Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

969/2013

Reglugerð um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Reglugerð þessi er sett til framkvæmdar 2. mgr. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 þar sem kveðið er á um heimild ráðherra til að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða krókaaflamarks.

Til opinberra sjóstangaveiðimóta teljast þau mót sem eru opin öllum sem eftir þátttöku í þeim sækjast, eftir atvikum með aðild að því félagi sem heldur mótið, að því marki sem það er mögulegt að teknu tilliti til aðstæðna.

2. gr.

Umsóknir.

Fiskistofa skal auglýsa eigi síðar en 15. nóvember ár hvert, eftir umsóknum um vilyrði vegna aflaskráningar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða, vegna opinberra sjó­stanga­veiðimóta sem áætlað er að verði haldin á yfirstandandi fiskveiðiári. Umsóknar­frestur er til 1. desember ár hvert, ef annað er ekki ákveðið.

Í umsókn skal tilfæra fjölda þeirra móta sem sóst er eftir að halda, hvenær þau verði haldin, hvar þau fari fram og hvert sé áætlað aflamagn á mótunum. Með umsókninni skal fylgja kostnaðaráætlun fyrir mótshaldið sem taki mið af ákvæðum 4. gr. Umsækjandi skal vera félag sem ekki er rekið í ábataskyni. Með umsókn skulu fylgja samþykktir félags­ins auk upplýsinga um reglur um félagsaðild. Heimilt er að krefjast þess að árs­reikn­ingar umsækjanda fylgi umsókninni.

3. gr.

Veiting vilyrða.

Fiskistofa skal eigi síðar en 15. janúar ár hvert taka ákvörðun um hvort veita skuli vilyrði vegna aflaskráningar á opinberu sjóstangamóti.

Umsóknum þeirra aðila sem hafa ekki sinnt skyldu skv. 4. og 5. gr. vegna fyrri móta á þeirra vegum, skal hafnað.

Telji Fiskistofa að fjöldi umsókna, eða áætlað umfang opinberra sjóstangaveiðimóta sam­kvæmt þeim, muni geta leitt af sér meiri afla en nemur 200 lestum, er heimilt að tak­marka veitingu vilyrða skv. 1. mgr. 1. gr. við tiltekinn fjölda móta. Fiskistofu er heimilt að boða umsækjendur á fund til að leita sjónarmiða þeirra til mögulegrar takmörkunar á fjölda áformaðra móta eða breytinga á fyrirkomulagi þeirra. Þá er heimilt að láta hlut­kesti ráða úthlutun.

Fiskistofu er heimilt að setja nánari framkvæmdarleg skilyrði við veitingu vilyrðis skv. 1. mgr.

4. gr.

Takmörkun við fénýtingu aflaverðmætis.

Einungis er heimilt að ráðstafa aflaverðmæti af opinberum sjóstangaveiðimótum, sem njóta vilyrðis skv. 1. mgr. 1. gr., til kostnaðar við mótshaldið, en til þess telst:

  1. Leigugjald á báti/bátum, þ.m.t. eldsneytis- og skipstjórnarkostnaður.
  2. Greiðsla veiðigjalda samkvæmt lögum um veiðigjöld.
  3. Umsýslukostnaður, þ.m.t. vegna kynningar eða auglýsinga, skráningar gagna, kaupa á verðlaunagripum, kostnaðar af löndun, vigtun og sölu afla og annars sem er í nánum og eðlilegum tengslum við mótshaldið og uppgjör þess.

5. gr.

Uppgjör og skil á umframtekjum.

Þegar uppgjöri kostnaðar vegna opinbers sjóstangaveiðimóts sem nýtur vilyrðis skv. 3. gr. er lokið, og eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, skal mótshaldari senda Fiskistofu sundurliðað yfirlit um ráðstöfun aflaverðmætis og kostnað af mótshaldi, sbr. 4. gr., staðfest af bókara eða endurskoðanda.

Falli til tekjur af sjóstangaveiðimóti, sem eru hærri en kostnaður við mótshaldið sbr. 4. gr., skal þeim skilað til Fiskistofu. Í þeim tilvikum er gjalddagi 1. desember ár hvert. Hverju félagi er þó heimilt að hafa sérstakan veltusjóð til þarfa skv. 4. gr., sem að hámarki skal nema 3.000.000 kr., sbr. 1. mgr.

6. gr.

Viðurlög, gildistaka o.fl.

Um viðurlög gegn brotum á þessari reglugerð fer eftir lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, eftir því sem við á. Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 9. mgr. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði 2. mgr. 3. gr. kemur fyrst til framkvæmdar á fiskveiðiárinu 2014/15.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. október 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica