja upplýsingar um hvar umsóknin sem skírskotað er til var lögð inn, umsóknardag hennar og, ef um alþjóðlega umsókn er að ræða, a.m.k. eitt af þeim löndum sem hún nær til. Umsækjandi skal, innan 16 mánaða frá forgangsréttardegi, tilkynna númer umsóknar sem hann byggir forgangsrétt sinn á til viðkomandi viðtökuyfirvalda eða til Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

Ef umsóknin er hlutuð sundur, sbr. 22. gr. , skal krafa um forgangsrétt fyrir frumumsóknina einnig gilda fyrir þær umsóknir sem þannig verða til án sérstakrar beiðni þar um.

11. gr.

Umsækjandi sem krafist hefur forgangsréttar skal, innan 16 mánaða frá forgangsréttardegi, afhenda Einkaleyfastofunni vottorð frá því einkaleyfayfirvaldi sem tók á móti umsókn þeirri sem umsækjandi byggir forgangsrétt sinn á. Í vottorðinu skal tilgreina umsóknardag og nafn umsækjanda. Því skal fylgja afrit af umsókninni, staðfest af viðkomandi einkaleyfastofnun. Einkaleyfastofan setur reglur um frágang afritsins. Ef um alþjóðlega umsókn er að ræða þarf þó ekki að afhenda slík staðfestingarskjöl nema Einkaleyfastofan krefjist þess, sbr. 4. mgr. Í staðinn má skv. reglu 17(1) í reglugerð með Samstarfssáttmálanum senda staðfestingarskjölin til Alþjóðahugverkastofnunarinnar. Einkaleyfastofan getur undanþegið umsækjanda þeirri skyldu að afhenda þau skjöl sem nefnd eru í 1. mgr.

Sendi umsækjandi ekki nefnd skjöl á tilskildum tíma fellur réttur hans til forgangsréttar niður.

Hafi Alþjóðahugverkastofnuninni verið sent afrit af umsókn þeirri sem forgangskrafa í alþjóðlegri einkaleyfisumsókn er byggð á getur Einkaleyfastofan aðeins krafist afrits og þýðingar á afritinu í samræmi við reglu 17(2) í reglugerð með Samstarfssáttmálanum.

12. gr.

Umsókn getur því aðeins orðið grundvöllur forgangsréttarkröfu skv. 10. gr. að hún sé sú fyrsta þar sem uppfinningunni er lýst.

Hafi umsækjandi fyrstu umsóknar, eða framsalshafi, síðar lagt inn umsókn á sama stað er varðar sömu uppfinningu, getur síðari umsóknin þó orðið grundvöllur forgangsréttarkröfu ef fyrri umsóknin hefur verið afturkölluð við afhendingu hinnar síðari, hún afskrifuð eða henni hafnað áður en hún varð aðgengileg almenningi, og að því tilskildu að engin réttindi eða forgangskrafa sé á henni byggð. Hafi forgangsréttur skapast á grundvelli slíkrar seinni umsóknar er ekki lengur hægt að byggja forgangsréttarkröfu á fyrri umsókninni.

Ef gildisdagur umsókna er færður til gilda ákvæði 2. mgr. einnig um þær.

13. gr.

Hægt er að krefjast forgangsréttar fyrir hluta af umsókn. Kröfu um forgangsrétt fyrir eina og sömu umsókn má byggja á fleiri en einni umsókn jafnvel þótt þær séu frá fleiri en einu ríki.

Einkaleyfiskröfur.

14. gr.

Í einkaleyfiskröfu skal koma fram:

1) heiti uppfinningar,

2) upplýsingar um þá tækni sem nýnæmi uppfinningarinnar miðast við (staða tækninnar), ef slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar, og

3) upplýsingar um það sem er nýtt og sérstakt við uppfinninguna. Í hverri einkaleyfiskröfu má aðeins fjalla um eina uppfinningu.

Uppfinninguna skal, ef mögulegt er, telja til einhverra eftirtalinna afbrigða: afurð, tæki (búnaður), aðferð eða notkun.

Í einkaleyfiskröfu má ekkert koma fram sem er óviðkomandi uppfinningunni eins og henni er lýst í kröfunni eða hefur hverfandi gildi fyrir þann einkarétt sem sótt er um.

15. gr.

Í einkaleyfisumsókn má setja fram fleiri en eina einkaleyfiskröfu. Ef fleiri en ein krafa eru í sömu umsókn skulu þær tölusettar og þeim raðað niður í númeraröð.

Einkaleyfiskrafa getur verið sjálfstæð eða ósjálfstæð. Einkaleyfiskrafa telst ósjálfstæð ef hún snertir útfærslu uppfinningar sem lýst er í annarri kröfu og felur í sér öll sérkenni þeirrar kröfu. Aðrar einkaleyfiskröfur teljast sjálfstæðar.

Við hverja einkaleyfiskröfu má tengja eina eða fleiri ósjálfstæðar kröfur. Ósjálfstæða kröfu má tengja einni eða fleiri kröfum sem settar hafa verið fram á undan. Skal þá í inngangi kröfunnar vísað til viðeigandi krafna og lýsa síðan frekari sérkennum uppfinningarinnar.

16. gr.

Felist margar uppfinningar í sömu umsókn teljast þær háðar hver annarri ef tæknilegt samband er milli þeirra þannig að eitt eða fleiri sams konar eða samsvarandi tæknileg séreinkenni séu þeim öllum sameiginleg. Með hugtakinu tæknilegt sérkenni er átt við þau tæknilegu atriði í hverri einstakri uppfinningu sem eru frábrugðin því sem þekkt er.

Það álitamál í hve ríkum mæli uppfinningar eru hver annarri háðar skal leitt til lykta án tillits til þess hvort þeirra er getið í einni einkaleyfiskröfu eða fleirum.

Lýsing.

17. gr.

Lýsing á uppfinningu skal einskorðast við það sem glöggvar skilning á uppfinningunni. Ef notuð eru ný eða sjaldgæf hugtök skal útskýra merkingu þeirra. Ekki má nota önnur tákn eða mælieiningar en almennt tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

Taki einkaleyfisumsóknin til varðveittrar ræktar af örverustofni skv. 6. mgr. 8. gr.

einkaleyfalaga skal umsóknin, þegar hún er lögð inn, hafa að geyma allar upplýsingar sem máli skipta varðandi eiginleika örverunnar og umsækjanda er kunnugt um.

17. gr. a

Rækt af örverustofni skv. 6. mgr. 8. gr. einkaleyfalaga skal varðveitt hjá stofnun sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar til slíkrar varðveislu skv. alþjóðlegum sáttmála sem gerður var í Búdapest 28. apríl 1977 um varðveislu örvera vegna einkaleyfisumsókna (Búdapestsáttmálinn).

Varðveislan skal vera í samræmi við ákvæði Búdapestsáttmálans.

Einkaleyfayfirvöld gefa út skrá yfir þær stofnanir sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar til að varðveita örverur skv. Búdapestsáttmálanum.

17. gr. b

Hafi umsækjandi látið rækt af örverustofni í varðveislu skal hann, innan 16 mánaða frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi, sé forgangsréttar krafist, veita einkaleyfayfirvöldum skriflegar upplýsingar um hvaða stofnun sjái um varðveisluna og hvaða varðveislunúmer stofnunin hefur gefið ræktinni. Þegar um alþjóðlegar umsóknir er að ræða skal, innan sama frests, veita Alþjóðahugverkastofnuninni þessar upplýsingar.

Æski umsækjandi þess, áður en frestur sá sem um getur í 1. mgr. er liðinn, að gögn umsóknarinnar verði gerð -almenningi aðgengileg fyrr en um getur í 1. og 2. mgr. 22. gr. einkaleyfalaganna skal hann veita upplýsingar skv. 1. mgr. í síðasta lagi um leið og hann leggur fram slíka beiðni. Æski umsækjandi alþjóðlegrar umsóknar þess, áður en frestur sá sem um getur í 1. mgr. er liðinn, að umsóknin verði gerð opinber skv. b-lið 2. mgr. 21. gr. Samstarfssáttmálans skal hann veita Alþjóðahugverkastofnuninni áðurnefndar upplýsingar í síðasta lagi um leið og hann leggur fram slíka beiðni.

Hafi varðveitt rækt af örverustofni verið flutt frá einni alþjóðlegri varðveislustofnun til annarrar, í samræmi við 1. mgr. 5. reglu í reglugerð með Búdapestsáttmálanum, skal umsækjandi svo fljótt sem honum er unnt, eftir að hafa móttekið kvittun fyrir flutningi ræktarinnar, tilkynna einkaleyfayfirvöldum flutninginn og upplýsa um nýtt varðveislunúmer ræktarinnar.

Til að sanna réttmæti veittra upplýsinga skv. 1. og 3. mgr. geta einkaleyfayfirvöld krafist þess að umsækjandi leggi fram afrit af kvittun sem varðveislustofnunin hefur gefið út vegna varðveislu ræktarinnar.

17. gr. c

Ný varðveisla ræktar af örverustofni skv. 7. mgr. 8. gr. einkaleyfalaga skal vera í samræmi við ákvæði Búdapestsáttmálans um nýja varðveislu.

Ný varðveisla skal hefjast innan 3ja mánaða frá þeim degi sem eigandi ræktarinnar fékk tilkynningu frá varðveislustofnuninni um að ekki væri hægt að afhenda sýnishorn af varðveittri örverurækt. Hafi stofnunin hætt störfum sem alþjóðleg varðveislustofnun fyrir þá tegund örvera sem varðveislan tók til, eða uppfylli hún ekki lengur tilskildar kröfur um varðveislustofnanir skv. Búdapestsáttmálanum, og hafi eigandi ræktarinnar ekki fengið vitneskju um þetta innan 6 mánaða frá því að Alþjóðahugverkastofnunin birti tilkynningu þar um getur ný varðveisla þó hafist innan 9 mánaða frá birtingu þeirrar tilkynningar.

Umsækjandi skal, innan 4 mánaða frá þeim degi sem ný rækt af örverustofni var lögð inn hjá annarri stofnun, afhenda einkaleyfayfirvöldum afrit af kvittun um varðveisluna frá hinni nýju varðveislustofnun. Ef frestur sá sem um getur í 1. og 2. mgr. 17. gr. b rennur út síðar nægir þó að afhenda afrit af kvittuninni innan þess frests. Um leið og afrit af kvittuninni er afhent skal veita upplýsingar um númer umsóknar eða einkaleyfis sem ræktin tilheyrir.

Ágrip.

18. gr.

Í ágripi af íslenskri einkaleyfisumsókn skal vísa til lýsingar og einkaleyfiskrafna, eins og þau eru í grunngögnum, sbr. 1. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 24. gr. Í ágripinu skal koma fram heiti uppfinningar. Einnig skal í ágripinu lýsa greinilega því tæknilega vandamáli sem uppfinningin fjallar um, hvernig henni er í grundvallaratriðum ætlað að stuðla að lausn þess og hvert er aðalnotkunarsvið uppfinningarinnar. Ef mögulegt er skal ágripið liggja fyrir í endanlegri gerð áður en umsóknin er gerð aðgengileg almenningi skv. 2. mgr. 22. gr. einkaleyfalaga.

Hafi alþjóðleg nýnæmisrannsóknarstofnun samþykkt ágrip af alþjóðlegri umsókn ber að nota það. Að öðrum kosti ákveða einkaleyfayfirvöld einnig frágang á ágripi þessara umsókna í samræmi við 1. mgr.

Breytingar á einkaleyfisumsókn.

19. gr.

Ekki má breyta einkaleyfiskröfu á þann hátt að hún nái til einhvers sem ekki á sér stoð í grunngögnum, sbr. 1. eða 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 24. gr. Ef einkaleyfiskröfu er breytt með því að bæta við nýjum atriðum skal umsækjandi samtímis gera grein fyrir hvar þau eigi stoð í grunngögnum.

Eftir að einkaleyfayfirvöld hafa greint frá niðurstöðu nýnæmisrannsóknar má ekki bæta í viðkomandi umsókn einkaleyfiskröfum vegna uppfinningar er telst óháð þeim uppfinningum sem áður innlagðar kröfur tóku til.

Ekki má, án samþykkis umsækjanda, greina frá niðurstöðum nýnæmisrannsóknar alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar fyrr en liðinn er frestur sá sem um getur í 53. gr.

Umsækjandi má því aðeins gera breytingar eða bæta við lýsingu og teikningar að slíkt sé talið nauðsynlegt skv. 8. gr. einkaleyfalaganna. Slíkar breytingar eða viðbætur má ekki gera ef þær leiða til þess að í einkaleyfiskröfunum felist annað eða meira en það sem rekja má til grunngagnanna.

20. gr.

Ef gerðar eru breytingar á einkaleyfiskröfum eða settar eru fram viðbótarkröfur skal leggja fram nýtt eintak af kröfum, nema einkaleyfayfirvöld heimili í hverju tilviki að annar háttur sé á hafður. Í hinu nýja eintaki skulu allar kröfur sem eftir standa settar fram í réttri röð.

21. gr.

Grunngögn í íslenskri einkaleyfisumsókn og einkaleyfisumsókn sem tekin er til meðferðar skv. 38. gr. einkaleyfalaga teljast lýsing, teikningar og kröfur sem liggja fyrir á íslensku, dönsku, norsku eða sænsku á umsóknardegi, eða á þeim degi sem telst umsóknardagur, sbr. 14. gr. einkaleyfalaga. Liggi gögn þessi ekki fyrir á áðurnefndum tímamörkum skal sú lýsing, ásamt viðeigandi teikningum og kröfum, sem lögð er fram síðar í íslenskri þýðingu, teljast grunngögn að svo miklu leyti sem efni umsóknarinnar kemur greinilega fram í þeim gögnum sem lágu fyrir á umsóknardegi.

Grunngögn í alþjóðlegri einkaleyfisumsókn, sem yfirfærð er í samræmi við 31. gr. einkaleyfalaganna, teljast þýðing á lýsingu, teikningum og kröfum sem lögð er inn í samræmi við þessa lagagrein með þeim breytingum sem gerðar eru á þýðingunni innan frests sem veittur er skv. 53. gr. Ef alþjóðleg einkaleyfisumsókn er lögð inn á íslensku hjá viðtökuyfirvöldum telst endurrit af lýsingu, teikningum og kröfum sem lagt er inn í samræmi við 31. gr. vera grunngögn, ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið áður en frestur skv. 53. gr. er liðinn. Hafi umsækjandi samþykkt að alþjóðleg umsókn verði tekin til afgreiðslu innan þess frests sem kveðið er á um í 53. gr., sbr. 34. gr. einkaleyfalaga, og ákvörðun er tekin um að leggja hana fram eða hafna henni, þá telst lýsing, teikningar og einkaleyfiskröfur viðkomandi umsóknar, eins og þau gögn lágu fyrir þegar viðkomandi ákvörðun var tekin, vera grunngögn.

Sé þess getið við innlagningu einkaleyfisumsóknar að umsókn er varðar sömu uppfinningu hafi áður verið lögð inn erlendis og númer hennar og umsóknardagur er tilgreindur, skal líta svo á að staðfest afrit, sem síðar er lagt fram af þeirri umsókn, hafi borist á umsóknardegi íslensku umsóknarinnar.

Hlutun og úrfelling.

22. gr.

Ef fleiri en einni uppfinningu er lýst í grunngögnum getur umsækjandi hlutað umsóknina sundur í fleiri umsóknir. Að beiðni umsækjanda má telja að ný umsókn varðandi uppfinningu sem byggist á upprunalegu umsókninni (frumumsókn), sé lögð inn sama dag og frumumsóknin. Þegar slík hlutun er gerð má nýja umsóknin ekki ná til annars en þess sem frumumsóknin hefði mátt taka til í samræmi við 2. mgr. 19. gr. einkaleyfalaganna á þeim tíma sem nýja umsóknin var lögð inn.

Ef hluta þarf umsókn sundur vegna þess að hún nær til tveggja eða fleiri sjálfstæðra uppfinninga skal telja nýju umsóknina innlagða samtímis frumumsókninni ef hún er lögð inn áður en 4 mánuðir eru liðnir frá því að samsvarandi þrenging var gerð á frumumsókninni.

23. gr.

Ef uppfinning sem ekki á sér stoð í grunngögnum umsóknar kemur fram í viðbót við lýsingu eða einkaleyfiskröfur eða á annan hátt má að beiðni umsækjanda líta svo á að ný umsókn, sem felld hefur verið úr upphaflegri umsókn (frumumsókn), hafi verið lögð inn á sama tíma og skjal þar sem uppfinningin kemur fram barst einkaleyfisyfirvöldum.

Slík úrfelling getur þó aðeins átt sér stað í samræmi við 2. mgr. 19. gr. einkaleyfalaganna og að því tilskildu að í hinni nýju umsókn sé aðeins sótt um einkaleyfi fyrir því sem fram kom í gögnum frumumsóknarinnar eins og þau lágu fyrir í viðkomandi skjali er það var afhent.

24. gr.

Við hlutun og úrfellingu skal líta á lýsingu þá sem lögð er inn með nýrri umsókn, ásamt teikningum og einkaleyfiskröfum, sem grunngögn.

Því aðeins skal litið svo á að ný umsókn verði til við hlutun eða úrfellingu að það komi fram við innlagningu umsóknarinnar. Geta skal upphaflegu umsóknarinnar í þeim umsóknum sem verða til við hlutun eða úrfellingu.

Birting einkaleyfisumsókna.

25. gr.

Ef einkaleyfisumsókn er gerð aðgengileg almenningi skv. 22. gr. einkaleyfalaganna áður en hún hefur verið samþykkt til framlagningar skal prenta ágripið svo fljótt sem endanlegt orðalag þess hefur verið ákveðið. Einkaleyfayfirvöld geta einnig látið prenta aðra hluta umsóknarinnar með ágripinu. Afrit þessara prentuðu gagna skulu fást hjá einkaleyfayfirvöldum gegn tilskildu gjaldi.

Í auglýsingu sem birt skal þegar umsókn verður almenningi aðgengileg skal koma fram númer umsóknarinnar og alþjóðaflokkar, umsóknardagur, gildisdagur, ef hann er annar en umsóknardagur, heiti uppfinningar og nafn og heimilisfang umsækjanda og uppfinningamanns. Ef krafist er forgangsréttar skal í auglýsingunni tilgreina hvar umsóknin sem forgangsrétturinn er byggður á var lögð inn, umsóknardag hennar og umsóknarnúmer. Taki umsóknin til varðveittrar ræktar af örverustofni skal það koma fram í auglýsingunni. Hafi umsækjandi krafist þess, í samræmi við 7. mgr. 22. gr. einkaleyfalaganna, að sýnishorn af varðveittri örverurækt verði aðeins látið af hendi til sérstakra sérfræðinga, skal það einnig koma fram í auglýsingunni.

Hafi þýðingu á lýsingu og kröfum alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar verið breytt áður en frestur skv. 53. gr. rann út og eftir að umsóknin hefur verið gerð aðgengileg almenningi skal birta auglýsingu um það.

25 gr. a

Beiðni skv. 1. lið 8. mgr. 22. gr. einkaleyfalaganna, um afhendingu sýnishorns af varðveittri örverurækt, skal bera fram í samræmi við reglu 11 í reglugerð með Búdapestsáttmálanum.

Sé beiðni lögð fram, sbr. 1. mgr., áður en endanleg ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina, sem varðveitt rækt tilheyrir, skal sá sem óskar eftir að fá sýnishornið skuldbinda sig gagnvart umsækjanda til að nota það einungis til rannsókna þar til endanleg ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina. Jafnframt skal viðkomandi skuldbinda sig til að heimila engum öðrum aðgang að sýnishorninu fyrr en endanleg ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina eða verði einkaleyfi veitt, ekki fyrr en það er fallið úr gildi.

Sé beiðni lögð fram skv. 1. mgr., um afhendingu sýnishorns af varðveittri rækt af örverustofni sem tilheyrir einkaleyfi, skal sá sem óskar að fá sýnishorn afhent skuldbinda sig gagnvart einkaleyfishafanum til að heimila ekki öðrum aðgang að sýnishorninu fyrr en einkaleyfið er fallið úr gildi.

Sá sem óskar eftir að fá afhent sýnishorn skal taka á sig sömu skuldbindingar varðandi eintök sem leidd eru af sýnishorninu og hafa haldið sömu einkennum sem mikilvæg eru við notkun uppfinningarinnar.

Beiðni um sýnishorn skal fylgja skrifleg yfirlýsing um að sá sem um sýnishornið biður skuldbindi sig til að hlíta ofangreindum skilyrðum.

25. gr. b

Beiðni skv. 7. mgr. 22. gr. einkaleyfalaganna, þess efnis að einungis skuli afhenda sérfróðum mönnum sýnishorn, skal afhenda einkaleyfayfirvöldum eigi síðar en um leið og umsóknin er gerð aðgengileg almenningi skv. 22. gr. laganna.

Einkaleyfayfirvöld halda skrá yfir þá einstaklinga sem að þeirra mati teljast sérfróðir og lýst hafa sig reiðubúna sem slíkir til að taka á móti sýnishornum. Í samræmi við 44. gr. skal auglýsa nöfn þeirra einstaklinga sem færðir eru í skrána.

Ef einungis er heimilt að afhenda sérfræðingi sýnishorn, svo sem lýst er í 1. mgr., skal í beiðninni geta nafns þess sérfræðings sem tekur verkefnið að sér. Jafnframt skal fylgja skrifleg yfirlýsing sérfræðingsins þar sem hann skuldbindur sig gagnvart umsækjanda að því marki sem getið er í 2. og 4. mgr. 25. gr. a. Í þessu tilviki þarf sá sem ber fram óskina ekki sjálfur að gefa yfirlýsingu.

Velja má annaðhvort sérfræðing úr skrá einkaleyfayfirvalda eða annan sem umsækjandi í viðkomandi tilviki samþykkir.

25. gr. c

Enda þótt gefin hafi verið út yfirlýsing skv. 25. gr. a og b er heimilt vegna nýrrar einkaleyfisumsóknar að leggja inn til varðveislu rækt af örverustofni, sem leidd er af sýnishorni sem hefur verið afhent, ef varðveisla afleiddu ræktarinnar er nauðsynleg vegna nýju umsóknarinnar.

25. gr. d

Hafi komið fram beiðni um afhendingu sýnishorns, og sé ekkert því til fyrirstöðu samkvæmt einkaleyfalögum eða reglugerð þessari, gefa einkaleyfayfirvöld út vottorð um afhendinguna. Einkaleyfayfirvöld senda beiðnina um afhendingu sýnishornsins og vottorðið til þeirrar stofnunar sem varðveitir örveruræktina. Samtímis senda einkaleyfayfirvöld umsækjanda eða einkaleyfishafa afrit af beiðninni og vottorðinu.

Telji einkaleyfayfirvöld ókleift að gefa út vottorð skv. 1. mgr. skulu þau tilkynna það þeim aðila sem óskað hefur eftir afhendingunni. Sá aðili getur skotið þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar innan tveggja mánaða frá tilkynningu einkaleyfayfirvalda. Ákvörðun áfrýjunarnefndar í þessu efni verður ekki skotið til dómstóla.

Meðferð einkaleyfisumsókna.

26. gr.

Þegar rannsakað er hvort skilyrði til að veita einkaleyfi skv. 2. gr. einkaleyfalaga séu uppfyllt skulu einkaleyfayfirvöld taka tillit til alls sem þau fá upplýsingar um.

Nýnæmisrannsókn skal gera á grundvelli einkaleyfa, framlagðra einkaleyfisumsókna eða prentaðra einkaleyfisumsókna frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Þýskalandi (áður Vestur- Þýskaland), hinu fyrra Þýska ríki, Stóra-Bretlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum eða Evrópueinkaleyfastofnuninni, eða útdrátta úr þeim, prentaðra alþjóðlegra einkaleyfisumsókna eða útdrátta úr þeim og hérlendra einkaleyfisumsókna sem gerðar hafa verið aðgengilegar almenningi. Rannsóknina skal ennfremur gera á grundvelli annarra tiltækra rita ef það telst nauðsynlegt.

Einkaleyfayfirvöld geta gefið út nánari fyrirmæli varðandi nýnæmisrannsóknina. Slík fyrirmæli geta vikið frá því sem kveðið er á um í 2. mgr. ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

27. gr.

Einkaleyfastofunni er skv. 69. gr. einkaleyfalaga heimilt að gera samning við erlenda einkaleyfastofnun varðandi aðstoð við rannsókn á nýnæmi og einkaleyfishæfi umsókna.

Einkaleyfastofunni er einnig heimilt að leita álits utanaðkomandi sérfræðinga ef það telst nauðsynlegt til að geta tekið afstöðu til einkaleyfisumsóknar.

28. gr.

Einkaleyfastofan getur krafist þess að umsækjandi leggi inn líkan, sýnishorn o.þ.h. eða láti gera rannsóknir eða tilraunir, telji þau það nauðsynlegt til að geta tekið afstöðu til einkaleyfisumsóknarinnar.

29. gr.

Umsækjanda sem sótt hefur um einkaleyfi erlendis jafnframt því að sækja um hér á landi er, með þeim takmörkunum sem lýst er í 2. ml. 3. mgr. 69. gr. einkaleyfalaganna, skylt, ef einkaleyfayfirvöld krefjast þess, að veita upplýsingar um hvað viðkomandi stofnun hafi tilkynnt honum í sambandi við nýnæmi eða einkaleyfishæfni umsóknarinnar að öðru leyti. Geri einkaleyfayfirvöld kröfu um það er umsækjanda skylt að upplýsa hjá hvaða einkaleyfastofnunum hann hefur sótt um einkaleyfi fyrir uppfinningunni og skila inn afriti eða endurriti af því sem honum hefur verið tilkynnt um varðandi nýnæmi eða einkaleyfishæfi uppfinningarinnar að öðru leyti og að gera grein fyrir bréfaskiptum við viðkomandi einkaleyfastofnun, eða að gefa yfirlýsingu um að hann hafi ekki fengið slíkar upplýsingar.

Verði umsóknir rannsakaðar hjá erlendum einkaleyfayfirvöldum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 69. gr. einkaleyfalaganna má Einkaleyfastofan, á grundvelli samkomulags við viðkomandi einkaleyfayfirvöld um skipti á upplýsingum um einkaleyfishæfi, fresta umfjöllun um umsókn, sem er samsvarandi umsókn sem áður hefur verið lögð inn hjá hinum erlendu einkaleyfayfirvöldum, þar til sú umsókn hefur fengið þá meðhöndlun sem samkomulagið kveður á um.

Einkaleyfastofan má afhenda erlendum einkaleyfayfirvöldum, sem samkomulag hefur verið gert við skv. ofangreindum ákvæðum, skjöl sem varða umsókn sem ekki hefur verið gerð almenningi aðgengileg ef viðkomandi yfirvöld hafa skuldbundið sig til að láta þau ekki verða almenningi aðgengileg.

30. gr.

Einkaleyfayfirvöld setja nánari reglur um fresti og framlengingu þeirra við meðhöndlun einkaleyfisumsókna. Því aðeins má þó veita frest á framlagningu umsóknar að ákvörðun um framlagningu hafi verið tekin áður en umsóknin er gerð aðgengileg almenningi í samræmi við 2. og 3. mgr. 22. gr. einkaleyfalaganna. Má þá, að beiðni umsækjanda, fresta framlagningu þar til umsóknin er gerð almenningi aðgengileg í samræmi við áðurnefndar reglur.

Framlagning einkaleyfisumsókna.

31. gr.

Lýsing, ásamt teikningum, einkaleyfiskröfum og ágripi, skv. 21. gr. einkaleyfalaganna (framlagningarskjal) er prentuð að tilhlutan einkaleyfisyfirvalda eins fljótt og auðið er eftir að samþykkt hefur verið að leggja umsóknina fram. Í framlagningarskjali skal tilgreina framlagningardag og eftirfarandi atriði:

1) umsóknarnúmer og alþjóðaflokka,

2) nafn og heimilisfang umsækjanda,

3) nafn og heimilisfang umboðsmanns umsækjanda, sé hann fyrir hendi,

4) nafn og heimilisfang uppfinningamanns,

5) hvort umsóknin er íslensk eða alþjóðleg,

6) sé umsóknin íslensk, umsóknardag ásamt gildisdegi, ef hann er annar en umsóknardagur,

7) sé umsóknin alþjóðleg, alþjóðlegan umsóknardag og þá dagsetningu þegar umsóknin var yfirfærð samkv. 31. gr. einkaleyfalaganna eða telst lögð inn skv. 38. gr. sömu laga,

8) upplýsingar um forgangsrétt ásamt upplýsingum um hvar umsókn sú sem forgangsréttur er byggður á sé lögð inn og umsóknardag og númer þeirrar umsóknar,

9) sé umsóknin alþjóðleg, alþjóðlegt umsóknarnúmer,

10) númer frumumsóknar, sé umsóknin orðin til við hlutun eða úrfellingu,

11) hvort rækt af örverustofni sé í varðveislu vegna umsóknarinnar,

12) heimildargögn sem dregin hafa verið fram.

32. gr.

Í auglýsingu um framlagningu skv. 21. gr. einkaleyfalaga skal koma fram heiti uppfinningar ásamt þeim upplýsingum sem getið skal í framlagningarskjali skv. 31. gr. að undanskildum heimildargögnum sem dregin hafa verið fram.

33. gr.

Andmæli gegn veitingu einkaleyfis og síðari bréfaskipti andmælanda og umsækjanda varðandi andmælin skal afhenda í þeim fjölda eintaka sem einkaleyfayfirvöld hafa ákveðið. Andmælum skal fylgja rökstuðningur.

34. gr.

Hafi andmælandi umboðsmann skal leggja fram umboð.

35. gr.

Senda skal umsækjanda eitt eintak af öllum þeim gögnum sem andmælandi leggur fram. Svari umsækjandi andmælum ákveða einkaleyfayfirvöld hvort frekari bréfaskipti milli aðila séu nauðsynleg.

36. gr.

Berist einkaleyfayfirvö1dum, á meðan einkaleyfisumsókn er til meðferðar en utan andmælafrests, skrifleg ábending sem þýðingu hefur fyrir mat á umsókninni skal gera umsækjanda aðvart þar um. Þeim sem sent hefur slíka ábendingu áður en umsókn var lögð fram skal bent á að unnt sé að andmæla umsókninni ef til framlagningar hennar kemur. Þetta á þó ekki við ef ábendingin varðar betri rétt til uppfinningarinnar.

Nánari reglur um einkaleyfisumsóknir.

37. gr.

Einkaleyfayfirvöld setja nánari reglur varðandi umsóknir um einkaleyfi og meðferð þeirra.

Einkaleyfaskráin o.fl.

38. gr.

Einkaleyfayfirvöld halda skrá yfir veitt einkaleyfi. Þegar tekin hefur verið endanleg ákvörðun um veitingu einkaleyfis skal færa það í skrána.

39. gr.

Í einkaleyfaskránni skal koma fram:

1) umsóknarnúmer og skráningarnúmer einkaleyfis ásamt alþjóðaflokkum,

2) nafn og heimilisfang einkaleyfishafa,

3) nafn og heimilisfang umboðsmanns, sé hann fyrir hendi,

4) nafn og heimilisfang uppfinningamanns,

5) a) umsóknardagur, ef einkaleyfi er veitt á grundvelli íslenskrar umsóknar og sá dagur sem einkaleyfisvernd telst hefjast (gildisdagur), ef hann er annar en umsóknardagur,

b) alþjóðlegur umsóknardagur, ef einkaleyfið er veitt á grundvelli alþjóðlegrar umsóknar, eða sá dagur sem umsóknin telst lögð inn skv. 3. mgr. 38. gr. einkaleyfalaga,

c) sá dagur sem gögn varðandi umsóknina voru gerð almenningi aðgengileg,

d) sá dagur þegar framlagning einkaleyfisins var auglýst í samræmi við 21. gr. einkaleyfalaga og

e) sá dagur þegar einkaleyfið var veitt.

6) ef krafist er forgangsréttar, upplýsingar um hvar umsókn sem forgangsréttarkrafa er byggð á var lögð inn og umsóknardagur og -númer hennar,

7) alþjóðlegt umsóknarnúmer, ef einkaleyfið er veitt á grundvelli alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar,

8) heiti uppfinningar,

9) upplýsingar um varðveislustofnun og varðveislunúmer ræktar af örverustofni ef slík rækt er varðveitt vegna einkaleyfisins.

40. gr.

Í auglýsingu um veitingu einkaleyfis skv. 26. gr. einkaleyfalaga skal koma fram nafn einkaleyfishafa, númer umsóknar og einkaleyfis ásamt alþjóðaflokkum, heiti uppfinningar og framlagningardagur.

41. gr.

Þegar árgjöld hafa verið greidd, eða frestur er veittur á greiðslu þeirra, skal skrá það í einkaleyfaskrána eða aðra sérstaka skrá yfir greiðslur árgjalda.

Þegar einkaleyfi fellur úr gildi skv. 51. gr. einkaleyfalaga skal færa í einkaleyfaskrána frá hvaða tíma einkaleyfið telst fallið úr gildi.

Ef lögð er fram skrifleg beiðni skv. 72. gr. einkaleyfalaga þess efnis að árgjöld teljist greidd á réttum tíma skal það skráð í einkaleyfaskrána. Niðurstaða málsins skal ennfremur skráð í einkaleyfaskrána.

42. gr.

Tilkynning um málshöfðun til ógildingar einkaleyfi, um framsal einkaleyfis eða vegna nauðungarleyfis, í samræmi við 1. mgr. 63. gr. einkaleyfalaganna, skal færð í einkaleyfaskrána.

Þegar einkaleyfayfirvöldum hefur borist endurrit dóms skv. 65. gr. einkaleyfalaga skal skrá það í einkaleyfaskrána. Meginniðurstöðu endanlegs dóms skal færa í einkaleyfaskrána.

Úrskurð um að einkaleyfi sé fallið niður skv. 54. gr. einkaleyfalaganna skal færa í einkaleyfaskrána.

43. gr.

Í tilkynningu um aðilaskipti að einkaleyfi eða veitingu nytjaleyfis skv. 44. gr. einkaleyfalaga skal koma fram nafn og heimilisfang rétthafa, frá hvaða tíma hann öðlast réttinn og hvenær aðilaskiptin fóru fram eða nytjaleyfi var veitt. Samkvæmt beiðni skal skrá í einkaleyfaskrána hver réttur einkaleyfishafa er til að veita frekari nytjaleyfi. Ef ekki er unnt að taka ákvörðun strax um birtingu tilkynningar um aðilaskipti að einkaleyfi eða veitingu nytjaleyfis skal þess getið í einkaleyfaskránni að beiðni um slíka birtingu hafi verið sett fram.

Tilkynning um breytingu á umboðsmanni svo og breytingu á nafni eða heimilisfangi einkaleyfishafa skal færð í einkaleyfaskrána.

Hafi einkaleyfayfirvöldum borist upplýsingar um að varðveitt örverurækt sem tengist einkaleyfi hafi verið flutt, sbr. 3. mgr. 17. gr. b, eða þau fengið afrit af kvittun vegna nýrrar varðveislu, sbr. 3. mgr. 17. gr. c, skal athugasemd um flutninginn eða hina nýju varðveislu færð í einkaleyfaskrána.

Tilkynningar frá einkaleyfayfirvöldum.

44. gr.

Tilkynningar eru birtar í sérstöku riti sem gefið er út af einkaleyfayfirvöldum.

Móttaka alþjóðlegra einkaleyfisumsókna.

45. gr.

Einkaleyfastofan veitir viðtöku alþjóðlegum einkaleyfisumsóknum frá umsækjendum sem eru íslenskir ríkisborgarar, eru búsettir hér á landi, stunda atvinnurekstur eða teljast lögaðilar hér.

Sama gildir ef fleiri en einn leggja í sameiningu inn alþjóðlega umsókn og a.m.k. einn umsækjenda uppfyllir skilyrði 1. mgr.

46. gr.

Sem viðtökuaðili tekur Einkaleyfastofan við alþjóðlegum einkaleyfisumsóknum, yfirfer þær og framsendir í samræmi við ákvæði alþjóðlega Samstarfssáttmálans um einkaleyfi og reglugerða við hann.

Umsækjandi skal greiða einkaleyfayfirvöldum, sem viðtökuaðila, eftirtalin gjöld skv. reglugerð við Samstarfssáttmálann.

1) grunngjald skv. reglu 15(1) í fyrrnefndri reglugerð, innan mánaðar frá móttöku umsóknar,

2) yfirfærslugjald skv. reglu 15(1) í fyrrnefndri reglugerð, innan árs frá alþjóðlegum umsóknardegi, eða frá forgangsréttardegi, sé krafist forgangsréttar, þó þannig að ávallt megi í síðastnefnda tilvikinu greiða gjaldið innan mánaðar frá móttöku umsóknar,

3) gjald fyrir nýnæmisrannsókn skv. reglu 16(1) í fyrrnefndri reglugerð, innan mánaðar frá viðtöku umsóknar,

4) gjald fyrir meðferð einkaleyfayfirvalda, sem viðtökuaðila umsókna, skv. reglu 14 í fyrrnefndri reglugerð, innan mánaðar frá viðtöku umsóknar,

5) gjald fyrir útgáfu og sendingu forgangsréttarskjala í samræmi við reglu 17(1)(b) í fyrrnefndri reglugerð, innan frests sem settur er í reglu 17(1)(a) í sömu reglugerð.

Hafi gjöld skv. 1.-4. tl. 2. mgr. ekki verið að fullu greidd á réttum tíma eða innan hins veitta frests tekur ákvæði reglu 16 bis. í reglugerð við Samstarfssáttmálann gildi.

47. gr.

Alþjóðleg einkaleyfisumsókn sem lögð er inn til einkaleyfayfirvalda hér á landi skal afhent í einu eintaki. Umsóknin skal vera á íslensku, dönsku, sænsku, norsku eða ensku. Upplýsingar á umsóknarblaði mega vera á ensku þótt önnur gögn séu á einhverju fyrrnefndra tungumála.

48. gr.

Færa skal sérstaka dagbók yfir alþjóðlegar umsóknir sem lagðar eru inn hjá einkaleyfayfirvöldum. Dagbókin er ekki aðgengileg almenningi.

49. gr.

Sé umsækjandi ekki búsettur hér á landi skal hann hafa umboðsmann sem búsettur er hérlendis og getur komið fram fyrir hans hönd gagnvart einkaleyfayfirvöldum í málum er varða umsóknina.

50. gr.

Einkaleyfayfirvöld skulu í samræmi við Samstarfssáttmálann og reglugerðir við hann senda alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir til Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

Yfirfærsla á alþjóðlegri einkaleyfisumsókn o.fl.

51. gr.

Þegar alþjóðleg umsókn er yfirfærð í samræmi við 31. gr. einkaleyfalaganna skal geta nafns umsækjanda, númers hinnar alþjóðlegu umsóknar, umsóknardags og forgangsréttardags ef við á. Sömuleiðis skal þess getið hvar alþjóðlega umsóknin var lögð inn.

52. gr.

Ef alþjóðleg umsókn er ekki á íslensku skal þýðing lögð inn við yfirfærslu umsóknar í samræmi við 31. gr. einkaleyfalaga eða þegar beiðni berst um endurskoðun ákvörðunar skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Ákvæði 2. mgr. 3. gr. gilda á sama hátt.

Einkaleyfayfirvöld geta sett reglur til að takmarka skyldu til að afhenda þýðingu ef aðeins hluti alþjóðlegrar umsóknar er yfirfærður til landsins.

53. gr.

Frestur skv. 34. gr. einkaleyfalaga rennur út 4 mánuðum síðar en frestur skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga.

Hafi umsækjandi lagt fram yfirlýsingu skv. 2. mgr. 31. gr. einkaleyfalaga innan 19 mánaða frá alþjóðlegum umsóknardegi, eða frá forgangsréttardegi ef forgangsréttar er krafist, rennur frestur skv. 34. gr. sömu laga þó út samtímis fresti vegna yfirfærslu skv. áðurnefndri 2. mgr. 31. gr. laganna.

54. gr.

Hafi umsækjandi alþjóðlegrar umsóknar uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru skv. ákvæðum 31. gr. einkaleyfalaga en einkaleyfayfirvöld ekki fengið tilkynningu frá Alþjóðahugverkastofnuninni um að hún hafi tekið við umsókninni ber einkaleyfayfirvöldum að gera stofnuninni viðvart.

55. gr.

Tilkynningar skv. 1. eða 3. mgr. 36. gr. eða 37. gr. einkaleyfalaga skal senda umsækjanda í ábyrgðarbréfi.

56. gr.

Frestur til að óska eftir að ákvörðun verði endurskoðuð skv. 2. mgr. 38. gr. einkaleyfalaga rennur út 2 mánuðum eftir að viðtökuyfirvöld eða Alþjóðahugverkastofnunin hefur tilkynnt umsækjanda um ákvörðun sem fjallað er um í 1. mgr. 38. gr. laganna.

Geti umsækjandi sannað að meira en 7 dagar hafi liðið frá dagsetningu ákvörðunar skv. 1. mgr. þar til honum barst hún í hendur lengist fresturinn um þann dagafjölda umfram 7 sem liðinn er frá dagsetningu ákvörðunar til móttöku hennar.

Varahlutir og tæki í loftför.

57. gr.

Varahluti og tæki í loftför má flytja til landsins án tillits til einkaleyfa vegna viðgerða á loftförum frá öðrum ríkjum sem aðild eiga að alþjóðaflugsamningnum frá 7. desember 1944 (Chicagosamningurinn, sbr. augl. nr. 45/1947). Það er skilyrði að ríkin séu annaðhvort aðilar að Parísarsáttmálanum eða hafi einkaleyfalöggjöf þar sem viðurkenndar eru uppfinningar ríkisborgara annarra landa, sem aðild eiga að fyrrgreindum alþjóðaflugsamningi, og sem verndar þess konar uppfinningar með löggjöf sem samræmist Parísarsáttmálanum.

Gildistaka.

58. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 17 20. mars 1991 og tekur gildi hinn 1. janúar 1992.

Ákvæði er varða rannsóknir á einkaleyfishæfi alþjóðlegra umsókna skv. Samstarfssáttmálanum taka gildi þegar Ísland fullgildir sáttmálann.

Reglugerð nr. 59/1966, með síðari breytingum, gildir fyrir umsóknir sem lagðar eru inn fyrir gildistöku laga nr. 17/1991 með þeim undantekningum sem af 78. gr. þeirra laga leiðir.

Um aðgengileika, framlagningu og andmæli gegn umsóknum, sem undantekningaákvæði 78. gr. , sbr. 79. gr. , einkaleyfalaga eiga við, gilda ákvæði 25. gr. og 31.-36. gr. þessarar reglugerðar eftir því sem við á.

Ákvæði til bráðabirgða.

1.

Ákvæði 3. gr. varðandi þýðingar á lýsingu, einkaleyfiskröfum og ágripi í einkaleyfisumsóknum taka gildi sem hér segir:

a) Í umsóknum sem lagðar eru inn á tímabilinu 1. janúar 1992 til 1. janúar 1996 mega lýsing, einkaleyfiskröfur og ágrip vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku, sbr. þó b og c-lið. Liggi þessi gögn ekki fyrir á íslensku getur Einkaleyfastofan þó krafist þýðingar, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

b) Í umsóknum sem lagðar eru inn á erlendu máli eftir 1. janúar 1993 skulu ágrip og einkaleyfiskröfur liggja fyrir í íslenskri þýðingu áður en umsókn er lögð fram.

c) Fyrir umsóknir sem lagðar eru inn eftir 1. janúar 1994 gilda ákvæði í b-lið einnig um lýsingu.

Ákvæði 3. greinar varðandi þýðingar taka að fullu gildi fyrir umsóknir sem lagðar eru inn eftir 1. janúar 1996.

2.

Fyrir umsóknir sem lagðar eru inn á tímabilinu 1. janúar 1992 til 1. janúar 1996 skulu ákvæði 1. mgr. 21. gr. gilda varðandi það hvað teljast grunngögn í umsóknum, þótt lýsing, ásamt teikningum og einkaleyfiskröfum, sé á ensku, sbr. a-lið í bráðabirgðaákvæði nr. 1.

Ákvæði 1. mgr. 21. gr. taka að fullu gildi fyrir umsóknir sem lagðar eru inn eftir 1. janúar 1996.

Iðnaðarráðuneytið, 2. desember 1991.

F. h. r.

Björn Friðfinnsson.

Helga Jóna Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica