Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

911/2012

Reglugerð um vernd dýra við aflífun.

1. gr.

Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla, I. viðauka, skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2012, frá 1. maí 2012, öðlast eftirfarandi EB-gerð gildi hér á landi:

Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1099/2009 um vernd dýra við aflífun. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 59, frá 18. október 2012, bls. 444.

2. gr.

Viðbótarákvæði.

Auk efnisákvæða reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1099/2009 um vernd dýra við aflífun, gilda eftirtalin ákvæði:

A. Meðferð dýra í sláturhúsum.

Í sláturhúsum skal vera fullnægjandi aðstaða og búnaður til að taka sláturdýr af flutningatækjum.

Gólf skulu vera stöm og skilrúm vera þar sem þeirra er þörf. Skábrautir, göng og brýr skulu vera með heilum hliðum eða grindum sem varna því að dýrin geti fallið af þeim. Halli á skábrautum við inn- eða útgönguleiðir skal vera sem minnstur.

Rekstrargangar skulu hannaðir og gerðir þannig að dýr verði ekki fyrir meiðslum og hjarðeðli þeirra nýtist sem best við rekstur.

Rafstauta skal einungis nota í sláturhúsum þegar það er nauðsynlegt. Í þeim tilvikum sem nauðsynlegt er að nota rafstauta skulu þeir notaðir á fullorðna nautgripi og svín sem hreyfa sig ekki og aðeins þegar rými er framundan til að færa sig í. Rafstuðið skal ekki vara lengur en eina sekúndu og beitt á lend dýranna. Óheimilt er að nota rafstauta endurtekið þegar dýrið bregst ekki við með því að hreyfa sig.

Sláturhúsrétt/móttaka skal vera yfirbyggð með nægilega mörgum stíum eða dilkum til að geyma dýr, sbr. reglugerð um slátrun og meðferð sláturafurða. Um þær gilda einnig eftirfarandi ákvæði:

  1. Gólf skulu vera stöm og laus við þröskulda eða þrep.
  2. Loftræsting skal vera fullnægjandi og taka tillit til hámarks frávika vegna hita og raka.
  3. Lýsing sem hæfir dýrategund og skal hún vera þannig að kleift sé að fylgjast stöðugt með dýrunum.
  4. Útbúnaður skal vera til staðar til að binda dýr, þar sem það á við.

Dýrum sem ekki er slátrað strax eftir komu í sláturhús skal tryggja aðgang að góðu drykkjarvatni.

B. Deyfing og aflífun dýra annarra en loðdýra.

1. Rafdeyfing.

Tæki til rafdeyfingar skal hafa innbyggðan búnað sem mælir viðnám sjálfkrafa og hleypir ekki straumi á nema tryggt sé að lágmarksstraumur deyfi dýrin. Tækið skal hafa mæla eða ljós sem gefa til kynna að það starfi eins og til er ætlast og í tilskilinn tíma og einnig vera tengt búnaði sem sýnir spennu og straumstyrk undir álagi.

2. Deyfing í vatnsbaði.

Þegar vatnsbað er notað til að deyfa alifugla þarf að vera hægt að stjórna vatnsborðs­hæð, þannig að gott leiðnisamband sé við höfuð fuglsins.

Þegar margir alifuglar eru deyfðir í einu í vatnsbaði þarf að viðhalda nægilegri rafspennu til að framleiða rafstraum sem er nógu sterkur til að deyfa alla fuglana.

Vatnsböð fyrir alifugla skulu vera nægilega stór og djúp fyrir þá fuglategund sem slátra á og ekki má flæða yfir innganginn inn í vatnsbaðið. Rafskautið sem sett er í vatnið skal ná gegnum endilangt baðið.

3. Koldíoxíðgösun.

Gasklefi fyrir svín og búnaður sem stjórnar aðgengi gegnum klefann skal vera hannaður, byggður og viðhaldið þannig að svínin verði ekki fyrir meiðslum, að brjóstkassi þeirra verði ekki fyrir þrýstingi og að dýrin geti staðið upprétt þangað til þau missa meðvitund. Tryggja verður að lýsing sé nægileg til þess að dýrin geti séð hvert annað og umhverfið.

Í klefanum skal vera búnaður til að mæla gasstyrk og gefa viðvörun ef styrkur koldíoxíðs fer niður fyrir þau mörk sem krafist er.

3. gr.

Yfirstjórn.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt þessari reglu­gerð. Matvælastofnun fer með framkvæmd þessarar reglugerðar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt. Leiki grunur á um að meðferð dýra brjóti gegn reglu­gerð þessari ber þeim sem verða þess varir að tilkynna það Matvælastofnun.

4. gr.

Undanþágur.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra getur veitt undanþágu frá reglugerð þessari að fenginni umsögn Matvælastofnunar.

5. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn þessari reglugerð fer skv. 16. gr. og 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjár­hald o.fl.

6. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o fl.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 761/2011 um aflífun búfjár.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. október 2012.

F. h. r.

Kristján Skarphéðinsson.

Eggert Ólafsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica