Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

250/1992

Reglugerð um lögreglustjórasáttir. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um lögreglustjórasáttir.

1. gr.

Lögreglustjórum er heimilt að afgreiða með sáttargerð kærur, sem þeim berast, um brot sem þeir hafa ákæruvald um samkvæmt 28. gr. laga um meðferð opinberra mála. Sáttarheimild samkvæmt 1. mgr. er bundin þeim skilyrðum að lögreglustjóri telji að sekt

við brotinu fari ekki fram úr kr. 75 000, svipting ökuleyfis fari ekki fram úr einu ári, eða verðmæti þess, sem gera skal upptækt, fari ekki fram úr kr. 25 000.

2. gr.

Ríkissaksóknari lætur lögreglustjórum í té skrá yfir brot þau, sem sáttarheimild samkvæmt 1. gr. nær til. Í skránni skulu vera leiðbeiningar um sektarfjárhæð fyrir hverja tegund brots.

Í skránni skulu einnig vera leiðbeiningar um í hvaða tilvikum svipta skuli sakborning ökuleyfi og um lengd sviptingartíma.

3. gr.

Meðferð mála, sem lögreglustjóra er heimilt að afgreiða með sátt, er skipt í tvo flokka. Undir hvorn flokkinn brot fellur fer eftir því hvort niðurstaða máls er færð í sakarskrá eða ekki.

4. gr.

Þegar lögreglustjóra hefur borist kæra um brot og hann hefur ákveðið að gefa sakborningi kost á að ljúka máli með sátt og niðurstaða máls færist ekki í sakaskrá, sendir hann sakborningi, innan mánaðar frá því honum barst kæran, gíróseðil þar sem fram kemur í stuttu máli lýsing á broti, hvenær það var framið, hvaða refsiákvæði brot varðar við, númer máls og viðvörun um það hverju greiðslufall varði. Greint skal frá því að sakborningur eigi þess kost að ljúka máli með greiðslu tiltekinnar sektar innan tveggja vikna frá dagsetningu gíróseðilsins, auk greiðslu sakarkostnaðar og upptöku eigna ef því er að skipta. Fjárhæðir skulu sundurliðaðar og þær eignir tilgreindar sem gerðar verða upptækar.

Í stað gíróseðils getur lögreglustjóri sent sakborningi bréflegt sáttarboð sem greini sömu atriði og í 1. mgr.

5. gr.

Þegar lögreglustjóra hefur borist kæra um brot og hann hefur ákveðið að gefa sakborningi kost á að ljúka máli með sátt og niðurstaða máls færist í sakaskrá, sendir hann sakborningi, innan mánaðar frá því honum barst kæran, kvaðningu um að mæta á lögreglustöð eða skrifstofu lögreglustjóra innan tveggja vikna frá dagsetningu kvaðningar. Í kvaðningu skal koma fram lýsing á broti, hvenær brot var framið, hvaða refsiákvæði brot varðar við, númer máls og að sakborningi verði gefinn kostur á að ljúka málinu með sátt og hverju það varði sakborning ef hann sinnir ekki sáttarboði. Í kvaðningu skal einnig greina sektarfjárhæð, auk sakarkostnaðar, tímalengd ökuleyfissviptingar og upptöku eigna ef því er að skipta.

Ef sakborningur játar brot og fellst á að ljúka máli með þeim hætti sem í kvaðningu greinir, undirritar hann sáttargerð þess efnis.

Ákveða skal í sáttargerð frest til greiðslu sektar, þó ekki lengri en fjórar vikur frá dagsetningu sáttar.

6. gr.

Ef sakborningur vill ljúka máli samkvæmt 4. gr. og kemur á skrifstofu lögreglustjóra innan tveggja vikna frá dagsetningu gíróseðils og fer fram á greiðslufrest, er heimilt að veita honum frest í allt að fjórar vikur. Í slíkum tilvikum skal gerð við hann sátt samkvæmt 5. gr.

7. gr.

Ef sakborningur greiðir ekki heimsendan gíróseðil samkvæmt 1. mgr. 4. gr. innan tveggja vikna frá dagsetningu hans, er heimilt að senda honum ítrekun. Þar skal koma fram að sakborningi sé gefinn kostur á að greiða gíróseðilinn innan 10 daga frá dagsetningu ítrekunarbréfsins, ella taki lögreglustjóri ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum laga um meðferð opinberra mála.

Ef sakborningur hefur ekki sinnt kvaðningu lögreglustjóra samkvæmt 1. mgr. 5. gr., er heimilt að senda honum nýja kvaðningu. Í henni skal sakborningi gefinn lokafrestur til að ljúka máli með lögreglustjórasátt, ella taki lögreglustjóri ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum laga um meðferð opinberra mála.

8. gr.

Nú synjar sakborningur sáttarboði lögreglustjóra eða sinnir því ekki, og tekur þá lögreglustjóri ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum laga um meðferð opinberra mála. Hafi sakborningur fallist skriflega á sáttarboð, en greiðir ekki sekt innan þess frests sem

tiltekinn var í sáttargerð, getur lögreglustjóri, í stað þess að ákveða saksókn, krafist fullnustu ákvörðunar með aðför. Um aðförina fer þá eftir fyrirmælum aðfararlaga um aðför eftir sátt sem komist hefur á fyrir yfirvaldi.

9. gr.

Lögreglustjóri skal færa í kæruskrá dagsetningu ákvörðunar um að bjóða sakborningi að ljúka máli með lögreglustjórasátt og dagsetningu ítrekunar ef því er að skipta.

Með sama hætti skal færa niðurstöður máls í kæruskrá. Sé mál tekið til endurskoðunar vegna greiðslufalls sakbornings skal það jafnframt skráð í kæruskrá.

10. gr.

Nú telur ríkissaksóknari að saklaus maður hafi verið látinn gangast undir lögreglustjórasátt eða að málalok hafi verið fjarstæð að öðru leyti, og getur hann þá innan mánaðar frá því að honum barst vitneskja um þau fellt sáttina úr gildi, enda sé þá ekki liðið ár frá málalokum.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 2. og 5. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19 26. mars 1991, öðlast gildi 1. júlí 1992.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um sektargerðir lögreglustjóra nr. 47 5. febrúar 1982.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 29. júní 1992.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn A. Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica