Landbúnaðarráðuneyti

64/2003

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 12/2002 um útrýmingu fjárkláða í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. - Brottfallin

064/2003

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 12/2002 um útrýmingu fjárkláða
í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum.

1. gr.

Í stað núverandi 1.-4. gr. komi eftirfarandi greinar:


1. gr.
Gildissvið.

Ákvæði reglugerðar þessarar ná til sauðfjár og stórgripa (nautgripa og hrossa) auk húsa fyrir búfé á svæði sem afmarkast af Miðfjarðarlínu í vestri og Blöndu í austri að Vatnsneshólfi undanskildu. Reglugerðin nær einnig til búfjár og útihúsa í Fitjárdal, vestan Miðfjarðarlínu og á bæjunum Efri- og Neðri-Torfustöðum í Miðfirði. Í Skagafjarðarsýslu gildir reglugerðin um alla bæi í Gönguskörðum, Laxárdal, Reykjaströnd, Hegranesi og Vallhólma.

Ákvæði reglugerðarinnar ná einnig til búfjár og húsa á svæðinu austan Blöndu í Bólstaðarhlíðarhreppi og í Blönduósbæ.

Hafi fé sem talið er upp í 1. og 2. mgr. verið látið til lífs, til svæða þar sem ekki verður meðhöndlað, ná ákvæði reglugerðarinnar einnig til þess. Sama á við um búfé sem eigendur utan svæðisins hafa tekið heim úr réttum frá einstökum bæjum á svæðinu.

Sömu ákvæði gilda fyrir sauðfé og geitfé og þar sem fé er nefnt í reglugerð þessari er átt við sauðfé og geitfé.

2. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að útrýma fjárkláða á svæðinu sem getið er um í 1. og 2. mgr. 1. gr. Aðgerðin skal fara fram á tímabilinu 1. febrúar til 15. mars 2003.

3. gr.
Meðhöndlun eftir svæðum.

Á svæðinu sem getið er um í 1. mgr. 1. gr. skal meðhöndla í tvö skipti með kláðalyfi allt fé og alla stórgripi sem hýstir eru með fé á fyrrgreindu svæði, en úða skal fjárhús og búnað einu sinni með mauraeitri, að lokinni seinni sprautun.

Á svæðinu sem getið er um í 2. mgr. 1. gr. skal gilda eftirfarandi: Á bæjum þar sem fjárkláði hefur greinst á síðastliðnum 10 árum eða sterkar líkur eru á því að hann leynist, skal meðhöndla féð tvisvar, en aðeins einu sinni á öðrum bæjum á þessu svæði, sbr. aðgerðir gegn fjárkláða á árinu 2002. Úða skal fjárhús og búnað einu sinni með mauraeitri að lokinni sprautun.

4. gr.
Yfirstjórn.

Yfirdýralæknir annast yfirumsjón með aðgerð til útrýmingar fjárkláðans í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Dýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma, héraðsdýralæknar, dýralæknar, ráðunautar búnaðarsambanda, búfjáreftirlitsmenn og bændur skulu aðstoða við eftirlit með framkvæmdinni. Halda skal samráðsfundi eftir þörfum.

Dýralæknar ásamt og undir umsjón viðkomandi héraðsdýralæknis skulu annast alla meðhöndlun dýra vegna aðgerðanna.


2. gr.

Eftirfarandi nýjar greinar koma í stað núverandi 5. og 6. gr:


5. gr.
Skyldur fjáreigenda og sveitarfélaga.

Sérstakar eftirleitir afrétta og eyðijarða, á landi og/eða úr lofti, skulu framkvæmdar á vegum viðkomandi sveitarstjórna, áður en meðhöndlun hefst á viðkomandi svæði, telji sveitarstjórn þörf á því, til að tryggja að allt fé sem ekki hefur náðst hafi þá verið handsamað.

Fjáreigendum er skylt að hreinsmala sín heimalönd og halda fé sínu á húsi eða heima við og hafa það tiltækt á ofangreindu tímabili. Þeir skulu gæta þess að halda fé sínu einangruðu frá fé annarra bæja á meðan á aðgerðum stendur, vegna hættu á endursmitun.

Fjáreigendur skulu vísa öllu sínu fé fram til meðhöndlunar. Þeir skulu rýja féð fyrir meðhöndlun þar sem það er unnt, en snyrta féð þar sem rúningi verður ekki við komið, svo að ekki komi til þess að tvíreyfum sé vísað fram. Fjáreigendur skulu sjá um grófhreinsun fjárhúsa skv. nánari fyrirmælum yfirdýralæknis. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að grófhreinsun sé lokið fyrir meðhöndlun og skipuleggur aðstoð þar sem hennar er þörf. Hreinsun fjárhúsa með mauraeitri skal framkvæmd af sérstökum mönnum sem sveitarstjórnir ráða til verksins.

Stjórnvöld leggja til kláðalyf og mauraeitur.

6. gr.
Framkvæmd.

Miðað skal við að aðgerðir fari fram á sem skemmstum tíma í hverju sveitarfélagi. Það fé sem skal meðhöndla tvisvar, skal sprautað með 7 til 21 daga millibili.

Stórgripir sem eru með fé á húsi geta borið lifandi maura í 30 daga og því skal aðskilja stórgripina frá fénu. Sé þess ekki kostur skal meðhöndlunin einnig ná til stórgripanna og vera á kostnað eigendanna að öllu leyti. Nægilegur aðskilnaður milli fjár og stórgripa vegna aðgerðar gegn fjárkláða telst að lágmarki vera léttur veggur 1,8-2,0 m að hæð, klæddur þolplasti, enda séu þrif fullnægjandi að mati yfirdýralæknis í báðum deildum og úðun með mauraeitri framkvæmd sérstaklega. Strax eftir að veggur hefur verið settur upp má meðhöndla féð, enda sé úðað með mauraeitri í báðum deildum einu sinni eftir síðari sprautun. Aðstaða skal vera tiltæk til skipta á skófatnaði og hlífðarfötum þegar farið er á milli deilda og hún notuð. Auk þess skal gæta fyllsta hreinlætis í báðum deildum í einn mánuð eftir aðskilnað. Hindra skal för hunda, katta og annarra húsdýra eftir því sem unnt er. Hafi fullnægjandi aðskilnaður að mati yfirdýralæknis verið í sama húsi í 30 daga eða lengur, þarf ekki að hafa aðstöðu til skó- og fataskipta.

Öll hús þar sem ofangreind dýr hafa komið í skal úða með mauraeitri á sama sólarhring og meðhöndlun fer fram í síðara skiptið. Fyrir úðun og áður en meðhöndlun hefst skal fjarlægja alla lausa muni og þeir hlutir sem hætta er á að komist í snertingu við féð úðaðir sérstaklega. Að auki skal tæma öll drykkjarílát fyrir úðun og skola að úðun lokinni. Hús sem aðeins eru notuð hluta ársins (á sauðburði, t.d. hlöður og hús eða skýli í óbyggðum við smalanir), skal grófhreinsa og úða með mauraeitri einu sinni áður en fé kemur í þau aftur.

Yfirdýralæknir getur ákveðið að heimilt sé að nota önnur kláðalyf og mauraeitur við sérstakar aðstæður.


3. gr.

Núverandi 5. gr. fær nýtt númer og verður 7. gr. Núverandi 6. gr. fær nýtt númer og verður 8. gr. Aðrar greinar sem á eftir fylgja fá ný númer í samræmi við það.


4. gr.
Gildistaka og brottfall.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Reglugerðin gildir til 1. apríl 2003. Þann dag fellur einnig úr gildi reglugerð um sama efni nr. 12/2002.


Landbúnaðarráðuneytinu, 31. janúar 2003.

F. h. r.
Guðmundur B. Helgason.
Atli Már Ingólfsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica