Sjávarútvegsráðuneyti

513/2005

Reglugerð um eftirlit með heilbrigði sjávareldisdýra sem eru flutt til EES-svæðisins frá þriðju ríkjum.

1. gr.

1. Fiskistofa skal tryggja að dýraheilbrigðiseftirlit með sjávareldisdýrum sem eru flutt inn, um eða til Íslands inn á Evrópska efnahagssvæðið frá þriðju ríkjum, sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.


2. gr.

1. Í þessari reglugerð gilda skilgreiningarnar í 2. gr. reglugerðar nr. 512/2005 um eftirlit með heilbrigði sjávareldisdýra og afurðum þeirra í viðskiptum innan EES-svæðisins, eftir því sem við á.

2. Auk þess er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a) Sannprófun skjala: Sannprófun dýraheilbrigðisvottorða eða -skjala sem fylgja dýrinu.
b) Sannprófun auðkenna: Sannprófun, sem fer eingöngu fram með sjónrænni skoðun, á því að samræmi sé milli skjalanna eða vottorðanna og dýranna og að dýrin séu merkt með réttum hætti.
c) Eftirlit með ástandi: Eftirlit með sjálfu dýrinu, ef til vill með sýnatöku og prófi á rannsóknastofu og, ef við á, viðbótareftirlit meðan dýrið er í sóttkví.
d) Innflytjandi: Einstaklingur eða lögpersóna sem kemur með dýr til innflutnings til bandalagsins.
e) Sending: Fjöldi dýra af sömu tegund sem sama dýraheilbrigðisvottorð eða -skjal gildir um, sem er flutt með sama flutningatæki og kemur frá sama þriðja landi eða sama hluta þriðja lands.
f) Landamærastöð: Eftirlitsstöð á landamærum Evrópska efnahagssvæðisins, tilnefnd og samþykkt til að þar megi fara fram eftirlit með vörum frá þriðju ríkjum sbr. 6. gr.
g) Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð.


I. KAFLI
Skipulagning og framhald eftirlits.
3. gr.
a) Innflytjendur skulu tilkynna Fiskistofu að minnsta kosti einum virkum degi áður um fjölda, tegund og áætlaðan komutíma dýranna.
b) Farið skal með dýrin, undir opinberu eftirliti, beint á viðkomandi landamærastöð sem um getur í 6. gr. eða, eftir atvikum, á sóttvarnarstöðina sem kveðið er á um í öðrum undirlið fyrstu undirgreinar 1. mgr. 10. gr.
c) Ekki er heimilt að fara með dýrin frá þessum stöðvum nema samkvæmt viðurkenndri málsmeðferð og að sannað sé:
i) með vottorði sem kveðið er á um í öðrum undirlið 1. mgr. 7. gr. eða í 8. gr., að dýraheilbrigðiseftirlit hafi farið fram með viðkomandi dýrum í samræmi við 1. mgr. og a-, b- og d-lið 2. mgr. 4. gr. og 8. og 9. gr., og að skilyrði lögbærs yfirvalds þar að lútandi hafi verið uppfyllt;
ii) að búið sé að greiða fyrir dýraheilbrigðiseftirlitið og, ef við á, að trygging hafi verið sett fyrir hugsanlegum kostnaði sem kveðið er á um í öðrum og þriðja undirlið 1. mgr. 10. gr., 6. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 12. gr.;
d) Tollyfirvöld skulu ekki heimila afgreiðslu til frjálsrar dreifingar á Evrópska efnahagssvæðinu nema sannað sé að kröfum c-liðar hafi verið fullnægt.


4. gr.

1. Fiskistofa skal sannprófa skjöl og auðkenni vegna hverrar sendingar dýra frá þriðja ríki, án tillits til tollafgreiðslustaðar. Fiskistofa skal ganga úr skugga um:

uppruna þeirra,
síðari viðtökustað þeirra, einkum þegar um umflutning er að ræða eða sérstakar kröfur sem eru viðurkenndar með ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA og varða Ísland,
að upplýsingarnar í vottorðunum eða skjölunum séu fullnægjandi,
að engin vísbending um að sendingunni hafi verið hafnað hafi verið gefin í viðurkennda upplýsingaskiptakerfinu.

2. Með fyrirvara um undanþágur samkvæmt 8. gr., skal Fiskistofa, í samráði við yfirdýralækni, sjá um eftirlit með ástandi dýra sem komið er með á landamærastöðvar. Eftirlitið skal einkum felast í:

a) klínískri rannsókn á dýrunum til að ganga úr skugga um að þau samrýmist upplýsingunum sem kveðið er á um í meðfylgjandi vottorði eða skjali og að þau séu klínískt heilbrigð;
b) rannsóknastofuprófum sem teljast nauðsynleg;
c) töku opinberra sýna, ef til kemur, sem á að rannsaka með tilliti til efnaleifa og láta efnagreina eins skjótt og auðið er;
d) með tilliti til síðara eftirlits með flutningi skal Fiskistofa senda lögbærum yfirvöldum viðtökuaðildarríkis nauðsynlegar upplýsingar með aðstoð viðurkennda upplýsingaskiptakerfisins.

3. Samt sem áður er heimilt, þrátt fyrir 1. og 2. mgr., að sannprófun auðkenna og eftirlit með ástandi dýra, sem eru flutt um höfn eða flugvöll inn á Evrópska efnahagssvæðið, fari fram í þeirri viðtökuhöfn eða á þeim viðtökuflugvelli, að því tilskildu að höfnin eða flugvöllurinn sé landamæraskoðunarstöð af því tagi sem um getur í 6. gr. og að dýrin verði flutt áfram, annaðhvort sjóleiðis eða með flugi, með sama skipi eða sömu flugvél. Í því tilviki skal lögbæra yfirvaldið tilkynna opinbera dýralækninum á landamærastöð viðtökuaðildarríkisins, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu dýraheilbrigðisyfirvalds á staðnum, um viðurkennda upplýsingaskiptakerfið að dýrin hafi farið þar um.


5. gr.

Innflutningur inn á EES-svæðið er óheimill ef eftirlit leiðir í ljós:

a) að eldisdýr koma frá yfirráðasvæði eða hluta yfirráðasvæðis þriðja ríkis sem er ekki, að því er viðkomandi tegundir varðar, tilgreint í skrá ESA þar að lútandi;
b) að önnur dýr en þau sem um getur í a-lið fullnægi ekki þeim kröfum sem kveðið er á um í innlendum reglum er gilda um hin ýmsu tilvik sem falla undir þessa reglugerð;
c) að dýrin þjáist af eða grunur leikur á að þau þjáist af eða séu haldin smitandi sjúkdómi eða sjúkdómi sem geti stofnað heilbrigði manna eða dýra í hættu samkvæmt innlendum lögum og reglum;
d) að þriðja ríkið sem flytur dýrin út hafi ekki fullnægt kröfunum sem kveðið er á um í innlendum lögum og reglum;
e) að ástand dýranna komi í veg fyrir áframhaldandi flutning á þeim;
f) að dýraheilbrigðisvottorð eða -skjal sem fylgir með dýrunum uppfylli ekki þau skilyrði sem eru sett samkvæmt reglugerð nr. 511/2005 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu eldisdýra og afurða þeirra.


6. gr.

1. Landamærastöðvar skulu uppfylla skilyrði laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum og reglugerðar nr. 849/1999 um eftirlit með innflutningi sjávarafurða, með síðari breytingum.

2. Landamærastöðvar skulu jafnframt:

a) vera á komustað inn á yfirráðasvæði Evrópska efnahagssvæðisins. Samt sem áður er unnt að samþykkja tiltekna fjarlægð milli landamærastöðvar og komustaðar vegna landfræðilegra aðstæðna (t.d. affermingarbryggjur, fjallvegir) og að því tilskildu að löng leið sé á milli landamærastöðvarinnar og staða þar sem dýr eru haldin og líkur eru á að smit berist á milli;
b) vera á tollsvæði þar sem unnt er að uppfylla önnur formsatriði er varða stjórnsýslu, þar með talin tollmeðferð í tengslum við innflutning;
c) vera undir stjórn Fiskistofu sem ber ábyrgð á eftirlitinu og eftir atvikum yfirdýralæknis. Fiskistofa óskar eftir staðfestingu yfirdýralæknis þegar innflutningur á lifandi fiski og öðrum sjávardýrum á sér stað frá þriðju ríkjum. Fiskistofa skal sjá til þess að gögn séu færð inn í viðurkennda upplýsingaskiptakerfið og uppfærsla á gögnum eigi sér þar stað reglulega.


7. gr.

1. Ef eldisdýr, sem falla undir eftirlit skv. 4. gr., eru ekki ætluð til markaðssetningar hér á landi skal eftirlitsmaður á landamærastöðinni:

láta hlutaðeigandi fá staðfest afrit af frumriti vottorðanna eða, ef sendingu er skipt, nokkur staðfest afrit af frumriti vottorðanna fyrir dýrin; gildistími afritanna skal vera 10 dagar hið mesta,
gefa út vottorð eftir fyrirmyndinni þar sem fram kemur að eftirlitið sem um getur í 1. mgr. og a-, b- og d-lið 2. mgr. 4. gr. hafi farið fram og uppfylli kröfur yfirdýralæknis, hvaða sýni hafa verið tekin og tilgreint er um niðurstöður úr rannsóknastofuprófum eða hvenær búist er við að niðurstöðurnar liggi fyrir,
varðveita frumrit vottorðsins eða vottorðanna sem fylgja dýrunum.

2. Þegar dýrin sem um getur í 1. mgr. hafa farið um landamærastöðvar og hafa verið flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið skulu viðskipti með þau fara fram í samræmi við reglur um dýraheilbrigðiseftirlit sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 512/2005 um eftirlit með heilbrigði sjávareldisdýra og afurðum þeirra í viðskiptum innan EES-svæðisins.
Í þeim upplýsingum sem lögbært yfirvald á viðtökustað sendir um viðurkennda upplýsingaskiptakerfið skal einkum koma fram hvort:

dýrin eiga að fara til aðildarríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur gilda,
sýni hafi verið tekin en niðurstöður hafi ekki legið fyrir þegar flutningatækið fór frá viðkomandi landamærastöð.


8. gr.

1. Heimila skal umflutning dýra frá einu þriðja ríki til annars þriðja ríkis, eða til sama þriðja ríkis að því tilskildu að:

a) eftirlitsmaður á landamærastöð hafi áður heimilað slíkan umflutning og farið hafi fram eftirlit skv. 4. gr. og eftir atvikum að Fiskistofa, í samráði við embætti yfirdýralæknis, hafi áður heimilað slíkan umflutning;
b) hlutaðeigandi aðili leggi fram sönnun um að fyrsta þriðja ríkið sem dýrin eru send til, eftir umflutning um eitt af yfirráðasvæðum Evrópska efnahagssvæðisins, skuldbindi sig til þess að vísa í engu tilviki frá eða endursenda dýr sem það hefur leyft innflutning eða umflutning á og að það muni fara eftir innlendum reglum um vernd dýra meðan á flutningi um Ísland stendur;
c) eftirlitið sem um getur í 4. gr. fullvissi Fiskistofu um að dýrin standist kröfur þessarar reglugerðar eða, að því er varðar dýr sem um getur í viðauka A við reglugerð nr. 512/2005 um eftirlit með heilbrigði sjávareldisdýra og afurðum þeirra í viðskiptum innan EES-svæðisins, gefi kost á heilbrigðisábyrgðum sem eru viðurkenndar og eru að minnsta kosti jafngildar kröfunum;
d) eftirlitsmaður á landamærastöð tilkynni lögbærum yfirvöldum umflutningsaðildarríkis eða -ríkja og lögbærum yfirvöldum þeirrar landamærastöðvar sem dýrin fara síðast um áður en þau fara út af Evrópska efnahagssvæðinu, um viðurkennda upplýsingaskiptakerfið að dýrin hafi farið þar um;
e) þegar um er að ræða gegnumferð um Ísland fari slíkur umflutningur fram samkvæmt málsmeðferð sem hér er kveðið á um. Eina meðhöndlunin sem er leyfð meðan á umflutningi stendur er sú sem fram fer á komustað inn á og brottfararstað frá EES-svæðinu og aðgerðir sem eiga að tryggja velferð dýranna.


9. gr.

1. Í tilvikum þegar innlendar reglur á viðtökustað, kveða á um að lifandi eldisdýr skuli sett í sóttkví eða einangrun er heimilt að setja dýrin í sóttkví eða einangrun:

á sóttvarnarstöð í þriðja ríki sem er upprunaríki, að því tilskildu að hún hafi verið samþykkt,
á sóttvarnarstöð sem er á EES-svæðinu og uppfyllir kröfurnar sem mælt er fyrir um í viðauka B,
á viðtökueldisstöð.
Heimilt er að mæla fyrir um sérstakar verndarráðstafanir sem skulu gerðar við flutning milli sóttvarnarstöðvar, uppruna- og viðtökueldisstöðva og skoðunarstöðva á landamærum og á sóttvarnarstöðvunum sem um getur í fyrsta undirlið fyrri undirgreinar.

2. Ef Fiskistofa, í samráði við yfirdýralækni, fyrirskipar sóttkví skal setja dýrin í sóttkví, allt eftir því hve alvarleg hættan er talin:

annaðhvort á sjálfri skoðunarstöðinni eða í næsta nágrenni hennar,
eða á viðtökueldisstöð,
eða á sóttvarnarstöð sem er í nágrenni viðtökueldisstöðvar.

3. Almenn skilyrði, sem sóttvarnarstöðvar sem um getur í fyrsta og öðrum undirlið 1. mgr. skulu uppfylla, eru sett í viðauka B.


10. gr.

Með fyrirvara um önnur ákvæði þessa kafla skal Fiskistofa í samráði við yfirdýralækni sjá til þess að viðeigandi heilbrigðiseftirlit sé framkvæmt ef grunur leikur á að ekki sé farið að innlendri löggjöf eða vafi leikur á að viðkomandi eldisdýr séu rétt auðkennd.


11. gr.

1. Ef eftirlitið leiðir í ljós að dýr uppfylla ekki kröfur sem mælt er fyrir um í innlendum reglum eða eftirlitið leiðir í ljós vanrækslu skal Fiskistofa, í samráði við yfirdýralækni og innflytjanda eða fulltrúa hans, ákveða:

a) að hýsa, fóðra og ef nauðsyn ber til, meðhöndla dýrin; eða
b) eftir atvikum, að setja þau í sóttkví eða einangra sendinguna;
c) að endursenda dýrin frá Íslandi innan þeirra tímamarka sem Fiskistofa, í samráði við yfirdýralækni, setur, svo framarlega sem slíkt samræmist ákvæðum um heilbrigði dýra eða velferð. Í því tilviki skal eftirlitsmaður á landamærastöð í samráði við yfirdýralækni:
tilkynna í gegnum viðurkennda upplýsingaskiptakerfið að innflutningi hafi verið vísað frá,
ógilda það dýraheilbrigðisvottorð eða -skjal sem fylgir sendingunni sem vísað var frá,
að lokinni skoðun meðan dýrin eru enn lifandi, heimila slátrun dýranna til manneldis í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar,
að öðrum kosti, fyrirskipa slátrun dýranna í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar, í öðrum tilgangi en til manneldis eða fyrirskipa að dýrunum verði fargað og tilgreina skilyrði varðandi eftirlit með nýtingu afurðanna sem verða til með þessum hætti. Fiskistofa skal tilkynna ESA um þau tilvik þar sem þessum undanþágum er beitt.

2. Kostnaður sem stofnað er til vegna þeirra ráðstafana sem kveðið er á um í 1. mgr., þar með talið förgun sendingarinnar eða nýting dýranna í öðrum tilgangi, hvílir á innflytjanda eða fulltrúa hans. Afrakstur af sölu afurðanna sem um getur í þriðju undirgrein c-liðar 1. mgr. skal renna til eiganda dýranna eða fulltrúa hans, að frádregnum áðurnefndum kostnaði.


12. gr.

Til að framfylgja eftirlitinu sem um getur í 2. mgr. 7. gr. þessarar reglugerðar skal auðkenning og skrásetning sem kveðið er á um í c-lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 512/2005 um eftirlit með heilbrigði sjávareldisdýra og afurðum þeirra í viðskiptum innan EES-svæðisins, fara fram á viðtökustað eldisdýranna.


II. KAFLI
Öryggisákvæði.
13. gr.

1. Ef dýrasjúkdómur sem einnig getur lagst á menn, annar sjúkdómur eða annað það sem kann að stofna heilbrigði dýra eða manna í alvarlega hættu kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði þriðja ríkis, eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði dýra réttlætir slíkt, er ráðherra heimilt að gera þegar í stað eina af eftirfarandi ráðstöfunum eftir því hve alvarlegt ástandið er:

fella niður tímabundið innflutning frá hlutaðeigandi þriðja ríki eða hluta þess og, eftir atvikum, frá umflutningslandi sem er þriðja ríki,
setja sérstök skilyrði að því er varðar dýr frá hlutaðeigandi þriðja ríki eða hluta þess.

2. Ef eftirlit sem kveðið er á um í þessari reglugerð leiðir í ljós að sending dýra kunni að stofna heilbrigði dýra eða manna í hættu skal Fiskistofa þegar í stað gera eftirfarandi ráðstafanir:

leggja hald á og farga sendingunni,
þegar í stað tilkynna öðrum landamærastöðvum og ESA um niðurstöðurnar og uppruna dýranna, í gegnum viðurkennda upplýsingaskiptakerfið.

3. Í því tilviki sem kveðið er á um í 1. mgr. er ráðherra heimilt að gera tímabundnar verndarráðstafanir vegna dýra er heyra undir 9. gr.

4. Ef settar eru á einhliða verndarráðstafanir gagnvart þriðja ríki samkvæmt skilmálum þessarar greinar skal það tilkynnt öðrum EES-ríkjum og ESA.


III. KAFLI
Skoðun.
14. gr.

1. ESA er heimilt, í samvinnu við Fiskistofu, að ganga úr skugga um að landamærastöðvar, sem eru samþykktar í samræmi við 6. gr. uppfylli skilyrðin sem eru talin upp í viðaukum A og B við þessa reglugerð og viðauka E við reglugerð nr. 849/1999, um eftirlit með innflutningi sjávarafurða. Landamærastöðvar sem samþykktar eru fyrir innflutning á lifandi fiski og öðrum sjávardýrum eru tilgreindar í 13. gr. reglugerðar nr. 849/1999, um eftirlit með innflutningi sjávarafurða.

2. ESA er heimilt, í samvinnu við Fiskistofu, að gera skyndiskoðanir á staðnum.

3. Þegar skoðun fer fram á landamærastöð skal Fiskistofa veita ESA alla þá aðstoð sem er nauðsynleg til að stofnunin geti unnið verk sitt.


15. gr.

Telji Fiskistofa, á grundvelli eftirlits hennar, að brotið sé í bága við ákvæði þessarar reglugerðar á landamærastöð í öðru EES-ríki skal Fiskistofa þegar í stað senda stjórnvöldum þess ríkis tilkynningu þar að lútandi.

Berist Fiskistofu slík tilkynning frá öðru EES-ríki skal Fiskistofa gera allar nauðsynlegar ráðstafanir og tilkynna lögbæra yfirvaldinu í því ríki um það eftirlit sem hefur farið fram, þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og rökstuðning fyrir þeim.

Ef eftirlitið sem um getur í fyrstu undirgrein leiðir í ljós að ítrekað er brotið í bága við ákvæði þessarar reglugerðar skal Fiskistofa tilkynna það ESA og lögbærum yfirvöldum annarra EES-ríkja.

Fiskistofu er heimilt, þar til niðurstöður ESA liggja fyrir, að efla eftirlit á viðkomandi landamærastöð eða sóttvarnarstöð.


IV. KAFLI
Almenn ákvæði.
16. gr.
Kostnaður.

Kostnaður í tengslum við framkvæmd eftirlits skv. 4., 5., 8 og 11. gr., þar með talið við förgun sendingarinnar eða nýting afurða í öðrum tilgangi, hvílir á sendanda, viðtakanda eða fulltrúa þeirra án þess að endurgreiðslur EES-ríkis komi til. Afrakstur af sölu afurðanna sem um getur í þriðja undirlið c-liðar 11. gr. skal renna til eiganda eldisdýranna eða fulltrúa hans, að frádregnum áðurnefndum kostnaði.

Innheimta skal gjald fyrir heilbrigðiseftirlit við innflutning dýra sem um getur í þessari reglugerð. Innheimta skal kostnað samkvæmt gjaldskrá sem sjávarútvegsráðherra staðfestir.


17. gr.
Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.


18. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum og lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum og til innleiðingar á tilskipunum ráðsins nr. 91/496/EBE, 91/628/EBE, 95/29/EB, 92/438/EB, 96/43/EB. Reglugerðin tekur þegar gildi.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 26. maí 2005.

F. h. r.
Vilhjálmur Egilsson.
Ásta Einarsdóttir.



VIÐAUKI A
Almenn skilyrði fyrir viðurkenningu skoðunarstöðva á landamærum.


Til að hljóta viðurkenningu skulu landamærastöðvar hafa:

1) sérstaka aðrein fyrir flutning lifandi dýra, til að hlífa dýrunum við tilefnislausri bið;
2) aðstöðu (sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa) fyrir fermingu og affermingu ólíkra flutningatækja, skoðun, fóðrun og meðhöndlun dýranna, þar sem rými, lýsing og loftræsting er fullnægjandi með tilliti til þess fjölda dýra sem á að skoða;
3) nógu marga eftirlitsmenn til að þeir geti, með tilliti til þess fjölda dýra sem fer um viðkomandi landamærastöð, sannprófað fylgiskjöl og framkvæmt klíníska eftirlitið sem um getur í 4., 5. og 8. gr. þessarar reglugerðar;
4) nógu rúmgott húsnæði fyrir starfsmenn sem annast heilbrigðiseftirlitið, þar með talið búningsherbergi, sturtur og salerni;
5) húsnæði og aðstöðu sem hentar fyrir sýnatöku og úrvinnslu sýna í tengslum við kerfisbundna eftirlitið sem mælt er fyrir um í innlendum lögum og reglum;
6) aðgang að þjónustu sérhæfðrar rannsóknastofu þar sem unnt er að gera sérstök próf á sýnunum sem eru tekin á stöðinni;
7) aðgang að starfsstöð í næsta nágrenni stöðvarinnar með aðstöðu og búnað til að hýsa, fóðra, meðhöndla og, ef nauðsyn ber til, slátra dýrunum;
8) hentuga aðstöðu, ef skoðunarstöðvarnar eru áningar- eða umfermingarstaðir við flutning dýra, til að unnt sé að afferma, fóðra og hýsa dýrin ef þörf krefur og meðhöndla þau eða, ef nauðsyn ber til, slátra þeim á staðnum á þann hátt að þau þurfi ekki að þjást að óþörfu;
9) viðeigandi búnað fyrir hröð upplýsingaskipti við aðrar skoðunarstöðvar á landamærum og lögbær dýraheilbrigðisyfirvöld;
10) búnað og aðstöðu fyrir þrif og sótthreinsun.



VIÐAUKI B
Almenn skilyrði fyrir viðurkenningu sóttvarnarstöðva.

1. Kröfur 2., 4., 5., 7., 9. og 10. liðar viðauka A skulu gilda.
2. Þar að auki skulu sóttvarnarstöðvar:
vera undir stöðugu eftirliti Fiskistofu, í samráði við yfirdýralækni, og vera á hans ábyrgð,
vera staðsettar langt frá eldisstöðvum og öðrum stöðum þar sem dýr eru haldin sem líkur eru á að séu með smitandi sjúkdóma,
hafa gott eftirlitskerfi til að tryggja viðunandi eftirlit með dýrunum.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica