Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

136/1995

Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins. - Brottfallin

Gildissvið.

1. gr.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í 20., 21. og 23. tölulið XIII. viðauka við hann skulu gilda hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans, svo og þeirri aðlögun sem leiðir af ákvæðum 2. - 4. gr. reglugerðar þessarar.
EBE gerðir þær sem vísað er til eru:

a. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, sbr. og ákvörðun framkvæmdastjórnar nr. 93/173/EBE um útlit staðlaðs eyðublaðs (20. tölul.).

b. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum, eins og henni hefur verið breytt með reglugerðum (EBE) nr. 3314/90, nr. 3572/90 og nr. 3688/92 (21. tölul.).

c. Tilskipun ráðsins nr. 88/599/EBE um staðlaðar aðferðir við eftirlit með framkvæmd reglugerðanna í a- og b- lið, sbr. og ákvörðun framkvæmdastjórnar nr. 93/172/EBE um útgáfu staðlaðs eyðublaðs (23. tölul.).

EBE gerðirnar nr. 3820/85, nr. 3821/85, nr. 3572/90 og nr. 88/599 eru birtar í sérritinu EES-gerðir S40, bls. 179-199, 204-206 og 312-315, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda, en EBE gerðirnar nr. 93/172, nr. 93/173, nr. 3314/90 og nr. 3688/92 eru birtar í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 4, bls. 338-343 og 472-476.

Sérákvæði um aksturs- og hvíldartíma

ökumanna í innanlandsflutningum.

2. gr.

Með vísun til 11. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3820/85 gilda þessi frávik frá ákvæðum 5. - 8. gr. þeirrar reglugerðar:

1. Lágmarksaldur ökumanna (5. gr.):

a. Lágmarksaldur ökumanna sem annast vöruflutninga á bifreið sem er meira en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd eða á bifreið með eftirvagni fyrir a.m.k. 750 kg heildarþyngd, enda sé samanlögð heildarþyngd beggja ökutækjanna yfir 3500 kg, skal vera 20 ár.

b. Lágmarksaldur ökumanna sem annast farþegaflutninga skal vera 21 ár. 2. Aksturstími (6. gr.):

a. Akstursdagur skal ekki vera lengri en tíu klukkustundir. Tvisvar í viku er heimilt að lengja hann í tólf klukkustundir.

b. Ákvæði 4. undirgr. 1. mgr. gildir einnig um farþegaflutninga innanlands, aðra en reglubundna farþegaflutninga.

c. Heildar aksturstími á hálfum mánuði má ekki fara yfir 100 klukkustundir. 3. Hlé (1. - 3. mgr. 7. gr.):

a. Eftir akstur í fjóra og hálfa klukkustund skal ökumaður taka sér hlé frá akstri í a.m.k. 30 mínútur, nema hvíldartími sé að hefjast hjá honum.

b. Þrátt fyrir ákvæði a-liðar er heimilt að skipta hléunum í allt að þrjú hlé á aksturstímanum, eða að hluta þegar akstri lýkur. 4. Hvíldartími (1. - 3. mgr. 8. gr.):

a. Á sólarhrings fresti skal ökumaður fá daglegan hvíldartíma sem er a.m.k. tíu klukkustundir samfellt, en heimilt er að stytta hann í átta klukkustundir samfellt hið minnsta, þó ekki oftar en þrisvar í einni viku.

b. Í viku hverri skal eitt hvíldartímabil skv. a-lið framlengt í vikulegan samfelldan hvíldartíma í a.m.k. 36 klukkustundir.

3. gr.

Ökutæki sem falla undir 1. mgr. 13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3820/85 eru undanþegin ákvæðum um að skrá aksturs- og hvíldartíma með ökurita. Ökumaður slíks ökutækis skal þó eftir því sem unnt er fylgja reglum um aksturs- og hvíldartíma.

Ökuriti.

4. gr.

Með vísun til 2. mgr. 3. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3821/85 er eigi skylt að búa ökutæki sem falla undir 1. mgr. 13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3820/85 ökurita, enda sé ökutækið í flutningum hér á landi.

5. gr.

Ökutæki sem fellur undir ákvæði reglugerðar þessarar skal frá gildistöku hennar búið ökurita.

Ábyrgð eiganda.

6. gr.

Skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) ökutækis ber ábyrgð á að ökuriti skrái hverju sinni réttar upplýsingar og sýni raunhraða ökutækisins. Hann skal og sjá til þess að allar tengingar milli aflrásar og ökurita séu innsiglaðar. Eigi sjaldnar en á sex ára fresti skal hann færa ökutækið á verkstæði sem hefur faggildingu til að yfirfara og innsigla ökuritann (sbr. b-lið 3. tölul. VI. kafla í I. viðauka við reglugerð (EBE) nr. 3821/85).

Viðgerð og eftirlit.

7. gr.

Verkstæðismanni sem hefur kunnáttu, verkfæri og aðstöðu til að gera við ökurita og starfar á verkstæði sem er faggilt til slíkrar starfsemi er heimilt að rjúfa innsigli ökurita, gera við hann og innsigla á ný.

Verkstæðismanni sem hefur kunnáttu, verkfæri og aðstöðu til að innsigla tengingar milli aflrásar ökutækis og ökurita og starfar á verkstæði sem er faggilt til slíkrar starfsemi er heimilt, þegar nauðsynlegt er vegna viðgerðar á ökutækinu, að rjúfa innsigli ökurita og innsigla á ný.

8. gr.

Við almenna skoðun bifreiðar skal skoðunarmaður kanna hvort ökuriti starfar eðlilega, hvort uppsetningarplatan sé föst á, hvort innsigli séu órofin og hvort ökuritinn sé með gerðarviðurkenningarmerki og mæla ummál hjólbarða (sbr. a-lið 3. tölul. VI. kafla í I. viðauka við reglugerð (EBE) nr. 3821/85).

9. gr.

Eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar skal fara fram í samræmi við ákvæði tilskipunar nr. 88/599/EBE.

10. gr.

Lögregla og mælaeftirlitsmenn (starfsmenn Vegagerðarinnar) skulu líta eftir að ökuriti sé í ökutæki sem skal búið ökurita samkvæmt reglum þessum, að ökuritinn vinni eðlilega og að hann sé notaður eins og til er ætlast, svo og að aksturs- og hvíldartími ökumanna sé í samræmi við ákvæði í reglum þessum, sbr. EBE tilskipun nr. 88/599. Fyrir byrjun hvers árs skal setja upp skipurit fyrir eftirlitsstarfsemi ársins.

Gildistaka.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 6. mgr. 44. gr., 60. gr. og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44 7. maí 1993, svo og með hliðsjón af 20., 21. og 23. tölul. XIII. viðauka EES samningsins, öðlast gildi 1. maí 1995.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ökutæki sem fellur undir ákvæði reglna þessara og er aðeins í innanlandsflutningum skal svo fljótt sem unnt er, þó ekki síðar en 31. ágúst 1995, búið ökurita samkvæmt reglum þessum. Þar til slíkt ökutæki hefur verið búið ökurita skal ökumaður skrá aksturs- og hvíldartíma í akstursbók sem ávallt skal vera í ökutækinu. Ráðuneytið getur kveðið nánar á um hvenær ökutækið skuli búið ökurita eftir því hvar á landinu það er notað.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 3. mars 1995 .

Þorsteinn Pálsson .

Ólafur W. Stefánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica