Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

335/2002

Reglugerð um veðmálastarfsemi Hestamannafélagsins Andvara í Garðabæ. - Brottfallin

1. gr.

Hestamannafélaginu Andvara í Garðabæ er heimilt að reka veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar er fram fara á vegum félagsins.

2. gr.

Veðmálastarfsemin fer þannig fram að veðjað er um sigurvegara í ákveðnum veðriðlum, en á hverjum kappreiðum eru tvær umferðir og eru veðriðlarnir (veðreiðarnar) í fyrri umferð, þ.e. veðreiðahluti hverra kappreiða. Einnig er veðjað um endanleg úrslit í ákveðinni mótaröð.

3. gr.

Veðseðill um úrslit hverra veðreiða skal þannig upp settur að á honum eru forprentaðir sjö veðriðlar; tveir í 250 m skeiði, tveir í 100 m flugskeiði og þrír í 150 m skeiði. Veðseðill telst fullgildur ef veðjað er rétt í a.m.k. fimm tilvikum. Í hverjum riðli skulu vera allt að fjögur hross og er þátttökuhrossunum hverju sinni skipað í riðla eftir tímum, á fyrstu kappreiðum eftir sínum besta tíma undangengið kappreiðaár og síðan eftir tíma í næstu kappreiðum á undan. Varðandi þá tíma gildir besti tími hverra kappreiða rétt eins og til röðunar í verðlaunasæti en á hverjum kappreiðum í mótaröðinni skulu fara fram tvær umferðir í óbreyttum riðlum.

Veðseðill um heildarúrslit tekur til lokaúrslita mótaraðarinnar í sætum eitt til þrjú í hverri grein, þ.e. alls níu sæti, og telst seðillinn fullgildur ef rétt er veðjað í sex tilvikum. Keppnisdagar í mótaröðinni eru 9. maí, 9. júní, 22. júní, 10. ágúst og meistaramót Andvara fyrstu helgina í september. Heimilt skal að hnika til dagsetningum af gildum ástæðum, s.s. vallaraðstæðum, óveðri eða náttúruhamförum. Við ákvörðun endanlegra sigurvegara (hestur og knapi) í mótaröð skal eftirfarandi stigatafla gilda: Fyrsta sæti 12 stig, annað sæti 10 stig, þriðja sæti 8 stig, fjórða sæti 6 stig, fimmta sæti 4 stig.

4. gr.

Veðseðill um úrslit hverra veðreiða skal kosta að hámarki 1.500 kr. og veðseðill um heildarúrslit mótaraðarinnar að hámarki 5.000 kr., og skulu þeir greiðast hestamannafélaginu við afhendingu þeirra.

Veðbanka er lokað fimm mínútum áður en fyrsti riðill skal ræstur og vegna heildarúrslita mótaraðarinnar á sama tíma þann 22. júní.

5. gr.

Veðfjárupphæðum skal skipt þannig:
a. 60% skal skipt jafnt á rétta veðseðla annars vegar á hverjum veðreiðum fyrir sig og hins vegar í lok mótaraðar.
b. Afganginum (40%) skal varið til reksturs kappreiðanna, til viðhalds og umbóta á skeiðvelli félagsins og til reiðvega Andvara. Framlag til reiðvega má aldrei vera minna en 10% af hagnaði félagsins af veðmálastarfseminni.

6. gr.

Að loknu hverju mótiog í lok mótaraðar skulu veðmálin reiknuð út, útkoman auglýst á mótsstað og vinningar greiddir út þegar í stað gegn framvísun veðseðla.

7. gr.

Ef einstök hlaup verða ógild teljast allir kostir réttir, en ef kappreiðar í heild verða ógildar endurgreiðist veðfé að frádregnum 20%.

8. gr.

Vinningar greiðist í heilum tugum króna, þannig að vinningar hækki eða lækki í heilan tug samkvæmt almennum reglum.

9. gr.

Þeir sem veðja eru í einu og öllu háðir ákvæðum reglugerðar þessarar, kappreiðareglum LH og úrskurði dómnefndar.

10. gr.

Veðseðlar verða ekki innleystir síðar en 1 klst. eftir að hverjum kappreiðum lýkur og því aðeins að þeir séu með læsilegum tölum. Hið sama gildir um veðseðla um heildarúrslit mótaraðarinnar.

11. gr.

Óheimilt er að leyfa unglingum innan 18 ára að veðja.

12. gr.

Halda skal nákvæma skrá yfir veðmálastarfsemina, svo sem inngreiddar og útgreiddar veðfjárhæðir og ráðstöfun tekna, og afhenda hana dóms- og kirkjumálaráðuneytinu innan 6 mánaða frá því að veðmálastarfsemi lýkur.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 23, 30. janúar 1945, öðlast þegar gildi og gildir til 1 árs.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 2. maí 2002.
F. h. r.
Björn Friðfinnsson.
Fanney Óskarsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica