Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

299/1990

Reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur.

Tilgangur Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem stofnaður var með lögum nr. 49/1981, er að stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu um land allt og byggingu húsnæðis fyrir aldraða.

 

2. gr.

Stjórn.

Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra er í höndum samstarfsnefndar um málefni aldraðra, sbr. 3. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra og fulltrúa sem tilnefndur er af fjárveitinga­nefnd Alþingis.

 

3. gr.

Varsla og reikningshald.

Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Tryggingastofnun ríkisins skal ársfjórðungslega og oftar ef þörf krefur gefa sjóðstjórn yfirlit um stöðu sjóðsins.

Reikningar Framkvæmdasjóðs aldraðra fyrir nýliðið ár skulu fullgerðir um leið og aðrir reikningar Tryggingastofnunar ríkisins. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar ríkisstofnana.

 

4. gr.

Tekjur.

Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra eru:

  1. Tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Gjaldið skal nema kr. 2 500 á hvern gjaldanda árið 1990 og miðast við byggingarvísitölu desember 1988. Fjárhæð gjaldsins skal breytt árlega, með sérstakri reglugerð í samræmi við breytingar er kunna að verða á byggingar­vísitölu.
  2. Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.
  3. Vaxtatekjur.

 

Í miðmánuði hvers ársfjórðungs skal fjármálaráðuneytið skila Framkvæmdasjóði aldr­aðra fjórðungi tekna sjóðsins á því ári.

 

5. gr.

Hlutverk.

Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er:

  1. Að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva, dagvista, þjónustuhúsnæðis aldraðra og hjúkr­unarrýmis fyrir aldraða, sbr. 17. og 18. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.
  2. Að veita styrki til breytinga og endurbóta sem nauðsynlegar eru á eldra húsnæði fyrir aldraða eða leiða af ákvæðum laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.
  3. Að styðja sveitarfélög, einkum dreifbýlissveitarfélög, til að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða, sbr. 15. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.
  4. Önnur verkefni sem sjóðstjórn mælir með og heilbrigðisráðherra samþykkir.

Skv. ákvörðun ráðherra skal greiða úr Framkvæmdasjóði aldraðra kostnað vegna reksturs og stjórnar sjóðsins.

 

6. gr.

Umsóknir og úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Fyrir 1. október ár hvert skal auglýsa eftir umsóknum um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra á komandi ári.

Heilbrigðisráðherra ákveður úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði aldraðra að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Heilbrigðisráðherra getur ákveðið að óska tillagna um ákveðinn hluta af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.

Styrkur til verkefnis skuldbindur hvorki sjóðstjórn né ráðherra til að halda áfram styrkveitingum til þessa verkefnis.

Styrkir veittir til hjúkrunarrýmis á vegum sveitarfélaga skulu teljast hluti af lögboðnum framlögum ríkissjóðs.

 

7. gr.

Vinnureglur sjóðstjórnar við gerð tillagna um

úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Sjóðstjórn skal raða umsóknum í forgangsröð í samræmi við þörf á hverjum stað. Sjóðstjórn skal gæta þess að gera ekki tillögu um úthlutun vegna stofnana annarra en þeirra sem fengið hafa framkvæmdaleyfi sbr. 20. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.

Við gerð tillagna um úthlutun til nýrra verkefna árið 1990 og síðar skal sjóðstjórn styðjast við eftirfarandi meginreglur:

  1. Styrkur vegna þjónustumiðstöðva aldraðra og dagvistar, sbr. 2. tl. og 3. tl. 17. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra, má nema allt að 35 af hundraði heildarkostnaðar. Styrkurinn má þó ekki verða hærri en 13 600 kr. á hvern m2 miðað við byggingarvísitölu 100.
  2. Styrkur vegna þjónustuhúsnæðis aldraðra, sbr. 1. tl. 18. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra, má nema allt að 35 af hundraði heildarkostnaðar. Styrkurinn má þó ekki verða hærri en 13 600 kr. á hvern m2 miðað við byggingarvísitölu 100.
  3. Styrkur vegna hjúkrunarrýmis, sbr. 2. tl. 18. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra, má nema allt að 40 af hundraði heildarkostnaðar. Styrkurinn má þó ekki verða hærri en 20 000 kr. á hvern m2 miðað við byggingarvísitölu 100.
  4. Styrkur vegna endurbóta og til stuðnings sveitarfélögum til að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða skal miðast við framlagða kostnaðaráætlun og mat á nauðsyn.

 

Við gerð tillagna um styrk til verkefna sem sjóðurinn hefur þegar byrjað að styrkja skal sjóðstjórn miða við eldri vinnureglur.

 

8. gr.

Ýmis ákvæði.

Heilbrigðisráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, að krefja þá, sem styrk hafa fengið úr sjóðnum, um endurgreiðslu framlagsins ef húsnæði það sem styrkur var veittur til er notað í þágu annarra en aldraðra innan 20 ára frá því að húsnæðið var tekið í notkun.

 

9. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 14. gr. laga nr. 92/1989 um málefni aldraðra og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 618/1982 um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra og reglugerð nr. 53/1982 um Framkvæmdasjóð aldraðra.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 16. janúar 1990.

 

Guðmundur Bjarnason.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica