Viðskiptaráðuneyti

995/2007

Reglugerð um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Efni og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fjármálafyrirtæki og hefur að geyma reglur um framkvæmd ákvæða II. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir:

1)

Starfsmaður fjármálafyrirtækis:

 

a)

stjórnarmaður, meðeigandi eða samsvarandi aðili, stjórnandi eða einka­umboðsmaður fjármálafyrirtækisins,

 

b)

stjórnarmaður, meðeigandi eða samsvarandi aðili, eða stjórnandi hjá einka­umboðsmanni fjármálafyrirtækisins,

 

c)

starfsmaður fjármálafyrirtækisins eða einkaumboðsmanns þess, eða hver sá einstaklingur sem starfar undir stjórn fjármálafyrirtækisins eða einka­umboðs­manns þess og á þátt í að veita þjónustu fjármálafyrirtækisins á sviði verðbréfaviðskipta,

 

d)

einstaklingur sem á beinan þátt í að veita fjármálafyrirtæki eða einka­umboðsmanni þess þjónustu á grundvelli samnings um útvistun þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.

2)

Aðili sem tengdur er starfsmanni fjármálafyrirtækis fjölskylduböndum:

 

a)

maki, maki í staðfestri samvist eða sambúðarmaki starfsmanns fjármála­fyrirtækis,

 

b)

barn, kjörbarn eða stjúpbarn starfsmanns fjármálafyrirtækis sem er á hans framfæri,

 

c)

önnur skyldmenni starfsmanns fjármálafyrirtækis sem hafa búið á sama heimili og hann í a.m.k. eitt ár miðað við þann dag sem tiltekin viðskipti fara fram.

3)

Dreifileiðir: Leiðir til að miðla upplýsingum sem verða þar með aðgengilegar almenningi, eða líklegt er að verði aðgengilegar almenningi, svo sem ef henni er dreift til stórs hóps manna.

4)

Eigin viðskipti: Viðskipti með fjármálagerning sem eru framkvæmd af eða fyrir hönd starfsmanns fjármálafyrirtækis þegar a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:

 

a)

viðskiptin eiga sér stað utan verksviðs hlutaðeigandi starfsmanns fjármála­fyrirtækis,

 

b)

viðskiptin eru innt af hendi fyrir reikning einhvers af eftirfarandi aðilum:

   

i.

starfsmanns fjármálafyrirtækis,

   

ii.

aðila sem tengdur er starfsmanni fjármálafyrirtækis fjölskylduböndum eða aðila sem tengist náið starfsmanni fjármálafyrirtækis,

   

iii.

aðila sem er í slíkum tengslum við starfsmann fjármálafyrirtækis að sá síðarnefndi hefur beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu viðskiptanna, að undanskilinni þóknun eða umboðslaunum fyrir framkvæmd viðskiptanna.

5)

Fjármálafyrirtæki: Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármála­fyrirtæki.

6)

Fjármögnunarviðskipti með verðbréf: Hlutabréfalánveiting eða hlutabréfalántaka, lántaka eða lánveiting annarra fjármálagerninga, endurkaup eða endurhverf endurkaupaviðskipti eða viðskipti sem byggjast á kaupum/endursölu eða sölu/endurkaupum.

7)

Greiningarsérfræðingur: Starfsmaður fjármálafyrirtækis er framkvæmir grunnatriði fjárfestingarannsókna.

8)

Markaður merkir í 44. og 46. gr.: Skipulegur markaður, markaðstorg fjármála­gerninga, innmiðlari, viðskiptavaki, annar aðili sem leiðir saman kaupendur og seljendur fjármálagerninga, eða aðili sem gegnir sambærilegu hlutverki í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og einhver hinna framangreindu gegnir.

9)

Samstæða: Þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki; samstæða, sem fyrirtækið er hluti af, og í eru móðurfyrirtæki, dótturfyrirtæki þess og einingar sem móður­fyrirtækið eða dótturfyrirtæki þess eiga hlutdeild í og einnig fyrirtæki sem tengjast hvert öðru með hætti sem um getur í 1. mgr. 12. gr. tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga.

10)

Varanlegur miðill: Sérhver ráðstöfun sem gerir viðskiptavini kleift að geyma upp­lýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í tiltekinn tíma.

11)

Útvistun: Fyrirkomulag í hvaða formi sem er milli fjármálafyrirtækis og þjónustu­veitanda sem felur í sér að þjónustuveitandi tekur að sér framkvæmd þjónustu eða starfsemi sem fjármálafyrirtækið myndi ella annast sjálft.

12)

Yfirstjórn: Stjórnarmenn, forstjóri og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækis.

3. gr.

Skilyrði sem gilda um veitingu upplýsinga.

Þegar kveðið er á um í reglugerð þessari að upplýsingar skuli veittar á varanlegum miðli er átt við að þær skuli veittar skriflega á pappír. Fjármálafyrirtækjum er þó heimilt að veita upplýsingar með öðrum hætti á varanlegum miðli ef:

a)

veiting upplýsinganna með þeim hætti er viðeigandi miðað við þær aðstæður sem viðskiptin milli fyrirtækisins og viðskiptavinarins fara fram við eða munu fara fram við, og

b)

móttakandi upplýsinganna kýs sérstaklega að þær séu veittar með þeim hætti sem um ræðir, enda hafi honum verið boðið að velja á milli þess að fá upplýsingar á pappír eða umræddum varanlegum miðli.

Þegar fjármálafyrirtæki veitir viðskiptavini upplýsingar skv. 29., 30., 31., 32., 33. eða 2. mgr. 46. gr. þessarar reglugerðar í gegnum vefsíðu og þessum upplýsingum er ekki beint til viðskiptavinarins persónulega skal fjármálafyrirtækið tryggja að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a)

að veiting upplýsinganna á umræddum miðli sé viðeigandi miðað við þær aðstæður sem viðskiptin milli fyrirtækisins og viðskiptavinarins fara fram við eða munu fara fram við og

b)

að viðskiptavinurinn hafi samþykkt sérstaklega að upplýsingarnar séu veittar með þessum hætti,

c)

að viðskiptavininum hafi verið tilkynnt rafrænt um veffang vefsetursins og hvar hægt sé að nálgast upplýsingarnar á vefsetrinu,

d)

að upplýsingarnar á vefsetrinu séu uppfærðar reglulega,

e)

að ávallt sé unnt að nálgast upplýsingarnar á vefsetrinu á því tímabili sem líklegt er að viðskiptavinurinn gæti þurft að skoða þær.

Veiting upplýsinga með rafrænum samskiptaleiðum á grundvelli greinarinnar skal talin viðeigandi miðað við þær aðstæður, sem viðskipti milli fyrirtækisins og viðskiptavinarins fara fram við eða munu fara fram við, ef unnt er að færa sönnur á að viðskiptavinurinn hafi reglulega aðgang að Internetinu. Litið skal á það sem slíka sönnun ef viðskipta­vinurinn gefur upp netfang í því skyni að sinna þessum viðskiptum.

II. KAFLI

Skipulagskröfur.

1. ÞÁTTUR.

Skipulag.

4. gr.

Almennar skipulagskröfur.

Fjármálafyrirtæki skal uppfylla eftirfarandi kröfur:

a)

koma á og viðhalda skýrum skriflegum verkferlum um ákvarðanatöku og skipulagi þar sem kemur fram hverjar séu boðleiðir innan fyrirtækisins, sem og skipting verkefna og ábyrgðar,

b)

tryggja að starfsmönnum fjármálafyrirtækisins sé kunnugt um þær reglur og verk­ferla er fylgt skal í starfsemi þess,

c)

starfrækja viðunandi innri eftirlitskerfi sem ætlað er að tryggja að ákvörðunum og ferlum sé fylgt í allri starfsemi fyrirtækisins,

d)

ráða starfsfólk með færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu sem nauðsynleg er til að inna af hendi þau verkefni sem þeim eru falin,

e)

koma á og viðhalda skilvirkri innri skýrslugjöf og miðlun upplýsinga á öllum viðeigandi sviðum í fyrirtækinu,

f)

viðhalda fullnægjandi skrám um viðskipti sín og innra skipulag,

g)

tryggja að þegar starfsmenn fjármálafyrirtækis sinna margþættum störfum komi það ekki í veg fyrir að þessir aðilar geti tekist á við störf sín af heilindum, heiðarleika og fagmennsku.

Ráðstafanir sem fjármálafyrirtæki gerir til að uppfylla framangreindar skipulagskröfur skulu taka mið af eðli og umfangi starfsemi fyrirtækisins.

Fjármálafyrirtæki skal koma á fót og viðhalda kerfum og ferlum sem duga til að vernda öryggi og réttmæti upplýsinga og trúnað, sem á þeim hvílir, að teknu tilliti til þess hvers eðlis þær upplýsingar eru sem um ræðir.

Fjármálafyrirtæki skal setja sér stefnu um samfelldni viðskipta, sem miðar að því að tryggja varðveislu nauðsynlegra gagna og aðgerða og að viðhalda starfseminni ef truflun verður í kerfum þess eða ferlum, eða ef því verður ekki við komið, að slík gögn verði endurheimt og að starfseminni verði komið í samt horf að nýju, eins fljótt og mögulegt er.

Fjármálafyrirtæki skal setja sér stefnu um reikningsskil sem gerir því kleift að skila tímanlega til Fjármálaeftirlitsins, að beiðni þess, fjárhagsupplýsingum sem gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu fyrirtækisins og uppfylla alla gildandi reikningsskilastaðla og -reglur.

Fjármálafyrirtæki skal hafa eftirlit með og meta reglulega hæfi og skilvirkni kerfa sinna, innri eftirlitskerfa og fyrirkomulags sem komið er á í samræmi við 1.-4. mgr. og grípa til viðeigandi ráðstafana til að ráða bót á annmörkum.

5. gr.

Ábyrgð yfirstjórnar.

Yfirstjórn fjármálafyrirtækis ber ábyrgð á að skyldur þess samkvæmt lögum og reglum séu uppfylltar.

Yfirstjórn skal reglulega meta og endurskoða skilvirkni stefnu, fyrirkomulags og verklags, sem komið hefur verið á til að uppfylla skyldur samkvæmt lögum og reglum og gera viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á hvers konar annmörkum.

Yfirstjórn skal reglulega og a.m.k. árlega fá skriflegar skýrslur um málefni, sem ákvæði 6., 7. og 8. gr. taka til, þar sem sérstaklega skal tilgreint hvort viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar ef annmarkar eru fyrir hendi.

6. gr.

Regluvarsla.

Fjármálafyrirtæki skal koma á og viðhalda viðeigandi stefnu og ferlum sem gerðir eru til að greina hvers konar hættu á misbrestum hjá fyrirtækinu á því að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og koma á fót ferlum til þess að lágmarka slíka hættu og gera Fjármálaeftirlitinu kleift að beita valdi sínu á skilvirkan hátt samkvæmt þessari reglugerð.

Ráðstafanir sem fjármálafyrirtæki beitir til að uppfylla framangreindar kröfur um reglu­vörslu skulu taka mið af eðli og umfangi starfsemi fyrirtækisins.

Fjármálafyrirtæki skal koma á og viðhalda skilvirkri regluvörslu sem er óháð öðrum þáttum í starfsemi fyrirtækisins og hefur eftirfarandi hlutverki að gegna:

a)

að fylgjast með og meta reglulega hæfi og skilvirkni ráðstafana skv. 1. mgr. og aðgerða sem gripið er til, til að bæta úr misbrestum fyrirtækisins við að uppfylla skyldur sínar,

b)

að veita starfsmönnum fjármálafyrirtækis, sem eru ábyrgir fyrir framkvæmd verðbréfaviðskipta, nauðsynlega fræðslu, ráðgjöf og aðstoð til að þeir geti uppfyllt skyldur fyrirtækisins samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Fjármálafyrirtæki skal tryggja að eftirfarandi skilyrði um regluvörslu séu uppfyllt:

a)

þeir aðilar sem fara með regluvörslu verða að hafa nauðsynlegt vald, úrræði og sérfræðiþekkingu og aðgang að öllum upplýsingum sem skipta máli,

b)

tilnefna skal regluvörð sem ber ábyrgð á regluvörslu og allri skýrslugjöf til yfir­stjórnar sem krafist er skv. 3. mgr. 5. gr.,

c)

starfsmenn fjármálafyrirtækis sem starfa við regluvörslu skulu ekki taka þátt í að inna af hendi þjónustu eða sinna starfsemi sem þeir hafa eftirlit með,

d)

sú aðferð sem beitt er við ákvörðun þóknunar starfsmanna fjármálafyrirtækis, sem starfa við regluvörslu, skal ekki vera líkleg til að hafa áhrif á hlutlægni þeirra.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er fjármálafyrirtæki ekki skylt að uppfylla c- eða d-lið ef það getur sýnt fram á að kröfur þessar séu of þungbærar miðað við umfang og eðli starfsemi fyrirtækisins og að regluvarsla sé að öðru leyti fullnægjandi.

7. gr.

Áhættustýring.

Fjármálafyrirtæki skal grípa til eftirfarandi aðgerða vegna áhættustýringar:

a)

koma á og viðhalda viðunandi stefnu og verkferlum um áhættustýringu þar sem greind er öll áhætta sem tengist starfsemi, ferlum og kerfum fyrirtækisins og ákvarða, þar sem við á, það áhættustig sem fyrirtækið þolir,

b)

koma á skilvirku fyrirkomulagi, ferlum og úrræðum til að stýra áhættu sem tengist starfsemi, ferlum og kerfum fyrirtækisins í ljósi þeirra áhættuþolmarka,

c)

hafa eftirlit með eftirfarandi atriðum:

 

i.

hæfi og skilvirkni í stefnu og verkferlum fjármálafyrirtækisins um áhættu­stýringu,

 

ii.

að hve miklu marki fjármálafyrirtækið og starfsmenn þess fara að fyrir­komu­lagi, verkferlum og úrræðum sem komið er á í samræmi við b-lið,

 

iii.

hæfi og skilvirkni ráðstafana, sem gerðar eru til að ráða bót á hvers konar annmörkum í þessari stefnu, verklagsreglum, fyrirkomulagi, verkferlum og leiðum, þ.m.t. ef misbrestur verður á því hjá starfsmönnum fjármála­fyrirtækisins að fylgja slíku fyrirkomulagi, verkferlum og úrræðum eða fylgja slíkri stefnu og verklagi.

Fjármálafyrirtæki skal koma á og viðhalda óháðri starfseiningu sem hefur með höndum áhættustýringu þar sem slíkt er eðlilegt með tilliti til umfangs og eðlis starfsemi fyrir­tækisins. Starfsemi þessi skal sjá um eftirfarandi verkefni:

a)

framkvæmd stefnunnar og verklagsins sem um getur í 1. mgr.,

b)

að veita yfirstjórn upplýsingar og ráð í samræmi við 3. mgr. 5. gr.

Fjármálafyrirtæki sem ekki telst skylt að koma á slíkri starfseiningu verður engu að síður að geta sýnt fram á að stefna og verklag, sem það hefur komið á í samræmi við 1. mgr., uppfylli kröfur í þeirri málsgrein og séu ætíð virk.

8. gr.

Innri endurskoðun.

Þar sem það er viðeigandi og hæfilegt með tilliti til eðlis og umfangs starfsemi fjármála­fyrirtækis skal það koma á og viðhalda aðferð við innri endurskoðun sem er aðskilin og óháð öðrum verkefnum og starfsemi fyrirtækisins og sem sinnir eftirfarandi hlutverkum:

a)

kemur á og viðheldur endurskoðunaráætlun til að rannsaka og meta hæfi og skil­virkni kerfa fyrirtækisins og innri eftirlitskerfa,

b)

gefur út tilmæli sem byggjast á niðurstöðu vinnu sem innt er af hendi í samræmi við a-lið,

c)

staðfestir að þessum ráðleggingum hafi verið fylgt,

d)

gefur skýrslur í tengslum við innri endurskoðun í samræmi við 3. mgr. 5. gr.

9. gr.

Meðferð kvartana.

Fjármálafyrirtæki skal starfrækja gagnsætt verklag til að meðferð kvartana, sem berast frá almennum fjárfestum eða hugsanlegum almennum fjárfestum, sé sanngjörn og hröð.

Fjármálafyrirtæki skal halda skrá yfir hverja kvörtun og þær ráðstafanir sem gripið er til við úrlausn hennar.

10. gr.

Eigin viðskipti.

Fjármálafyrirtæki skal koma á og viðhalda viðunandi fyrirkomulagi, sem miðar að því að koma í veg fyrir eftirfarandi háttsemi starfsmanna þess, sem koma að starfsemi sem valdið gæti hagsmunaárekstrum eða hafa aðgang að innherjaupplýsingum í skilningi laga um verðbréfaviðskipti eða öðrum trúnaðarupplýsingum sem tengjast viðskiptavinum eða viðskiptum við eða fyrir viðskiptavini:

a)

að stofna til eigin viðskipta þar sem a.m.k. eitt af eftirfarandi viðmiðum á við:

 

i.

hlutaðeigandi einstaklingum er óheimilt að stofna til viðskiptanna samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, s.s. vegna reglna um innherjaviðskipti,

 

ii.

viðskiptin fela í sér misnotkun eða óviðeigandi birtingu fyrrgreindra trúnaðar­upplýsinga,

 

iii.

viðskiptin stangast á við eða eru líkleg til að stangast á við skyldur fjármála­fyrirtækja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti,

b)

að gefa nokkrum öðrum aðila ráð eða aðstoða hann við að stofna til viðskipta með fjármálagerninga á annan hátt en í samræmi við eðlilegar starfsskyldur, ef viðskiptin falla undir a-lið þessa ákvæðis, a- eða b-lið 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 47. gr. ef um væri að ræða eigin viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækis,

c)

að veita nokkrum öðrum aðila upplýsingar eða álit, nema það sé heimilt samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, aðrar en þær sem um er að ræða í venjubundnu starfi eða samkvæmt þjónustusamningi, ef hlut­aðeigandi starfsmaður fjármálafyrirtækisins veit eða má vita að móttakandi muni, eða líklegt er að hann muni, grípa til eftirfarandi úrræða:

 

i.

stofna til viðskipta með fjármálagerninga, sem myndu falla undir a-lið þessa ákvæðis, a- eða b-lið 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 47. gr. ef um væri að ræða eigin viðskipti starfsmanns fjármálafyrirtækis, eða

 

ii.

ráðleggja eða aðstoða annan aðila við að stofna til slíkra viðskipta.

Fyrirkomulagið, sem krafist er skv. 1. mgr., verður að vera þannig að tryggt sé að:

a)

sérhverjum starfsmanni fjármálafyrirtækis, sem fellur undir 1. mgr., sé kunnugt um takmarkanir varðandi eigin viðskipti starfsmanna og þær ráðstafanir sem fjármálafyrirtækið hefur komið á í tengslum við slík viðskipti og veitingu upplýsinga í samræmi við 1. mgr.,

b)

fjármálafyrirtækinu sé tafarlaust tilkynnt um öll eigin viðskipti sem starfsmenn stofna til, annaðhvort með tilkynningu um þessi viðskipti eða með öðrum leiðum þannig að fyrirtækinu sé unnt að greina slík viðskipti,

c)

haldin sé skrá um eigin viðskipti starfsmanna, þ.m.t. allar heimildir eða synjanir í tengslum við slík viðskipti.

Ef um er að ræða útvistunarfyrirkomulag skal fjármálafyrirtæki tryggja að fyrirtækið, sem tekur að sér útvistuðu starfsemina, haldi skrá yfir eigin viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækisins og að þessar upplýsingar séu veittar fjármálafyrirtækinu tafarlaust að beiðni þess.

Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki gilda um eftirfarandi eigin viðskipti starfsmanna fjármála­fyrirtækis:

a)

eigin viðskipti sem framkvæmd eru í eignastýringu þar sem engin samskipti hafa farið fram í tengslum við viðskiptin milli eignasafnsstjórans og hlutaðeigandi einstaklings,

b)

eigin viðskipti með hlutdeildarskírteini í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum sem uppfylla skilyrði laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, að því tilskildu að hlutaðeigandi einstaklingur taki ekki þátt í stjórnun viðkomandi sjóðs.

2. ÞÁTTUR

Útvistun verkefna.

11. gr.

Skilgreining á verkefnum sem hafa mikilvæga þýðingu.

Verkefni skal talið hafa mikilvæga þýðingu í skilningi 7. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, ef annmarki eða misbrestur á framkvæmd þess yrði til þess að skaða verulega getu fjármálafyrirtækis til að uppfylla áfram skilyrði og skyldur sem fylgja starfsleyfi þess, aðrar skyldur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, rekstrarárangur fyrirtækisins eða styrkleika og samfelldni verðbréfaviðskipta.

Með fyrirvara um stöðu annarra verkefna skulu eftirfarandi verkefni ekki talin hafa mikil­væga þýðingu í skilningi 1. mgr.:

a)

veiting ráðgjafarþjónustu og annarrar þjónustu sem ekki er hluti af starfsemi fyrirtækisins á sviði verðbréfaviðskipta, þ.m.t. lögfræðiráðgjöf, þjálfun starfsfólks, reikningagerð og öryggisgæsla,

b)

kaup á staðlaðri þjónustu, þ.m.t. þjónustu vegna markaðsupplýsinga, og verð­upplýsingar.

12. gr.

Skilyrði fyrir útvistun á verðbréfaviðskiptum eða verkefnum
sem hafa mikilvæga þýðingu.

Þegar fjármálafyrirtæki útvistar verðbréfaviðskiptum eða verkefnum sem hafa mikilvæga þýðingu ber fyrirtækið áfram fulla ábyrgð á því að sinna öllum skyldum sínum sam­kvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um fjármálafyrirtæki. Fjármála­fyrirtæki ber að sjá til þess að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a)

útvistunin má ekki hafa í för með sér að yfirstjórn feli öðrum þá ábyrgð sem hún ber lögum samkvæmt,

b)

útvistunin má ekki breyta tengslum og skyldum fjármálafyrirtækisins gagnvart viðskiptavinum sínum samkvæmt ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti,

c)

útvistunin má ekki rýra þau skilyrði sem fyrirtækið verður að uppfylla til þess að hafa starfsleyfi í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki,

d)

útvistunin má ekki afnema eða breyta öðrum skilyrðum sem starfsleyfi fyrirtækisins byggist á.

Fjármálafyrirtæki skal sýna tilhlýðilega aðgát og kostgæfni þegar það stofnar til, fer með eða bindur endi á hvers kyns útvistun verkefna sem hafa mikilvæga þýðingu eða verðbréfa­viðskipta.

Einkum skal fjármálafyrirtæki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:

a)

þjónustuveitandi verður að hafa hæfni, getu og öll leyfi, sem krafist er samkvæmt lögum, til að inna af hendi útvistuð verkefni eða verðbréfaviðskipti af áreiðanleika og fagmennsku,

b)

þjónustuveitandi verður að inna af hendi útvistaða þjónustu með skilvirkum hætti og í því skyni að tryggja það verður fjármálafyrirtækið að hafa aðferðir til að meta frammistöðu þjónustuveitandans,

c)

þjónustuveitandi verður að hafa nægilegt eftirlit með framkvæmd útvistaðra verkefna og stýra á viðunandi hátt áhættunni sem tengist útvistuninni,

d)

grípa verður til viðeigandi aðgerða ef svo virðist sem þjónustuveitandi inni útvistuð verkefnin ekki af hendi með nógu skilvirkum hætti og í samræmi við gildandi lög og lagaskilyrði,

e)

fjármálafyrirtæki verður að viðhalda þeirri sérfræðiþekkingu, sem nauðsynleg er til að hafa eftirlit með útvistuðum verkefnunum á skilvirkan hátt og stýra áhættu, sem tengist útvistuninni,

f)

þjónustuveitandi verður að upplýsa fjármálafyrirtækið um hvers kyns þróun sem gæti haft veruleg áhrif á getu þess til að inna af hendi útvistuð störf á skilvirkan hátt og í samræmi við gildandi lög og lagaskilyrði,

g)

fjármálafyrirtæki verður að geta hætt útvistun, ef þörf krefur, án þess að það skaði samfellda þjónustu sem það veitir viðskiptavinum sínum og gæði hennar,

h)

þjónustuveitandi verður að hafa samstarf við Fjármálaeftirlitið í tengslum við útvistuð verkefni fjármálafyrirtækja,

i)

fjármálafyrirtæki, endurskoðendur þess og Fjármálaeftirlitið verða að hafa aðgang að gögnum, sem tengjast útvistuðum verkefnum. Þá skulu fjármálafyrirtæki, endur­skoðendur og Fjármálaeftirlitið hafa aðgang að starfsstöð þjónustuveitandans,

j)

þjónustuveitandi verður að vernda á fullnægjandi hátt trúnaðarupplýsingar sem tengjast fjármálafyrirtæki og viðskiptavinum þess,

k)

fjármálafyrirtæki og þjónustuveitandi verða að koma á og viðhalda viðbúnaðar­áætlun til að geta endurheimt gögn og hafa reglubundnar prófanir á afritunar­búnaði þar sem slíkt er nauðsynlegt með tilliti til starfsins, þjónustunnar eða starfsem­innar sem er útvistuð.

Samningur um útvistun skal vera skriflegur og í honum skal kveðið skýrt á um réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis annars vegar og þjónustuveitanda hins vegar.

Ef fjármálafyrirtæki og þjónustuveitandi tilheyra sömu samstæðu er fjármálafyrirtækinu heimilt, í því skyni að uppfylla ákvæði þessarar greinar og 13. gr., að taka mið af því að hve miklu leyti fyrirtækið hefur yfirráð yfir þjónustuveitandanum eða getu til að hafa áhrif á aðgerðir hans.

Fjármálafyrirtæki skal hafa allar upplýsingar tiltækar fyrir Fjármálaeftirlitið til þess að gera því kleift að hafa eftirlit með því að farið sé að kröfum þessarar reglugerðar við framkvæmd útvistaðrar starfsemi.

13. gr.

Þjónustuveitendur í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þegar fjármálafyrirtæki útvistar eignastýringu, sem boðin er almennum fjárfestum, til þjónustuveitanda í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skulu eftirfarandi skilyrði vera uppfyllt:

a)

þjónustuveitandinn skal hafa starfsleyfi eða vera skráður í heimalandi sínu til þess að veita þessa þjónustu og skal sæta eftirliti opinbers eftirlitsaðila,

b)

samstarfssamningur skal vera fyrir hendi milli Fjármálaeftirlitsins og opinbera eftirlits­aðilans.

Ef bæði skilyrði 1. mgr. eru ekki uppfyllt getur fjármálafyrirtæki einungis útvistað verð­bréfaviðskiptum til þjónustuveitanda í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef fyrir­tækið tilkynnir Fjármálaeftirlitinu um fyrirkomulag um útvistun fyrirfram og Fjármála­eftirlitið andmælir ekki þessu fyrirkomulagi innan hæfilegs frests eftir að því hefur borist tilkynningin.

Með fyrirvara um ákvæði 2. mgr. skal Fjármálaeftirlitið birta yfirlýsingu um stefnu í tengslum við útvistun sem fellur undir 2. mgr. Í yfirlýsingunni skulu gefin dæmi um tilvik þar sem Fjármálaeftirlitið myndi ekki, eða myndi að líkindum ekki, andmæla útvistun skv. 2. mgr. ef aðeins annað eða hvorugt skilyrði í a- og b-lið 1. mgr. eru uppfyllt. Útskýrt skal í yfirlýsingunni, með skýrum hætti, hvers vegna Fjármálaeftirlitið álítur að í slíkum tilvikum myndi útvistun ekki skerða getu fjármálafyrirtækja til að uppfylla skyldur sínar skv. 12. gr.

Fjármálaeftirlitið skal birta skrá yfir opinbera eftirlitsaðila í ríkjum utan Evrópska efnahags­svæðisins sem það hefur gert samstarfssamning við sbr. b-lið 1. mgr.

Ákvæði þessarar greinar takmarka ekki að neinu leyti skyldur fjármálafyrirtækja til að uppfylla kröfur 12. gr.

3. ÞÁTTUR

Verndun eigna viðskiptavina.

14. gr.

Verndun fjármálagerninga og annarra fjármuna.

Í því skyni að vernda réttindi viðskiptavina í tengslum við fjármálagerninga og fjármuni í eigu þeirra skal fjármálafyrirtæki uppfylla eftirfarandi kröfur:

a)

halda skrár og reikninga, eftir því sem nauðsynlegt er, til að því sé unnt, hvenær sem er og án nokkurrar tafar, að aðgreina eignir sem fyrirtækið varðveitir fyrir einn viðskiptavin frá eignum sem það varðveitir fyrir sérhvern annan viðskiptavin og frá þeirra eigin eignum,

b)

halda skrár sínar og reikninga þannig að tryggt sé að þeir séu áreiðanlegir og sam­svari fjármálagerningum og fjármunum sem fyrirtækið varðveitir fyrir viðskiptavini,

c)

stemma innri reikninga sína og skrár af við sambærilega reikninga og skrár þriðju aðila sem varðveita þessar eignir, með reglulegu millibili,

d)

gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að greina sérstaklega alla fjármálagerninga viðskiptavinar, sem lagðir eru á reikning hjá þriðja aðila í sam­ræmi við 15. gr., frá fjármálagerningum sem eru í eigu fjármálafyrirtækisins og fjármála­gerningum í eigu hlutaðeigandi þriðja aðila, með því að hafa mismunandi heiti á reikningum í varðveislu þessa þriðja aðila eða með öðrum sambærilegum ráðstöf­unum sem stuðla að sams konar vernd,

e)

gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fjármunir viðskiptavinar sem eru lagðir inn á reikning hjá seðlabanka, lánastofnun eða viðskiptabanka með starfsleyfi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða hjá viðurkenndum peningamarkaðs­sjóði, í samræmi við 16. gr., séu aðgreindir sérstaklega frá öðrum reikningum sem notaðir eru til að varðveita fjármuni í eigu fjármálafyrirtækisins,

f)

innleiða fullnægjandi fyrirkomulag varðandi skipulag til að lágmarka áhættu á að tapa eignum viðskiptavina eða rýra þær eða réttindi í tengslum við þessar eignir vegna misnotkunar á eignunum, svika, slakrar umsýslu og stjórnunar, ófullnægjandi skráningar eða vanrækslu.

15. gr.

Varðveisla fjármálagerninga viðskiptavina.

Fjármálafyrirtæki er heimilt að leggja fjármálagerninga sem það varðveitir fyrir viðskiptavini, inn á reikning eða reikninga hjá þriðja aðila, fyrir hönd viðskiptavinanna, að því tilskildu að fyrirtækið sýni tilhlýðilega aðgát við val og reglulega endurskoðun á hlutaðeigandi þriðja aðila, og við fyrirkomulag um varðveislu þessara fjármálagerninga.

Fjármálafyrirtæki skal einkum taka tillit til sérfræðiþekkingar og orðspors þriðja aðila á markaði og jafnframt hvers kyns lagaskilyrða eða markaðsvenja sem tengjast varðveislu þessara fjármálagerninga sem gætu haft neikvæð áhrif á réttindi viðskiptavinar.

Ef fjármálafyrirtæki hyggst leggja fjármálagerninga viðskiptavina inn á reikning hjá þriðja aðila í lögsagnarumdæmi, þar sem sérstakar reglur og eftirlit gilda um vernd fjármálagerninga fyrir reikning annars aðila, skal fjármálafyrirtækið ganga úr skugga um að umræddur þriðji aðili falli undir viðkomandi reglur og eftirlit áður en innlögn fjármunanna á sér stað.

Fjármálafyrirtæki skal ekki leggja fjármálagerninga, sem það varðveitir fyrir hönd viðskiptavina inn á reikning hjá þriðja aðila í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef umrætt ríki setur ekki reglur um varðveislu og vernd fjármálagerninga fyrir reikning annars aðila, nema annað eftirfarandi skilyrða sé uppfyllt:

a)

eðli fjármálagerninganna eða verðbréfaviðskiptanna gerir nauðsynlegt að leggja þá inn á reikning hjá þriðja aðila í viðkomandi ríki,

b)

fagfjárfestir, sem fjármálagerningarnir eru varðveittir fyrir, fer skriflega fram á við fyrirtækið að það leggi þá á reikning hjá þriðja aðila í viðkomandi ríki.

16. gr.

Varðveisla annarra fjármuna viðskiptavina.

Við móttöku á fjármunum viðskiptavinar skal fjármálafyrirtæki koma fjármunum tafarlaust fyrir á einum eða fleiri reikningum sem hafa verið opnaðir hjá einhverjum eftirfarandi aðila:

a)

seðlabanka,

b)

lánastofnun sem er með starfsleyfi í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki,

c)

viðskiptabanka með starfsleyfi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins,

d)

viðurkenndum peningamarkaðssjóði.

Málsgrein þessi gildir ekki um lánastofnanir sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, eða sambærileg fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu sem fengið hafa starfsleyfi í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana, í tengslum við innlán í skilningi þeirrar tilskipunar sem hlutaðeigandi fyrirtæki hefur í vörslu sinni.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. og e-lið 1. mgr. 14. gr. merkir "viðurkenndur peninga­markaðssjóður" fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt tilskipun Evrópu­þingsins og ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um sameiginlega fjárfest­ingu í framseljanlegum verðbréfum, eða fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem hlotið hefur staðfestingu samkvæmt lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði, og uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

a)

aðalfjárfestingarmarkmiðið skal vera að halda hreinni eign fyrirtækisins annaðhvort fastri á nafnvirði (að frádregnum hagnaði) eða á stofnfjárvirði fjárfestisins að við­bættum hagnaði,

b)

í því skyni að ná þessu aðalfjárfestingarmarkmiði verður fyrirtækið að fjárfesta ein­göngu í hágæðapeningamarkaðsgerningum sem eru ekki með lengri binditíma, eða að það sem eftir er af binditíma, en sem nemur 397 dögum eða reglubundna arðsemisaðlögun í samræmi við binditímann og 60 daga veginn meðalbinditími þeirra. Það getur einnig náð þessu markmiði með því að fjárfesta á viðbótar­grundvelli í innlánum hjá lánastofnunum,

c)

fyrirtækið skal tryggja lausafé við uppgjör sama eða næsta dag.

Að því er varðar b-lið þessarar málsgreinar skal peningamarkaðsgerningur einungis talinn hágæðagerningur ef hann hefur fengið hæsta mögulega lánshæfismat hjá sérhverri þar til bærri matsstofnun sem hefur metið gerninginn. Litið skal svo á að matsstofnun sé þar til bær, í skilningi þessa ákvæðis, ef hún birtir reglulega og á faglegum grunni láns­hæfismat um peningamarkaðssjóði og er viðurkennd utanaðkomandi lánshæfis­mats­stofnun (ECAI) í skilningi 1. mgr. 81. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana.

Þegar fjármálafyrirtæki leggur ekki fjármuni viðskiptavina inn á reikning hjá seðlabanka skal það sýna alla tilhlýðilega aðgát við val og reglulega endurskoðun á lánastofnuninni, viðskiptabankanum eða peningamarkaðssjóðnum þar sem fjármunirnir eru varðveittir og fyrirkomulag um varðveislu fjármunanna.

Fjármálafyrirtæki skal taka tillit til sérfræðiþekkingar og orðspors stofnana eða peninga­markaðssjóða í því skyni að tryggja réttindi viðskiptavina og einnig hvers kyns lagaskilyrða eða markaðsvenja sem tengjast varðveislu fjármuna viðskiptavinarins sem gætu haft neikvæð áhrif á réttindi viðskiptavinar.

Viðskiptavinir fjármálafyrirtækis hafa rétt til að andmæla því að fjármunir þeirra séu settir í viðurkenndan peningamarkaðssjóð.

17. gr.

Notkun á fjármálagerningum viðskiptavinar.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að ganga frá fyrirkomulagi um fjármögnunarviðskipti með verðbréf, að því er varðar fjármálagerninga sem það varðveitir fyrir hönd viðskiptavinar, eða nota slíka fjármálagerninga á annan hátt fyrir eigin reikning eða reikning annars viðskipta­vinar fyrirtækisins, nema eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a)

viðskiptavinurinn verður áður að hafa veitt ótvírætt samþykki sitt um notkun fjármálagerninganna með skýrum skilmálum,

b)

notkun á fjármálagerningum viðskiptavinarins skal takmarkast við þá skilmála sem viðskiptavinurinn samþykkir.

Ef um almennan fjárfesti er að ræða skal samþykki samkvæmt a-lið liggja fyrir skriflega eða með öðrum þeim hætti er samsvarar skriflegu samþykki hans.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að ganga frá fyrirkomulagi um fjármögnunarviðskipti með verðbréf, að því er varðar fjármálagerninga sem það varðveitir fyrir hönd viðskiptavinar á sameiginlegum reikningi sem þriðji aðili heldur utan um, eða nota fjármálagerninga sem varðveittir eru á slíkum reikningi á annan hátt fyrir eigin reikning eða reikning annars viðskiptavinar fyrirtækisins, nema a.m.k. annað hvort eftirfarandi skilyrða sé uppfyllt til viðbótar við skilyrðin sem sett eru fram í 1. mgr.:

a)

sérhver eigandi fjármálagerninga sem varðveittir eru á sameiginlegum reikningi, verður áður að hafa veitt ótvírætt samþykki í samræmi við a-lið 1. málsl. og 2. málsl. 1. mgr.,

b)

fjármálafyrirtækið skal hafa innleitt kerfi og eftirlit sem tryggir að einungis fjármála­gerningar, sem tilheyra viðskiptavinum sem áður hafa veitt ótvírætt samþykki í samræmi við a-lið 1. mgr., séu notaðir á þennan hátt.

Í skrám fjármálafyrirtækis skulu koma fram nákvæmar upplýsingar um viðskiptavini er gefið hafa fyrirmæli um notkun fjármálagerninga sem farið hefur verið eftir, og einnig um fjölda fjármálagerninga, sem notaðir eru og tilheyra viðskiptavinum sem veitt hafa samþykki til notkunar fjármálagerninga sinna, til þess að mögulegt sé að úthluta tapi á réttan hátt.

18. gr.

Skýrslur ytri endurskoðenda.

Fjármálafyrirtæki skal tryggja að ytri endurskoðendur þess leggi a.m.k. árlega fram skýrslu til Fjármálaeftirlitsins um hversu hæft fyrirkomulag fyrirtækisins er samkvæmt 11. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og þessum þætti reglugerðarinnar.

4. ÞÁTTUR

Hagsmunaárekstrar.

19. gr.

Hagsmunaárekstrar sem geta hugsanlega skaðað viðskiptavin.

Fjármálafyrirtæki skal gera allar tiltækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmuna­árekstra sem geta skaðað hagsmuni viðskiptavina þess. Í því skyni að greina hagsmuna­árekstra sem geta skapast við veitingu fjárfestinga- og/eða viðbótarþjónustu, skal fjármála­fyrirtæki meta hvort fyrirtækið, starfsmaður þess eða aðili sem beint eða óbeint er tengdur fyrirtækinu í gegnum yfirráð:

a)

sé líklegur til að njóta fjárhagslegs ágóða eða forðast fjárhagslegt tap á kostnað viðskiptavinarins,

b)

hefur hagsmuna að gæta af niðurstöðu þeirrar þjónustu sem viðskiptavininum er veitt og þessir hagsmunir eru aðgreindir frá hagsmunum viðskiptavinarins að því er varðar niðurstöðuna,

c)

hafi fjárhagslegan hvata eða annars konar hvata til þess að setja hagsmuni annars viðskiptavinar eða hóps viðskiptavina framar hagsmunum hlutaðeigandi viðskipta­vinar,

d)

stundar sams konar rekstur og viðskiptavinurinn,

e)

þiggur eða mun þiggja umbun í tengslum við þjónustu sem veitt er viðskiptavininum í formi peninga, vara eða þjónustu, annarrar en venjubundinna umboðslauna eða þóknana fyrir þessa þjónustu, frá öðrum aðila en viðskiptavininum.

20. gr.

Stefna varðandi hagsmunaárekstra.

Fjármálafyrirtæki skal setja og viðhalda skilvirkri skriflegri stefnu varðandi hagsmuna­árekstra. Stefnan skal vera í samræmi við stærð og skipulag fyrirtækisins og eðli og umfang rekstrarins.

Ef fyrirtækið er aðili að samstæðu verður stefnan einnig að taka mið af hvers konar aðstæðum, sem fyrirtækinu ætti að vera kunnugt um, sem gætu leitt til þess að hagsmunaárekstrar verði vegna skipulags og starfsemi annarra aðila að samstæðunni.

Stefnan sem komið er á í samræmi við 1. mgr. skal taka á eftirfarandi efnisatriðum:

a)

í henni verður að greina, með tilliti til ólíkra þátta í starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, hvaða aðstæður það eru sem valda eða geta valdið hagsmunaárekstrum sem hafa í för með sér raunverulega hættu á að hagsmunir eins eða fleiri viðskiptavina skaðist,

b)

í henni verður að tiltaka aðferðir, sem fylgja skal, og ráðstafanir, sem beita skal, í því skyni að hafa stjórn á slíkum árekstrum.

Aðferðirnar og ráðstafanirnar, sem mælt er fyrir um í b-lið 2. mgr., skulu tryggja að starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem stunda störf sem hafa í för með sér hagsmuna­árekstra sem tilgreindir eru í a-lið 2. mgr., starfi af nauðsynlegu sjálfstæði með tilliti til umfangs og starfsemi fjármálafyrirtækisins og samstæðunnar sem það tilheyrir, og þess hversu raunveruleg áhættan er á því að hagsmunir viðskiptavinanna skaðist.

Að því er varðar b-lið 2. mgr. skulu aðferðirnar, sem beita skal, fela í sér eftirfarandi atriði sem eru nauðsynleg og viðeigandi fyrir fyrirtækið ef það vill tryggja tilskilið sjálf­stæði:

a)

árangursríkar aðferðir til að koma í veg fyrir og stýra upplýsingastreymi milli starfsmanna fjármálafyrirtækis, sem stunda starfsemi sem hefur í för með sér hættu á hagsmuna­árekstrum, ef þessi upplýsingaskipti geta skaðað hagsmuni eins eða fleiri viðskiptavina (kínamúrar),

b)

sérstakt eftirlit með starfsliði fjármálafyrirtækis sem annast verkefni fyrir hönd viðskiptavina, hverra hagsmunir geta stangast á, eða koma að öðru leyti fram fyrir aðra hagsmuni sem geta skarast, þ.m.t. hagsmuni fyrirtækisins,

c)

afnám hvers kyns beinna tengsla milli þóknunar starfsmanna fjármálafyrirtækis sem annast fyrst og fremst eitt verksvið og þóknunar starfsmanna á öðrum sviðum fyrirtækisins, ef til hagsmunaárekstra gæti komið milli þessara verksviða,

d)

ráðstafanir til að koma í veg fyrir að nokkur aðili hafi óviðeigandi áhrif á það hvernig starfsmaður fjármálafyrirtækis annast verðbréfaviðskipti, eða til að takmarka getu hans til að hafa slík áhrif,

e)

ráðstafanir til að takmarka eða stýra þeim aðstæðum þegar starfsmenn fjármálafyrirtækis taka samtímis, eða í beinu framhaldi, þátt í mismunandi verk­efnum, í því skyni að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

Upplýsingar til viðskiptavina samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, skulu vera á varanlegum miðli og vera nægilega ítarlegar, með hliðsjón af því hvers konar viðskipti viðskiptavinurinn stundar, til að gera viðskipta­vininum kleift að taka upplýsta ákvörðun um verðbréfaviðskipti sem hagsmuna­árekstur kann að tengjast.

21. gr.

Skrá yfir þjónustu eða starfsemi sem skapar skaðlega hagsmunaárekstra.

Fjármálafyrirtæki skal halda skrá sem það uppfærir reglulega yfir þá starfsemi sem telst til verðbréfaviðskipta og stunduð er af fyrirtækinu eða fyrir hönd þess þar sem skapast hefur hagsmunaárekstur sem hefur í för með sér raunverulega hættu á að hagsmunir eins eða fleiri viðskiptavina skaðist, eða muni skaðast.

5. ÞÁTTUR

Skipulagskröfur til fjármálafyrirtækja sem vinna
og dreifa fjárfestingarannsóknum.

22. gr.

Fjárfestingarannsóknir.

Með fjárfestingarannsókn í 23. gr. er átt við opinbera fjárfestingarráðgjöf í skilningi 12. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem auk þess uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

a)

hún er auðkennd eða henni lýst sem fjárfestingarannsókn, eða hún er að öðru leyti kynnt sem hlutlæg eða sjálfstæð skýring á andlagi ráðleggingarinnar,

b)

hún teldist ekki til veitingar fjárfestingarráðgjafar í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 væri hún veitt viðskiptavini fjármálafyrirtækisins.

Fara skal með opinbera fjárfestingarráðgjöf sem tengist fjármálagerningum eins og þeir eru skilgreindir í lögum um verðbréfaviðskipti, en uppfyllir ekki skilyrðin sem sett eru fram í 1. mgr., sem markaðsefni, sbr. 28. gr. Fjármálafyrirtæki sem útbýr og dreifir slíkri ráðgjöf skal tryggja að hún sé greinilega auðkennd sem slík.

Fjármálafyrirtæki skal tryggja að ráðgjöf sem fellur undir 2. mgr. feli í sér skýra og áberandi yfirlýsingu um að hún hafi ekki verið unnin í samræmi við kröfur sem lög og reglugerð þessi gera til fjárfestingarannsókna og stuðla að óhæði slíkra rannsókna. Í yfirlýsingunni skal jafnframt tekið fram að bann liggi ekki við því að viðskipti eigi sér stað með fjármálagerningana sem ráðgjöfin tengist áður en henni er dreift. Ef um ræðir munnlegar ráðleggingar skulu þær fela í sér munnlegan fyrirvara þessa efnis.

23. gr.

Skipulagskröfur til fjármálafyrirtækja sem vinna og dreifa fjárfestingarannsóknum.

Fjármálafyrirtæki sem vinnur fjárfestingarannsókn, sem fyrirhugað er að dreifa til, eða líklegt er að verði dreift til, viðskiptavina fyrirtækisins eða til almennings á eigin ábyrgð þess eða á ábyrgð aðila að samstæðunni, skal tryggja að allar ráðstafanir samkvæmt 3. mgr. 20. gr. séu viðhafðar gagnvart greiningarsérfræðingum sem annast gerð fjár­festingarannsóknanna, sem og öðrum starfsmönnum fjármálafyrirtækis ef ábyrgðar­svið þeirra síðarnefndu eða viðskiptahagsmunir þeirra kunna að stangast á við hagsmuni aðilanna sem fjárfestingarannsóknunum er dreift til.

Fjármálafyrirtæki, sem falla undir ákvæði 1. mgr., skulu tryggja að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a)

Greiningarsérfræðingar og aðrir starfsmenn fjármálafyrirtækis skulu ekki eiga eigin viðskipti eða viðskipti fyrir hönd einhvers annars aðila (þ.m.t. fjármálafyrirtækis) með fjármálagerninga sem tengjast fjárfestingarannsóknum, ef þeim er kunnugt um líklega tímasetningu eða efni þessara fjárfestingarannsókna og efnið er ekki aðgengilegt almenningi eða viðskiptavinum og ekki er auðveldlega hægt að álykta um efni rannsókna út frá upplýsingum sem unnt er að nálgast opinberlega, fyrr en móttakendur fjárfestingarannsóknanna hafa fengið tækifæri til að bregðast við þeim. Þetta á þó ekki við um framkvæmd fyrirmæla að frumkvæði viðskiptavinar eða um viðskiptavaka, sbr. 116. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem starfa í góðri trú við venjubundin störf viðskiptavaka.

b)

Greiningarsérfræðingar og aðrir starfsmenn fjármálafyrirtækis sem komu að gerð fjárfestingarannsóknar skulu ekki eiga eigin viðskipti með fjármálagerninga sem fjárfestingarannsóknin tengist, eða með tengda fjármálagerninga, andstætt gildandi ráðleggingum nema í undantekningartilvikum og með áður veittu samþykki regluvarðar.

c)

Fjármálafyrirtæki, greiningarsérfræðingar og aðrir starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem taka þátt í vinnslu fjárfestingarannsókna, skulu ekki þiggja umbun frá aðilum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta að því er varðar efnisatriði fjárfestinga­rannsóknanna.

d)

Fjármálafyrirtæki, greinngarsérfræðingar og aðrir starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem koma að gerð fjárfestingarannsókna, skulu ekki lofa útgefendum hagstæðri umfjöllun í tengslum við fjárfestingarannsóknir.

e)

Engum öðrum en greiningarsérfræðingum er heimilt að skoða drög að fjár­festingarannsókn sem inniheldur ráðleggingu eða markgengi, áður en henni er dreift, nema í því skyni að sannreyna áreiðanleika yfirlýsinga í hlutaðeigandi rannsókn, eða í nokkru öðru skyni en að sannreyna að lagalegar skuldbindingar fyrirtækisins séu uppfylltar.

Í þessari málsgrein merkir "tengdur fjármálagerningur" fjármálagerning þar sem gengi hans verður fyrir sterkum áhrifum af gengisbreytingum annars fjármálagernings sem fjallað er um í fjárfestingarannsókninni og felur í sér afleiðu af hinum fjármála­gerningnum.

Fjármálafyrirtæki sem dreifir fjárfestingarannsóknum sem unnar eru af þriðja aðila til almennings eða viðskiptavina, er undanþegið ákvæðum 1. mgr. ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

a)

sá aðili sem vinnur fjárfestingarannsókn er ekki aðili að samstæðunni sem fjármála­fyrirtækið tilheyrir,

b)

fjármálafyrirtækið gerir ekki marktækar breytingar á ráðleggingunum sem fjárfestingarannsóknin hefur að geyma,

c)

fjármálafyrirtækið kynnir ekki fjárfestingarannsóknina með þeim hætti að draga megi þá ályktun að það hafi unnið hana, en ekki þriðji aðili,

d)

fjármálafyrirtækið gengur úr skugga um að sá sem vann rannsóknina falli undir kröfur, sem jafngilda kröfum samkvæmt þessari reglugerð, í tengslum við vinnslu rannsóknarinnar.

III. KAFLI

Skilyrði fyrir starfsemi fjármálafyrirtækja.

1. ÞÁTTUR

Umbun.

24. gr.

Umbun.

Fjármálafyrirtæki telst ekki starfa af heiðarleika, sanngirni og fagmennsku í samræmi við hagsmuni viðskiptavinar ef það greiðir eða þiggur einhverja þóknun eða umboðslaun í tengslum við veitingu fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu, eða það veitir eða fær einhverja ófjárhagslega umbun, aðra en eftirfarandi:

a)

þóknun, umboðslaun eða ófjárhagslegan ávinning, greiddan eða veittan viðskiptavini eða fulltrúa hans, eða sem viðskiptavinurinn eða aðili fyrir hans hönd greiðir eða veitir,

b)

þóknun, umboðslaun eða ófjárhagslegan ávinning, greiddan eða veittan þriðja aðila eða fulltrúa hans, eða sem þriðji aðili eða aðili fyrir hans hönd greiðir eða veitir, ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

 

i.

viðskiptavinurinn er upplýstur með ítarlegum og skiljanlegum hætti um tilvist, eðli og fjárhæð þóknunarinnar, umboðslaunanna eða ávinningsins eða hvaða aðferð er notuð til að reikna út fjárhæðina ef ekki er unnt að ákvarða hana áður en viðkomandi fjárfestinga- eða viðbótarþjónusta er veitt,

 

ii.

greiðsla þóknunarinnar eða umboðslaunanna eða afhending ófjárhagslegs ávinnings er með þeim hætti að hún bæti viðkomandi þjónustu við viðskiptavininn og komi ekki í veg fyrir að fjármálafyrirtæki geti fullnægt þeirri skyldu sinni að þjóna hagsmunum viðskiptavinarins sem best,

c)

viðeigandi greiðslur sem eru nauðsynlegar eða gera verðbréfaviðskipti möguleg, s.s. vörslugjöld, uppgjörs- og viðskiptaþóknanir, eftirlitsgjöld eða lögfræðiþóknanir, og sem vegna eðlis þeirra geta ekki valdið hagsmunaárekstrum við skyldur fyrirtækisins til að starfa af heiðarleika, sanngirni og fagmennsku þannig að sam­ræmist hagsmunum viðskiptavina þeirra.

Að því er varðar b-lið (i.) þessa ákvæðis, er fjármálafyrirtæki heimilt að greina í stuttu máli frá grundvallarskilmálum í fyrirkomulaginu sem tengist þóknunum, umboðslaunum eða ófjárhagslegum ávinningi, að því tilskildu að það skuldbindi sig til að greina frá frekari upplýsingum að beiðni viðskiptavinarins.

2. ÞÁTTUR

Flokkun viðskiptavina og skrifleg samningsgerð.

25. gr.

Flokkun viðskiptavina.

Fjármálafyrirtæki skal tilkynna nýjum viðskiptavinum og núverandi viðskiptavinum um flokkun þeirra, sbr. 21. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

Fjármálafyrirtæki skal tilkynna viðskiptavinum á varanlegum miðli um rétt þeirra til að fara fram á aðra flokkun og um allar takmarkanir á umfangi verndar viðskiptavinarins eftir flokkun.

Fjármálafyrirtæki er heimilt, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að beiðni þess viðskiptavinar sem um ræðir, að:

a)

fara með viðskiptavin, sem að öðrum kosti mætti flokka sem viðurkenndan gagn­aðila samkvæmt 10. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, sem fagfjárfesti eða almennan fjárfesti,

b)

fara með viðskiptavin, sem litið er á sem fagfjárfesti skv. 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, sem almennan fjárfesti.

26. gr.

Viðurkenndir gagnaðilar.

Með hugtakinu viðurkenndur gagnaðili er átt við viðurkenndan gagnaðila samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Að fenginni beiðni er fjármálafyrirtæki jafnframt heimilt að viðurkenna aðila sem telst til fagfjárfesta samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sem viðurkenndan gagnaðila. Í slíkum tilvikum skal þó sá aðili, sem um ræðir, aðeins viðurkenndur sem viðurkenndur gagnaðili að því er varðar þá þjónustu eða viðskipti sem flokkun hlutaðeigandi sem fag­fjárfestir nær til.

Ef viðurkenndur gagnaðili fer fram á aukna vernd, en fer ekki ótvírætt fram á að fá meðferð sem almennur fjárfestir og fjármálafyrirtækið samþykkir þessa beiðni, skal farið með hann sem fagfjárfesti.

Fari viðurkenndur gagnaðili ótvírætt fram á að fá meðferð sem almennur fjárfestir skal farið með hann sem slíkan, að fullnægðum skilyrðum 23. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfa­viðskipti.

27. gr.

Samningur við almennan fjárfesti.

Fjármálafyrirtæki, sem veitir nýjum almennum fjárfesti aðra fjárfestingaþjónustu en fjárfestingarráðgjöf í fyrsta sinn eftir að reglugerð þessi tekur gildi, skal ganga frá skriflegum samningi við viðskiptavininn á pappír eða öðrum varanlegum miðli þar sem sett eru fram grundvallarréttindi og skuldbindingar fyrirtækisins og viðskiptavinarins.

3. ÞÁTTUR

Upplýsingagjöf gagnvart viðskiptavinum.

28. gr.

Markaðsefni og önnur upplýsingagjöf til almennra fjárfesta.

Fjármálafyrirtæki skal tryggja að allar upplýsingar, þ.m.t. markaðsefni, sem beint er til almennra fjárfesta eða hugsanlegra almennra fjárfesta, eða dreift er á þann hátt að líklegt sé að almennir fjárfestar eða hugsanlegir almennir fjárfestar fái þær, uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2.-8. mgr. þessarar greinar.

Upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., skulu:

a)

greina heiti fjármálafyrirtækisins,

b)

vera nákvæmar og ef fjallað er um hugsanlegan ávinning af verðbréfaviðskiptum eða viðskiptum með fjármálagerninga skal bent á hvers kyns áhættu sem því kann að tengjast á sanngjarnan og áberandi hátt,

c)

hæfa þeim markhópi sem upplýsingunum er beint til, eða líklegt er að fái þær, og vera fram settar á skýran og skiljanlegan hátt,

d)

ekki hafa að geyma rangfærslur, draga úr eða dylja mikilvæg atriði, yfirlýsingar eða viðvaranir.

Ef í upplýsingunum er gerður samanburður á fjárfestingaþjónustu, viðbótarþjónustu, fjármálagerningum eða aðilum, sem veita slíka þjónustu, skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

a)

samanburðurinn verður að vera marktækur og settur fram af sanngirni og jafnræði,

b)

tilgreina skal hvaðan upplýsingarnar, sem notaðar eru í samanburðinn, eru upp­runnar,

c)

lykilstaðreyndir og forsendur sem notaðar eru til að gera samanburðinn verða að koma fram.

Ef í upplýsingunum er tilvísun í þróun og gengi fjármálagerninga, fjármálavísitalna eða fjárfestingaþjónustu skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

a)

þessi tilvísun skal ekki vera áberandi atriði í upplýsingunum,

b)

viðeigandi upplýsingar, byggðar á 12 mánaða tímabilum, skulu gefnar um árangur:

 

i.

síðastliðinna fimm ára,

 

ii.

allt tímabilið sem fjármálagerningurinn, fjármálavísitalan eða fjármála­þjónustan hefur verið í boði, ef það er styttra en fimm ár, eða

 

iii.

annað lengra tímabil, eftir því sem fyrirtækið ákveður,

c)

tilgreina verður tilvísunartímabilið og uppruna upplýsinganna,

d)

í upplýsingunum verður að vera áberandi viðvörun um að tölurnar vísi til fortíðar og að árangur í fortíð gefi ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur,

e)

ef tilvísunin er byggð á tölum, sem tilgreindar eru í öðrum gjaldmiðli heldur en þess ríkis þar sem almennur fjárfestir eða hugsanlegur almennur fjárfestir hefur aðsetur, skal tilgreina gjaldmiðilinn greinilega ásamt viðvörun um að ávöxtunin geti aukist eða minnkað vegna gengisflökts,

f)

ef tilvísunin byggist á heildarárangri skal gefa upp áhrif af umboðslaunum, þókn­unum eða öðrum gjöldum.

Ef í upplýsingunum er tilgreindur eða í þeim er vísað til hermiárangurs í fortíðinni skulu þær tengjast fjármálagerningnum eða fjármálavísitölu og eftirfarandi skilyrði skulu uppfyllt:

a)

hermiárangurinn í fortíðinni skal byggjast á raunárangri eins eða fleiri fjármála­gerninga eða fjármálavísitalna í fortíðinni sem eru þeir sömu og fjármála­gerningurinn sem um ræðir eða liggja að baki honum,

b)

í upplýsingunum verður að vera áberandi viðvörun um að tölurnar vísi til hermi­árangurs í fortíðinni og að árangur í fortíð gefi ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.

Að því er varðar raunárangur í fortíðinni, sem um getur í a-lið, skulu skilyrði, sem sett eru fram í a - c-lið og f-lið í 4. mgr., uppfyllt.

Ef tilgreindar eru upplýsingar um framtíðarárangur skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

a)

upplýsingarnar mega ekki byggjast á eða vísa til hermiárangurs í fortíðinni,

b)

upplýsingarnar verða að byggjast á skynsamlegum forsendum sem studdar eru hlut­lægum gögnum,

c)

ef upplýsingarnar byggjast á heildarárangri skal gefa upp áhrif af umboðslaunum, þóknunum eða öðrum gjöldum,

d)

í upplýsingunum skal vera áberandi viðvörun um að spár um framtíðarárangur gefi ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.

Ef vísað er til sérstakrar skattameðferðar í upplýsingunum skal tekið fram með áberandi hætti að skattameðferðin ráðist af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og geti tekið breytingum í framtíðinni.

Í upplýsingunum skal ekki nota heiti lögbærra yfirvalda með þeim hætti að það gæti gefið vísbendingu um eða gefið til kynna að þetta yfirvald mæli með eða samþykki vörur eða þjónustu fjármálafyrirtækis.

29. gr.

Almennar kröfur um upplýsingar til viðskiptavina.

Fjármálafyrirtæki skal veita almennum fjárfesti eða hugsanlegum almennum fjárfesti eftirfarandi upplýsingar, með góðum fyrirvara, áður en hann verður bundinn hvers konar samningi um veitingu fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu eða áður en slík þjónusta er veitt, hvort heldur ber fyrr að:

a)

skilmála slíks samnings,

b)

upplýsingar sem krafist er skv. 30. gr. sem tengjast þessum samningi eða þessari fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu.

Fjármálafyrirtæki skal veita upplýsingar, sem krafist er skv. 30.-33. gr., með góðum fyrirvara áður en almennum fjárfestum eða hugsanlegum almennum fjárfestum er veitt fjárfestinga- eða viðbótarþjónusta.

Fjármálafyrirtæki skal veita fagfjárfestum upplýsingar, sem um getur í 5. og 6. mgr. 32. gr., með góðum fyrirvara áður en þjónustan, sem um ræðir, er veitt.

Upplýsingarnar, sem um getur í 1.-3. mgr., skulu veittar á varanlegum miðli eða á vefsetri að því tilskildu að skilyrðin sem tilgreind eru í 2. mgr. 3. gr. séu uppfyllt.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er fjármálafyrirtæki heimilt að veita almennum fjárfesti upplýsingarnar sem krafist er skv. 1. mgr. strax eftir að hlutaðeigandi viðskiptavinur er bundinn einhvers konar samningi um veitingu fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu, og jafnframt að veita honum upplýsingarnar sem krafist er skv. 2. mgr. strax eftir að þjónustan hefst, við eftirfarandi aðstæður:

a)

fyrirtækinu var ekki unnt að fara að þeim tímamörkum, sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr., vegna þess að samningurinn var, að beiðni viðskiptavinarins, gerður með því að nota fjarskiptamiðil sem kemur í veg fyrir að fyrirtækið veiti upplýsingar í samræmi við 1. eða 2. mgr.

b)

í þeim tilvikum þegar 9. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, gildir ekki að öðru leyti uppfyllir fjármálafyrirtækið kröfur þeirrar greinar í tengslum við almenna fjárfestinn eða hugsanlega almenna fjárfestinn eins og umræddur viðskiptavinur væri neytandi og fjármálafyrirtækið þjónustuveitandi í skilningi ákvæðisins.

Fjármálafyrirtæki skal tilkynna viðskiptavini með góðum fyrirvara um allar mikilvægar breytingar á upplýsingunum sem veittar eru skv. 30. til 33. gr. og skipta máli varðandi þjónustu sem fyrirtækið veitir þessum einstaklingi. Þessi tilkynning skal vera á varanlegum miðli ef upplýsingarnar sem hún tengist eru á varanlegum miðli.

Fjármálafyrirtæki skal tryggja að upplýsingar sem eru í markaðsefni, samræmist öllum öðrum upplýsingum sem fyrirtækið veitir viðskiptavinum þegar það stundar fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu.

Fjármálafyrirtæki skal tryggja að ef í markaðsefni felst tilboð eða boð af því tagi sem greinir í neðangreindum a- og b-liðum, og tiltekið er hvernig svara skuli eða meðfylgjandi er eyðublað sem unnt er að nota til að svara með, hafi markaðsefnið að geyma þær upplýsingar sem um getur í 30.-33. gr., eftir því sem við á um þetta tilboð eða boð:

a)

tilboð um að gera samning í tengslum við fjármálagerning, fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu við hvern þann aðila er kann að bregðast við samskiptunum,

b)

boð til hvers þess aðila er bregst við samskiptunum, um að gera fjármálafyrirtækinu tilboð um að ganga til samninga við fyrirtækið í tengslum við fjármálagerning, fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu.

Þetta á þó ekki við ef hugsanlegur almennur fjárfestir verður að vísa til annars skjals eða annarra skjala, sem hvort um sig eða til samans innihalda þessar upplýsingar, ef hann vill svara tilboði eða boði sem markaðsefnið felur í sér.

30. gr.

Upplýsingar um fjármálafyrirtækið og þjónustu þess
fyrir almenna fjárfesta og hugsanlega almenna fjárfesta.

Fjármálafyrirtæki skulu veita almennum fjárfestum og hugsanlegum almennum fjár­festum eftirfarandi almennar upplýsingar, þar sem við á:

a)

heiti og heimilisfang fjármálafyrirtækisins og upplýsingar um tengilið sem nauðsynlegar eru til að gera viðskiptavinum kleift að hafa samband við fyrirtækið,

b)

tungumálin sem viðskiptavinurinn getur notað til að hafa samskipti við fjármálafyrirtækið og til að taka við skjölum og öðrum upplýsingum frá fyrirtækinu,

c)

samskiptaaðferðir, sem skal nota milli fjármálafyrirtækisins og viðskiptavinarins, þ.m.t. aðferðir við að senda og taka við fyrirmælum þar sem við á,

d)

yfirlýsingu þess efnis að fyrirtækið hafi starfsleyfi og heiti og heimilisfang tengiliðar þess stjórnvalds sem annaðist leyfisveitinguna,

e)

yfirlýsingu þess efnis að fjármálafyrirtækið veiti þjónustu með milligöngu einkaumboðsmanns og í henni skal tilgreint í hvaða ríki umboðsmaðurinn er skráður,

f)

eðli, tíðni og tímasetningu skýrslna um niðurstöðu þjónustunnar sem fjármálafyrirtækið skal veita viðskiptavininum í samræmi við 3. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti,

g)

ágrip af lýsingu á þeim ráðstöfunum sem fjármálafyrirtækið gerir til að tryggja vernd fjármálagerninga viðskiptavinar eða fjármuna viðskiptavinar ef það varðveitir þá, þ.m.t. ágrip af upplýsingum um viðkomandi bótakerfi fyrir fjárfesta eða innlánatryggingakerfi sem gildir um fyrirtækið í krafti starfsemi þess,

h)

lýsing á stefnu fyrirtækisins um hagsmunaárekstra í samræmi við 20. gr., sem leggja má fram sem ágrip,

i)

hvenær sem viðskiptavinurinn fer fram á veitingu frekari upplýsinga um stefnu fjármálafyrirtækis um hagsmunaárekstra skulu þær veittar, á varanlegum miðli eða á vefsetri, að því tilskildu að skilyrðin sem tilgreind eru í 2. mgr. séu uppfyllt.

Þegar fjármálafyrirtæki veitir eignastýringarþjónustu skal það koma á viðeigandi aðferðum við mat og samanburð og gera viðskiptavininum þannig kleift að meta árangur fyrirtækisins. Með viðeigandi aðferðum er t.d. átt við viðmiðanir sem byggjast á fjárfestingamarkmiðum viðskiptavinarins og þeim tegundum fjármálagerninga sem eru í eignasafni viðskiptavinarins.

Ef fjármálafyrirtæki hyggst veita almennum fjárfesti eða hugsanlegum almennum fjárfesti eignastýringarþjónustu skal það veita viðskiptavininum eftirfarandi upplýsingar, eftir því sem við á, til viðbótar við þær upplýsingar sem krafist er skv. 1. mgr.:

a)

upplýsingar um aðferð og tíðni við mat á fjármálagerningum í eignasafni viðskipta­vinarins,

b)

nánari upplýsingar um það ef valfrjáls stýring á öllum fjármálagerningunum eða fjármununum í eignasafni viðskiptavinarins eða á hluta þeirra er falin öðrum,

c)

upplýsingar um viðmið sem árangur eignasafns viðskiptavinarins verður borinn saman við,

d)

tegundir fjármálagerninga sem geta verið í eignasafni viðskiptavinarins og tegundir viðskipta sem geta verið gerð með slíka gerninga, þ.m.t. hvers kyns mörk,

e)

markmið í stýringu, áhættustig sem skal endurspeglast í því hvernig forstöðumaður valfrjálsrar eignastýringar beitir valfrelsi og allar sérstakar hömlur sem tengjast valfrelsi í ákvarðanatöku.

31. gr.

Upplýsingar um fjármálagerninga.

Fjármálafyrirtæki skal veita viðskiptavinum og hugsanlegum viðskiptavinum almennar upplýsingar um eðli og áhættu fjármálagerninga, einkum með tilliti til þess hvort hlutaðeigandi viðskiptavinur telst almennur fjárfestir eða fagfjárfestir. Í upplýsingunum skal eðli þeirra gerninga sem um ræðir lýst og þeirri áhættu sem einkum tengist gerningunum. Skulu upplýsingarnar vera nógu ítarlegar til að gera viðskiptavinum kleift að taka upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar.

Í lýsingu áhættuþátta skal fjalla um eftirfarandi atriði, eftir því sem við á miðað við tegund gerninganna sem um ræðir, stöðu og þekkingu hlutaðeigandi viðskiptavinar:

a)

áhættu sem tengist þessari tegund fjármálagernings, þ.m.t. skýringu á skuld­setningu og áhrifum hennar og hættunni á að tapa allri fjárfestingunni,

b)

verðflökt slíkra gerninga og takmarkanir á markaði fyrir slíka gerninga,

c)

þá staðreynd að fjárfestirinn gæti tekið á sig, eftir viðskipti með slíka gerninga, fjárhagsskuldbindingar og aðrar viðbótarskuldbindingar, til viðbótar við kostnaðinn af því að kaupa gerningana,

d)

hvers kyns tryggingafé eða sambærilegar skuldbindingar sem eiga við um þessa tegund gerninga.

Ef fjármálafyrirtæki veitir almennum fjárfesti eða hugsanlegum almennum fjárfesti upplýsingar um fjármálagerninga, sem eru hluti af yfirstandandi tilboði til almennings og birt hefur verið lýsing fyrir í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, skal fyrirtækið tilkynna viðskiptavininum hvar unnt er að nálgast lýsinguna.

Ef líklegt er að áhættan sem tengist fjármálagerningi, sem samanstendur af tveimur eða fleiri mismunandi fjármálagerningum eða þjónustu, sé meiri en áhættan sem tengist nokkrum hlutanna skal fjármálafyrirtækið gefa viðunandi lýsingu á hlutum þessa gernings og hvernig víxlverkun þeirra eykur áhættuna.

Ef um er að ræða fjármálagerninga, sem fela í sér ábyrgðir þriðja aðila, skal m.a. koma fram í upplýsingum um ábyrgðir nægilega ítarleg lýsing á ábyrgðaraðila og ábyrgðunum til að gera almenna fjárfestinum eða hugsanlega almenna fjárfestinum kleift að meta ábyrgðirnar á sanngjarnan hátt.

32. gr.

Upplýsingar um varðveislu fjármálagerninga og fjármuna viðskiptavina.

Ef fjármálafyrirtæki varðveitir fjármálagerninga eða fjármuni almennra fjárfesta, skal það veita þeim eða þeim sem hugsanlega verða almennir fjárfestar þær upplýsingar sem eru tilgreindar í 2.-7. mgr., eftir því sem við á.

Ef hugsanlegt er að þriðji aðili varðveiti fjármálagerninga eða fjármuni almennra fjárfesta fyrir hönd fjármálafyrirtækis, skal fjármálafyrirtækið tilkynna almenna fjárfestinum eða hugsanlegum almennum fjárfestum um það og um ábyrgð fjármálafyrirtækisins samkvæmt gildandi lögum vegna aðgerða eða aðgerðaleysis þriðja aðila og afleiðingar sem gjaldþrot þriðja aðila kann að hafa í för með sér fyrir viðskiptavininn.

Ef varðveita má fjármálagerninga almennra fjárfesta eða hugsanlegra almennra fjárfesta á sameiginlegum reikningi þriðja aðila, að fullnægðum skilyrðum reglugerðar þessarar og 12. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, skal fjármálafyrirtækið tilkynna viðskiptavininum um þetta og leggja fram áberandi viðvörun um áhættuna sem þetta hefur í för með sér.

Fjármálafyrirtæki skal tilkynna almennum fjárfestum eða hugsanlegum almennum fjárfestum um það ef ekki er unnt, samkvæmt gildandi rétti, að aðgreina fjármála­gerninga viðskiptavinar, sem þriðji aðili geymir sérstaklega, frá eigin fjármála­gerningum þessa þriðja aðila eða fjármálafyrirtækisins og skal það leggja fram áberandi viðvörun um áhættu sem slíkt hefur í för með sér.

Fjármálafyrirtækið skal tilkynna viðskiptavinum eða hugsanlegum viðskiptavinum um það, ef reikningar sem innihalda fjármálagerninga eða fjármuni sem eru í eigu hlutaðeigandi viðskiptavinar eða hugsanlegs viðskiptavinar falla eða koma til með að falla undir löggjöf lögsagnarumdæmis utan Evrópska efnahagssvæðisins. Fjármála­fyrirtækið skal benda á að réttindi viðskiptavinarins eða hugsanlegs viðskipta­vinar, sem tengjast þessum fjármálagerningum eða fjármunum, geta verið mismun­andi hvað þetta varðar.

Fjármálafyrirtæki skal tilkynna viðskiptavinum um það ef fyrir hendi eru skilmálar um tryggingar eða veð sem fyrirtækið hefur eða kann að hafa vegna fjármálagerninga eða fjármuna viðskiptavina og hverjir þeir eru eða hvers konar rétt til skuldajöfnuðar það hefur í tengslum við þessa gerninga eða fjármuni. Þar sem við á skal það einnig tilkynna viðskiptavinum um það að vörsluaðili kunni að hafa tryggingar eða veð í þessum gerningum eða fjármunum eða rétt til skuldajöfnuðar í þeim.

Áður en fjármálafyrirtæki stofnar til fjármögnunarviðskipta með verðbréf í tengslum við fjármálagerninga, sem það varðveitir fyrir hönd almenns fjárfestis eða áður en það notar slíka fjármálagerninga á annan hátt fyrir eigin reikning eða fyrir reikning annars viðskiptavinar, skal það með góðum fyrirvara áður en það notar þessa gerninga veita almenna fjárfestinum skýrar, ítarlegar og nákvæmar upplýsingar, á varanlegum miðli, um skuldbindingar og ábyrgðir fjármálafyrirtækisins að því er varðar áhættuna sem fylgir slíku.

33. gr.

Upplýsingar um kostnað og tengd gjöld.

Fjármálafyrirtæki skal veita almennum fjárfestum og hugsanlegum almennum fjárfestum upplýsingar um kostnað og tengd gjöld sem fela í sér eftirfarandi þætti, eftir því sem við á:

a)

heildarverð sem viðskiptavini ber að greiða í tengslum við fjármálagerninginn, fjármálaþjónustuna eða viðbótarþjónustuna, þ.m.t. allar tengdar þóknanir, umboðs­laun, kostnað, útgjöld og skatta, sem greiddir eru fyrir milligöngu fjármála­fyrirtækisins, eða, ef ekki er unnt að gefa upp nákvæmt heildarverð, grundvöll fyrir útreikningi heildarverðsins svo að viðskiptavinurinn geti sannreynt það. Að því er varðar þennan lið skal sundurliða sérstaklega umboðslaun sem fjármála­fyrirtæki innheimtir í hverju tilviki fyrir sig,

b)

ef greiða skal hluta heildarverðsins, sem um getur í a-lið, í erlendum gjaldmiðli eða hann stendur fyrir slíka fjárhæð skal gefa upp gjaldmiðilinn og umreikningsgengi hans ásamt kostnaði sem um ræðir,

c)

tilkynningu um að verið geti að annar kostnaður, þ.m.t. skattar, sem tengjast við­skiptum í tengslum við fjármálagerning eða fjárfestingaþjónustu, geti fallið á viðskiptavininn og að þessi kostnaður sé ekki greiddur fyrir milligöngu fjármála­fyrirtækisins eða að það leggi þennan kostnað á,

d)

fyrirkomulag um greiðslu og aðrar efndir.

34. gr.

Upplýsingar um hlutdeildarskírteini.

Þegar um er að ræða hlutdeildarskírteini í fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, sem falla undir lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, skal litið á útboðs­lýsingu sem uppfyllir ákvæði 47. gr. þeirra laga, sem:

a)

fullnægjandi upplýsingar í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 108/2007, um verð­bréfaviðskipti, að því er varðar leiðbeiningar um þá áhættu sem slíkum fjárfest­ingum fylgir, þannig að viðskiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingar­ákvörðun, og

b)

fullnægjandi upplýsingar að því er varðar kostnað og önnur gjöld tengd hlutdeildarskírteininu, þ.m.t. umboðslaun fyrir kaup og sölu.

4. ÞÁTTUR

Mat á hæfi viðskiptavinar og tilhlýðileika fjármálaþjónustu.

35. gr.

Almenn ákvæði um mat á hæfi og tilhlýðileika.

Við mat á hæfi viðskiptavinar, eða hugsanlegs viðskiptavinar, á sviði verðbréfaviðskipta og því hvort tilekin vara eða þjónusta sé tilhlýðileg fyrir ákveðinn viðskiptavin skal fjármálafyrirtæki afla sér eftirfarandi upplýsinga varðandi þekkingu og reynslu við­komandi að því marki sem við á, með tilliti til þess um hvers konar viðskiptavin er að ræða og eðlis og umfangs þjónustunnar sem veita skal, og með tilliti til tegundar vöru eða viðskipta sem fyrirhuguð eru, þ.m.t. hversu flókin þau eru og hvaða áhætta er í þeim fólgin:

a)

tegundir þjónustu, viðskipta og fjármálagernings sem viðskiptavinurinn þekkir,

b)

eðli, umfang og tíðni viðskipta viðskiptavinarins með fjármálagerninga og á hvaða tímabili þau hafa verið gerð,

c)

menntun og atvinna eða fyrri atvinna viðskiptavinarins eða hugsanlegs viðskipta­vinar sem skiptir máli í þessu sambandi.

Fjármálafyrirtæki skal ekki hvetja viðskiptavin eða hugsanlegan viðskiptavin til þess að veita ekki upplýsingar sem krafist er samkvæmt 1. mgr.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að reiða sig á upplýsingar sem viðskiptavinir eða hugsan­legir viðskiptavinir þess leggja fram ef því er kunnugt um eða má vera kunnugt um að upplýsingarnar séu úreltar, óáreiðanlegar eða ófullgerðar.

36. gr.

Mat á hæfi við fjárfestingarráðgjöf og veitingu eignastýringarþjónustu.

Fjármálafyrirtæki skal afla þeirra upplýsinga frá viðskiptavinum eða hugsanlegum viðskiptavinum sem eru nauðsynlegar til þess að fyrirtækið skilji aðstæður viðskiptavinar og geti metið á upplýstan hátt hvort þau tilteknu viðskipti sem mæla á með í eignastýringarþjónustu uppfylli eftirfarandi viðmiðanir, með því að taka tilhlýðilegt tillit til eðlis og umfangs veittrar þjónustu:

a)

þau uppfylli fjárfestingarmarkmið hlutaðeigandi viðskiptavinar,

b)

þau séu þannig að viðskiptavinurinn sé fjárhagslega fær um að bera alla tengda fjárfestingaráhættu sem felst í fjárfestingamarkmiðum hans,

c)

þau séu þannig að viðskiptavinurinn hafi þá reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til að skilja áhættuna sem felst í viðskiptunum eða í stýringu eignasafns hans.

Ef fjármálafyrirtækið veitir fagfjárfesti fjárfestingaþjónustu að því er varðar vörur, viðskipti og þjónustu sem flokkun viðskiptavinar miðast við, skal fyrirtækið hafa rétt á að gera ráð fyrir að viðskiptavinurinn sé með nægilega reynslu og þekkingu í skilningi c-liðar 1. mgr.

Ef fjárfestingaþjónusta af þessu tagi felur í sér að fagfjárfesti er veitt fjárfestingarráðgjöf skal fjármálafyrirtækið hafa rétt á að gera ráð fyrir að viðskiptavinurinn sé fjárhagslega fær um að bera alla tengda fjárfestingaráhættu sem er í samræmi við fjárfestinga­markmið hans, í skilningi b-liðar 1. mgr.

Meðal upplýsinga sem aflað skal um fjárhagsstöðu viðskiptavinar eða hugsanlegs viðskipta­vinar, er eftirfarandi:

a)

tekjur og hvaðan þær koma,

b)

eignir, þ.m.t. seljanlegar eignir, fjárfestingar og fasteignir,

c)

fjárhagsskuldbindingar.

Upplýsingar varðandi fjárfestingamarkmið viðskiptavinar eða hugsanlegs viðskiptavinar skulu fela í sér, þar sem við á, upplýsingar um hversu lengi viðskiptavinurinn óskar að halda fjárfestingunni, forgangsóskir hans varðandi áhættu, áhættustefnu hans og tilgang hans með fjárfestingunni.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt við eignastýringu eða veitingu fjárfestingarráðgjafar, að mæla með fjárfestingaþjónustu eða fjármálagerningum við viðskiptavin eða hugsanlegan viðskiptavin hafi það ekki aflað þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt 15. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

37. gr.

Mat á tilhlýðileika vegna annarra verðbréfaviðskipta.

Þegar fjármálafyrirtæki metur hvort önnur þjónusta á sviði verðbréfaviðskipta, sem fjallað er um í 16. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sé tilhlýðileg fyrir viðskiptavin skal fjármálafyrirtækið ákvarða hvort þessi viðskiptavinur hafi þá reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til þess að hann skilji hvaða áhætta tengist vörunni eða verðbréfaviðskiptunum sem boðin eru eða beðið er um.

Í þessu skyni skal fjármálafyrirtækið hafa rétt á að gera ráð fyrir að fagfjárfestir hafi þá reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til þess að hann skilji áhættuna sem tengist þeirri tilteknu þjónustu eða tegundum viðskipta eða vöru sem viðskiptavinurinn er flokkaður eftir sem fagfjárfestir.

38. gr.

Veiting þjónustu með einfalda gerninga.

Líta skal á fjármálagerning sem ekki er tilgreindur í a-lið 4. mgr. 16. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem einfaldan ef hann uppfyllir eftirfarandi viðmiðanir:

a)

hann fellur ekki undir 3. tölul. a-liðar, e-, f-, g- eða h-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007,

b)

mörg tækifæri eru til að ráðstafa, leysa út eða innleysa þennan gerning á annan hátt á verði sem er opinberlega aðgengilegt markaðsaðilum og sem er annaðhvort markaðsverð eða verð sem er aðgengilegt eða viðurkennt af matskerfum sem eru óháð útgefanda,

c)

hann felur ekki í sér raunverulega eða hugsanlega skuldbindingu viðskiptavinarins sem er meiri en kostnaðurinn við kaup á gerningnum,

d)

viðunandi og ítarlegar upplýsingar um eiginleika hans eru opinberlega aðgengilegar og líklegt er að þær séu auðskiljanlegar þannig að hverjum almennum viðskiptavini sé kleift að meta með upplýstum hætti hvort stofna skuli til viðskipta með þennan gerning.

5. ÞÁTTUR

Fjárfestingarráðgjöf.

39. gr.

Fjárfestingarráðgjöf.

Að því er varðar skilgreiningu á hugtakinu fjárfestingarráðgjöf í 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, er persónuleg ráðlegging sú ráðlegging sem veitt er einstaklingi í stöðu viðskiptavinar eða hugsanlegs viðskiptavinar, eða umboðsmanns hans.

Ráðlegging er ekki persónuleg ef hún er eingöngu veitt í gegnum dreifileiðir eða til almennings.

Fjárfestingarráðgjöf verður að vera sett þannig fram að hún hæfi viðkomandi viðskiptavini eða byggist á mati á aðstæðum þessa aðila og í henni verður að felast ráðlegging um annað hvort:

a)

að kaupa, selja, skrifa sig fyrir, skipta, innleysa, varðveita eða tryggja tiltekinn fjármála­gerning, eða

b)

að nýta eða nýta ekki rétt sem tiltekinn fjármálagerningur hefur í för með sér til að kaupa, selja, skrifa sig fyrir, skipta eða innleysa fjármálagerning.

6. ÞÁTTUR

Tilkynningar til viðskiptavina.

40. gr.

Tilkynningarskylda að því er varðar framkvæmd
annarra fyrirmæla en um eignastýringu.

Þegar fjármálafyrirtæki hefur farið að fyrirmælum um annað en eignastýringu fyrir hönd viðskiptavinar skal það grípa til eftirfarandi aðgerða í tengslum við þessi fyrirmæli:

a)

fjármálafyrirtækið skal tafarlaust veita viðskiptavininum þýðingarmiklar upplýsingar varðandi framkvæmd þessara fyrirmæla á varanlegum miðli,

b)

þegar um er að ræða almennan fjárfesti verður fjármálafyrirtækið að senda viðskiptavininum tilkynningu á varanlegum miðli til staðfestingar á framkvæmd fyrirmælanna eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fyrsta viðskiptadag eftir framkvæmdina eða, ef fjármálafyrirtæki móttekur staðfestingu frá þriðja aðila, eigi síðar en fyrsta viðskiptadag eftir að staðfesting hefur borist frá þriðja aðila.

Ákvæði b-liðar á ekki við ef í staðfestingunni eru sömu upplýsingar og í staðfestingu sem annar aðili mun senda almenna fjárfestinum tafarlaust.

Ákvæði a- og b-liðar eiga ekki við þegar fyrirmæli, sem eru framkvæmd fyrir hönd viðskiptavina, tengjast skuldabréfum sem fjármagna veðlánssamninga við fyrrgreinda viðskiptavini en í því tilviki skal skýra frá viðskiptunum á sama tíma og skýrt er frá skil­málum veðlánsins en eigi síðar en einum mánuði eftir að fyrirmælin hafa verið framkvæmd.

Til viðbótar við kröfur skv. 1. mgr. skal fjármálafyrirtæki veita viðskiptavininum upplýsingar um stöðu fyrirmæla hans, ef hann fer fram á slíkt.

Þegar um er að ræða fyrirmæli fyrir almennan fjárfesti, sem tengjast hlutdeildar­skírteinum eða hlutabréfum í sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem eru framkvæmd reglulega, skal fjármálafyrirtæki annaðhvort gera þá ráðstöfun, sem tilgreind er í b-lið 1. mgr., eða veita almenna fjárfestinum upplýsingarnar, sem skráðar eru í 4. mgr. a.m.k. einu sinni á sex mánaða fresti, að því er varðar þessi viðskipti.

Í tilkynningunni, sem um getur í b-lið 1. mgr., skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar, þar sem við á, í samræmi við töflu 1 í I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1287/2006 frá 10. ágúst 2006 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB að því er varðar skyldur fjármálafyrirtækja varðandi skýrsluhald, tilkynningar um viðskipti, gagnsæi á markaði, töku fjármálagerninga til viðskipta og skilgreind hugtök í skilningi þeirrar tilskipunar, sbr. reglugerð nr. 994/2007 um inn­leiðingu hennar:

a)

auðkenning fyrirtækis sem gefur skýrslu,

b)

nafn eða annað heiti viðskiptavinar,

c)

viðskiptadagur,

d)

tími viðskipta,

e)

gerð fyrirmæla,

f)

auðkenning kerfisins,

g)

auðkenning gernings,

h)

kaup-/söluvísir,

i)

eðli fyrirmælanna ef þau fela í sér annað en kaup/sölu,

j)

magn,

k)

einingaverð,

l)

heildargreiðsla,

m)

samtala umboðslauna og innheimts kostnaðar og sundurliðuð skipting, ef almenni viðskiptavinurinn fer fram á það,

n)

ábyrgð viðskiptavinarins í tengslum við viðskiptauppgjörið, þ.m.t. tímamörk greiðslu eða afhendingar og einnig upplýsingar sem máli skipta um reikning ef viðskiptavininum hefur ekki áður verið tilkynnt um þessar upplýsingar og ábyrgðir,

o)

hvort mótaðili viðskiptavinarins er fjármálafyrirtækið sjálft, aðili í samstæðu fjármálafyrirtækisins eða annar viðskiptavinur fjármálafyrirtækisins, nema fyrirmælin hafi verið framkvæmd í gegnum viðskiptakerfi sem gerir kleift að stunda nafnlaus viðskipti.

Að því er varðar k-lið skal fjármálafyrirtækið veita viðskiptavininum upplýsingar um verð í hverjum áfanga eða meðalverð ef fyrirmælin eru framkvæmd í áföngum. Ef meðalverð er gefið upp skal fjármálafyrirtækið veita almennum fjárfesti upplýsingar um verðið á hverjum hlut ef beðið er um það.

Fjármálafyrirtækið getur veitt viðskiptavininum upplýsingarnar, sem um getur í 4. mgr., með því að nota staðlaða kóða ef það útskýrir jafnframt hvernig kóðarnir eru notaðir.

41. gr.

Tilkynningarskylda að því er varðar eignastýringu.

Fjármálafyrirtæki sem veitir viðskiptamönnum þjónustu á sviði eignastýringar, skal veita sérhverjum viðskiptavini reglubundnar yfirlýsingar á varanlegum miðli um aðgerðir í eignastýringunni, sem inntar hafa verið af hendi fyrir hönd þess viðskiptavinar, nema annar aðili leggi fram slíka yfirlýsingu.

Ef um er að ræða almenna fjárfesta skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar, í reglu­bundnu yfirlýsingunni, sem krafist er skv. 1. mgr., þar sem við á:

a)

heiti fjármálafyrirtækisins,

b)

nafn eða önnur tilnefning á reikningi almenna fjárfestisins,

c)

yfirlýsing um innihald og mat á eignasafninu, þ.m.t. ítarlegar upplýsingar um sérhvern fjármálagerning, markaðsvirði hans eða gangvirði ef markaðsvirði er ekki fyrir hendi, sjóð í upphafi og við lok skýrslutímabilsins og árangur eignasafnsins á skýrslutímabilinu,

d)

heildarfjárhæð þóknana og gjalda sem stofnað er til á skýrslutímabilinu með sundurliðun á a.m.k. heildarstýringarþóknunum og heildarkostnaði sem tengjast framkvæmd og þ.m.t., þar sem við á, yfirlýsing um að ítarlegri sundurliðun verði lögð fram ef beðið er um það,

e)

samanburður á árangri á tímabilinu, sem yfirlýsingin nær til, með viðmiðun um fjárfestingarárangur (ef einhver var) sem fjármálafyrirtækið og viðskiptavinurinn ákváðu sín í milli,

f)

heildarfjárhæð arðgreiðslna, vaxta og annarra móttekinna greiðslna á skýrslu­tímabilinu í tengslum við eignasafn viðskiptavinarins,

g)

upplýsingar um aðrar aðgerðir fyrirtækisins sem veita réttindi í tengslum við fjármálagerninga sem eru í eignasafninu,

h)

þær upplýsingar, sem um getur í c- til l-lið 4. mgr. 40. gr. um sérhver viðskipti sem framkvæmd eru á tímabilinu, þar sem við á, nema viðskiptavinurinn kjósi að fá upplýsingar um sérhver framkvæmd viðskipti, en þegar það á við gilda ákvæði 4. mgr. þessarar greinar.

Ef um er að ræða almenna fjárfesta skal leggja fram hina reglubundnu yfirlýsingu, sem um getur í 1. mgr., á sex mánaða fresti nema í eftirfarandi tilvikum:

a)

reglubundnu yfirlýsinguna skal leggja fram á þriggja mánaða fresti ef viðskipta­vinurinn fer fram á það,

b)

þegar ákvæði 4. mgr. gilda skal leggja fram reglubundnu yfirlýsinguna a.m.k. einu sinni á 12 mánaða fresti,

c)

ef samningurinn milli fjármálafyrirtækisins og almenna fjárfestisins um þjónustu um eignastýringu veitir heimild fyrir eignasafni með lánsfé skal leggja fram reglubundnu yfirlýsinguna a.m.k. einu sinni í mánuði.

Fjármálafyrirtæki skulu tilkynna almennum fjárfestum um að þeir eigi rétt á að leggja fram beiðni samkvæmt a-lið.

Undantekningin sem kveðið er á um í b-lið gildir ekki ef um er að ræða viðskipti með fjármálagerninga sem falla undir a-lið (iii), e-, f-, g- eða h-lið 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

Í þeim tilvikum þegar viðskiptavinur kýs að fá upplýsingar um sérhver framkvæmd viðskipti skal fjármálafyrirtæki tafarlaust, þegar viðskipti eru framkvæmd, veita viðskiptavininum nauðsynlegar upplýsingar um þessi viðskipti á varanlegum miðli.

Ef viðskiptavinurinn er almennur fjárfestir skal fjármálafyrirtækið senda honum tilkynningu til staðfestingar á viðskiptunum þar sem fram koma einnig upplýsingarnar, sem um getur í 4. mgr. 40. gr., eigi síðar en fyrsta viðskiptadag eftir framkvæmdina eða, ef fjármálafyrirtæki móttekur staðfestingu frá þriðja aðila, eigi síðar en fyrsta viðskiptadag eftir að staðfesting hefur borist frá þriðja aðila. Þetta á þó ekki við ef í staðfestingunni eru sömu upplýsingar og eru í staðfestingu sem annar aðili á að senda almenna fjárfestinum tafarlaust.

42. gr.

Viðbótartilkynningarskylda vegna eignastýringar
eða viðskipta með óvissar skuldbindingar.

Ef fjármálafyrirtæki sinnir viðskiptum í eignastýringu fyrir almennan fjárfesti eða stjórnar reikningum almenns fjárfestis, sem fela í sér óvarða opna stöðu í viðskiptum með afleidda skuldbindingu, skal það ennfremur gefa almenna fjárfestinum skýrslu um allt tap sem fer yfir fyrirframákveðin mörk, sem fyrirtækið og hlutaðeigandi viðskiptavinur hafa samþykkt, eigi síðar en við lok þess viðskiptadags þar sem farið er yfir mörkin eða, ef farið er yfir mörkin á degi sem ekki er viðskiptadagur, við lok næsta viðskiptadags.

43. gr.

Yfirlýsingar um fjármálagerninga eða fjármuni viðskiptavina.

Fjármálafyrirtæki, sem varðveitir fjármálagerninga eða fjármuni viðskiptavinar, skal senda sérhverjum viðskiptavini sem það varðveitir fjármálagerninga eða fjármuni fyrir yfirlýsingu á varanlegum miðli a.m.k. einu sinni á ári um fjármálagerningana eða fjármunina, nema slík yfirlýsing hafi komið fram í annarri reglubundinni yfirlýsingu.

Ákvæði þessarar málsgreinar gildir ekki um lánastofnanir, sem hefur verið veitt starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, að því er varðar innlán sem slíkar stofnanir hafa í vörslum sínum.

Í yfirlýsingu um eignir viðskiptavina, sem um getur í 1. mgr., skulu koma fram eftir­farandi upplýsingar:

a)

upplýsingar um alla fjármálagerninga eða fjármuni sem fjármálafyrirtækið varðveitir fyrir viðskiptavininn við lok þess tímabils sem yfirlýsingin nær til,

b)

að hvaða marki fjármálagerningar viðskiptavinar eða fjármunir viðskiptavinar hafa verið notaðir í fjármögnunarviðskiptum,

c)

að hvaða marki hvers kyns ávinningur hefur runnið til viðskiptavinarins í gegnum þátttöku í fjármögnunarviðskiptum og á hvaða grundvelli þessi ávinningur hefur fengist. Í þeim tilvikum að eignasafn viðskiptavinarins feli í sér ágóða af einum eða fleiri óloknum viðskiptum má byggja upplýsingarnar sem um getur í a-lið annað­hvort á viðskiptadegi eða uppgjörsdegi, að því tilskildu að sama grunni sé beitt á samræmdan hátt að því er varðar allar upplýsingar í yfirlýsingunni.

Fjármálafyrirtæki sem varðveitir fjármálagerninga eða fjármuni og annast þjónustu við eignastýringu fyrir viðskiptavin, er heimilt að setja yfirlýsinguna um eignir viðskiptavinar, sem um getur í 1. mgr., í reglubundnu yfirlýsinguna sem það sendir þessum viðskiptavini skv. 1. mgr. 41. gr.

7. ÞÁTTUR

Besta framkvæmd.

44. gr.

Viðmiðanir um bestu framkvæmd.

Þegar fjármálafyrirtæki framkvæmir fyrirmæli viðskiptavina skal það taka tillit til eftirfarandi viðmiðana til að ákvarða hlutfallslegt mikilvægi þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti:

a)

einkenna viðskiptavinarins, þ.m.t. hvort viðskiptavinurinn er flokkaður sem almennur fjárfestir eða fagfjárfestir,

b)

hvers eðlis fyrirmæli viðskiptavinarins eru,

c)

einkenna fjármálagerninganna sem um er að ræða í þessum fyrirmælum,

d)

einkenna þeirra markaða sem unnt er að beina fyrirmælunum til.

Fjármálafyrirtæki uppfyllir skuldbindingu sína samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 108/2007, um að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína, að því marki sem það framkvæmir fyrirmæli eða tiltekinn þátt þeirra samkvæmt sérstökum fyrirmælum viðskiptavinar.

Þegar fjármálafyrirtæki framkvæmir fyrirmæli fyrir hönd almenns fjárfestis skal besti mögulegi árangur m.a. ákvarðaður út frá heildarmati sem felur í sér verð fjármála­gerningsins og kostnað tengdan framkvæmdinni, þ.m.t. öll útgjöld sem viðskipta­vinurinn stofnar til og eru beinlínis tengd framkvæmd fyrirmælanna, s.s. þóknanir til markaða, þóknanir vegna greiðslujöfnunar og uppgjörs og allar aðrar þóknanir sem greiddar eru þriðju aðilum sem koma að framkvæmd fyrirmælanna.

Í því skyni að tryggja bestu framkvæmd, ef fleiri en einn markaður eru í samkeppni um að framkvæma fyrirmæli um fjármálagerning, og til þess að meta og bera saman árangur fyrir viðskiptavininn sem unnt væri að ná með því að framkvæma fyrirmæli á sérhverjum þeim markaði sem skráður er í verklagsreglum fyrirtækisins um framkvæmd fyrirmæla og sem getur framkvæmt fyrirmælin, skal í þessu mati tekið tillit til eigin umboðslauna og kostnaðar fyrirtækisins fyrir framkvæmd fyrirmælanna á sérhverjum þeim markaði sem viðurkenndur er.

45. gr.

Skylda fjármálafyrirtækis sem annast eignastýringu, og móttöku og miðlun fyrirmæla,
til þess að starfa þannig að hagsmunir viðskiptavinarins séu hafðir að leiðarljósi.

Við framkvæmd eignastýringar skal fjármálafyrirtæki uppfylla skilyrði II. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um bestu framkvæmd við miðlun fyrirmæla, þegar það beinir fyrirmælum um viðskipti með fjármálagerninga á grundvelli eignastýringarinnar til annarra aðila.

Þegar fjármálafyrirtæki veitir þjónustu við móttöku og miðlun fyrirmæla skal það uppfylla skilyrði II. kafla laga nr. 108/2007, um bestu framkvæmd, við miðlun fyrirmæla til annarra aðila.

Í því skyni að uppfylla ákvæði 1. og 2. mgr. skal fjármálafyrirtæki grípa til þeirra aðgerða sem um getur í 4.-6. mgr. þessarar greinar.

Fjármálafyrirtæki skal gera eðlilegar ráðstafanir til að niðurstaðan verði sem hagstæðust fyrir viðskiptavini þess, að teknu tilliti til þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 108/2007. Forgangsröðun þessara þátta skal ákvörðuð með tilvísun til viðmiðanna sem sett eru fram í 1. mgr. 44. gr. og, að því er varðar almenna fjárfesta, skilyrða samkvæmt 3. mgr. 44. gr.

Að því marki sem fjármálafyrirtæki fylgir sérstökum fyrirmælum viðskiptavinar síns við miðlun fyrirmæla til annars aðila, telst fyrirtækið uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt 1. og 2. mgr. og þess er ekki krafist að það grípi til þeirra aðgerða sem um getur í þessari málsgrein.

Fjármálafyrirtæki skal setja sér verklagsreglur sem gera því kleift að uppfylla skuldbindingarnar í 4. mgr. Í verklagsreglunum skal tilgreina, að því er varðar sérhvern flokk gerninga, þær starfseiningar þar sem fyrirmæli eru lögð fram eða fjármála­fyrirtækið miðlar fyrirmælum til framkvæmdar. Hjá einingunum sem tilgreindar eru skal vera fyrir hendi fyrirkomulag um framkvæmd sem gerir fjármálafyrirtæki kleift að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt þessari grein þegar það leggur fram eða miðlar fyrirmælum til þessarar einingar til framkvæmdar.

Fjármálafyrirtæki skal veita viðskiptavinum sínum viðeigandi upplýsingar um þær verklagsreglur sem komið er á í samræmi við þessa málsgrein.

Fjármálafyrirtæki skal hafa reglubundið eftirlit með skilvirkni þeirra verklagsreglna sem komið er á í samræmi við 5. mgr., einkum með gæðum framkvæmdar hjá einingunum sem tilgreindar eru í reglunum og ráða bót á hvers konar annmörkum þar sem við á.

Auk þess skal fjármálafyrirtæki endurskoða verklagsreglur sínar árlega. Slík endur­skoðun skal fara fram í hvert skipti sem veruleg breyting verður sem hefur áhrif á getu fyrirtækisins til að ná áframhaldandi besta hugsanlega árangri fyrir viðskiptavini sína.

Ákvæði 1.-6. mgr. gilda ekki þegar fjármálafyrirtækið, sem veitir þjónustu við eignastýringu og/eða móttöku og miðlun fyrirmæla, framkvæmir jafnframt fyrirmælin sem eru móttekin eða ákvarðanir um að eiga viðskipti fyrir hönd eignasafns viðskiptavinarins.

46. gr.

Verklagsreglur.

Fjármálafyrirtæki skal endurskoða árlega verklagsreglur um framkvæmd viðskipta­fyrirmæla, sem komið er á skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfa­viðskipti, og einnig fyrirkomulag þess við framkvæmd fyrirmæla.

Slík endurskoðun skal jafnframt fara fram í hvert skipti sem veruleg breyting verður sem hefur áhrif á getu fyrirtækisins til að ná besta hugsanlega árangri við framkvæmd fyrirmæla viðskiptavina þess með samræmdum hætti á þeim mörkuðum sem skráðir eru í verklagsreglum þess.

Fjármálafyrirtæki skal veita almennum fjárfestum eftirfarandi ítarlegar upplýsingar um verklagsreglur sínar með góðum fyrirvara áður en þjónustan er veitt:

a)

yfirlit um hlutfallslegt mikilvægi sem fjármálafyrirtækið ætlar þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 108/2007, í samræmi við viðmiðanirnar sem eru tilgreindar í 1. mgr. 44. gr. eða aðferðina sem fyrirtækið beitir til að ákvarða hlutfallslegt mikilvægi þessara þátta,

b)

skrá yfir þá markaði sem fyrirtækið reiðir sig einkum á þegar það uppfyllir skuld­bindingar sínar um að leita allra leiða sem skynsamlegar eru, til þess að ná með samræmdum hætti besta mögulega árangri í framkvæmd fyrirmæla viðskipta­vina,

c)

skýra og áberandi viðvörun um að hvers kyns sérstök fyrirmæli frá viðskiptavini kunni að hindra það að fyrirtækið grípi til aðgerða, sem það hefur mótað og komið á í verklagsreglum sínum, í því skyni að ná besta mögulega árangri við framkvæmd þessara fyrirmæla að því er varðar þá þætti sem leiðbeiningarnar ná til. Þessar upplýsingar skulu veittar á varanlegum miðli eða á vefsetri að því tilskildu að skilyrðin sem tilgreind eru í 2. mgr. 3. gr. séu uppfyllt.

8. ÞÁTTUR

Meðferð fyrirmæla viðskiptavina.

47. gr.

Almennar meginreglur.

Fjármálafyrirtæki skal grípa til eftirfarandi aðgerða þegar það sinnir fyrirmælum viðskipta­vina:

a)

tryggja að fyrirmæli sem framkvæmd eru fyrir hönd viðskiptavina séu tafarlaust og nákvæmlega skráð og beint í réttan farveg,

b)

sinna fyrirmælum viðskiptavina, sem eru sambærileg að öðru leyti, í þeirri röð sem þau berast og án tafar nema það sé ógerlegt vegna þess hvers eðlis fyrirmælin eru eða vegna ríkjandi markaðsaðstæðna eða vegna þess að hagsmunir viðskipta­vinarins krefjast þess,

c)

tilkynna almennum fjárfesti um hvers kyns raunveruleg vandkvæði sem tengjast því að fyrirmæli séu framkvæmd án tafar og um leið og þessi vandkvæði koma í ljós.

Ef fjármálafyrirtæki ber ábyrgð á því að hafa umsjón með eða koma í kring uppgjöri eftir framkvæmd fyrirmæla skal það gera allar eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að fjármálagerningar viðskiptavinar eða fjármunir viðskiptavinar, sem veitt er viðtaka við uppgjör eftir framkvæmd þessara fyrirmæla, sé komið til skila án tafar og með viðeigandi hætti á reikning viðkomandi viðskiptavinar.

Fjármálafyrirtæki skal ekki misnota upplýsingar sem tengjast óafgreiddum fyrirmælum viðskiptavinar og það skal grípa til allra eðlilegra ráðstafana til að hindra að starfsmenn fyrirtækisins misnoti slíkar upplýsingar.

48. gr.

Samsafn og úthlutun fyrirmæla.

Fjármálafyrirtæki er ekki heimilt að sinna fyrirmælum viðskiptavinar, eða viðskiptum fyrir eigin reikning, með fyrirmælum annars viðskiptavinar nema eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a)

ólíklegt verður að teljast að samsafn fyrirmæla og viðskipta muni í heild reynast óhagstæð einhverjum viðskiptavina,

b)

skýra skal sérhverjum viðskiptavini, sem á fyrirmæli sem setja á í safnið, að áhrif samsafnsins geti reynst óhagstæð að því er varðar tiltekin fyrirmæli, og

c)

mótuð skal stefna um úthlutun fyrirmæla og hún framkvæmd með skilvirkum hætti, þar sem kveðið er á um sanngjarna dreifingu samsafnaðra fyrirmæla og viðskipta á nægilega ítarlegu máli, þ.m.t. hvernig magn og verð fyrirmæla ákvarðar dreifingu og meðferð fyrirmæla sem eru framkvæmd að hluta.

Ef fjármálafyrirtæki setur fyrirmæli með einum eða fleiri fyrirmælum annarra viðskiptavina og samsöfnuðu fyrirmælin eru framkvæmd að hluta, skal það úthluta viðskiptunum í samræmi við stefnu sína um dreifingu fyrirmæla.

49. gr.

Samsafn og dreifing viðskipta fyrir eigin reikning.

Fjármálafyrirtæki, sem hefur safnað saman viðskiptum fyrir eigin reikning og lagt við ein eða fleiri fyrirmæli viðskiptavina eða viðskiptavinar, skal ekki úthluta viðskiptunum þannig að það skaði viðkomandi viðskiptavini.

Ef fjármálafyrirtæki bætir fyrirmælum við viðskipti fyrir eigin reikning og samsöfnuðu fyrirmælin eru framkvæmd að hluta, skal viðskiptavinurinn njóta forgangs við úthlutun viðskiptanna. Ef fyrirtækið getur hins vegar sýnt fram á með skynsamlegum hætti að ef ekki hefði verið fyrir samsöfnunina hefði því ekki verið unnt að sinna fyrirmælunum með svo hagstæðum kjörum, eða yfirleitt, getur það úthlutað viðskiptunum hlutfallslega fyrir eigin reikning í samræmi við stefnu um skiptingu fyrirmæla sem um getur í c-lið 1. mgr. 48. gr.

Fjármálafyrirtæki skal gera ráðstafanir, sem hluta af stefnu um úthlutun fyrirmæla er um getur í c-lið 1. mgr. 48. gr., sem ætlað er að koma í veg fyrir endurúthlutun viðskipta fyrir eigin reikning sem eru framkvæmd í samsafni með fyrirmælum viðskiptavina, á þann hátt að hún valdi viðskiptavininum tjóni.

9. ÞÁTTUR

Skráarhald.

50. gr.

Varðveisla skráa.

Fjármálafyrirtæki skal varðveita allar skrár sem krafist er samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og reglugerðum í a.m.k. fimm ár.

Að auki skal varðveita skrár þar sem sett eru fram réttindi og skuldbindingar fjármála­fyrirtækisins annars vegar og viðskiptavinarins hins vegar samkvæmt samningi um að veita þjónustu eða þau kjör sem fyrirtækið veitir viðskiptavininum þjónustu í a.m.k. þann tíma sem tengslin við viðskiptavininn vara.

Fjármálaeftirlitið getur þó, í undantekningartilvikum, krafist þess að fjármálafyrirtæki varðveiti allar eða hluta þessara skráa í eins langan tíma og réttlætanlegt er vegna eðlis gerningsins eða viðskiptanna, ef það er nauðsynlegt til að gera stofnuninni kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Eftir að leyfi fjármálafyrirtækis rennur út getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að fyrirtækið varðveiti skrár þess tímabils sem eftir er af fimm ára tímabilinu sem krafist er samkvæmt fyrsta undirlið.

Skrár skal varðveita á miðli sem leyfir geymslu upplýsinga á þann hátt að Fjármála­eftirlitinu sé unnt að nálgast þær síðar og á slíku formi og með þeim hætti að eftir­farandi skilyrði séu uppfyllt:

a)

Fjármálaeftirlitið verður að geta nálgast þær auðveldlega og endurgert sérhvert mikilvægt stig í ferlinu við viðskiptin,

b)

auðvelt verður að vera að bera kennsl á allar leiðréttingar eða breytingar sem hafa verið gerðar og innihald skrár áður en þessar leiðréttingar eða breytingar voru gerðar,

c)

ekki má vera hægt að hagræða eða breyta skránum að öðru leyti.

Fjármálaeftirlitið skal taka saman og viðhalda skrá yfir lágmarksskráningar sem krafist er að fjármálafyrirtæki haldi til haga samkvæmt lögum nr. 108/2007, um verðbréfa­viðskipti, og reglugerð þessari.

IV. KAFLI

Lokaákvæði.

51. gr.

Lögleiðing.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 26. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, til innleiðingar á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/73/EB um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB að því er varðar skipulagskröfur og rekstrar­skilyrði fjármálafyrirtækja og hugtök sem skilgreind eru að því er varðar þá tilskipun, sem vísað er til í IX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2007 frá 27. apríl 2007.

52. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. nóvember 2007.

Viðskiptaráðuneytinu, 30. október 2007.

Björgvin G. Sigurðsson.

Jónína S. Lárusdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica