Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

756/2012

Reglugerð um ráðstöfun aflaheimilda í íslenskri sumargotssíld á fiskveiðiárinu 2012/2013. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um úthlutun aflaheimilda í íslenskri sumargotssíld skv. ákvæði VIII til bráðabirgða í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

2. gr.

Úthluta skal allt að 500 lestum af íslenskri sumargotssíld á fiskveiðiárinu 2012/2013 til skipa allt að 200 brúttótonn að stærð og ekki stunda veiðar með vörpu.

Heimilt er að úthluta á skip allt að 8 lestum í senn gegn greiðslu gjalds enda hafi viðkomandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni. Úthlutun hverju sinni er bundin því skilyrði að skip hafi veitt 80% af áður úthlutuðum heimildum samkvæmt þessari grein.

3. gr.

Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda á grundvelli umsókna og skal vikulega úthluta aflaheimildum á grundvelli umsókna sem borist hafa undanfarandi viku.

Ef umsóknir um aflaheimildir eru umfram þær aflaheimildir sem til ráðstöfunar eru skal Fiskistofa skipta því sem til ráðstöfunar er jafnt á milli umsækjenda, enda hafi umsækjandi ekki sótt um minna magn en því nemur. Verð á aflaheimildum íslenskrar sumargotssíldar er 13 kr. hvert kg og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Hafi gjald ekki verið greitt í síðasta lagi á öðrum virkum degi úthlutunarviku fellur réttur útgerðar til úthlutunar á grundvelli umsóknarinnar niður og skiptast aflaheimildirnar á önnur skip enda hafi úthlutun þeirra ekki numið 8 lestum.

Á heimasíðu Fiskistofu skal vikulega birta upplýsingar um magn sumargotssíldar sem til ráðstöfunar er.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi.

Reglugerð nr. 931/2011 um ráðstöfun aflaheimilda í íslenskri sumargotssíld á fiskveiði­árinu 2011/2012 er felld úr gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. september 2012.

F. h. r.

Kristján Skarphéðinsson.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica