Brottfallnar reglugerðir

12/2002

Reglugerð um útrýmingu fjárkláða í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. - Brottfallin

012/2002

REGLUGERÐ
um útrýmingu fjárkláða í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum.

1. gr.
Gildissvið.

Ákvæði reglugerðar þessarar ná til eigenda sauðfjár, geitfjár og stórgripa (nautgripa og hrossa) auk húsa fyrir búfé á svæði sem afmarkast af Miðfjarðarvarnarlínu í vestri og Héraðsvötnum í austri. Vatnsneshólf er þó undanskilið. Ákvæðin ná einnig til eigenda fyrrgreinds búfjár og húsa í Fitjárdal vestan Miðfjarðarvarnarlínu og austan Héraðsvatnalínu í Hólahreppi og Viðvíkurhreppi hinum fornu suður að Gljúfurá og einnig til bæjarins Ytri- Hofdala sunnan Gljúfurár.

Ákvæðin geta náð til sauð- og geitfjár, sem látið hefur verið til lífs til svæða þar sem ekki verður meðhöndlað og til fjár, sem eigendur utan svæðisins hafa tekið heim úr réttum og frá einstökum bæjum á svæðinu.

Þar sem fé er nefnt í reglugerð þessari er átt við sauðfé og geitfé.


2. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að útrýma fjárkláða á svæðinu sem getið er um í 1. mgr. 1. gr. Aðgerðin skal fara fram á tímabilinu 15. janúar til 15. mars 2002. Í aðgerðinni felst meðhöndlun með kláðalyfi á öllu fé og öllum stórgripum sem hýstir eru með fé á fyrrgreindu svæði og úða skal fjárhús og búnað tvisvar með mauraeitri.

Sérstakar eftirleitir afrétta og eyðijarða, á landi og/eða úr lofti, skulu framkvæmdar á vegum viðkomandi sveitarstjórna, áður en meðhöndlun hefst á viðkomandi svæði, telji sveitarstjórn þörf á því, til að tryggja sem unnt er að allt fé sem ekki hefur náðst hafi þá verið handsamað. Fjáreigendum er skylt að hreinsa sín heimalönd og halda fé sínu á húsi eða heima við, einangruðu frá fé annarra bæja vegna hættu á endursmitun og hafa það tiltækt á ofangreindu tímabili.


3. gr.
Hlutverkaskipting.

Yfirdýralæknir annast yfirumsjón með aðgerð til útrýmingar fjárkláðans í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Dýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma, héraðsdýralæknar, dýralæknar, ráðunautar búnaðarsambanda, búfjáreftirlitsmenn og bændur skulu aðstoða við eftirlit með framkvæmdinni. Halda skal samráðsfundi eftir þörfum.

Dýralæknar ásamt og undir umsjón viðkomandi héraðsdýralæknis skulu annast alla meðhöndlun dýra vegna aðgerðarinnar. Fjáreigendur skulu vísa öllu sínu fé fram til meðhöndlunar. Þeir skulu rýja féð fyrir meðhöndlun þar sem það er unnt, en snyrta féð þar sem rúningi verður ekki við komið, svo að ekki komi til þess að tvíreyfum sé vísað fram. Fjáreigendur skulu sjá um grófhreinsun fjárhúsa skv. nánari fyrirmælum yfirdýralæknis. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að grófhreinsun sé lokið fyrir meðhöndlun og skipuleggur aðstoð þar sem hennar er þörf. Hreinsun fjárhúsanna með mauraeitri skal framkvæmd af sérstökum mönnum sem sveitarstjórnir ráða til verksins.

Stjórnvöld leggja til kláðalyf og mauraeitur.


4. gr.
Framkvæmd.

Miðað skal við að aðgerðin fari fram á sem skemmstum tíma í hverju sveitarfélagi. Fé skal meðhöndla einu sinni með langvirku kláðalyfi samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis.

Á bæjum þar sem kláði hefur greinst á síðastliðnum 10 árum eða sterkar líkur eru á því að hann leynist, skal meðhöndla féð tvisvar með 7 til 21 daga millibili og endurtaka aðgerðina á sama hátt og á sömu bæjum að ári liðnu. Ákvörðun um þetta tekur yfirdýralæknir.

Stórgripir sem eru með fé á húsi geta borið lifandi maura í 30 daga og því skal aðskilja stórgripina frá fénu. Sé þess ekki kostur skal meðhöndlunin einnig ná til stórgripanna og vera á kostnað eigendanna að öllu leyti. Nægilegur aðskilnaður milli fjár og stórgripa vegna aðgerðar gegn fjárkláða telst léttur veggur 1,8-2,0 m að hæð, klæddur þolplasti, enda séu þrif fullnægjandi að mati yfirdýralæknis í báðum deildum og úðun með mauraeitri framkvæmd sérstaklega. Strax eftir að veggur hefur verið settur upp má meðhöndla féð, enda sé úðað með mauraeitri í báðum deildum tvisvar sinnum með 7 til 21 daga millibili. Í fyrra skiptið skal úða samdægurs en eftir að féð er meðhöndlað. Aðstaða skal vera tiltæk til skipta á skófatnaði og hlífðarfötum þegar farið er á milli deilda og hún notuð. Auk þess skal þvo hendur, ef snerta þarf gripi í báðum deildum í einn mánuð eftir aðskilnað. Hindra skal för hunda, katta og annarra húsdýra eftir því sem unnt er. Hafi fullnægjandi aðskilnaður að mati yfirdýralæknis verið í sama húsi í 30 daga eða lengur, þarf ekki að hafa aðstöðu til skó- og fataskipta.

Öll hús sem ofangreind dýr hafa komið í skal úða með mauraeitri á sama sólarhring og meðhöndlun fer fram í fyrra skiptið og aftur 7 til 21 dögum síðar. Fyrir úðun og áður en meðhöndlun hefst skal fjarlægja alla lausa muni og þeir hlutir sem hætta er á að komist í snertingu við féð úðaðir sérstaklega. Að auki skal tæma öll drykkjarílát fyrir úðun og skola að úðun lokinni. Hús sem aðeins eru notuð hluta ársins (á sauðburði, t.d. hlöður og hús eða skýli í óbyggðum við smalanir), skal grófhreinsa og úða með mauraeitri tvisvar sinnum með 7 til 21 daga millibili áður en fé kemur í þau aftur.

Yfirdýralæknir getur ákveðið að heimilt sé að nota önnur kláðalyf og mauraeitur við sérstakar aðstæður.


5. gr.
Söfnun upplýsinga og varrúðarráðstafanir.

Sveitarstjórnir (fjallskilanefndir) skulu safna upplýsingum og gera lista yfir fé af svæðinu, sem vantar á heimtur. Ennfremur skulu sveitarstjórnir safna upplýsingum um fé sem látið hefur verið til lífs af svæðinu og það sama gildir um utansvæðisfé sem haft hefur samgang við fé af svæðinu, t.d. tekið heim úr réttum þar eða af einstökum bæjum. Afhenda skal yfirdýralækni listana. Utansvæðisféð sem sett hefur verið á skal dýralæknir skoða, taka af sýni og meðhöndla eftir því sem ástæða er til að mati yfirdýralæknis.

Vanti fé á heimtur, þegar aðgerðir gegn fjárkláða fara fram, eða ef fresta verður aðgerðum á hluta dýranna af óviðráðanlegum orsökum, skal allt meðhöndlað fé auðkennt á öruggan hátt og því haldið tryggilega aðskildu frá ómeðhöndluðu fé, þar til allt fé á bænum hefur verið meðhöndlað. Slík frávik má aðeins leyfa að fengnu leyfi yfirdýralæknis. Fé sem ekki verður handsamað eða ekki næst til einangrunar skal fella og urða áður en fé kemur á þær slóðir aftur.

Verði aðkomukinda vart eða óheimtra eigin kinda, eftir að meðhöndlun hefur farið fram, skal fjáreigandi tafarlaust hindra samgang við heimafé, sé þess kostur, og einangra þessar kindur í húsi sem ekki er notað fyrir dýr og tilkynna héraðsdýralækni eða dýralækni sauðfjár- og nautgripasjúkdóma sem gefa nánari fyrirmæli um aðgerðir.


6. gr.
Kostnaðarskipting.

Kostnaði vegna aðgerðanna skal skipta þannig:
Ríkissjóður greiðir efniskostnað vegna lyfja og mauraeiturs.

Bændur greiða kostnað vegna vinnu og ferðakostnaðar dýralækna við meðhöndlunina og sjá um grófhreinsun húsa.

Viðkomandi sveitarfélög greiða kostnað vegna vinnu manna sem annast úðun mauraeiturs. Sama gildir um sérstakar eftirleitir sem framkvæmdar verða vegna aðgerða þessara.


7. gr.
Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum.

Þeir eigendur búfjár sem fjallað er um í reglugerðinni og ekki fara að fyrirmælum hennar skulu greiða allan kostnað sem hlýst af töfum og aðgerðum sem framkvæmdar verða til að dýr þeirra og hús séu meðhöndluð með sama hætti og annarra búfjáreiganda á fyrrgreindu svæði. Tjón sem hlýst vegna tafa á framkvæmd aðgerða sem búfjáreigandi hefur orsakað og vegna aðgerða sem framkvæmdar eru í framhaldi af þeim töfum ber búfjáreigandi. Að öðru leyti skal farið með mál út af brotum að hætti opinberra mála.


8. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Landbúnaðarráðuneytinu, 15. janúar 2002.

Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica