Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

761/2011

Reglugerð um aflífun búfjár. - Brottfallin

I. KAFLI

Markmið, gildissvið, orðskýringar og yfirumsjón.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að koma í veg fyrir óþarfa streitu, sársauka eða þjáningu búfjár við slátrun og aflífun.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um meðferð, skorðun og aflífun búfjár. Reglugerð þessi gildir einnig um aflífun búfjár vegna sjúkdómavarna.

3. gr.

Orðskýringar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

Aflífun: Sérhver aðferð sem leiðir til dauða.
Búfé: Alifuglar, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripir, sauðfé og svín sbr. lög nr. 103/2002 um búfjárhald.
Deyfing: Hver sú aðgerð sem veldur tafarlausu meðvitundarleysi.
Gámur: Vistarvera óháð stærð sem notuð er við flutninga búfjár en er ekki flutningatæki.
Hópaflífun: 100 dýr eða fleiri.
Móttaka: Rými þar sem fuglar eru geymdir fyrir aflífun.
Rafrotari: Rafbúnaður til deyfingar alifugla í vatnsbaði.
Rafstautur: Sérhannað tæki sem gefur rafstuð í þeim tilgangi að fá dýr til að hreyfa sig úr stað sem ekki vilja það.
Skorðun: Aðferð sem beitt er til að takmarka hreyfingar dýrs fyrir deyfingu eða aflífun sbr. viðauka II.
Slátrun: Aflífun búfjár vegna nýtingar afurða til manneldis.
Sláturdýr: Alifuglar, geitfé, hreindýr, hross, kanínur, nautgripir, sauðfé, svín og önnur dýr sem slátrað er til manneldis.
Sláturhús: Aðstaða sem er löggilt af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til slátrunar búfjár í atvinnuskyni.
Stunga: Opnun hálsslagæða eða æða í brjóstholsinngangi í þeim tilgangi að láta dýri blæða út.
Ungar: Alifuglar yngri en 72 klst. sem ekki hafa verið fóðraðir.


4. gr.

Yfirstjórn.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt þessari reglugerð. Matvælastofnun fer með framkvæmd þessarar reglugerðar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt. Leiki á grunur um að meðferð dýra brjóti gegn reglugerð þessari ber þeim sem verða þess varir að tilkynna það Matvælastofnun.

II. KAFLI

Almenn ákvæði.

5. gr.

Almenn velferð dýra.

Bannað er að valda dýrum óþarfa streitu, sársauka eða þjáningu við meðferð, skorðun, deyfingu og aflífun þeirra.

6. gr.

Meðferð við slátrun og aflífun búfjár í sláturhúsum.

Sláturhúsrétt/móttaka og banaklefi í sláturhúsum skulu vera þannig gerð, útbúin og starfrækt að sláturdýr verði ekki fyrir óþarfa streitu, sársauka eða þjáningu.

Um sláturdýr gildir eftirfarandi:

1. Meðferð þeirra í sláturhúsi skal vera samkvæmt ákvæðum viðauka I.
2. Við skorðun þeirra skal skal fara að ákvæðum viðauka II.
3. Við deyfingu eða aflífun skal fara að ákvæðum viðauka III.
4. Við stungu og hálsskurð skal fara að ákvæðum viðauka IV.

Banaklefi, nauðsynleg tæki og búnaður til deyfingar og aflífunar skal vera þannig hannaður og gerður að deyfingin og aflífunin verði skjót og örugg. Allur búnaður skal vera í lagi og vel við haldið, hann skal nota eins og til er ætlast og fylgjast skal reglulega með því að hann starfi eðlilega. Viðeigandi varabúnaður skal vera til staðar til nota í neyðartilvikum.

7. gr.

Aflífun búfjár utan sláturhúsa.

Ef sláturdýrum er slátrað utan sláturhúsa skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, skal fylgja ákvæðum í viðaukum II tölul. 1-4, III og IV.

Ef aflífa þarf búfé af öðrum ástæðum en vegna slátrunar skal það gert samkvæmt ákvæðum viðauka V. Loðdýr skulu aflífuð samkvæmt ákvæðum viðauka VI. Ungar og fóstur í eggjum í útungunarstöðvum skulu aflífuð með skjótum hætti samkvæmt ákvæðum viðauka VII.

Slasað eða sjúkt búfé sem nauðsynlegt er að aflífa, skal aflífa á staðnum. Dýralæknir getur þó heimilað flutning þess í sláturhús enda feli flutningurinn ekki í sér aukna þjáningu fyrir dýrin.

8. gr.

Fræðsla og hæfni.

Starfsfólk sem vinnur með dýr í sláturhúsrétt/móttöku og við aflífun sláturdýra skal hafa nauðsynlega þekkingu og hæfni til starfans. Sláturleyfishafi ber ábyrgð á að starfsfólk sem vinnur með sláturdýr fái fræðslu um dýravernd og góða meðferð og meðhöndlun dýra í sláturhúsrétt/móttöku, við deyfingu, aflífun og stungu.

Aflífun dýra utan sláturhúsa skal framkvæmd af ábyrgum aðilum sem hafa til þess nauðsynlega þekkingu og hæfni. Leita skal samþykkis Matvælastofnunar á ábyrgðaraðila við hópaflífun.

 

III. KAFLI

Þvingunarúrræði og viðurlög.

9. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn þessari reglugerð fer skv. 16. gr. og 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.

 

IV. KAFLI

Lagastoð, gildistaka o.fl.

10. gr.

Heimild til undanþágu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur veitt undanþágu frá reglugerð þessari að fenginni umsögn Matvælastofnunar.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o fl. og öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 158/1957, um slátrun búfjár o.fl. Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins nr. 93/119/EB.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 14. júlí 2011.

F. h. r.

Kristinn Hugason.

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica