Viðskiptaráðuneyti

679/1994

Reglugerð um gjaldeyrismál. - Brottfallin

I. KAFLI

Orðskýringar.

1 . gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:

Innlendur aðili merkir:

 1. sérhvern mann sem hefur fasta búsetu hér á landi samkvæmt lögum um lögheimili, án tillits til ríkisfangs; sama á við um íslenska ríkisborgara og skyldulið hans sem hefur búsetu erlendis en gegnir störfum þar á vegum íslenska ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannsskrifstofu og tekur laun úr ríkissjóði eða er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að:
 2. sérhvern lögaðila sem skráður er til heimilis hér á landi á lögmætan hátt, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi; hérlend útibú lögaðila, sem heimili eiga erlendis, teljast til innlendra aðila.

Erlendur aðili merkir alla aðra aðila en innlenda. Til erlendra aðila teljast m.a. starfsmenn erlendra sendiráða hér á landi sem eru erlendir ríkisborgarar og varnarlið á vegum Atlantshafsbandalagsins hér á landi. Sama gildir um skyldulið þessara aðila sem dvelst hér á landi og hefur ekki íslenskt ríkisfang.

Innlendur gjaldeyrir merkir íslenska peningaseðla, slegna peninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli, sem hljóða upp á greiðslu í íslenskum krónum, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýra málma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum hér á landi.

Erlendur gjaldeyrir merkir erlenda peningaseðla, slegna peninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli, sem hljóða upp á greiðslu í erlendri mynt, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýra málma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum erlendis.

Gjaldeyrisviðskipti merkja það að skipta innlendum gjaldeyri fyrir erlendan, erlendum gjaldeyri fyrir innlendan eða einum erlendum gjaldeyri fyrir annan eða reikningsviðskipti sem eru ígildi þess að erlendur gjaldeyrir sé látinn af hendi eða móttekinn, þ.m.t. innborgun á reikning í íslenskum krónum í eigu erlends aðila, hvort sem innstæða er endanlega flutt úr landi eða fjármunir nýttir hérlendis.

Milliganga um gjaldeyrisviðskipti og verslun með erlendan gjaldeyri merkir í reglugerð þessari að:

 1. stunda gjaldeyrisviðskipti í atvinnuskyni fyrir eigin reikning eða gegn endurgjaldi,
 2. koma á gjaldeyrisviðskiptum milli aðila gegn endurgjaldi.

Fjármagnshreyfingar merkja yfirfærslu eða flutning á fjármunum milli landa sem tengjast:

 1. beinum fjárfestingum, þ.m.t. ráðstöfun söluandvirðis,
 2. útgáfu, kaupum eða sölu á hlutabréfum, skuldabréfum, víxlum, hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og hvers konar öðrum langtíma- eða skammtímaverðbréfum, þ.m.t. kröfukaupum,
 3. lánveitingum, lántökum og greiðslu eða móttöku afborgana af lánum,
 4. veitingu ábyrgða og hvers konar greiðslutrygginga,
 5. opnun bankareikninga og notkun þeirra,
 6. afleiddum viðskiptum (á ensku: derivatives) hvers konar, þ.m.t. framvirkum viðskiptum (á ensku: forwards, futures), viðskiptum með valrétt (valkvæðum viðskiptum, á ensku: option), gjaldmiðla- og vaxtaskiptum (á ensku: swap) og hvers konar samblandi valkvæðra viðskipta og/eða gjaldmiðla- og vaxtaskipta (t.d. á ensku: swaption),
 7. yfirfærslu á fjármunum einstaklinga, fjölskyldna og lögaðila.

Skammtímahreyfingar fjármagns merkja fjármagnshreyfingar milli landa sem tengjast:

 1. útgáfu á og viðskiptum með skuldabréf og víxla með lokagjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi og önnur slík skammtímaverðbréf,
 2. útgáfu á og viðskiptum með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum,
 3. lánveitingum og lántökum til skemmri tíma en eins árs,
 4. innleggi á og úttekt af reikningum í innlánsstofnunum og hliðstæðum gjaldeyrisviðskiptum.

Jafnframt teljast til skammtímahreyfinga fjármagns inn- og útflutningur skammtímaverðbréfa og önnur hliðstæð viðskipti.

Bein fjárfesting merkir fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut til að öðlast virk áhrif á stjórn þess. Langtímalán frá eigendum fyrirtækis til fyrirtækisins, þar á meðal lántaka með sérstökum skilyrðum, sbr. 39. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, teljast einnig bein fjárfesting.

Innlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem innlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.

Erlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi, sem erlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.

II. KAFLI

Meginreglur um gjaldeyrisviðskipti.

2. gr.

Óheft gjaldeyrisviðskipti.

Gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu skulu vera óheft, svo og fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra, nema annað sé ákveðið í lögum.

Í reglugerð þessari er nánar kveðið á um skilyrði þau sem gilda um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar og réttindi og skyldur þeirra er þau stunda.

3. gr.

Bein fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi.

Fjárfesting erlends aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð þeim takmörkunum, sem kveðið er á um í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, með síðari breytingum. Um skilgreiningu á erlendum aðila í þessu sambandi fer eftir þeim lögum og teljast því hérlend útibú erlendra lögaðila til erlendra aðila.

Tilkynna ber Seðlabanka Íslands alla erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til fjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður og viðbótarfjárfestingar í slíku fyrirtæki. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og teljast nauðsynleg að mati Seðlabankans. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki en sé um að ræða fyrirhugaða atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni erlends aðila hvílir tilkynningarskyldan á honum.

4. gr.

Hlutabréfaviðskipti erlendra aðila.

Kaup erlendra aðila á hlutabréfum í innlendum félögum eru háð þeim takmörkunum, sem kveðið er á um í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, með síðari breytingum.

Tilkynna ber Seðlabankanum öll kaup erlendra aðila á hlutabréfum í innlendum félögum jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til kaupa erlends aðila á hlutabréfum í félagi sem hann hefur ekki átt í áður og kaupa á viðbótarhlutafé í slíku félagi. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og teljast nauðsynleg að mati bankans. Tilkynningarskyldan hvílir á viðkomandi félagi.

5. gr.

Fasteignaviðskipti erlendra aðila hér á landi.

Um heimildir erlendra aðila til að kaupa eða öðlast afnotarétt yfir fasteignum hér á landi fer eftir ákvæðum 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, með síðari breytingum.

Óheimilt er innlendum aðila að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti erlendra aðila vegna kaupa eða leigu á fasteign nema framvísað sé samningi, afsali eða öðrum heimildarskjölum með áritun dómsmálaráðuneytisins.

6. gr.

Reikningar í innlendum og erlendum innlánsstofnunum.

Innlendir aðilar sem opna bankareikninga erlendis eru upplýsingaskyldir um stofnun þeirra til Seðlabankans.

Erlendum aðilum er heimilt að opna reikninga í íslenskum krónum eða erlendri mynt í innlendum innlánsstofnunum enda séu reikningarnir ávallt skráðir með nafni reikningseiganda og íslenskri kennitölu hans.

Innlánsstofnunum ber að skila reglulega upplýsingum um innstæður á reikningum þessum til Seðlabankans.

7. gr.

Lántökur erlends stjórnvalds.

Erlendu ríki, sveitarfélagi eða öðru erlendu stjórnvaldi er óheimilt að gefa út skuldabréf á markaði hérlendis nema með leyfi Seðlabankans.

III. KAFLI

Öryggisákvæði.

8. gr.

Tímabundin stöðvun tiltekinna fjármagnsflutninga.

Seðlabankanum er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., að ákveða að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið að takmarka eða stöðva í allt að sex mánuði einhverja eða alla eftirtalda flokka fjármagnshreyfinga ef skammtímahreyfingar fjármagns til og frá landinu valda að hans mati óstöðugleika í gengis- og peningamálum:

 1. Viðskipti með skammtímaverðbréf.
 2. Innlegg á og úttektir af reikningum í innlánsstofnunum.
 3. Viðskipti með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum.
 4. Lánveitingar og lántökur til skemmri tíma en eins árs sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu.
 5. Inn- og útflutningur skammtímaverðbréfa og innlends og erlends gjaldeyris.
 6. Aðrar skammtímahreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim sem taldar eru upp í 1.- 5. tölul.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

9. gr.

Heimildir til gjaldeyrisviðskipta.

Þeir aðilar sem hyggjast hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri, aðrir en þeir sem hafa til þess heimild samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992, skulu hafa til þess starfsleyfi frá Seðlabankanum. Heimilt er Seðlabankanum við veitingu slíkra starfsleyfa að afmarka þau við tiltekna þætti gjaldeyrisviðskipta, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992.

Seðlabankinn setur nánari reglur um skilyrði til gjaldeyrisviðskipta sem gilda um þá aðila sem leyfi hafa til gjaldeyrisviðskipta samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að eða hafa starfsleyfi Seðlabankans, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992.

10. gr.

Hagskýrslugerð og upplýsingaskylda.

Skylt er að veita Seðlabankanum allar þær upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti, verslun með erlendan gjaldeyri og fjármagnshreyfingar sem hann kann að óska eftir til að hann geti sinnt nauðsynlegri hagskýrslugerð og eftirliti. Bankanum er heimilt að setja nánari reglur þar um, svo sem um skráningar- og tilkynningarskyldu vegna reikninga innlendra aðila í erlendum innlánsstofnunum, framlagningu gagna, almenna upplýsingagjöf, þ.á.m. um viðskipti sem fara fram án milligöngu þeirra er hafa starfsleyfi til gjaldeyrisviðskipta, eða heimild til slíkra viðskipta samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, og gerð eyðublaða.

11. gr.

Samstarfsnefnd um gjaldeyrismál.

Viðskiptaráðherra skipar samstarfsnefnd um gjaldeyrismál. Í henni sitja fulltrúar viðskiptaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands og þeirra aðila sem ráðherra velur til samstarfs. Fulltrúi viðskiptaráðuneytisins er formaður nefndarinnar. Kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með framkvæmd gjaldeyrismála, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um gjaldeyrismál og framkvæmd þeirra.

12. gr.

Þagnarskylda.

Þeir sem annast framkvæmd þessarrar reglugerðar eru bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

13. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar fer eftir ákvæðum 13. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, öðlast gildi 1. janúar 1995. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 471/1992, um gjaldeyrismál.

Viðskiptaráðuneytið, 29. desember 1994.

Sighvatur Björgvinsson.

Kjartan Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica