Landbúnaðarráðuneyti

638/1997

Reglugerð um bólusetningu sauðfjár og geita til varnar garnaveiki. - Brottfallin

1. gr.

                Bólusetning til varnar garnaveiki skal framkvæmd á öllum ásetningslömbum og ásetningskiðum ár hvert á landinu öllu, að undanteknum eftirtöldum svæðum: Hofshreppur, Austur-Skaftafellssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla, Vestfjarðakjálki norðan varnargirðingar úr Gilsfirði í Bitrufjörð, Austfjarðahólf milli Lagarfljóts og Reyðarfjarðar og Héraðshólf milli Jökulsár á Brú og Lagarfljóts.

 

2. gr.

                Bólusetning skal fara fram á tímabilinu 15. september til 31. desember ár hvert.

Heimilt er að sleppa bólusetningu lamba og kiða sem ákveðið er að slátra fram að 15. apríl næsta vor. Þessi lömb og kið skal einstaklingsmerkja eiganda og færa inn í bólusetningarskýrslur. Við komu í sláturhús skal merkið skráð á móttökukvittun.

                Bólusetja skal aftast í snögga blettinn við hægri olnboga. Framleiðandi bóluefnis skal að öðru leyti veita nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmd bólusetningar og meðferð fjár að henni lokinni.

 

3. gr.

                Sýslumenn skulu, hver í sínu umdæmi og í samráði við yfirdýralækni, skipa eftirlitsmenn með framkvæmd bólusetningarinnar. Starfið er uppsegjanlegt af beggja hálfu með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 15. september ár hvert. Skipun framlengist sjálfkrafa til eins árs í senn, ef hvorugur segir upp.

                Eftirlitsmenn skulu í samráði við sveitarstjórnir (bæjarstjórnir) útnefna bólusetningarmenn, einn til tvo í hverjum hreppi eða bæjarfélagi. Heimilt skal að ráða fleiri bólusetningarmenn, ef bólusettir eru margir aldursflokkar sauðfjár sama ár t.d., þegar bólusetning er hafin á nýju svæði. Einnig er heimilt að sami maður bólusetji fé í fleiri hreppum, ef hentara þykir að dómi eftirlitsmanns.

 

4. gr.

                Eftirlitsmenn skulu hlutast til um, að nægilegt bóluefni sé ætíð fyrir hendi, þegar bólusetning skal fara fram, einnig viðhlítandi útbúnaður til bólusetningar.

 

5. gr.

                Sveitarstjórnum er heimilt í samráði við eftirlitsmenn, að láta bólusetningarmenn framkvæma skoðun á bólusettu sauðfé og geitum til könnunar á árangri bólusetningar um það bil mánuði eftir bólusetningu. Komi í ljós, að eigi séu finnanleg merki eftir fyrri bólusetningu, skal bólusetja á ný svo fljótt sem verða má.

                Eftirlitsmenn skulu safna skýrslum frá bólusetningarmönnum um framkvæmd bólusetningar og endurbólusetningar og senda þær yfirdýralækni að því loknu.

 

6. gr.

                Nú hefur eigandi af einhverjum ástæðum ekki látið bólusetja ásetningslömb eða kið, sem skylt er að bólusetja innan tilskilins tíma, skal oddviti (bæjarstjóri) þá gera eftirlitsmanni aðvart. Skal þá eftirlitsmaður í samráði við sýslumann gera ráðstafanir til þess að féð verði bólusett á kostnað eigenda eða umráðamanna, eins fljótt og við verður komið.

 

7. gr.

                Þóknun fyrir starf eftirlitsmanns skal greiða að hálfu úr sveitarsjóði (bæjarsjóði) og að hálfu úr ríkissjóði. Yfirdýralæknir ákveður þóknun til eftirlitsmanna og úrskurðar ferðakostnaðarreikninga þeirra. Bóluefni, útbúnað til bólusetningar og kaup bólusetningarmanna skal greiða úr viðkomandi sveitarsjóði (bæjarsjóði), en þeim kostnaði má síðan deila niður á fjáreigendur í hlutfalli við bólusett fé.

 

8. gr.

                Brot gegn ákvæðum reglugerðarinnar varða refsingu samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

 

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um sama efni nr. 553 15. nóvember 1991.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 17. nóvember 1997.

 

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica