Umhverfisráðuneyti

428/1995

Reglugerð um aldinsultur og sambærilegar vörur. - Brottfallin

Reglugerð um aldinsultur og sambærilegar vörur.

I. KAFLI - Gildissvið og merking.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um aldinsultur og sambærilegar vörur sem skilgreindar eru í viðauka 1. Hún gildir ekki um vörur sem ætlaðar eru til útflutnings til ríkja utan Evrópsks efnahagssvæðis eða um vörur sem ætlaðar eru til framleiðslu á sætabrauði, kökum og kexi.

2. gr.

Vörum, sem skilgreindar eru í viðauka 1, er einungis heimilt að dreifa ef þær eru í samræmi við skilgreiningar og önnur ákvæði reglugerðarinnar. Hráefni, sem notuð eru við framleiðslu þeirra, skulu vera í samræmi við ákvæði viðauka 2 og 3. Við framleiðslu er auk neysluvatns aðeins heimilt að nota þessi hráefni og þá í samræmi við þau skilyrði sem sett eru í viðaukum.

3. gr.

Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á umbúðum þar sem við á:

a) vöruheiti samkvæmt viðauka I ásamt upplýsingum um ávaxtategund/-ir sem notaðar eru, í röð eftir minnkandi magni. Fyrir vörur unnar úr þremur eða fleiri tegundum ávaxta, má láta merkinguna "blandaðir ávexti" eða upplýsingar um fjölda ávaxtategunda duga. Þau heiti sem fram koma í 1. og 3. tl. viðauka I má einnig nota fyrir þær vörur sem skilgreindar eru í 2. og 4. tl. í sama hluta viðaukans;

b) magn ávaxta í 100 g af vörunni;

c) þegar næringargildi er ekki merkt skal tilgreina heildarmagn sykurs í 100 g af vörunni, ákvarðað með ljósbrotsmæli við 20°C (skekkjumörk ± 3°);

d) fyrir aldinmauk skal taka fram hvort varan inniheldur börk eða ekki.

II. KAFLI - Eftirlit og gildistaka.

4. gr.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að þær vörur sem um getur í viðauka I séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

5. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

6. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, sbr. og lög nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum og öðlast gildi við birtingu. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 19. tölul., tilskipun 79/693/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aldinsultu, ávaxtahlaup og -mauk og hnetumauk, með síðari breytingum. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 50/1936 um aldinsultu og aldinmauk.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrir vörutegundir sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og sem ekki eru í samræmi við ákvæði hennar, er veittur frestur til 1. janúar 1996 til að koma á nauðsynlegum breytingum. Hafi breytingar til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar ekki verið gerðar að þeim tíma liðnum er sala vörunnar óheimil.

Til loka árs 1996, er Hollustuvernd ríkisins heimilt að veita aðilum frest til að uppfylla tiltekin ákvæði þessarar reglugerðar. Slíka fresti skal einungis veita að fenginni rökstuddri umsókn.

Umhverfisráðuneytið, 12. júlí 1995.
Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson.

Viðauki 1 - Skilgreiningar á vörutegundum

Eftirfarandi skilgreiningar eiga við nema þegar um blöndur ávaxtategunda er að ræða. Í þeim tilvikum skal lágmarksinnihald af tilteknum ávexti, sem mælt er fyrir um í tölulið 1-6, minnkað í hlutfalli við það magn sem notað er af þessum ávexti í blandaða vöru.

1. Sulta:

Hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og aldinkjöti og/eða aldinmauki einnar ávaxtategundar eða fleiri. Magn aldinkjöts og/eða aldinmauks sem notað er til að framleiða 1 kg af vörunni skal ekki vera minna en 350 g nema í eftirfarandi tilvikum:

- sólber, rósaldin, kveður 250 g
- engifer 150 g
- kasúhnetur 160 g
- ástaraldin 60 g

2. Sulta í sérflokki:

Hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og aldinkjöti einnar ávaxtategundar eða fleiri, að undanskildum eplum, perum, plómum með steini, melónum, vatnsmelónum, þrúgum, graskerjum, agúrkum og tómötum. Magn aldinkjöts sem notað er til að framleiða 1 kg af vörunni skal ekki vera minna en 450 g nema í eftirfarandi tilvikum:

- sólber, rósaldin, kveður 350 g
- engifer 250 g
- kasúhnetur 230 g
- ástaraldin 80 g

3. Hlaup:

Hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og safa og/eða ávaxtaseyði úr einni eða fleiri ávaxtategundum. Magn safa og/eða ávaxtaseyðis sem notað er til að framleiða 1 kg af vörunni má ekki vera minna en það sem tilgreint er í tölulið 1, reiknað eftir að þyngd vatnsins, sem notað er við tilbúning á ávaxtaseyðinu, hefur verið dregin frá.

4. Hlaup í sérflokki:

Hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og safa og/eða vatnsseyði úr einni eða fleiri ávaxtategundum, fyrir utan epli, perur, plómur með steini, melónur, vatnsmelónur, þrúgur, grasker, agúrkur og tómata. Magn safa og/eða ávaxtaseyðis sem notað er til að framleiða 1 kg af vörunni skal ekki vera minna en það sem tilgreint er í tölulið 2, reiknað eftir að þyngd vatnsins, sem notað er við tilbúning á ávaxtaseyðinu, hefur verið dregin frá.

5. Mauk (marmelaði):

Hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og einum eða fleiri eftirfarandi hlutum af sítrusávöxtum: aldinkjöti, ávaxtamauki, safa, ávaxtaseyði eða berki. Magn sítrusávaxta sem notað er við framleiðslu á 1 kg af vörunni skal ekki vera minna en 200 g og þar af 75 g eða meira fengið úr innlagi aldinveggjar (endocarp).

6. Sætt kastaníuhnetumauk:

Hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og kastaníuhnetum (Castanea sativa). Magn kastaníuhneta sem notað er til að framleiða 1 kg af vörunni skal ekki vera minna en 380 g.

Viðauki 2 - Hráefni

A. Skilgreiningar

Ávextir:
Skulu vera ferskir, hæfilega þroskaðir, heilir, óskaddaðir og með öllum mikilvægustu innihaldsefnum sínum, eftir að hafa verið hreinsaðir, snyrtir og blóm fjarlægð. Tómatar, ætir hlutar rabarbarastöngla, gulrætur og sætuhnúðar eru hér taldir til ávaxta. - "Engifer" merkir þann hluta af rót engiferplöntunnar sem hæfur er til neyslu.

Aldinkjöt:
Sá hluti af ávöxtum, með eða án hýðis og aldinsteina, sem hæfur er til neyslu og ef til vill skorinn í bita eða stappaður, en ekki maukaður.

Ávaxtamauk:
Sá hluti af heilum ávexti, afhýddum og/eða steinalausum, sem hefur verið maukaður.

Ávaxtasafi:
Ávaxtasafi, ávaxtaþykkni og þurrkaður ávaxtasafi í samræmi við kröfur sem setja skal í reglugerð um slíkar vörur.

Ávaxtaseyði:
Vatnsseyði ávaxta, sem inniheldur alla vatnsleysanlega efnisþætti ávaxtanna sem notaðir eru (með fyrirvara um óhjákvæmilegt tap við framleiðslu).

Sítrusbörkur:
Börkur sítrusávaxta, hreinsaður, með eða án aldinsteina.

Sykur:
Sykurvörur sem falla undir reglugerð um sykur og sykurvörur.
Ávaxtasykur (frúktósi).
Annar sykur úr ávöxtum.

B. Meðhöndlun

Heimilt er að:

- hita, kæla, frysta, frostþurrka og þykkja þau hráefni sem hér eru skilgreind að undanskildum sykrinum;
- þurrka engifer eða geyma í sykurlausn;
- meðhöndla apríkósur til framleiðslu á sultu með öðrum þurrkunaraðferðum en frostþurrkun;
- leggja kastaníuhnetur stutta stund í bleyti í lausn af brennisteinsdíoxíði eða söltum þess (E 220-224, E 226-227);
- geyma sítrusbörk í saltpækli.

Viðauki 3 - Hráefni sem aðeins er heimilt að nota við framleiðslu á tilteknum vörum

Ávaxtasafi í sultur

Safi sítrusávaxta í sultur og sultur í sérflokki úr afurðum öðrum en sítrusávöxtum

Rauður ávaxtasafi í sultur og sultur í sérflokki úr jarðarberjum, hindberjum, garðaberjum, rifsberjum eða plómum

Rauðrófusafi í sultur og hlaup úr jarðarberjum, hindberj um, garðaberjum, rifsberjum eða plómum

Sítrusolíur í aldinmauk

Börkur sítrusávaxta og blöð af

Pelargonium odoratissimum í sultur og hlaup úr kveðum

Neysluhæf olía og fita sem froðueyðir í allar vörur í viðauka 1

Áfengir drykkir, valhnetur, heslihnetur, möndlur, krydd, kryddjurtir, hunang í allar vörur í viðauka 1

Vanilla í sultur og hlaup úr eplum, kveðum eða rósaldinum, aldinmauk

Pektín í allar vörur í viðauka 1


Þetta vefsvæði byggir á Eplica