Umhverfisráðuneyti

656/2003

Reglugerð um aldinsultur og sambærilegar vörur.

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um aldinsultur og sambærilegar vörur sem skilgreindar eru í 2. gr. Reglugerðin gildir ekki um vörur sem ætlaðar eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins eða um vörur sem ætlaðar eru til framleiðslu á kaffibrauði, sætabrauði eða kexi.


2. gr.
Skilgreiningar.
Sulta

er hæfilega hlaupkennd blanda af vatni, sykri og aldinkjöti og/eða mauki úr einni eða fleiri tegundum ávaxta. Sítrusávaxtasultu má þó framleiða úr heilum ávöxtum, skornum í ræmur og/eða sneiðar. Magn aldinkjöts og/eða mauks sem er notað til að framleiða 1 kg af fullunninni vöru skal ekki vera minna en 350 g nema í eftirtöldum tilvikum:
• rifsber, reyniber, strandþyrni, sólber, rósaber og kveður 250 g
• engifer 150 g
• kasúaldin 160 g
• ástaraldin 60 g

Sulta í sérflokki er hæfilega hlaupkennd blanda af vatni, sykri og óþykktu aldinkjöti einnar eða fleiri tegundar ávaxta. Þó má vinna sultu í sérflokki úr rósaberjum og steinlausum hindberjum, brómberjum, sólberjum, bláberjum og rifsberjum að hluta til eða að öllu leyti úr óþykktu mauki þessara ávaxta. Sítrusávaxtasultu í sérflokki má framleiða úr heilum ávöxtum, skornum í ræmur og/eða sneiðar. Eftirtöldum tegundum má ekki blanda saman við aðra ávexti við framleiðsu á sultu í sérflokki: eplum, perum, plómum með steini, melónum, vatnsmelónum, vínberjum, graskerum, agúrkum og tómötum. Magn aldinkjöts sem er notað til að framleiða 1 kg af fullunninni vöru skal ekki vera minna en 450 g nema í eftirtöldum tilvikum:
• rifsber, reyniber, strandþyrni, sólber, rósaber og kveður 350 g
• engifer 250 g
• kasúaldin 230 g
• ástaraldin 80 g

Hlaup er hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og safa og/eða ávaxtaseyði úr einni eða fleiri tegundum ávaxta. Magn safa og/eða ávaxtaseyðis sem er notað til að framleiða 1 kg af fullunninni vöru skal ekki vera minna en það magn sem tilgreint er fyrir framleiðslu sultu, reiknað eftir að þyngd vatnsins sem er notað til að framleiða ávaxtaseyðið hefur verið dregin frá.

Hlaup í sérflokki er hæfilega hlaupkennd blanda af sykri og safa og/eða ávaxtaseyði úr einni eða fleiri tegundum ávaxta að undanskildum eplum, perum, plómum með steini, melónum, vatnsmelónum, vínberjum, graskerum, agúrkum og tómötum. Magn safa og/eða ávaxtaseyðis sem er notað til að framleiða 1 kg af fullunninni vöru skal ekki vera minna en það magn sem tilgreint er fyrir framleiðslu á sultu í sérflokki, reiknað eftir að þyngd vatnsins sem notað er til að framleiða ávaxtaseyðið hefur verið dregin frá.

Marmelaði er hæfilega hlaupkennd blanda af vatni, sykri og einni eða fleiri af eftirtöldum vörum sem eru unnar úr sítrusávöxtum: aldinkjöti, mauki, safa, ávaxtaseyði og berki. Magn sítrusávaxta sem er notað við framleiðslu á 1 kg af fullunninni vöru skal ekki vera minna en 200 g, og þar af 75 g eða meira úr innlagi aldinveggjar (endocarp). Nota má heitið "marmelaðihlaup" þegar varan inniheldur engin óuppleysanleg efni nema þegar um er að ræða fínskorinn börk í mjög litlu magni.

Sætt kastaníuhnetumauk er hæfilega hlaupkennd blanda af vatni, sykri og a.m.k. 380 g af kastaníuhnetumauki (Castanea sativa) í 1 kg af fullunninni vöru.


3. gr.
Skilyrði fyrir framleiðslu og dreifingu.

Einungis er heimilt að dreifa vörum samkvæmt 2. gr. ef þær eru í samræmi við skilgreiningar og önnur ákvæði reglugerðarinnar. Við framleiðslu á vörum samkvæmt 2. gr. má einungis nota innihaldsefnin sem eru tilgreind í viðauka 1 og hráefni sem uppfylla skilyrði í viðauka 2 að teknu tilliti til reglugerðar um aukefni í matvælum.


4. gr.
Innihaldsefni og þurrefnainnihald.

Leysanleg þurrefni skulu vera a.m.k. 60% af vöru, ákvarðað með ljósbrotsmælingu, nema þegar sætuefni hafa að hluta til eða að öllu leyti verið notuð í stað sykurs. Í sérstökum tilvikum og með vísan til 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla getur Umhverfisstofnun heimilað notkun heitis sem skilgreint er í 2. gr. fyrir vörur sem innihalda minna en 60% þurrefni.


5. gr.
Merkingar.

Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, með síðari breytingum, skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á umbúðum þar sem við á:

a) Vöruheiti sem fram koma í 2. gr. gilda nema þegar um blöndur ávaxtategunda er að ræða. Þá skal það lágmarksinnihald af mismunandi tegundum ávaxta sem tiltekið er í skilgreiningunum í 2. gr., minnkað í hlutfalli við heildarmagn ávaxta sem notað er. Vöruheiti samkvæmt 2. gr. má þó nota til viðbótar nafni, á aðrar vörur og til samræmis við venjur, enda sé ekki hægt að rugla þeim saman við vörurnar samkvæmt 2. gr.
b) Vöruheiti samkvæmt 2. gr. ásamt upplýsingum um tegund ávaxtarins sem notaður er eða ávextina sem notaðir eru í röð eftir minnkandi magni;
c) fyrir vörur unnar úr þremur eða fleiri tegundum ávaxta er heimilt að nota merkinguna "blandaðir ávextir" eða upplýsingar um fjölda ávaxtategunda án þess að tilgreina tegundirnar;
d) magn ávaxta í 100 g af fullunninni vöru;
e) þegar næringargildi er ekki merkt skal tilgreina heildarmagn sykurs í 100 g, ákvarðað með ljósbrotsmælingu við 20°C (skekkjumörk ± 3 ljósbrotsgráður);
f) þegar afgangur brennisteinsdíoxíðs er meira en 10 mg/kg skal tilgreina það í innihaldslýsingu þrátt fyrir 28. gr. reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.


6. gr.
Ábyrgð framleiðenda.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að þær vörur sem um getur í 2. gr. séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.


7. gr.
Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.


8. gr.
Þvingunarúrræði.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.


9. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 18. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, sbr. og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í 9. tölulið, XII. kafla, II. viðauka (tilskipun 2001/113/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aldinsultu, ávaxtahlaup og -mauk og kastaníuhnetumauk með sætuefni til manneldis).

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 428/1995 um aldinsultur og sambærilegar vörur.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Vegna þeirra vörutegunda sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og sem ekki eru í samræmi við ákvæði hennar er veittur frestur til 12. desember 2004 til að koma á nauðsynlegum breytingum. Markaðssetning vara, sem samræmast ekki þessari reglugerð en eru merktar fyrir 12. desember 2004, er samt sem áður heimil uns birgðir eru þrotnar.


Umhverfisráðuneytinu, 20. ágúst 2003.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigríður Auður Arnardóttir.VIÐAUKI 1
Hráefni sem heimilt er að nota í vörur sem skilgreindar eru í 2. gr.:
- Hunang, samkvæmt skilgreiningu í reglugerð um hunang: í þær vörur þar sem það kemur að öllu leyti eða að hluta í stað sykurs;
- ávaxtasafi: í sultur;
- safi sítrusávaxta: í sultur, sultur í sérflokki, hlaup og hlaup í sérflokki úr afurðum öðrum en sítrusávöxtum;
- rauður ávaxtasafi: í sultur og sultur í sérflokki úr rósaberjum, jarðarberjum, hindberjum, garðaberjum, rifsberjum, plómum og rabarbara;
- rauðrófusafi: í sultur og hlaup úr jarðarberjum, hindberjum, garðaberjum, rifsberjum og plómum;
- ilmkjarnaolíur af sítrusávöxtum: í aldinmauk og aldinhlaupsmauk;
- matarolíur og fituefni sem froðueyði: í allar vörur;
- pektín í vökvaformi: í allar vörur;
- börkur af sítrusávöxtum: í sultur, sultur í sérflokki, hlaup og hlaup í sérflokki;
- blöð af Pelargonium odoratissimum: í sultur, sultur í sérflokki, hlaup og hlaup í sérflokki úr kveðum;
- brennda drykki, vín og vínlíkjöra, hnetur, ilmjurtir, krydd, vanillu og vanillukjarna:
í allar vörur;
- vanillín: í allar vörur.VIÐAUKI 2
A. Skilgreiningar á hráefnum

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Ávextir:

- Ferskir, hæfilega þroskaðir og óskemmdir ávextir með öllum mikilvægustu innihaldsefnum sínum eftir að hafa verið hreinsaðir, snyrtir og blóm fjarlægð.
- Tómatar, ætir hlutar rabarbarastöngla, gulrætur, sætar kartöflur, agúrkur, grasker, melónur og vatnsmelónur eru hér talin til ávaxta.
- Engifer merkir þann hluta af rót engiferplöntunnar sem er hæfur til neyslu, ferskur, þurrkaður eða geymdur í sykurlausn.

Aldinkjöt:

Sá hluti ávaxtar, með eða án hýðis og aldinsteina, sem er hæfur til neyslu, ef til vill skorinn í bita eða stappaður, en ekki maukaður.

Ávaxtamauk:
Sá hluti ávaxtarins, með eða án hýðis og aldinsteina, sem hefur verið maukaður.

Ávaxtaseyði:
Vatnsseyði ávaxta sem, með fyrirvara um óhjákvæmilegt tap við framleiðslu, innheldur alla vatnsleysanlega efnisþætti ávaxtanna sem er notaðir eru.

Sykur:

- Sykurvörur sem falla undir reglugerð um sykur og sykurvörur;
- frúktósasíróp;
- annan sykur úr ávöxtum;
- púðursykur.

B. Meðhöndlun hráefna

Heimilt er að:

hita, kæla, frysta, frostþurrka eða þykkja, að því marki sem það er tæknilega mögulegt, þau hráefni sem skilgreind í A hluta, að undanskildum sykri. Nota má brennisteinsdíoxíð (E 220) eða sölt þess (E 221, E 222, E 223, E 224, E 226 og E 227) sem hjálparefni við framleiðslu hráefna nema þeirra sem notuð eru við framleiðslu vara í sérflokki, að því tilskildu að hámarksinnihald brennisteinsdíoxíðs, sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 285/2002 um aukefni í matvælum, fari ekki umfram leyfileg mörk í þeim vörum sem skilgreindar eru í 2. gr.;
meðhöndla apríkósur og plómur sem á að nota við framleiðslu á sultu með öðrum þurrkunaraðferðum en frostþurrkun;
geyma börk af sítrusávöxtum í saltpækli.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica