Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

201/1991

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra nr. 299/1990. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um (1.) breytingu á reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra nr. 299/1990.

1. gr.

5. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er:

1. Að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva, dagvista, þjónustuhúsnæðis aldraðra og hjúkrunarrýmis fyrir aldraða, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar og 17. og 18. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.

2. Að veita styrki til breytinga og endurbóta sem nauðsynlegar eru á eldra húsnæði fyrir aldraða eða leiða af ákvæðum laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.

3. Að styðja sveitarfélög, einkum dreifbýlissveitarfélög, til að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða, sbr. 15. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.

4. Að veita tímabundið rekstrarfé til stofnana aldraðra sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst.

5. Önnur verkefni sem sjóðstjórn mælir með og heilbrigðisráðherra samþykkir.

Heimilt er að veita allt að þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra til verkefna skv. 3., 4. og 5. tölulið.

Skv. ákvörðun ráðherra skal greiða úr Framkvæmdasjóði aldraðra kostnað vegna reksturs og stjórnar sjóðsins.

2. gr.

7. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

Sjóðstjórn skal raða umsóknum í forgangsröð í samræmi við þörf á hverjum stað. Sjóðstjórn skal gæta þess að gera ekki tillögu um úthlutun vegna stofnana annarra en þeirra sem fengið hafa framkvæmdaleyfi sbr. 20. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra.

Við gerð tillagna um úthlutun til nýrra verkefna árið 1990 og síðar skal sjóðstjórn styðjast við eftirfarandi meginreglur:

1. Styrkur vegna þjónustumiðstöðva aldraðra og dagvistar, sbr. 2. og 3. tl. 17. gr. laga nr. 82/ 1989 um málefni aldraðra, má nema allt að 20 af hundraði heildarkostnaðar. Styrkurinn má þó ekki verða hærri en 10 500 kr. á hvern m2 miðað við byggingavísitölu 100.

2. Styrkur vegna þjónustuhúsnæðis aldraðra, sbr. 1. tl. 18. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra, má nema allt að 20 af hundraði heildarkostnaðar. Styrkurinn má þó ekki verða hærri en 8 750 kr. á hvern m2 miðað við byggingavísitölu 100.

3. Styrkur vegna hjúkrunarrýmis í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila, sbr. 2. tl. 18. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra, má nema allt að 40 af hundraði heildarkostnaðar með búnaði. Styrkurinn má þó ekki verða hærri en 28 100 kr. á hvern m2 miðað við byggingavísitölu 100.

4. Styrkur vegna endurbóta og til stuðnings sveitarfélögum til að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða skal miðast við framlagða kostnaðaráætlun og mat á nauðsyn.

Við gerð tillagna um styrk til verkefna sem sjóðurinn hefur þegar byrjað að styrkja skal sjóðstjórn miða við eldri vinnureglur.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 14. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra og öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 24. apríl 1991.

Guðmundur Bjarnason.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica