Menntamálaráðuneyti

706/1998

Reglugerð um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. - Brottfallin

I. KAFLI

Stjórn safnsins.

1. gr.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er sjálfstæð háskólastofnun sem hóf starfsemi 1. desember 1994 og tók þá við hlutverki hins fyrra Landsbóksafns sem stofnað var 1818, og Háskólabókasafns, sem stofnað var 1940.

2. gr.

Bókasafnið heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra. Hann skipar því fimm manna stjórn, til fjögurra ára í senn, svo sem hér segir: Tvo að tilnefningu háskólaráðs Háskóla Íslands, einn að tilnefningu Rannsóknarráðs Íslands, einn að tilnefningu Bókavarðafélags Íslands og einn án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir með sama hætti, þó þannig að um varamenn sem háskólaráð tilnefnir skal greint frá hvor er 1. varamaður og hvor 2. varamaður, og skulu þeir kallaðir til í þeirri röð, óháð því hvor stjórnarmannanna forfallast.

Ráðherra skipar einn stjórnarmanna formann og annan varaformann.

3. gr.

Landsbókavörður situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt, svo og einn fulltrúi starfsmanna bókasafnsins. Kjósa starfsmenn safnsins fulltrúa sinn til tveggja ára í senn og annan til vara.

Stjórnin getur ákveðið að aðstoðarlandsbókavörður og fjármálastjóri bókasafnsins skuli boðaðir á stjórnarfundi.

Stjórnarfundi skal að jafnaði halda eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Landsbókavörður boðar til þeirra í umboði formanns stjórnar með skriflegri dagskrá og þriggja daga fyrirvara. Boða skal til stjórnarfundar ef formaður, landsbókavörður eða tveir stjórnarmenn óska þess. Við atkvæðagreiðslur ræður einfaldur meirihluti, nema atkvæði falli jöfn, þá ræður atkvæði formanns.

Ritaðar skulu fundargerðir um stjórnarfundi.

4. gr.

Stjórnin markar bókasafninu stefnu, hefur umsjón með gerð starfs- og fjárhagsáætlana þess, samþykkir gjaldskrá safnsins og hefur eftirlit með starfsemi þess. Stjórnin veitir enn fremur umsögn við skipun í embætti landsbókavarðar og við ráðningu í starf aðstoðarlandsbókavarðar.

5. gr.

Menntamálaráðherra skipar landsbókavörð til fimm ára í senn úr hópi þeirra umsækjenda sem stjórn bókasafnsins telur hæfa. Heimilt er að endurskipa landsbókavörð einu sinni án þess að staðan sé auglýst, að fenginni umsögn stjórnar.

Landsbókavörður ræður aðstoðarlandsbókavörð úr hópi þeirra umsækjenda sem stjórn bókasafnsins telur hæfa. Aðstoðarlandsbókavörður er staðgengill landsbókavarðar.

Landsbókavörður ræður jafnframt aðra starfsmenn bókasafnsins.

6. gr.

Stjórn safnsins gerir tillögu til menntamálaráðuneytis um auglýsingu á embætti landsbókavarðar. Landsbókavörður auglýsir starf aðstoðarlandsbókavarðar að höfðu samráði við stjórn safnsins.

Stjórnin fjallar um umsóknir um embætti landsbókavarðar og lætur menntamálaráðherra í té álit um hverjir umsækjenda teljast hæfir til að gegna embættinu. Stjórninni ber að skila rökstuddu áliti um hæfi hvers umsækjanda fyrir sig.

Stjórn safnsins fjallar einnig um umsóknir um starf aðstoðarlandsbókavarðar og lætur landsbókaverði í té álit um hverjir umsæjenda teljist hæfir. Í álitinu skal felast rökstudd umsögn um hæfi hvers umsækjanda fyrir sig.

7. gr.

Landsbókavörður annast daglegan rekstur og stjórn bókasafnsins, ræður að því starfsfólk, sbr. 5. gr., sér um útfærslu og framkvæmd kjarasamninga að því leyti sem þeir koma til kasta stofnunarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar út á við. Hann semur og tillögu að starfsáætlun og fjárhagsáætlun bókasafnsins og leggur fyrir stjórn þess ásamt ársskýrslu fyrra árs.

8. gr.

Stjórn bókasafnsins setur, að fengnum tillögum landsbókavarðar, reglur um umgengni í safninu og notkun safnkostsins.

II. KAFLI

Skipulag.

9. gr.

Auk skrifstofu landsbókavarðar eru í bókasafninu þessar megindeildir sem hafa hver sinn forstöðumann: Aðfangadeild, handritadeild, skráningardeild, upplýsingadeild, útlánadeild og þjóðdeild.

Einnig eru í safninu stoðdeildir og starfseiningar samkvæmt nánari ákvörðun landsbókavarðar að höfðu samráði við stjórn safnsins, svo sem bókbandsstofa, viðgerðarstofa og myndastofa. Skal jafnan vandlega metið hvort hagfelldara sé að safnið annist sjálft tiltekna þjónustu eða skipti við aðila utan stofnunarinnar, sbr. 3. málsgr. 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.

Kvennasögusafn Íslands er sérstök starfseining í safninu, sbr. samning þar um, dagsettan 26. mars 1996.

Unnið skal að því að byggja upp öfluga tón- og mynddeild í safninu.

10. gr.

Safnráð er samráðsvettvangur yfirmanna bókasafnsins og forstöðumanna deilda. Í safnráði eiga sæti landsbókavörður, sem er formaður ráðsins, aðstoðarlandsbókavörður, fjármálastjóri, forstöðumenn þeirra deilda sem greindar eru í 1. mgr. 9. gr. og allt að tveir aðrir forstöðumenn einstakra starfsþátta samkvæmt ákvörðun stjórnar safnsins að fengnum tillögum landsbókavarðar.

III. KAFLI

Þjónusta við Háskóla Íslands.

11. gr.

Sem bókasafn Háskóla Íslands leitast safnið við að veita sérhæfða þjónustu á helstu fræðasviðum sem stunduð eru við Háskóla Íslands. Bókasafnið og háskólinn gera með sér samkomulag um fjárhagsmál, þjónustu safnins við háskólann og um samskipti stofnananna að öðru leyti. Í samkomulaginu skal m.a. kveðið á um þann tíma sem lestraraðstaða í safninu skal vera opin nemendum háskólans.

IV. KAFLI

Almenn þjónusta og samstarf við önnur söfn.

12. gr.

Sem þjóðbókasafn þjónar safnið ekki einungis vísindastarfsemi, heldur sinnir það einnig þörfum atvinnulífs og hins almenna borgara sem til þess leitar vegna fræðiiðkana eða til þekkingaröflunar.

13. gr.

Bókasafnið stuðlar að samstarfi þeirra safna í landinu sem viða að sér handritum, skjölum og öðrum sambærilegum menningarverðmætum. Samstarfið miðar m.a. að eðlilegri verkaskiptingu um viðtöku gagna, samráði um varðveislu þeirra og viðgerðir, færslu þeirra á nýja miðla, sýningu þeirra og kynningu innan lands og utan.

14. gr.

Landsbókasafn stuðlar að samvinnu bókasafna í landinu og að samræmingu starfshátta, sbr. 11. gr. laga um almenningsbókasöfn nr. 36/1997. Meðal annars er um að ræða ráðgjafarstarf og útgáfu handbóka, þróun og útgáfu bókfræðilegra staðla, viðhald samskrár í tölvukerfi safnsins og starfrækslu millisafnalána.

Bókasafninu er heimilt, eftir því sem stjórn þess ákveður, að veita viðtöku víkjandi efni í öðrum bókasöfnum og varðveita það í geymslusafni sínu, sbr. 20. gr.

V. KAFLI

Almenn starfsemi.

15. gr.

Bókasafnið sér um úthlutun alþjóðabóknúmera og alþjóðatímaritanúmera og um samsvarandi merkingu annarra safngagna eftir því sem stjórn þess ákveður.

16. gr.

Bókasafnið veitir viðtöku skilaskyldum gögnum í samræmi við lög sem gilda um það efni á hverjum tíma. Safnið tekur frá eitt eintak þeirra gagna sem berast í skylduskilum, eftir því sem við á, og kemur þannig upp safni varaeintaka sem undanþegin eru venjulegri notkun og geymd tryggilega. Með varaeintakasafni er stefnt að því að koma upp sem heillegustu safni eldra og yngra efnis sem varðveita ber til framtíðar við bestu skilyrði.

17. gr.

Safnið starfrækir bókminjasafn. Um er að ræða rit, íslensk og erlend, sem eru mjög verðmæt eða hafa sérstakt minjagildi, svo sem vegna aldurs, ferils, afbrigða, áritunar eða markverðs bókbands. Þeim er hlíft við óþarfri og ógætilegri notkun, en ekki er krafa um að ritum sem teljast til bókminja sé öllum haldið á einum stað í safninu. Einnig er heimilt að koma bókminjasafni fyrir að hluta til á tryggum stað utan safns.

18. gr.

Bókasafnið heldur uppi rannsóknum á vettvangi íslenskrar bókfræði, bóksögu og bókaútgáfu, svo og á öðrum sviðum sem tengjast starfsemi eða efni bókasafnsins. Til stuðnings þessum viðfangsefnum stendur bókasafnið fyrir bókaútgáfu, útgáfu fræðilegs ársrits og birtingu efnis í rafrænu formi. Safnið leitast m.a. við að gefa út merk rit í eigu þess, ljósprentuð eða með öðrum hætti.

Safnið gefur út með reglubundnum hætti þjóðbókaskrá þar sem tilgreind eru rit prentuð á Íslandi, svo og hljóðrit og eftir atvikum gögn á öðrum miðlum.

19. gr.

Bókasafnið starfrækir bókasafnskerfi sem hýsir skrá um rit safnsins og styður fleiri þætti í rekstri þess. Safnið veitir einnig öðrum bókasöfnum fulla aðild að kerfinu samkvæmt nánara samkomulagi, auk þess sem einstök söfn eiga að því samskráraðild, þannig að unnt er að ganga á einum stað að upplýsingum um ritaeign þátttökusafnanna.

20. gr.

Þeim hluta efniskosts safnsins sem einna minnst er notaður er komið fyrir í geymsluhúsnæði utan safns. Þá er einnig heimilt, samkvæmt reglum sem landsbókavörður setur að fengnu samþykki stjórnar, að grisja efniskostinn, selja eða gefa það sem frá er tekið, eða farga því á annan hátt.

21. gr.

Bókasafnið sér notendum fyrir aðgengi að rafrænum gögnum eftir því sem tök eru á. Það kostar einnig kapps um að nýta nýjustu upplýsingatækni til að færa gögn safnsins á stafrænt form og gera þau þannig aðgengileg umheiminum.


VI. KAFLI

Heimild og gildistaka.

22. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5. og 12. gr. laga nr. 71/1994 um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 504/1994, sbr. reglugerð nr. 558/1994.

Menntamálaráðuneytinu, 30. nóvember 1998.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica