Samgönguráðuneyti

880/2001

Reglugerð um lögskráningu sjómanna. - Brottfallin

1. gr.
Lögskráningarskylda.

Skylt er að lögskrá alla skipverja, þar með talið skipstjóra, sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru á íslenska skipaskrá og eru 20 brúttótonn eða stærri.

Skipstjóra er skylt að sjá um að skipverjar séu lögskráðir í skiprúm og úr skiprúmi. Hann má eigi leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar, sem skylt er að lögskrá skv. 1. mgr., hafi verið lögskráðir í skiprúm.

Heimilt er að lögskrá aðra en skipverja þann tíma sem viðkomandi dvelja um borð í skipi sem er í förum enda leggi þeir fram yfirlýsingu tryggingafélags um líf- og slysatryggingar.


2. gr.
Undanþágur frá lögskráningarskyldu.

Lögskráningarstjórar skv. 3. gr. laga um lögskráningu sjómanna geta veitt undanþágur frá lögskráningarskyldu til útgerða hafnsögubáta, dráttarbáta og björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Afrit af undanþáguheimildinni skal varðveitt og vera sýnileg um borð í viðkomandi skipi.

Skilyrði fyrir undanþágu frá lögskráningarskyldu eru að útgerðarmaður eða skipstjóri leggi fram:

1. yfirlýsingu um að hann muni manna skipið í samræmi við lög og reglur, þar með talið að einungis lögmætir handhafar tilskilinna skírteina verði í áhöfn, að það verði mannað í samræmi við tilskilinn lágmarksfjölda og að tilskildar líf- og slysatryggingar áhafnar og farþega muni ætíð vera í gildi;
2. lista yfir skipverja sem munu starfa um borð í skipinu, hvaða starfi þeir muni gegna og skulu þeir verða handhafar tilskilinna atvinnuskírteina til þeirra starfa;
3. mælibréf og haffærisskírteini skipsins;
4. yfirlýsingu frá tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og skal lögskráningarstjóri ganga úr skugga um að þær tryggingar séu í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga;
5. staðfestingu á að þeir einstaklingar sem munu starfa um borð hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna í samræmi við lög um lögskráningu sjómanna og reglugerð þessa.


3. gr.
Framkvæmd lögskráningar.

Um framkvæmd lögskráningar fer eftir ákvæðum 7. - 13. gr. laga um lögskráningu sjómanna.
Þegar útgerð rekur eitt eða fleiri farþegaskip til skoðunarferða er lögskráningarstjórum heimilt að ákveða fyrirkomulag lögskráningar á annan hátt en kveðið er á um í 4. og 5. gr. laga um lögskráningu sjómanna. Heimilt er að lögskrá fyrirfram fyrir einn mánuð í senn skv. sérstakri áætlun útgerðarmanns um mönnun hvers farþegaskips fyrir sig. Í slíkum tilvikum skal útgerðarmaður eða skipstjóri skipsins leggja fram:

1. yfirlýsingu um að hann muni manna skipið í samræmi við lög og reglur, þar með talið að einungis lögmætir handhafar tilskilinna skírteina verði í áhöfn, að það verði mannað í samræmi við tilskilinn lágmarksfjölda og að tilskildar líf- og slysatryggingar áhafnar og farþega muni ætíð vera í gildi,
2. lista yfir skipverja sem munu starfa um borð í skipinu, hvaða starfi þeir muni gegna og skulu þeir vera handhafar tilskilinna atvinnuskírteina til þeirra starfa,
3. mælibréf og haffærisskírteini skipsins,
4. yfirlýsingu frá tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og skal lögskráningarstjóri ganga úr skugga um að þær tryggingar séu í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga,
5. staðfestingu á að þeir einstaklingar sem munu starfa um borð hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna í samræmi við lög um lögskráningu sjómanna og reglugerð þessa og námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu sem sjómannaskóli skipuleggur í samráði við Siglingastofnun, sbr. lög nr. 76/2001.

Útgerðarmaður farþegaskips sem nýtur heimildar skv. 2. mgr. skal senda lögskráningarstjóra mánaðarlega yfirlit um hvernig skipið eða skipin hafi verið mönnuð og skal lögskráð eftir því yfirliti, þannig að fram komi heildardagafjöldi hvers skipverja í hverri stöðu fyrir sig. Jafnframt skal tilkynna lögskráningarstjóra þegar nýr starfsmaður er ráðinn, lætur af störfum eða fer í leyfi um lengri eða skemmri tíma.

Greiða skal mánaðargjald fyrir lögskráningu sjómanna vegna hverrar stöðu á þeim skipum sem lögskráð er á, nú kr. 500, sbr. 13. tölul. 13. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991.

Skilyrði þessarar framkvæmdar á lögskráningu er að þeir sem þurfa sérstök atvinnuréttindi skipstjórnar- eða vélstjórnarmanns hafi slík réttindi til starfa á skipum útgerðarinnar og að útgerðin hafi tilskilin leyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni frá Siglingastofnun Íslands, sbr. lög nr. 74/1998 og reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998 og að fjöldi í áhöfn skipanna sé ætíð í samræmi við fyrirmæli Siglingastofnunar Íslands.


4. gr.
Öryggisfræðslunámskeið.

Óheimilt er að ráða mann til starfa á íslenskt skip nema hann hafi hlotið öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. Óheimilt er að lögskrá skipverja á íslenskt skip nema hann hafi gengist undir námskeið í öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. Við lögskráningu skipverja skal lögskráningarstjóri krefjast yfirlýsingar um að skipverji hafi gengist undir slíkt námskeið. Ef slíka yfirlýsingu vantar skal ekki lögskráð fyrr en úr því hefur verið bætt. Þó má veita skipverja, sem skráður er í fyrsta sinn, sex mánaða frest til að fullnægja ákvæðinu.

Öryggisfræðslu skipverja skal endurnýja eigi sjaldnar en á fimm ára fresti með námskeiði við Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. Óheimilt er að ráða mann til starfa á íslenskt skip nema hann hafi endurnýjað öryggisfræðslu við Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. Við lögskráningu skal lögskráningarstjóri krefjast yfirlýsingar um að skipverji hafi gengist undir öryggisfræðslunámskeið á síðastliðnum fimm árum. Ef slíka yfirlýsingu vantar skal ekki lögskráð fyrr en úr því hefur verið bætt. Skipverjar sem gengust undir námskeið í öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila á árinu 1997 eða fyrr hafa frest til að gangast undir slíkt námskeið fyrir 1. janúar 2005.


5. gr.
Brot.

Um brot gegn reglugerð þessari fer eftir ákvæðum 17. og 18. gr. laga um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 með síðari breytingum.


6. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Samgönguráðuneytinu, 16. nóvember 2001.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica