Landbúnaðarráðuneyti

933/2007

Reglugerð um bólusetningu sauðfjár og geitfjár til varnar garnaveiki. - Brottfallin

1. gr.

Markmið og yfirstjórn.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að útrýmingu garnaveiki í jórturdýrum með samstilltu átaki búfjáreigenda, Landbúnaðarstofnunar, dýralækna og sveitarfélaga.

Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerðin tekur til.

Landbúnaðarstofnun annast eftirlit með framkvæmd bólusetningar.

2. gr.

Skylda til bólusetningar.

Eigandi/umráðamaður sauðfjár og/eða geita á svæðum sem tilgreind eru í viðauka I við þessa reglugerð skal láta bólusetja öll ásetningslömb/kið til varnar garnaveiki á tíma­bilinu frá 15. september til 31. desember ár hvert. Landbúnaðarstofnun getur ákveðið að bólusetning hefjist nokkru fyrr á bæjum þar sem mikil hætta er talin á því að garnaveiki leynist.

Eiganda/umráðamanni er skylt að smala fé sínu til bólusetningar og tilkynna Land­búnaðar­stofnun (héraðsdýralækni) svo fljótt sem auðið er um síðheimt óbólusett fé. Ásetnings­lömb og kið sem heimtast eftir áramót skal bólusetja svo fljótt sem unnt er.

3. gr.

Undanþágur frá skyldu til bólusetningar.

Landbúnaðarstofnun getur leyft að bólusetningu hjarðar sé frestað um tiltekinn tíma, ef sérstaklega stendur á s.s. vegna veikinda í hjörðinni.

Ekki er skylt að bólusetja lömb/kið sem ráðgert er að slátra fyrir áramót en þau skal hins vegar skrá sérstaklega í bólusetningarskýrslu. Óheimilt er að gefa undanþágu frá bólu­setningarskyldu fyrir lömb, sem ráðgert er að slátra eftir áramót.

Landbúnaðarstofnun getur veitt undanþágu frá bólusetningarskyldu fyrir sauðfé og geitur á svæðum þar sem ella bæri að bólusetja, enda sé fé ekki flutt til lífs til eða frá við­komandi svæðum.

Hafi garnaveiki ekki greinst í jórturdýrum í 10 ár í tilteknu varnarhólfi skal Landbúnaðar­stofnun leggja til við ráðherra að bólusetningu verði hætt enda álíti stofnunin að garnaveiki hafi verið útrýmt í hólfinu. Stofnunin skal láta fara fram könnun á viðhorfi eigenda/umráðamanna og á heilsufari og vanhöldum jórturdýra í hólfinu áður en tillaga er gerð.

Sé bólusetningu haldið áfram eftir að bólusetningarskylda er aflögð er eiganda/­umráða­manni skylt að tilkynna um bólusetninguna til Landbúnaðarstofnunar.

Finnist garnaveiki á nýju svæði eða á ný þar sem bólusetning hefur verið aflögð er eigendum/umráðamönnum skylt að láta bólusetja eldra fé auk lamba samkvæmt ákvörðun Landbúnaðarstofnunar.

4. gr.

Skrásetning á fé sem ber að bólusetja.

Landbúnaðarstofnun tekur saman aðgengilega lista úr skýrslum búfjáreftirlitsmanna frá fyrra ári yfir eigendur sauðfjár og geitfjár í umdæmi hvers héraðsdýralæknis. Gerð þessa lista skal lokið fyrir 15. september á hverju ári.

Héraðsdýralæknir (Landbúnaðarstofnun) skal hafa samráð við þá sem gerst vita í hverju sveitarfélagi, s.s. sveitarstjórnir, samtök fjáreigenda eða bólusetningarmenn, um hvort nýir fjáreigendur hafi bæst við eða aðrir hætt fjárbúskap á liðnu ári.

Eigi síðar en 1. nóvember ár hvert skal eigandi/umráðamaður sauðfjár og/eða geitfjár á þeim svæðum sem tilgreind eru í viðauka I við þessa reglugerð tilkynna Landbúnaðar­stofnun (héraðsdýralækni), á sérstökum eyðublöðum sem Landbúnaðar­stofnun lætur honum í té, um áætlaðan fjölda ásetningslamba og kiða og staðsetningu þeirra.

5. gr.

Bólusetningarmenn.

Landbúnaðarstofnun skal útnefna bólusetningarmann/menn fyrir tiltekið landsvæði að höfðu samráði við sveitarfélög á svæðinu. Bólusetningarmaður skal bera ábyrgð á bólusetningu á svæði því sem honum hefur verið úthlutað. Fyrir 20. janúar skal hann gera grein fyrir bólusetningu á öllum bæjum á svæði sínu þar sem sauðfé og geitur eru haldnar. Hafi aðrir en hann bólusett á svæðinu skal hann gera grein fyrir því. Hann skal sérstaklega gera grein fyrir bæjum þar sem bólusetning hefur ekki farið fram og fyrir ástæðum þess.

Landbúnaðarstofnun (héraðsdýralækni) er heimilt að útnefna leikmenn sem bólusetn­ingar­menn, með heimild í reglugerð nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum.

6. gr.

Um framkvæmd bólusetningar og meðferð fjár.

Bólusetja skal undir húð, milli skinns og hörunds, aftast og efst í snögga blettinn innan við hægri olnboga. Óheimilt er að hafa óbólusett lömb/kið með eldra fé í sömu fjárhúskró eða í þröngum beitarhólfum að hausti.

Í viðauka II eru nánari fyrirmæli um verklag við bólusetningu og meðferð lamba/kiða eftir bólusetningu.

7. gr.

Eftirlit Landbúnaðarstofnunar.

Landbúnaðarstofnun skal hlutast til um, að nægilegt bóluefni sé fyrir hendi þegar bólusetning fer fram og gefa út bólusetningarskýrslu (eyðublöð) sem fylla skal út við bólusetningu.

Landbúnaðarstofnun er heimilt að láta framkvæma eftirlitsskoðun á bólusettu sauðfé og geitfé til könnunar á árangri bólusetningar svo snemma sem mánuði eftir bólusetningu. Komi í ljós, að eigi séu finnanleg merki eftir fyrri bólusetningu, er eiganda/umráðamanni skylt að láta bólusetja á ný svo fljótt sem verða má.

Öllum þeim sem framkvæma bólusetningu er skylt að skila til Landbúnaðarstofnunar bólusetningarskýrslum fyrir 20. janúar hvert ár. Landbúnaðarstofnun safnar saman og vinnur úr skýrslunum.

Skili bólusetningarskýrslur sér ekki á tilskildum tíma skal Landbúnaðarstofnun kanna hverju það sætir. Hafi bólusetning verið vanrækt og eigandi/umráðamaður lætur ekki bæta úr því innan frests sem Landbúnaðarstofnun setur honum skal stofnunin láta bólu­setja fé á kostnað eiganda/umráðamanns.

8. gr.

Kostnaður af bólusetningu.

Kostnað af framkvæmd bólusetningar og endurbólusetningar, s.s. af kaupum á bóluefni og vinnu bólusetningarmanna bera eigendur/umráðamenn hins bólusetta fjárstofns.

Sveitarfélögum er heimilt að taka á sig allan kostnað, eða hluta kostnaðar, af bólu­setningu. Sveitarfélögum er heimilt að bjóða út vinnu við bólusetningu.

Landbúnaðarstofnun ber kostnað af starfi héraðsdýralækna við stjórnsýslueftirlit með bólu­setningu.

9. gr.

Viðurlög, gildistaka o.fl.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt lögum um dýra­sjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993. Með mál út af brotum skal farið að hætti opin­berra mála.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 29. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um sama efni nr. 638/1997 og nr. 913/1999.

Landbúnaðarráðuneytinu, 10. október 2007.

Einar K. Guðfinnsson.

Arnór Snæbjörnsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica