Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

838/2012

Reglugerð um tímabunda lækkun sérstaks veiðigjalds samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða við lög um veiðigjöld, nr. 74/2012. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi mælir fyrir um skilyrði lækkunar sérstaks veiðigjalds vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum fyrir gildistöku laga um veiðigjöld nr. 74/2012.

2. gr.

Orðskýringar.

Merking hugtaka er í reglugerð þessari sem hér segir:

  1. Keypt aflahlutdeild: Aflahlutdeildir sem handhafi hefur öðlast gegn greiðslu þ.m.t. með kaupum félags á öðru félagi sem átti aflahlutdeild, enda hafi félögin síðan verið sameinuð í samræmi við 51. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Láti handhafi aflahlutdeildar frá sér aflahlutdeild með sölu á henni, skiptum við aðra aflahlutdeild eða með skiptingu á félagi, telst hún ekki lengur til aflahlutdeilda í hans hendi. Á hverjum tíma skal litið svo á að fyrst láti handhafi frá sér þann hluta aflahlutdeildar sem telst til keyptra aflahlutdeilda, en úthlutaðri aflahlutdeild sé ráðstafað eftir að allri keyptri aflahlutdeild hefur verið ráðstafað. Kaup öðlast gildi við skráningu hjá Fiskistofu.
  2. Ófyrnanlegar eignir: Óefnislegar eignir, reitur 5010, í skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04.
  3. Peningalegar eignir: Reiknuð samtala eigna samkvæmt skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04, sem hér segir: Eignir samtals, reitur 5990, að frádregnum: óefnislegum eignum, reitur 5010, fasteignum, reitur 5022, öðrum varanlegum rekstrarfjármunum, reitur 5027, hráefnisbirgðum, reitur 5090, vörum og verkum í vinnslu, reitur 5100, birgðum fullunninna vara, reitur 5110 og vörubirgðum, reitur 5120.
  4. Reiknað stofnverð rekstrarfjármuna: Kaupverð eigna, sem færðar eru á eignaskrá RSK 4.01 með skattframtali rekstraraðila, án afskrifta, að teknu tilliti til breytinga á vísitölu byggingarkostnaðar frá meðaltali kaupárs samkvæmt skattframtali til meðaltals ársins 2011 (537,0 stig). Eignir sem færðar eru í fyrningarflokka 09 11 til 09 23 á eignaskránni, kvóti í fiskveiðum, teljast ekki með við ákvörðun stofnverðs rekstrarfjármuna. Kaupverð eigna sem keyptar voru fyrir 1. janúar 2002 er endurmetið stofnverð þeirra eins og það var tilgreint í eignaskrá að teknu tilliti til breytinga á vísitölu byggingarkostnaðar frá meðaltali ársins 2001 (256,7 stig) til meðaltals ársins 2011.
  5. Vaxtaberandi skuldir: Reiknuð samtala skulda samkvæmt skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04, reitur 6990, að frádregnum: eftirlaunaskuldbindingum, reitur 6710, tekjuskattsskuldbindingum, reitur 6720, skuldum við tengda aðila, sem ekki eru vaxtaberandi, reitur 6740, innborgunum fyrir afhendingu, reitir 6785 og 6795, ógreiddum virðisaukaskatti, reitur 6825, og fyrirfram innheimtum tekjum, reitur 6830.
  6. Vaxtagjöld: Vaxtagjöld, verðbætur o.þ.h., þ.m.t. lántökukostnaður, reitur 3640, í skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04.

3. gr.

Stjórnvöld.

Fiskistofa tekur ákvarðanir um lækkun sérstaks veiðigjalds samkvæmt reglugerð þessari. Ákvörðun skal tilkynnt gjaldanda innan 4 vikna frá því að fullnægjandi umsókn með öllum áskildum gögnum barst Fiskistofu, sbr. 9. gr.

Ákvarðanir Fiskistofu má bera skriflega undir þann ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál til úrskurðar innan þriggja mánuða frá því gjaldanda var tilkynnt um ákvörðun.

II. KAFLI

Lækkun sérstaks veiðigjalds 2012/2013.

4. gr.

Almennt skilyrði lækkunar.

Gjaldandi sérstaks veiðigjalds á rétt á lækkun gjaldsins vegna fiskveiðiársins 2012/2013, ef keypt aflahlutdeild, sbr. 1. tl. 2. gr., er í handhöfn hans, við upphaf fiskveiðiársins 2012/2013 og á hann hefur verið lögð skylda til greiðslu veiðigjalda af aflamarki samkvæmt henni fyrir það fiskveiðiár.

5. gr.

Ákvörðun lækkunar.

Gjaldandi sérstaks veiðigjalds skv. 4. gr. á rétt á lækkun gjaldsins vegna fiskveiðiársins 2012/2013, um fjárhæð sem nemur því hlutfalli vaxtagjalda samkvæmt skattframtali 2012 (tekjuárið 2011); sem vaxtaberandi skuldir skv. 5. tl. 2. gr. að frádregnum peningalegum eignum skv. 3. tl. 2. gr., eru sem hlutfall af vaxtaberandi skuldum skv. 5. tl. 2. gr., eftir að frá þannig reiknuðum vaxtagjöldum hafa verið dregin 4% af reiknuðu stofnverði rekstrar­fjármuna.

Lækkun sérstaks veiðigjald skal ekki vera hærri en 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna, sbr. 2. tl. 2. gr. samkvæmt skattframtali 2012 (tekjuárið 2011).

Fjárhæð lækkunar sérstaks veiðigjalds ákvarðast aldrei hærri en álagt sérstakt veiðigjald.

6. gr.

Skuldir vegna kaupa á aflahlutdeild hjá öðrum en handhafa þeirra.

Heimilt er, samkvæmt beiðni gjaldanda sérstaks veiðigjalds skv. 4. gr. (handhafa afla­hlutdeildar), að taka tillit til skulda annars aðila vegna kaupa á aflahlutdeild við ákvörðun skv. 5. gr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Handhafi aflahlutdeildarinnar tók ekki á sig fjárskuldbindingar vegna kaupanna, þ.e. með greiðslu reiðufjár eða skuldsetningu.
  2. Aflahlutdeild og skuld vegna kaupa á henni eru bókfærðar hjá öðrum aðila sem hefur gert samkomulag við handhafa aflahlutdeildarinnar um nýtingu hennar gegn greiðslu.

Séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt er heimilt við ákvörðun lækkunar sérstaks veiðigjalds (hjá hand­hafa aflahlutdeildar) að taka tillit til skulda og vaxtagjalda annars aðila, vegna keyptra afla­hlutdeilda, sem hér segir:

  1. Óefnislegar eignir, sbr. 2. tl. 2. gr. skulu hækkaðar um fjárhæð sem svarar til kaup­verðs á þeirri aflahlutdeild sem fellur undir ákvæði 1. mgr. Miða skal við meðal­verð allra keyptra aflahlutdeilda hjá viðkomandi aðila.
  2. Vaxtaberandi skuldir, sbr. 5. tl. 2. gr. skulu hækkaðar um fjárhæð sem svarar til skulda sbr. 2. tl. 1. mgr., en þó eigi um hærri fjárhæð en sem nemur hækkun óefnis­legra eigna sbr. 1. tl.
  3. Vaxtagjöld sbr. 6. tl. 2. gr. skulu hækkuð um 4% af hækkun vaxtaberandi skulda skv. 2. tl., en þó eigi um hærri fjárhæð en sem nemur greiðslu fyrir nýtingu afla­hlutdeildarinnar sbr. 2. tl. 1. mgr.

Þær viðbætur sem færðar eru hjá handhafa aflahlutdeildar skv. 2. mgr. koma til frádráttar við ákvörðun mögulegrar lækkunar veiðigjalds hjá því félagi sem ber skuldsetninguna.

Með beiðni samkvæmt þessari grein skal gera sérstaka grein fyrir þeim aflahlutdeildum sem falla undir 1. tl. 1. mgr. og leggja fram þá samninga eða aðra löggerninga sem eru til grund­vallar þeirri aðstöðu sem lýst er í 2. tl. 1. mgr. Með beiðninni skal fylgja staðfesting allra hlutaðeigandi félaga um réttmæti þessara upplýsinga. Eftir því sem við á skal byggt á árs­reikn­ingum hlutaðeigandi félaga og skattframtölum 2012 (tekjuárið 2011). Ákvæði 3. mgr. 7. gr. skulu eiga við, eftir því sem við á, um mat á þeim upplýsingum sem fjallað er um í þessari grein.

7. gr.

Kaup aflahlutdeildar á árinu 2012 fram að gildistöku laga um veiðigjöld.

Hafi gjaldandi veiðigjalds keypt aflahlutdeild á tímabilinu 1. janúar til 5. júlí 2012 og vaxta­kostnaður hans hefur aukist af þeim sökum, getur hann óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun lækkunar sérstaks veiðigjalds skv. 5. gr. vegna fiskveiðiársins 2012/2013. Í þeim tilvikum skal umsækjandi tilgreina aflahlutdeildina, kaupverð hennar, fjárhæð lána sem tengjast kaupunum og vaxtagjöld vegna þeirra. Umsókn skulu fylgja gögn vegna kaupanna s.s. myndrit af kaupsamningi og viðkomandi lánasamningi.

Við útreikning á lækkun veiðigjalds vegna þeirra aðstæðna sem í 1. mgr. getur skal bæta kaupverði aflaheimilda við ófyrnanlegar eignir og fjárhæð lána, vegna kaupanna, við vaxtaberandi skuldir. Reikna skal 4% vaxtagjöld af viðkomandi lánum miðað við heilt ár og bæta þeim við vaxtagjöld ársins 2011. Þó er heimilt að miða við vexti af lánum vegna kaupa aflahlutdeildar á árinu 2012 ef gjaldandi veiðigjalds sýnir fram á þá með vísun til gagna skv. 1. mgr. Hafi peningalegar eignir verið notaðar til að fjármagna kaupin að hluta skal lækka peningalegar eignir um þá fjárhæð áður en þær eru dregnar frá vaxtaberandi skuldum.

Ef uppgefið kaupverð er óeðlilega hátt getur Fiskistofa metið hvað telja skuli eðlilegt kaup­verð miðað við verð í sambærilegum viðskiptum á sama tíma. Sama á við um óeðlilega háan vaxtakostnað. Fjárhæð lána sem tekið er mið af við lækkun sérstaks veiðigjalds sam­kvæmt þessari grein getur aldrei verið hærri en kaupverð viðkomandi aflahlutdeilda.

8. gr.

Annað reikningsár en almanaksár.

Ákvörðun um lækkun sérstaks veiðigjalds skal ávallt byggja á upplýsingum úr skattframtali rekstraraðila 2012, einnig í þeim tilvikum þar sem umsækjandi hefur fengið heimild ríkis­skattstjóra til að miða reikningsár sitt við annað reikningsár en almanaksárið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

9. gr.

Umsókn.

Umsókn um lækkun á sérstöku veiðigjaldi vegna fiskveiðiársins 2012/2013, árituð af um­sækjanda, skal hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 1. nóvember 2012, á því formi sem Fiski­stofa ákveður. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um vaxtaberandi skuldir, peninga­legar eignir, reiknað stofnverð rekstrarfjármuna og keyptar aflahlutdeildir við árslok 2011. Þá skal einnig gera grein fyrir viðskiptum með aflahlutdeildir, sem hafa öðlast gildi með skrán­ingu á tímabilinu 1. janúar til 5. júlí 2012. Með umsókninni skulu fylgja þessi gögn:

  1. Skattframtal 2012 (tekjuárið 2011) ásamt meðfylgjandi ársreikningi og eignaskrá RSK 4.01.
  2. Gögn sem nefnd eru í 4. mgr. 6. gr., ef við á.
  3. Gögn sem nefnd eru í 1. mgr. 7. gr., ef við á.

Umsókn skal fela í sér umboð til handa Fiskistofu til að afla þeirra upplýsinga frá ríkis­skattstjóra, sem nauðsynlegar teljast til að staðreyna þær forsendur sem lagðar verða til grund­vallar við ákvörðun um lækkun sérstaks veiðigjalds samkvæmt reglugerð þessari.

Hafi einstaklingur í atvinnurekstri sem sækir um lækkun á sérstöku veiðigjaldi verið með veltu undir 20 milljónum króna á árinu 2011 og skilað rekstrarskýrslu RSK 4.11, skal hann, skila með umsókn sinni skattframtali rekstraraðila RSK 1.04, ásamt staðfestu afriti af persónuframtali sínu með fylgigögnum.

Sé umsókn eða fylgigögn hennar ófullnægjandi skal veita gjaldanda hæfilegan frest, í allt að tvo mánuði, til að skila inn fullnægjandi gögnum.

III. KAFLI

Lækkun sérstaks veiðigjalds 2013/2014 - 2017/2018.

10. gr.

Ákvörðun lækkunar 2013/2014 - 2017/2018.

Ákvörðuð fjárhæð til lækkunar á sérstöku veiðigjaldi vegna fiskveiðiársins 2012/2013, skv. ákvæðum II. kafla, gildir einnig fyrir fiskveiðiárin 2013/2014 til 2017/2018, en þó þannig að fjárhæðir skv. 1. og 2. mgr. 5. gr. taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs frá desember 2011 til desember á næsta ári fyrir upphaf fiskveiðiársins.

Hafi gjaldandi veiðigjalds selt eða látið frá sér með öðrum hætti keypta aflahlutdeild eftir 1. janúar 2012, skal árlegur réttur hans til lækkunar sérstaks veiðigjalds skv. 1. mgr. sæta skerðingu í samræmi við hlutfall seldra aflahlutdeilda af keyptum aflahlutdeildum í heild. Á hverjum tíma skal litið svo á að fyrst sé seldur sá hluti aflahlutdeildar sem telst til keyptra aflahlutdeilda, en úthlutaðri aflahlutdeild sé ráðstafað eftir að öll keypt aflahlutdeild hefur verið seld. Hlutfallið sem kemur til lækkunar skal byggt á þorskígildum þess fiskveiðiárs sem ákvörðunin um lækkun varðar.

Umsókn um lækkun sérstaks veiðigjalds vegna fiskveiðiáranna 2013/2014 til 2017/2018 skal berast Fiskistofu á tímabilinu frá 1.-15. ágúst hvers árs. Umsókn skulu fylgja upplýsingar um kaup og sölu aflahlutdeilda eftir 1. janúar 2012.

IV. KAFLI

Framkvæmd o.fl.

11. gr.

Framkvæmd lækkunar.

Ákvarðaðri fjárhæð vegna lækkunar sérstaks veiðigjalds skal jafnað á gjalddaga veiðigjalds skv. III. kafla laga um veiðigjöld.

12. gr.

Lagaheimild og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í ákvæði II til bráðabirgða við lög nr. 74/2012 um veiðigjöld, öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. október 2012.

Steingrímur J. Sigfússon.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica